Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Krugman-kreppan

Það má færa fyrir því ágæt rök að við ættum að kalla núverandi kreppu vestrænna hagkerfa "Krugman-kreppuna".

Yfirvöld hafa fylgt efnahagsstefnu Krugman eftir mjög nákvæmlega seinustu 10 ár að minnsta kosti. Peningaprentvélar hafa verið á fullum afköstum til að keyra upp "eftirspurn" og "neyslu", hinir nýprentuðu peningar hafa runnið inn í gríðarlegar bólur á hlutabréfa-, húsnæðis- og hrávöruverði, lágir vextir og hækkandi verð hefur valdið keðjuverkum þar sem uppsprengt verðlagið þarf sífellt að vera á uppleið til að forða núverandi eigendum frá gjaldþroti þegar næstu eigendur koma og kaupa, og svona má lengi telja.

Krugman er samur við sig og afneitar ábyrgð á öllum kenningum sínum og slæmum afleiðingum þeirra í fortíð, en boðar svo sama meðalið fyrir dauðvona sjúklinginn til framtíðar.

Morgunblaðið ætti að hlífa lesendum sínum við Krugman-kreppu-spekinni og byrja e.t.v. að leita á aðra stafi fyrir öllu áreiðanlegra og jarðbundnara lesefni. Til dæmis pistla Chuck Norris.


mbl.is Krugman: Evrukreppa yfirvofandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástandið sennilega verra en tölurnar gefa til kynna

Efnahagsástandið á Íslandi er slæmt og fer versnandi. Ríkisstjórnin gerir illt verra með hverjum deginum.

En tölurnar segja ekki alla söguna. "Mælingar" á hagvexti gera til dæmis engan greinarmun á eyðslu hins opinbera, og neyslu einkaaðila. Ríkið getur skuldsett sig á bólakaf og byggt píramída á toppi Snæfellsjökuls (og kallað hann Hörpu 2), og sú framkvæmd kæmi inn á plús-hlið "hagvaxtarins", þótt hún skilaði engum einu né neinu til lengri tíma litið.

Sennilega er ástandið á Íslandi enn verra en tölur Eurostat gefa til kynna, og svipaða sögu má sennilega segja um fjölmörg önnur ríki.

Tökum tölunum með fyrirvara, og gerum ráð fyrir að þær fegri veruleikann.


mbl.is Eina landið með samdrátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðin tóm

Opinberlega talar Seðlabanki Íslands um afnám gjaldeyrishafta.

Í Stjórnarráðinu eru menn samt mjög sáttir við höftin, og hafa sennilega sagt seðlabankastjóra að halda í þau eins lengi og hægt er, en a.m.k. út kjörtímabilið til að forðast allar hugsanlegar afleiðingar vegna aðlögunar krónunnar að veruleikanum.

Höftin henta vinstristjórninni vel. Gjaldeyrir er lokaður inn í landinu og fær ekki að flýja ofurskatta og mikið eftirlit. Þau valda því að Íslendingar hafa ekki efni á eða mega ekki flytja inn varning, og það lætur tölur um "viðskiptajöfnuð" líta vel út. Höftin gefa líka eftirlitsvél ríkisins mikið svigrúm til að gramsa í fjármálum fyrirtækja og einstaklinga, og hver veit hvað er gert við þær upplýsingar sem aflast til að leita að "brotum" á gjaldeyrishöftunum?

Gjaldeyrishöftin eru líka stjórntæki sem ríkisstjórnin þarf ekki að hafa áhyggjur af sjálf. Seðlabanki Íslands er jú "sjálfstæð stofnun", ríki í ríkinu, sem fær lagaheimildir og fjármuni til að stunda sitt eigið eftirlit, fyrir hönd ríkisins en í sínu eigin nafni.

Upphaflega var gert ráð fyrir tímabundnum höftum. Menn höfðu strax í upphafi hugmyndir um afnám þeirra. Þeim hugmyndum hefur verið sópað til hliðar. Í staðinn er kominn pólitískur ásetningur. Sá ásetningur er sá að stækkandi ríkisvald sé betra en minnkandi ríkisvald.

Gjaldeyrishöftin fara ekki fyrr en ríkisstjórnin fer.


mbl.is Seðlabankastjóri: Brýnt að losa höftin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk stefnumörkun: Stækka ríkisvaldið

Lagt er til að hver ráðherra geti ráðið til sín tvo aðstoðarmenn, en ríkisstjórnin geti ráðið þrjá til viðbótar ef þörf krefur. Með þessu sé hægt að bregðast við auknu álagi í einstökum ráðuneytum.

Álfheiður segir að meirihluti nefndarinnar hafi talið rétt að styrkja pólitíska stefnumörkun í ráðuneytunum.

Fjölgun á "aðstoðarmönnum ráðherra" til að "styrkja pólitíska stefnumörkun í ráðuneytunum" fellur mjög vel að því pólitíska markmiði ríkisstjórnarinnar að stækka ríkisvaldið. Þeir sem vilja að ríkisvaldið þenjist út hljóta að fagna þessari fjölgun opinberra starfsmanna, því hún er beinlínis hluti af pólitískri stefnumörkun ríkisstjórnarinnar.

Raunar er varla hægt að hugsa sér betri leið til að framfylgja pólitískri stefnu vinstriflokkanna: Að fjölga starfsmönnum ríkisins til að styrkja pólitíska stefnumörkun ráðherra, sem hafa allir þá pólitísku stefnu að fjölga starfsmönnum ríkisins.

Aðrir hljóta samt að hafa áhyggjur af þessari stefnu. Stærra ríki þýðir minni einkageiri. Einkageirinn getur stækkað þrátt fyrir stækkandi ríkisvald, en gerir það alls ekki vegna þess.

Næsta skref ríkisstjórnarinnar hlýtur að vera að ráða aðstoðarmenn fyrir aðstoðarmennina, t.d. allskyns ritara og skjalaumsýslufólk. Stækkandi skrifstofa kallar á fleira skrifstofufólk til að tryggja að pappírar geti flætt á milli þeirra starfsmanna skrifstofunnar sem eiga að sinna vinnu fyrir aðila utan skrifstofunnar.

Báknið er blásið út, og mun halda áfram að gera það á meðan bákninu er stjórnað af fólki með það pólitíska markmið að blása báknið út.


mbl.is Allt að 23 aðstoðarmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað vakir fyrir Kínverjanum?

Á einum stað er spurt:

Hverjum gera menn til hæfis til að verða milljarðamæringar í einræðisríki?

Ég heyrði athyglisverða umræðu í dönsku útvarpi um þetta landakaupamál. Þar veltu menn því fyrir sér hvað vakir fyrir Kínverjanum, og kínverska ríkinu ef því er að skipta. Eru Kínverjar að búa sig undir kapphlaupið um auðlindir Norðurskautsins? Hvað kemur á eftir ferðamannasvæði? Flotastöð? Hver veit?

Nú ætti í sjálfu sér ekkert að vera að því að Kínverji kaupi skika á Íslandi og að Íslendingur kaupi skika í Kína eða hvar sem er. En það er athyglisverð vangavelta sem felst í því að hér komi kínverskur milljarðamæringur, úr einræðisríki, og sjái viðskiptatækifæri í ferðamennsku á milli gjaldþrota Evrópu og gjaldþrota Bandaríkjanna í skika á hjara Norðurskautsins. 


mbl.is Óeðlilegt að geta keypt stórar jarðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkusparnaður í Excel

Þeir í Brussel eru duglegir að setja tölur inn í Excel og reikna sig fram til allskyns "hagkvæmra" reglugerða. Ljósaperu-ævintýrið er bara einn lítill angi af þess kyns aðferðafræði, þar sem allt gleymist sem skiptir máli.

Svokallaðar orkusparandi perur eru dýrar í framleiðslu og frá þeim streyma allskyns efni þegar þeim er hent í ruslið. Fé flyst frá allskyns framkvæmdum sem menn telja hagkvæmar, og í ljósaperuinnkaup og -förgun. 

Auðvitað fer samfélagið ekki á hausinn við það að skipta úr ódýrum og eyðslusömum ljósaperum og yfir í dýrar og sparsamari ljósaperur. En á bak við þykka reglugerðabókina eru alls kyns ósýnilegar afleiðingar sem enginn sér í Excel í tölvu í Brussel. 

Bákn sem bannar ákveðnar tegundir af ljósaperum er líklegt til allskyns ríkisafskipta sem er erfitt að sjá fyrir endann á. Leiðin til ánauðar er vörðuð ...sparsömum ljósaperum!


mbl.is Gamla ljósaperan ólögleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ódýrt að vera fátækur í Danmörku

Það er ódýrt að vera fátækur í Danmörku. Þeir sem eru skilgreindir "fátækir" geta búið nánast fríkeypis í sæmilegu húsnæði, drukkið allt það áfengi sem þeir vilja, látið atvinnuleit eiga sig í mjög langan tíma, og fengið allskyns sporslur og niðurgreiðslur fyrir nánast hvað sem er (allt frá afþreyingu til gæludýrahalds).

Það er því ódýrt að vera fátækur í Danmörku. Of ódýrt. Fátækt er niðurgreidd í Danmörku.

Um leið og atvinnulaus maður eða útskrifaður námsmaður leitar út á atvinnumarkaðinn mæta honum himinhá útgjöld og skattheimta og stórkostlega minnkuð niðurgreiðsla á framfærslunni. Sumir námsmenn fresta jafnvel útskrift úr háskóla (jafnvel verkfræðinámi sem ætti að öllu jöfnu að veita aðgang að vel launuðu starfi) því þeir sjá fram á svo stórkostlega minnkaðar ráðstöfunartekjur. 

Ef þú niðurgreiðir eitthvað, þá máttu eiga von á að fá meira af því.

Danir niðurgreiða fátækt. Þeir hafa því nóg af henni.


mbl.is Fátækum fjölgar í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband