Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Hugrekki í pólitísku óveðri

Stjórnendur Síldarvinnslunnar hf. eru hugrakkir. Þeir eru að kaupa skip og endurnýja flotann sinn í miðju pólitísku óveðri. Þetta óveður gæti endað á morgun með að allar aflaheimildir Síldarvinnslunnar verði þjóðnýttar, settar "á uppboð" og leigðar til einhverra allt annarra. Lögfræðingar Síldarvinnslunnar fá þá nóg að gera. Sjómenn Síldarvinnslunnar missa vinnuna.

En kannski vita eigendur Síldarvinnslunnar eitthvað sem ég veit ekki, eða eru að lesa í íslensk stjórnmál á ákveðinn hátt. Þora þeir að endurnýja og fjárfesta af því þeir halda lífinu í heilu bæjarfélagi og vita að hvort sem þjóðnýtingar eiga sér stað á aflaheimildum eða ekki þá fá þeir að halda sínu og jafnvel gott betur en það? Það væri ekki vitlausara veðmál en hvað annað. 

Staðreyndin er samt sú að flestar útgerðir halda að sér höndum og reyna að fresta öllum fjárfestingum á meðan pólitíska óveðrið gengur yfir (en það gerist væntanlega ekki fyrr en eftir næstu Alþingiskosningar). Útgerðin er sem betur fer búin að fjárfesta mikið í góðum græjum á seinustu árum, en á meðan hún étur upp þær fjárfestingar verða möguleikar hennar til framtíðar til að skapa verðmæti verri og rýrari.

Þeir sem hafa séð kvikmyndina Independence Day ættu að kannast við eftirfarandi lýsingu á vondu geimverunum og ættu að geta heimfært hana upp á íslenska vinstrimenn (eða vinstrimenn almennt):

They attack planets, use up the resources, kill the life forms, then move on.

Vel orðað!


mbl.is Nýtt skip bætist í flotann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brjálað að gera hjá sérstökum

Er brjálað að gera hjá sérstökum saksóknara? Hann er a.m.k. með fjöldan allan af einstaklingum á rannsóknarlista sínum og heldur þeim þar í fleiri misseri án þess að nokkuð gerist. Hann er með nefið ofan í bókhaldi fyrirtækja, minnimiðum mörg ár aftur í tímann og eflaust margt fleira.

Og núna gefur hann til kynna að lífeyrissjóðirnir verði bráðum rannsakaðir.

Það hlýtur að vera auðvelt að vera yfirmaður ríkisstofnunar sem þarf ekki að sýna fram á neinn árangur (þótt ekki nema það að taka menn af athugunarlista embættisins) og getur í sífellu þanið út verkefnalista hennar. Það tryggir aukin framlög úr vösum skattgreiðenda við næstu úthlutun þaðan. Þeir sem mótmæla verða væntanlega sagðir "á móti því" að "gera upp hrunið" og "ná fram réttlæti".


mbl.is Munu skoða lífeyrissjóðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sértækar aðgerðir vinsælar

Svo virðist sem ekki megi tala um almennar skattalækkanir á Íslandi í dag. Alltaf þurfa þær að vera sértækar.

Nú er svo komið að á Íslandi segjast "tæp 42 prósent hafa keypt barnaföt síðast í útlöndum" (frétt). Þetta þarf ekki að koma á óvart. Sjálfur bý ég í Danmörku og við hjónin fáum oft beiðnir frá vinafólki á Íslandi um að kaupa þetta og hitt á börnin og senda til Íslands. 

Íslendingar kaupa líka raftækin sín í útlöndum. Við þessu er brugðist með sértækum skattalækkunum (t.d. á lestölvur og iPod spilara). 

En það sem gleymist yfirleitt í umræðunni er að allir skattar á allt eru slæmir og hafa neikvæðar afleiðingar. Þeir ýta yfirleitt heiðarlegu fólki á hættulegar brautir. Venjulegt fólk fer að reyna koma sér í kringum lögin með smygli eða annarri neðanjarðarstarfsemi. Virðingin fyrir lögunum minnkar. 

Nú er svo komið að annað stærsta hagkerfi heims er neðanjarðarhagkerfið, og það fer ört stækkandi. Á Íslandi skipta eiturlyf, lambakjöt, raftæki og áfengi um hendur á hinum svarta markaði. Viðgerðarþjónusta ýmis konar er nú í auknum mæli boðin "svart". Færri og færri láta klippa sig löglega.

Ekki dugir að herja á hinn vaxandi svarta markað með sértækum skattalækkunum. Ríkið allt þarf að minnka álögur sínar á allt og alla. Núna stefnir í óefni þótt tæki eins og iPod og Kindle hafi fengið léttari opinberar álögur. 


mbl.is Vilja lækka vask á barnavörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er fyrirmynd barnanna?

[Börn eru] skömmuð fyrir að lesa ekki en skorti lesandi fyrirmyndir og lítil virðing sé borin fyrir barnabókmenntum.

Og hvað er til ráða? Jú, stofnum setur!

Sem foreldri sem þekkir vel til lítils lesáhuga barna (hjá einum 7 ára strák) og kannast við margt sem kemur fram í þessari frétt. Áhuginn á lestri er lítill. Áhuginn á tölvuleikjum er mikill. Að lesa og skrifa er ekki eftirlætisiðja barnanna. Það er miklu auðveldara að nota stýripinnann.

Og auðvitað vill maður að barnið sitt lesi meira.

En er lausnin að stofna eitthvað setur? Nei.

Sjálfur les ég mikið. Reyni raunar að lesa við hvert tækifæri. Barnið furðar sig stundum á þessu. "Hvað ertu að gera?" og "hvað ertu að lesa?" eru algengar spurningar á mínu heimili. 

(Þess má geta að ég les á lestölvu, sem er æðislegt! ...en bara ef maður nennir að lesa á annað borð.)

En það er ekki nóg. Minn lestur á myndskreytingarlausum stjórnmálaheimspekiritum vekur mjög takmarkaðan áhuga barna. 

Ég les fyrir stóra ungann minn, helst á hverju kvöldi. Það finnst honum stórkostlega skemmtilegt. Skiptir í raun litlu máli hvað það er sem ég les, alltaf er eftirvæntingin eftir "lesitímanum" mikil. Aðalatriðið er að slíta ungann frá tölvunni eða sjónvarpinu og koma sér vel fyrir upp í rúmi eða sófa og eiga huggulega stund saman. Ég er oft spurður að því hvar þetta orð eða hitt er sem ég er að lesa. Ég rekst oft á orð sem eru erfið fyrir 7 ára heila og get þá útskýrt þau. Þetta kemur smátt og smátt og er þolinmæðisvinna, en ég geri mér fulla grein fyrir því að ef ég vil að minn ungi læri að meta lestur, þá er það mitt hlutverk sem foreldri að kenna honum það. Setur á Akureyri nýtist mér ekki, og að ég held engum.

Hitt er svo annað mál að flestar barnabækur eru rusl. Söguþráðurinn er oftar en ekki alltof flókinn með alltof mörgum persónum, eða algjörlega út í bláinn, og stundum bæði. Stundum er eins og barnabækur séu skrifaðar fyrir hálfvita, svo ég segi það hreint út. Stundum er eins og eini tilgangur þeirra sé að koma einhverju á prent. Oft eru það litskreyttustu myndabækurnar sem hafa rýrasta innihaldið, á meðan þær "einföldu" og svarthvítu bjóða upp á eitthvað bitastætt. 

Lestur er góður, hollur og getur varla haft neinar neikvæðar afleiðingar í för með sér. En hið sama gildir um neyslu grænmetis og notkun hlýrra yfirhafna þegar kalt er í veðri. Allt þetta eiga börn að læra, og það er hlutverk foreldra að kenna þeim það, en ekki ríkisstarfsmanna á einhverjum setrum.


mbl.is Barnabækur settar í öndvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Göngin af áætlun og út af borði ríkisins

Vaðlaheiðargöng "borga sig" auðvitað ekki. Fjármögnun þeirra mun fara fram með skattheimtu núna, skattheimtu í framtíðinni (lántöku ríkisins) eða ríkisábyrgð á lánum einkaaðila. Allt þetta felur í sér tilfærslu á fé úr vösum skattgreiðenda eða slagsmál um takmarkað lánsfé þannig að vextir sem standa skattgreiðendum til boða hækka.

Ríkisvaldið á því að gera sér fulla grein fyrir því að hvernig sem aðkoma þess að þessari holu í jörðinni verður, þá veldur það rýrnun eða skerðingu tækifæra fyrir landsmenn alla á einn eða annan hátt.

En auðvitað er "fræðilegur möguleiki" á að bora þarna gat í jörðina án þess að höggva skarð í lífskjör allra landsmanna. Hann er sá að einkaaðili vegi og megi kosti ganganna sem viðskiptaáætlunar þyngra en aðra möguleika til viðskipta.  Hann slær lán til að framkvæma (vitaskuld í samkeppni við aðra einkaaðila, án ríkisábyrgðar, og þarf þá væntanlega að láta viðskiptaáætlunina ganga upp á hærri vöxtum en sá sem getur blóðmjólkað skattgreiðendur um lífskjör). Hann borar gat. Hann setur upp hlið og rukkar fyrir aðganginn að göngunum. 

Ef menn vilja holu í jörðina sem sviptir engan hluta af lífsgæðum sínum þá er þetta eina færa leiðin. 


mbl.is Vilja Vaðlaheiðargöng á áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Böðull atvinnulífsins setur Framadaga

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, setti Framadaga háskólanna í morgun í Háskólanum í Reykjavík. Alls taka 35 fyrirtæki þátt í Framadögum í ár og hafa aldrei verið fleiri.

 

Ég veit að það þykir rosalega fínt og flott að láta ráðherra vígja, setja eða opna viðburði, en fyrr má nú vera að fá böðul atvinnulífsins til að setja viðburð sem snýst um að laða ungt fólk til starfa! Mörg fyrirtækjanna sem kynna sig á Framadögum hafa þurft að sæta mikilli blóðtöku vegna skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Ætli útsendarar þeirra klappi af annarri ástæðu en til að forðast illt augnarráð frá ráðherra atvinnuleysis og efnahagssamdráttar?

Og jú, það er metfjöldi fyrirtækja á Framadögum í ár. Mörg þeirra eru líka ríkisfyrirtæki, beint eða óbeint. Svona lítur listinn út (þau ríki sem ég tel til ríkisfyrirtækja eða leppríkja ríkisins eru feitletruð af mér):

 

3X TechnologyActavisAdvaniaAIESECArionbanki
BetwareCapacentCCPEflaHagvangur
Háskóli ÍslandsHáskólinn í ReykjavíkIcepharmaIIIMÍslandsbanki
KILROYKPMGLandsbankinnLandsnetLandsvirkjun
LS RetailMannvitMarelMatísNova
NýsköpunarmistöðinORF líftækniOrkuveitanPwCReiknistofa Bankanna
RíkiðVerkísWorld ClassÖlgerðinÖssur
Bandalag háskólamanna


Ekki sérstaklega "impressive" listi þegar allt kemur til alls. Hvar eru útgerðarfyrirtækin? Hvar eru stóru framleiðslufyrirtækin? Þarna eru allir bankarnir, en hvaða tækifæri standa til boða þar? Þarna eru margar verkfræðistofur, en hvar eru umsvif þeirra að vaxa þessi misserin? Ekki er það á Íslandi, svo mikið er víst. Og vantar World Class líkamsræktarþjálfara með háskólamenntun? Spennandi. Þarna eru líka mörg innflutningsfyrirtæki (t.d. Icepharma), ætli þeim líði vel í því umhverfi sem þau þurfa að starfa í?

Ég sé Össur og Marel og Actavis, Ölgerðina, CCP (sem að vísu er alltaf að lofa því að flýja land), ORF og fleiri fyrirtæki sem eru að skapa verðmæti og geta boðið upp á spennandi störf, en mér sýnist listinn þar með vera upptalinn (tek það samt fram að ég þekki ekki til allra þessara fyrirtækja, og er því sennilega að gleyma einhverjum góðum).

Framadagar í ár einkennast af tvennu:

  • Ríkið fyllir helming gólfplássins.
  • Vantar þig tækifæri? Flyttu til útlanda eftir námið.

mbl.is Aldrei fleiri á Framadögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband