Að skipta út kúk fyrir skít?

Íslenska krónan er í höndum óvita. Ég nota hérna orðið "óviti" í saklausu merkingu þess sem veit einfaldlega ekki betur.

Hagfræðin sem ræður ríkjum í heiminum, bæði í flestum háskólum og öllum seðlabönkum, gengur út á það að ríkisvaldið geti stjórnað verðlagi á peningum í gegnum hæga eða hraða peningaútgáfu. Það eina sem þurfi sé vilji og góður ásetningur. Hinum góða ásetningi megi ná fram með faglegum ferlum og vali á rétta fólkinu.

Allt er þetta tálsýn. Ríkisvaldið getur einfaldlega ekki stillt sig um að beita peningaútgáfuvaldinu og einokunni á því til að hygla sjálfu sér á kostnað notenda peninganna.

Ég skil alveg þá sem vilja að Íslendingar taki upp annan gjaldmiðil sem sveiflast hægar en íslenska krónan. En munurinn á íslensku krónunni og t.d. evrunni er ekki eðlismunur, heldur stigsmunur. Það tekur að jafnaði lengri tíma að drepa gjaldmiðil í miklu upplagi og sem margir nota (t.d. Þjóðverjar) en það tekur að drepa gjaldmiðil í litlu upplagi sem fáir nota. En það þýðir ekki að það sé ekki hægt. Bæði dollarinn og evran eru óðum að breytast í rusl. 

Leiðin úr ógöngum íslensku krónunnar er ekki sú að skipta út einum lélegum gjaldmiðli fyrir annan lélegan gjaldmiðil (og innlima Íslendinga í leiðinni í stórríkið á meginlandinu), heldur að fella niður peningaútgáfuvald ríkisins og leyfa markaðnum að finna bestu lausnina. Sögulega séð hefur markaðurinn valið sé gull sem peninga, og það er því ekki slæm ágiskun á val markaðarins í framtíðinni ef hann fær frelsi til að velja. En hver veit? Kannski velja sumir ríkisgjaldmiðil Evrópusambandsins á meðan aðrir velja sér Kanadadollar, norska krónu, dollar, yen, svissneskan franka eða eitthvað allt annað.

Forstjóri Össurar sér að tekjur hans fyrirtækis eru að mestu leyti í evrun og hann vill því evru og þar með Evrópusambandsaðild (nema hann sé flokksbundinn í Samfylkingunni og vill Evrópusambandsaðild aðildarinnar vegna). En á hann að ráða? Hvað ef hann fær stóran samning við bandarískan kaupanda og fær allt í einu megnið af tekjunum í bandarískum dollar? Eiga Íslendingar þá að ganga í Bandaríkin Norður-Ameríku?

Íslenska krónan er vissulega fíllinn í stofunni. Á þeim fíl stendur "ef þú treystir ríkisvaldinu fyrir peningaútgáfunni þá traðka ég á þér".


mbl.is Krónan er fíllinn í stofunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Í litlu landi eins og okkar, getur verið gott að hafa tæki eins og litla krónu til að ráðskast með, í sveiflukenndu alþjóðlegu umhverfi. Þetta tæki er hins vegar vel hægt að misnota... eða not illa/óvarlega.

Forstjóri Össurar talar að sjálfsögðu út frá hagsmunum síns fyrirtækis. Orð hans eru hins vegar léttvæg í heildar samhenginu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.2.2012 kl. 15:57

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Við erum með lélega hagstjórn - síðan 1944, ef ekki lengur - og ef við skiftum um gjaldmiðil endum við eins og Grikkir.  Og af sömu ástæðum.

Ásgrímur Hartmannsson, 15.2.2012 kl. 20:45

3 Smámynd: K.H.S.

Fyrirsögnin fælir en innihaldið þess vert að gaumgæfa og fjandi sannfærandi.

K.H.S., 16.2.2012 kl. 16:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband