Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Hagtölur segja ekki alla söguna

Verg landsframleiðsla í Danmörku dróst saman um 0,5% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Hagtölur segja ekki alla söguna, og raunar geta þær sagt rangt frá. "Verg þjóðarframleiðsla", sem oft er stuðst við til að leggja mat á "heilsu" hagkerfis, er til að mynda byggð upp á tölum um "neyslu". Ef neyslan er mikil, þá mælist aukning í vergri þjóðarframleiðslu (hagvöxtur). Ef fólk heldur að sér höndum, sparar og greiðir niður skuldir, þá mælist lækkun í vergri þjóðarframleiðslu (samdráttur).

Ef menn taka stór lán og eyða í flatskjái og nýja bíla, þá kemur það fram sem aukning "þjóðarframleiðslu". En er einhverjum borgið með aukinni skuldsetningu?

Nú þekki ég ekki samsetningu hinnar dönsku þjóðarframleiðslu. Ef ég þekki Danina rétt, þá eru þeir að draga saman neyslu, greiða niður skuldir og spara. Það leggur grunninn að bættri fjárhagslegri heilsu og aukinni fjárfestingu og þar með aukinni neyslu seinna. Sem er jákvætt. "Samdráttur" í Danmörku þarf því ekki endilega að vera neikvæður fyrir Dani. Þvert á móti, hann getur verið nauðsynleg tiltekt á skuldasöfnun og offjárfestingu.

Ég vona að danskir stjórnmálamenn í atkvæðaleit falli ekki fyrir brellum "mainstream" hagfræðinga og hefji skuldasöfnun til að fjármagna neyslu. 


mbl.is Samdráttur í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Múgabe-væðing sjávarútvegsins

Við höfum fullvissað [æðstu yfirmenn ríkisins] að það er ekki ætlun ríkisstjórnar okkar, þegar hún verður til, að svipta opinbera starfsmenn lífeyrisréttindum sínum og uppsöfnuðum fríðindum; né heldur viljum við reka neinn úr landi; né ætlum við okkur að ganga gegn stjórnarskránni með afskiptum af eignarétti einstaklinga.

Þessi orð, í lauslegri þýðingu minni, eru að sögn úr fyrstu þingræðu Robert Mugabe, einræðisherra Zimbabwe. Sá maður er sennilega frægastur fyrir það að hafa á 10 árum flutt Zimbabwe úr stöðu eins ríkasta lands Afríku og í eitt það fátækasta. Hvernig fór hann að því? Hann rak menn frá eigum sínum - eigum sem áður framleiddu verðmæti og skiluðu arði. Hvað varð um þær eigur? Þær lentu í greipum stjórnmálamanna sem höfðu sennilega þann "góða" ásetning að "endurúthluta" gæðunum, með þeirri afleiðingu að gæðin urðu að engu.

Tungutak Mugabe er kunnuglegt. Það minnir um margt á tungutak þeirra sem boða ríkisvæðingu sjávarútvegsins á Íslandi.

Heldur einhver að niðurstaðan verði önnur með hinni íslensku "endurúthlutun" en þeirri í Zimbabwe? Sá sem heldur því fram á svo sannarlega mikið verk óunnið í að útskýra muninn, og hvers vegna útgerð á Íslandi eigi ekki sömu örlög í vændum og landbúnaður í Zimbabwe.

Ég býð spenntur eftir þeirri útskýringu.


mbl.is Stærri en norðlenskar útgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur er oft hissa

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði í Silfri Egils í dag, að hann yrði hissa ef í aðildarsamningum við Evrópusambandið kæmu fram mjög sterkar kröfur um að sambandið fái aflaheimildir við Ísland.

Er þetta fréttnæmt? Össur Skarphéðinsson verður oft alveg steinhissa. Hann var hissa þegar hagkerfið sprakk ekki eins og "tifandi tímasprengja" í ríkisstjórnartíð Davíðs Oddssonar. Hann var hissa þegar hagkerfið sprakk í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eftir að lánabólan sem hafði þanist út síðan 2004 kom í bakið á Íslendingum og öllum heiminum haustið 2008. Össur er alveg steinhissa á því að Íslendingar séu ekki ólmir að innlima Ísland í ESB. Össur er alveg hissa á því að hagkerfið sé ennþá á niðurleið eftir 2 ár af stanslausum skattahækkunum og vaxandi viðskiptahindrunum í hagkerfinu. 

Össur er mjög hissa á mjög mörgu. Þess vegna er ekki skrýtið að hann játi það fullum fetum að hann verði hissa ef og þegar Spánverjar, Skotar og Portúgalir banka á dyr við innlimum Íslands í ESB og heimta kvóta á Íslandsmiðum.


mbl.is Á ekki von á kröfum um aflaheimildir við Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er endurgreiðslan dregin frá skattinum?

Í skýrslu OECD er rakið hvernig skattar og bætur koma við afkomu fjölskyldna eftir tekjum og aðstæðum.

Skýrsla OECD endurspeglar ekki raunveruleika hins vinnandi manns. Skattkerfið er miklu skilvirkara en endurgreiðslukerfið. Það er alltaf hægt að treysta því að ríkið hirði þá prósentu sem það ætlar sér að hirða, en endurgreiðslan getur breyst frá mánuði til mánuðar. Maður sem ætlar að skipuleggja fjármál sín yfir árið getur fastlega reiknað með því að þurfa borga sinn skatt, en ég tel hann vera ansi hugrakkan ef hann þorir að gera ráð fyrir ákveðinni upphæð í endurgreiðslu frá yfirvöldum (t.d. í formi barnabóta og vaxtabóta).

Skattheimta og endurgreiðsla hefur allt önnur áhrif á launþegann en t.d. lægri skattheimta án endurgreiðslu. Þetta tvennt er ekki hægt að leggja að jöfnu.


mbl.is Segir skattbyrði nálægt meðaltali á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur er verri en enginn

Steingrímur J. er að undirbúa ríkisskuldabréfasölu á alþjóðlegum markaði. Ekki veitir af. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi hans þarf að auka skuldir ríkisins um tugi milljarða í ár til að standa undir útþöndum ríkisrekstrinum, sem situr þungur ofan á minnkandi einkageiranum.

Steingrímur J. lætur sér því ekki nægja að tala íslensku krónuna niður með því að nota orðið "varnarsigur", heldur ætlar hann sér einnig að fara með hið "góða" lánshæfismat út á markað og fá eins mikið lánað út á það og hann getur.

Steingrímur J. er verri en enginn.


mbl.is Varnarsigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alls ekki 'sláandi' niðurstöður

Mér þykir það vera "sláandi" að sjá að einhver telji það vera "sláandi" að sjá gríðarlegan vöxt á heimabruggi og smygli eftir miklar hækkanir á opinberum álögum á löglega seldu áfengi.

Þeir sem telja hinn mikla vöxt á heimabruggi og smygli vera "sláandi" ættu e.t.v. að finna sér eitthvað annað að gera en spá í breytta hegðun einstaklinga í kjölfar aukinnar skattheimtufrekju hins opinbera.

Það má ekki gleyma því að aukin opinber álagning hefur ekki bara áhrif á markað áfengis, heldur allt og alla. Eftir því sem skattheimtan er meiri og þyngri, því meira leita frjáls viðskipti út á hinn "svarta" markað. Venjulegt fólk er byrjað að taka að sér venjuleg störf og verkefni gegn greiðslu með reiðufé eða gegn vöruskiptum. Gjaldmiðlinum er erfitt að treysta, og ef menn vilja halda einhverju af honum er vissara að koma honum undan skattheimtunni.

Hinn svarti markaður hélt íbúum Sovétríkjanna á lífi svo áratugum skiptir. Núna er hann farinn að leika svipað hlutverk á Íslandi fyrir sífellt stækkandi hóp Íslendinga. 

Ætli einhverjum í ríkisstjórninni fari ekki bráðum að detta í hug að lesa Hagfræði í hnotskurn (hún er bara 272 bls)?


mbl.is Heimabrugg eykst verulega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert er vandamálið?

Það að fyrirtæki verði gjaldþrota er ekkert sérstakt efnahagslegt vandamál. Það er auðvitað leiðinlegt og tímafrekt fyrir lánadrottna gjaldþrota fyrirtækis að þurfa sækja fé sitt í þrotabú, sem stendur jafnvel ekki undir skuldbindingum fyrirtækisins. Það er einnig leiðinlegt fyrir fyrrum starfsmenn gjaldþrota fyrirtækja að finna sér nýja vinnu. En stærra er vandamálið ekki. Gjaldþrot eru leið markaðarins til að hreinsa út kæfandi skuldir og koma starfsfólki og verðmætum í nýjar hendur. Gjaldþrota eru holl fyrir hagkerfið, rétt eins og hægðir fyrir mannslíkamann.

Ég skil ekki hlutverk ráðherra í samskiptum fjármálafyrirtækja og skuldsettra fyrirtækja. Er þetta afskiptasemi eða forvitni? 

Ég skil ekki efnahagslegt hlutverk "skuldaúrvinnslu fyrirtækja" umfram það sem á sér stað frá degi til dags án þess að komast í fyrirsagnir frétta. Mér sýnist þetta vera eitthvað "úrræði" yfirvalda til að koma í veg fyrir að gjaldþrota fyrirtæki fari á hausinn. 

Nú fer þriggja ára afmæli hrunsins á Íslandi að nálgast. Atvinnuleysi er ennþá að aukast. Gjaldþrota fyrirtæki eru ennþá á gjörgæslu bankanna, og ráðherra fylgist með því hvernig gengur að halda í þeim líftórunni. 

Þörfin á nýrri ríkisstjórn fer vaxandi. Biðin eftir næstu ríkisstjórn er orðin alltof löng.


mbl.is Tilboð send fyrir 1. júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sveitarfélögin eyða of miklu

Íslensk sveitarfélög eyða of miklu og krefjast of mikilla skatta. Þau eru dýr baggi á herðum almennings. Þannig er það.

Allt tal um "sameiningu sveitarfélaga" missir marks í þessu umhverfi sívaxandi skattheimtu sveitarfélaga, því slíkar sameiningar draga úr skattasamkeppni á milli sveitarfélaga, og gerir þeim öllum kleift að skrúfa skattprósentuna í botn án þess að íbúarnir eigi mikla möguleika á að flýja, nema með því að yfirgefa landshluta, vini og fjölskyldu.

Ég hvet Íslendinga til að íhuga leiðir til að stuðla að frekari klofningi sveitarfélaga upp í smærri sveitarfélög, og reyna þannig að minnka opinberar álögur á sig. Sveitarfélög sinna of mörgum lögbundnum verkefnum og þeim þarf að fækka. Þar að auki dæla sveitarfélög fé skattgreiðenda í allskyns gæluverkefni sem koma íbúaþjónustu ekkert við. 

Seltjarnarnes var lengi vel vígi fyrir þá sem vildu vel rekið sveitarfélag sem fór hóflega í að féfletta íbúa sína. Nú er öldin önnur. Hvaða vígi fellur næst, af þeim fáu sem eru eftir?


mbl.is Hagnaður af rekstri Seltjarnarness
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

50 milljón loftslagsflóttamanna árið 2010?

The United Nations Environment Programme has tried to erase one of its glaring failed predictions about climate refugees by removing a a map from its website purporting to show where 50 million climate refugees will come from by 2010.

... segir hér og þaðan er mynd þessarar færslu einnig. Mjög svo áhugaverð frétt segi ég. Á öðrum

 

stað segir svo:

Blaðið [The Wall Street Journal] segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem spár um loftslagsmál hafi reynst hlægilegar en öllum geti auðvitað skjátlast. Það sé hins vegar áhyggjuefni að ýmsir þeirra sem skelfa veröldina með loftslagsspám skuli reyna að hlaupa frá fyrri spádómum sínum.

Hvernig endaði nú aftur sagan "Úlfur! Úlfur!"? Var það ekki á því að aðalsöguhetjan var étin upp til agna því þegar á reyndi voru allir hættir að trúa á neyðarópin? Þeir sem hafa raunverulegar og einlægar áhyggjur af áhrifum manna á loftslag Jarðar ættu að spara stóryrðin til þess tíma þegar og EF þeirra verður raunverulega þörf. 

50 milljón loftslagsflóttamanna árið 2010?

 


Á Sjálfstæðisflokkurinn framtíðina fyrir sér?

Ég var að skrifa örlítinn pistil á heimasíðu Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) sem ég vona að veki einhverja meðlimi flokksins úr hugmyndafræðilegum doða og dvala. Þótt ég sé ekki skráður í Sjálfstæðisflokksins þá þykir mér leitt að sjá hvernig er farið fyrir honum.

Pistil minn er hægt að lesa hér á heimasíðu SUS eða einfaldlega hér að neðan: 

 

Á Sjálfstæðisflokkurinn framtíðina fyrir sér?

Geir Ágústsson
May 4, 2011

Undanfarin ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn gengið í gegnum mikla hugmyndafræðilega rýrnun. Hann hefur gleymt rótum sínum, sem fólust í varðstöðu um frelsi einstaklingsins og baráttu fyrir auknu atvinnufrelsi. Leið hans hefur legið inn að miðju stjórnmálanna og þar hefur hann smitast af tækifærismennsku og tekið upp mörg áhugamál vinstriflokkanna.

Með þessu áframhaldi gerist annaðhvort það að fylgið hrynur af flokknum til annarra flokka sem hafa fóðrað hina nýju og vondu sjálfstæðisstefnu með hugmyndum, eða framboð hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn sprettur upp og hirðir atkvæði frelsisunnenda af honum. Hvort tveggja má teljast slæmt fyrir flokkinn. Ef fylgið hrynur af honum verður auðveldara að hunsa hann í stjórnarmyndunarviðræðum. Ef framboð hægra megin við flokkinn byrjar að kroppa af honum atkvæðin mun hann neyðast til að sækja enn lengra inn á miðju og vinstri stjórnmálanna og verða  óaðgreinanlegur frá öðrum miðju- og vinstriflokkum.

Skoðanakannanir um þessar mundir sýna að Sjálfstæðisflokkurinn mælist með ágætt fylgi, einhvers staðar á milli 30% og 40%, ef ekki hærra. Þessu mega Sjálfstæðismenn ekki taka sem hrósi. Hin sterka staða flokksins í skoðanakönnunum er ekki afrakstur af góðri frammistöðu hans á Alþingi eða í þjóðmálaumræðunni, heldur einstaklega lélegrar frammistöðu ríkisstjórnarflokkanna. Mælingar í skoðanakönnunum um þessar mundir eru því ekki góður grunnur til að byggja á, og alls engin vísbending um að Sjálfstæðisflokkurinn sé að standa sig vel.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að eiga framtíðina fyrir sér þá þarf hann að rifja upp boðskap frjálshyggjunnar. Það er sú stefna sem sjálfstæðismenn hafa óhræddir haldið á lofti í gegnum sögu flokksins. Orðið “frjálshyggja” hefur fengið á sig óorð, en að mörgu leyti er það hræddum Sjálfstæðismönnum að kenna, því þeir hafa ekki þorað að taka slaginn í opinberri umræðu á Íslandi. Frjálshyggjan er frábær, auðskiljanlegur og réttur vegvísir í ólgusjó dægurmálaumræðunnar og hana þarf að setja fremst á stefni Sjálfsstæðisskútunnar og sigla í gegnum gaspur og gífuryrði þeirra sem hafa veikari málefnalegri stöðu.

Á Sjálfstæðisflokkurinn framtíðina fyrir sér? Kannski, en ekki ef hann lætur svæfa sig með miðjumoði og vinstrimennsku. Ef hann reisir frelsisfánann upp á ný, þá er von. Þá verður á ný til skýr valkostur til hægri í íslenskum stjórnmálum – nokkuð sem vantar sárlega í dag.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband