Á Sjálfstæðisflokkurinn framtíðina fyrir sér?

Ég var að skrifa örlítinn pistil á heimasíðu Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) sem ég vona að veki einhverja meðlimi flokksins úr hugmyndafræðilegum doða og dvala. Þótt ég sé ekki skráður í Sjálfstæðisflokksins þá þykir mér leitt að sjá hvernig er farið fyrir honum.

Pistil minn er hægt að lesa hér á heimasíðu SUS eða einfaldlega hér að neðan: 

 

Á Sjálfstæðisflokkurinn framtíðina fyrir sér?

Geir Ágústsson
May 4, 2011

Undanfarin ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn gengið í gegnum mikla hugmyndafræðilega rýrnun. Hann hefur gleymt rótum sínum, sem fólust í varðstöðu um frelsi einstaklingsins og baráttu fyrir auknu atvinnufrelsi. Leið hans hefur legið inn að miðju stjórnmálanna og þar hefur hann smitast af tækifærismennsku og tekið upp mörg áhugamál vinstriflokkanna.

Með þessu áframhaldi gerist annaðhvort það að fylgið hrynur af flokknum til annarra flokka sem hafa fóðrað hina nýju og vondu sjálfstæðisstefnu með hugmyndum, eða framboð hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn sprettur upp og hirðir atkvæði frelsisunnenda af honum. Hvort tveggja má teljast slæmt fyrir flokkinn. Ef fylgið hrynur af honum verður auðveldara að hunsa hann í stjórnarmyndunarviðræðum. Ef framboð hægra megin við flokkinn byrjar að kroppa af honum atkvæðin mun hann neyðast til að sækja enn lengra inn á miðju og vinstri stjórnmálanna og verða  óaðgreinanlegur frá öðrum miðju- og vinstriflokkum.

Skoðanakannanir um þessar mundir sýna að Sjálfstæðisflokkurinn mælist með ágætt fylgi, einhvers staðar á milli 30% og 40%, ef ekki hærra. Þessu mega Sjálfstæðismenn ekki taka sem hrósi. Hin sterka staða flokksins í skoðanakönnunum er ekki afrakstur af góðri frammistöðu hans á Alþingi eða í þjóðmálaumræðunni, heldur einstaklega lélegrar frammistöðu ríkisstjórnarflokkanna. Mælingar í skoðanakönnunum um þessar mundir eru því ekki góður grunnur til að byggja á, og alls engin vísbending um að Sjálfstæðisflokkurinn sé að standa sig vel.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að eiga framtíðina fyrir sér þá þarf hann að rifja upp boðskap frjálshyggjunnar. Það er sú stefna sem sjálfstæðismenn hafa óhræddir haldið á lofti í gegnum sögu flokksins. Orðið “frjálshyggja” hefur fengið á sig óorð, en að mörgu leyti er það hræddum Sjálfstæðismönnum að kenna, því þeir hafa ekki þorað að taka slaginn í opinberri umræðu á Íslandi. Frjálshyggjan er frábær, auðskiljanlegur og réttur vegvísir í ólgusjó dægurmálaumræðunnar og hana þarf að setja fremst á stefni Sjálfsstæðisskútunnar og sigla í gegnum gaspur og gífuryrði þeirra sem hafa veikari málefnalegri stöðu.

Á Sjálfstæðisflokkurinn framtíðina fyrir sér? Kannski, en ekki ef hann lætur svæfa sig með miðjumoði og vinstrimennsku. Ef hann reisir frelsisfánann upp á ný, þá er von. Þá verður á ný til skýr valkostur til hægri í íslenskum stjórnmálum – nokkuð sem vantar sárlega í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottur pistill, Sjallarnir eru orðnir of samfylkingarlegir fyrir minn smekk. Svo þarf flokkurinn einnig að moka flórinn, of margir þingmanna hans eiga ekkert erindi þangað af ýmsum ástæðum.

Helgi (IP-tala skráð) 4.5.2011 kl. 19:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband