Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Kosningar í niðursveiflu

Kosningar eru í nánd og sitjandi Alþingismenn gera sér vel grein fyrir því. Þingmenn stjórnarflokkanna hafa ákveðið að telja kjósendum í trú um að endurreisn hins íslenska hagkerfis sé hafin og gangi vel. Þingmenn stjórnarandstöðunnar munu keppast við að benda réttilega á að það sé rangt, en án þess að fara nánar út í ástæður þess. Báðir hópar munu svo lofa því að ef þeir komast til valda mun ríkisvaldið hvergi slaka á í að bjarga öllu og öllum.

Kosningar í niðursveiflu eru áhugavert fyrirbæri. Nú er það svo að allir hagvísar eru ennþá að benda niður þótt fjögur ár séu  liðin frá hruni. Til að blása lofti í götótt dekkið hefur almenningur þurfa að tæma sparnaðarreikninga sína og eyða viðbótarlífeyrissparnaði sínum, safna neysluskuldum og draga sig úr fjárfestingu. Fyrirtæki í útflutningi hafa þurft að treysta á að launþegar sínir sætti sig við þá kjaraskerðingu sem fall krónunnar hafði í för með sér. Innflytjendur hafa notið góðs af niðurgreiðslu Seðlabanka Íslands á íslensku krónunni með notkun erlends lánsfjár, hins svokallaða „gjaldeyrisforða". Ríkisvaldið hefur svo barið hverja þá krónu sem það getur úr allri verðmætaskapandi iðju á Íslandi og safnað gríðarlegum skuldum.

Ástandið haustið 2008 fer því að líta betur og betur út í samanburði við þá sviðnu jörð sem núverandi ríkisstjórn skilur eftir sig.

Stjórnarandstaðan hefur ekki nýtt sem skyldi hin fjölmörgu tækifæri sem hafa gefist til að gagnrýna ríkisstjórnina. Hún gerir nánast ráð fyrir því að komast til valda eftir næstu kosningar og sefur á verðinum. Kjósendur hafa ekki fengið mikla vissu fyrir því að tiltekt muni hefjast ef vinstrimönnum og fjölmiðlum þeirra (RÚV, Fréttablaðið og DV) megi á ný koma í stjórnarandstöðu.

Stjórnarliðar ætla að ljúga upp í opið geðið á kjósendum með því að segja, fjórða árið í röð, að núna sé endurreisnin loksins hafin, gjaldeyrishöftin bráðum á bak og burt og tími skuldasöfnunar á enda. Fjölmiðlar vinstrimanna munu aðstoða stjórnarliða við þetta verkefni.

Hinn pólitíski vetur verður spennandi en um leið fyrirsjáanlegur. Sá sem þetta skrifar þykist geta séð margt fyrir, en vonar um leið að honum skjátlist í sem flestu. Ísland á betur skilið en þessa hrægamma sem kroppa núna í seinustu kjöttægjur verðmætasköpunar á Íslandi. 


Viðkvæmt að skila þýfinu?

Innbrotsþjófur með fangið fullt af stolnum fartölvum og farsímum og kominn hálfa leið úr húsinu sem hann er að brjótast inn í á tvo mögulega kosti: Að leggja þýfið frá sér og yfirgefa svæðið tómhentur, eða halda áfram og bera þýfið út úr húsi.

Vitaskuld gæti hann sagt við sjálfan sig að það sé "of seint" að skila þýfinu, t.d. af því hann var búinn að lofa félögum sínum í bófaklúbbnum að fremja innbrot. Svo er vitaskuld ekki. Sá sem stelur, tekur eða hirðir á alltaf þann kost að skila því sem tekið var. Hann getur alltaf tekið siðferðislega rétta ákvörðun þótt hann hafi áður tekið siðferðislega ranga ákvörðun.

Stjórnmálamönnum tekst oft að orða hlutina þannig að jarðtenging við raunveruleikann er afmáð. Að ríkið hækki skatta eða skattleggi yfirleitt er ekki réttlæting fyrir áframhaldandi skattlagningu. Þetta er jafneinfalt að skilja og dæmið um innbrotsþjófinn.

Látum stjórnmálamenn ekki rugla okkur í ríminu. Þeir geta alltaf skilað því sem þeir hafa tekið, og hætt við að hirða það sem einhver hafði áður ákveðið að hirða.  


mbl.is Viðkvæmt að hætta við skattahækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíuþúsundkallinn

10K-skipting+info-web 

Ég held að ég þurfi ekki að segja mikið meira um þessa sláandi mynd, annað en að vísa á uppruna hennar og forsendur. 


Skattar skulu hækka, en á hvern?

Ríkisstjórn Íslands er mönnuð einstaklingum sem vilja mikla útþenslu ríkisvaldsins. Leiðirnar að aukinni útþenslu ríkisvaldsins eru nokkrar, en á Íslandi eru tvær algengastar:

  • Lækka skatta eitthvað, fita þannig skattstofna, og eyða hverri einustu krónu af auknum skatttekjum (leið Sjálfstæðisflokksins).
  • Auka útgjöld ríkisins langt umfram skatttekjur, safna skuldum, og beita fyrir sig hallarekstri til að réttlæta skattahækkanir, sem aftur munu ekki duga fyrir enn auknum ríkisútgjöldum (leið vinstriflokkanna).
Því miður fer lítið fyrir því að ríkisvaldið á Íslandi sé minnkað, en það er önnur saga. Pólitískur ásetningur er fyrir stækkun ríkisvaldsins, og þar með fyrir hækkun skatta. Spurning er bara: Hækkun skatta á hvern?
 
Ferðaþjónustan varð svo óheppin að lenda í smásjá ríkisvaldsins að þessu sinni. Áður höfðu eldri borgarar og aðrir sem áttu sparnað og eignir lent undir öxi skattheimtumannsins, og þurfa nú að selja úr búi sínu til að eiga fyrir skattinum. Áður höfðu seljendur þjónustu þurft að taka á sig skattabarsmíðar. Áður höfðu almennir launþegar þurft að fá blóðsjúgandi sprautu yfirvaldsins í handlegg sinn.  En núna er sem sagt komið að ferðaþjónustunni.
 
Ferðaþjónustan bregst skiljanlega við með því að kvarta og kveina. En hvar var hún þegar skattar voru hækkaðir á laun? Á sparnað? Hvar var ferðaþjónustan þegar gjaldeyrishöftum var skellt á þá sem sitja uppi með krónur í bæði tekjur og útgjöld? Hún þagði. Hún var fegin að vera utan sviðsljóssins. En núna er komið að henni, og núna á hún fáa vini. Ekkert seður botnlausar fjárhirslur ríkisins, og núna þegja allir aðrir og eru fegnir að ríkisvaldið hefur fundið sér fórnarlamb í ferðaþjónustunni og lætur því aðra í friði á meðan.
 
Þetta er auðvitað veik vörn hjá skattgreiðendum. Samtakamátturinn er enginn. Ríkisvaldið er fegið hinni veiku andspyrnu, sem er bundin við einn og einn hóp - þann sem á að kasta á skattheimtubálið hverju sinni. 
 
Ríkisvaldið ætlar að hækka skatta, og ekkert fær það til að breyta þeim áformum. Þetta vita allir. Núna finnst mörgum vera komið að ferðaþjónustunni. Þar gengur jú svo "vel". Skiljanlega. 

mbl.is Ísland ekki miðpunktur heimsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðuneytið sveiflar kylfunni

Ráðuneyti menntamála sveiflar núna kylfu ríkiseinokunar og hótar að berja í höfuð sveitarfélags sem gerir tilraun til að nýta fé skattgreiðenda betur.

Sveitarfélög fengu að vísu á sínum tíma það "verkefni" að "sjá um" grunnskólarekstur, en svo virðist sem kerfið leyfi ríkinu samt að berja á þeim sem fara út af hinni réttu, opinberu línu. 

Menntaskólinn Hraðbraut fékk að fjúka. Biðlistar lengdust í aðra framhaldsskóla. Nemendur sem hefðu valið þann skóla sem fyrsta val, og voru meira að segja tilbúnir að blæða úr eigin veski til að stunda þar nám, þurftu að taka næstbesta kostinn, eða þann þriðjabesta vegna aukinnar aðsóknar í alla skóla.

Í Stjórnarráðinu eru sósíalistar. Sósíalistar hafa aldrei komið á sósíalisma án valdboðs. Ísland er engin undantekning.  


mbl.is Hjallastefnan sé ekki eini skólinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisvaldið: Verð á tannburstum skal vera 100 krónur

Opinber verðlagsnefnd ríkisins um verðlag á lánsfé hefur komist að því að verð á lánsfé eigi að vera "óbreytt". Þessi ákvörðun er byggð á skýrslum, rannsóknum, Excel-skjölum, vísitölum, líkönum og gríðarlegu innsæi opinberra starfsmanna. Hún er líka byggð á þeirri forsendu að fyrri spádómar, sem voru forsendur seinustu verðlagsákvörðunar á lánsfé, hafi reynst rangir. Nú skal því aftur reynt.

Ég heyrði einu sinni sögu sem gerðist í Sovétríkjunum sálugu. Þar urðu opinberir starfsmenn í verðlagsnefnd sammála um að barnamatur væri góður, og ætti því að vera ódýr, en að vodki væri slæmur, og ætti því að vera dýr. Niðurstaðan var sú að barnamat var hvergi að fá, en vodka var hægt að fá hvar sem er.

Hvað kennir þessi saga okkur? Hún kennir okkur að opinber miðstýring á verðlagi sendir oftar en ekki röng skilaboð. Á Íslandi er ekki hægt að spara vegna skatta og verðbólgu, en engu að síður er ákveðið að verð á lánsfé eigi að vera óbreytt. Hvernig getur staðið á því? Hvaða lánsfé er þetta, ef þetta er ekki sparnaður? Þetta eru nýprentaðir peningar, annaðhvort innlendir eða innfluttir.

Seðlabanka Íslands má óhætt leggja niður og ríkisvaldinu má óhætt koma úr framleiðslu og verðlagningu peninga á Íslandi. Ríkiseinokun á þessu sviði er jafnslæm og á öllum öðrum. 


mbl.is Óbreyttir vextir Seðlabanka Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðist á einkennin en ekki sjúkdóminn

Pólitískt markmið vinstrimanna er almennt það að gera sem flesta háða ríkisvaldinu, og tryggja þannig breiðan stuðning við peningatilfærslur í skattkerfinu.

Nú skulu bætur hækka, m.a. til að auðvelda bótaþegum að fjármagna afborganir af skuldum og neyslu á heimilinu þar sem marga munna er að metta.

Þessar bótahækkanir þurfa vitaskuld að koma úr vösum þeirra sem hafa atvinnu. Vinnandi fólk hefur því minna á milli handanna.

Ríkið þarf líka að hækka skatta á t.d. fyrirtæki til að eiga fyrir bótahækkununum. Fyrirtæki hafa því ekki efni á að ráða fólk. Þetta viðheldur atvinnuleysinu, og þar með "þörfinni" á hinum miklu bótum.

Háar atvinnuleysisbætur gera það einnig að verkum að það væri hreinlega kjánalegt fyrir atvinnuleysisbótaþega að finna sér einhverja vinnu nema hún borgi töluvert meira en sem svarar til bótagreiðslanna (enda þarf mikið til að bótaþegi fari úr því að vilja fá ávísun í skiptum fyrir ekkert, og ávísun í skiptum fyrir vinnuframlag).  

Kosningar eru í nánd. Ég vona að kjósendur láti ekki nýja umferð bótahækkana í deyjandi hagkerfi byrgja sér sýn.  


mbl.is Beint að barnmörgum og tekjulágum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband