Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Allt sem þú þarft að vita til að skilja gangverk hagkerfisins

Í alvöru.. þetta er gott efni:

 

"Hefðbundið" hagfræðinám, t.d. í Háskóla Íslands, liggur að baki öllum okkar vandræðum með fjármálakerfið. Hvenær byrja menn að íhuga ruslatunnuna fyrir það lesefni?

 


Er Ísland á leið í gjaldþrot?

Skuldastaða hins opinbera á Íslandi er hrikaleg. Viðvörunarljós hafa logað lengi en þau verið hunsuð. Fjölmargir hafa reynt að vara yfirvöld við áhrifum þess að drekkja ríkissjóði í skuldum til að halda góðærisveislunni gangandi en ekki notið áheyrnar. Vinstristjórnin hefur frá upphafi haft einlægan ásetning um að taka öll lán sem bjóðast og viðhalda stærð hins opinbera hvað sem það kostar í skuldsetningu og skattheimtu.

Er Ísland þá á beina leið í gjaldþrot? Verður Icesave-klafinn vendipunkturinn sem setur Ísland á hausinn? 

Vert er að hafa eitt í huga:

Þegar stóra stundin rennur upp og Írland eða annað ríki fer fram á endurskoðun ríkisskulda (lýsir yfir gjaldþroti) þá vitum við það með nokkra daga fyrirvara. Forsætis- eða fjármálaráðherra viðkomandi ríkis boðar til blaðamannafundar, ekki til þess að vara við væntanlegu gjaldþroti, heldur til þess að lýsa því yfir að allt sé í himnalagi og landið sé ekki í sömu vandræðum og t.d. Spánn eða Portúgal.  (vald.org)

Það gæti farið svo að þessi lýsing muni eiga við um Ísland áður en langt um líður.

Nú tek ég það fram að ég er ekki að segja að ríkissjóður Íslands sé þar með dauðadæmdur til að lenda í gjaldþroti árið 2011. En ég leyfi mér að segja án nokkurs hiks að ef skuldastaða ríkissjóðs og vaxtagjöld hans eru ekki lagfærð sem allra allra fyrst þá mun ríkissjóður enda í gjaldþroti fyrr en síðar. Og þá munu Íslendingar fyrst kynnast því hvað efnahagsvandræði eru!

Það veit enginn maður hvað Icesave mun í endann kosta fyrir ríkissjóð. Bjartsýnt mat (óhóflega bjartsýnt ef ég er spurður) GAM Management er 26ma.kr. Svartsýna matið er 233ma.kr. Ríkissjóður getur nú þegar varla borið kostnað upp á 26ma.kr.; skuldastaða ríkissjóðs má ekki versna öllu meir af þeirri einföldu ástæðu að hann ræður ekki við það!

Það er ekki áhættunnar virði að samþykkja Icesave „svo vonandi sé hægt að fá erlent fjármagn til atvinnuuppbyggingar.“ Að samþykkja Icesave er eins og að spila rússneska rúllettu með 5 skot í byssunni en eitt hólf tómt. (Ólafur Margeirsson, á pressan.is)
 Undir þess orð tek ég. Ofan á hrikalega stöðu ríkissjóðs í dag eru þingmenn í alvöru að fara leggja Icesave-tékkann óútfyllta (í erlendum gjaldeyri). 
Það segir sig sjálft að þetta dæmi gengur ekki upp. Jú, það er hægt að fá lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að komast í gegnum þetta kjörtímabil, en fyrr eða síðar kemur að skuldadögum. Það blasir við að einhvern tímann þurfum við að horfast í augu við vandann, hrista af okkur dáleiðsluna og vakna. (Ívar Jónsson, í Morgunblaðinu í dag)
 Dáleiðslan er öflug en hún leiðir okkur til glötunar. Ríkisstjórninni tekst kannski að skuldsetja ríkið í gegnum þetta kjörtímabil. Lengra nær það samt ekki. Ríkisstjórnin verður kosin frá í næstu kosningum, hvenær sem þær verða (hún er nú þegar óvinsælli en George W. Bush varð nokkurn tímann). Næsta ríkisstjórn þarf að taka við brunarústum hennar og vinstrisinnaðir blaðamenn munu kenna henni um yfirvofandi eða orðið gjaldþrot Íslands. En það verður bara að hafa það.
 
Íslandi vantar stjórnmálamenn sem skilja gangverk hagkerfisins og helstu grunnreglur í rekstri venjulegs heimilis, og skiptir þá engu máli hvaða flokksmerki þeir bera.

mbl.is Stjórnvöld líta framhjá „ógnvænlegum horfum” skuldastöðu Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdasjúkur umhverfisráðherra?

Margt bendir til þess að umhverfisráðherra þjáist af valdagræðgi á háu stigi. Svandís Svavarsdóttir reynir, í krafti embættis síns, að setja fótinn fyrir ýmislegt sem er henni ekki að skapi. Að staðfesta ekki aðalskipulag sveitarfélags er bara eitt dæmi. Hér er sagt frá öðru dæmi:

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur sent bréf til sveitarstjórna Skaftárhrepps, Hornafjarðar og Vestmannaeyja um að allir möguleikar verði skoðaðir til að hætta eða draga verulega úr sorpbrennslu þar til niðurstöður frekari rannsókna liggja fyrir.

Einn af "möguleikum" umhverfisráðherra er að setja reglugerðir og svipta fyrirtæki aðlögunartíma sem áður var búið að semja um.

Svona valdníðsla líðst eingöngu í samfélagi þar sem búið er að setja réttarvissu ofan í skúffu og leyfa "túlku laga" að byggjast á "tilfinningunni" í samfélagi og öðru eins. 


mbl.is Sömu lög fyrir Flóahrepp og aðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Egill Helgason í heita sætinu

Egill Helgason, umræðustjóri RÚV, er núna kominn í athyglisverða og snúna stöðu. Allt í einu hefur myndast þrýstingur á hann að svara fyrir val sitt á gestum í annan umræðuþátta sinna.

Í greininni Egill Helgason á Pressan.is (e. Vigni Má Lýðsson) kemur eftirfarandi fram (og hvergi er dregið úr því að um mat höfundar er að ræða):

Þegar þeir sem komið hafa tvisvar eða oftar í þáttinn hans Egils og falla undir flokkinn „álitsgjafar“, þ.e. eru hvorki þingmenn né sveitarstjórnarfulltrúar, og auk þess flokkaðir eftir uppgefnum eða ætluðum stjórnmálaskoðunum kemur í ljós að vegið hlutfall vinstri manna, þ.e. að teknu tilliti til fjölda heimsókna hvers og eins, er 73%, 25% flokkast til hægrimanna og 2% álitsgjafanna má raunverulega telja hlutlausa að mínu mati.

Egill Helgason, sem lætur yfirleitt alla gagnrýni á sig, bæði réttmæta og óréttmæta, sem vind um eyru þjóta, reynir að svara fyrir sig

Eða hvernig er það – er hægt að segja að Sigrún Davíðsdóttir sé sérstök vinstri kona? Eða Andri Geir Arinbjarnarson? Eða þá Vilhjálmur Bjarnason? Eða Þorvaldur Gylfason? Gunnar Smári Egilsson? Marinó G. Njálsson?  Jón Daníelsson? Jóhannes Björn? Eiríkur Bergmann? Hvar ætli mörkin liggi? Ber fólk einhvers konar stimpil, er einhvers staðar hægt að fletta upp hvernig það er skilgreint – eða er þetta bara gamall og grautfúll dilkadráttur?

Er hægt að segja að Þorvaldur Gylfason sé vinstrimaður? Já Egill Helgason, það er hægt. Er það "grautfúll dilkadráttur"? Hugsanlega. En það er nú bara þannig að sumir eru að berjast fyrir stækkandi ríkisvaldi (sósíalisma) á meðan aðrir berjast fyrir minnkandi ríkisvaldi (frjálshyggju), og menn eins og Þorvaldur Gylfason tilheyra fyrri hópnum. "Dilkadrátturinn" er því staðreynd. 

Ég vona að pressan fari nú vaxandi á Egil Helgason. Í sorapottinum sem athugasemdakerfi blogg-síðu Egils er er vitaskuld allt farið á fullt. Einn vinstrimaðurinn þar hittir naglann á höfuðið: "Það er bara svo erfitt fyrir ákveðna klíku hægri manna að fá ekki að stjórna umræðunni að þeir hamast og hamast á öllum sem hafa ekki sömu heimssýnina og þeir sjálfir ..." eða með öðrum orðum: Vinstrimenn stjórna umræðunni og umræðuþáttum t.d. á RÚV (Silfur Egils, Spegillinn), þrátt fyrir lög RÚV um hlutleysi og yfirlýst hlutleysi helstu álitsgjafa, og það fer í taugarnar á þeim sem eru neyddir til að greiða fyrir áróðurinn en fá ekki að leggja orð í belg.

Vonandi endar pressan á Agli Helgasyni á uppsögn Egils Helgasonar. 


Samsæriskenningar úr Stjórnarráðinu

Samsæriskenningar krydda tilveruna. Íslendingar eru sérstaklega duglegir við að semja slíkar kenningar, og alveg sérstaklega sérstaklega duglegir að blanda Sjálfstæðisflokknum í þær einhvern veginn (hver sem ástæðan fyrir því nú er).

Ég hef heyrt nokkrar kenningar um atburði líðandi stundar, sumar með og sumar án heimilda:

Ein kenning sem ég hef heyrt er sú að ástæða þess að Bjarni Ben., formaður Sjálfstæðisflokksins, gengur nú Icesave-máli Samfylkingar á hönd sé sú að þannig megi greiða fyrir stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Samfylkingin vill losna við VG úr stjórnarsamstarfi og sjálfstæðismenn eru auðmjúkir og forystulausir kjölturakkar sem gera hvað sem er til að komast til valda, eins og raunar allir flokkar.

Öllu langsóttari samsæriskenning segir að Icesave-samþykki Bjarna Ben. sé að koma í skiptum fyrir "friðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu" því þar hafi Bjarni persónulega mikinn hag af því að kerfið haldist óbreytt. 

Ástæða þess að Samfylkingin vill keyra Icesave-frumvarp í gegnum Alþingi er sú að það greiðir fyrir aðlögun og innlimun Íslands inn í ESB. Í Brussel fylgjast menn með því hversu auðmjúkir Íslendingar eru þegar stórveldi eins og Bretland krefjast einhvers. Sennilega eru menn í Brussel að fá forsmekkinn að því hvernig á að semja við Ísland í makríldeilunni, og hversu þægir Íslendingar verða þegar ESB-lög um sameiginlega fiskveiðistjórnun renna yfir hafsvæðið í kringum Ísland. 

En hvers vegna að greiða fyrir aðlögun Íslands að ESB? Fyrir því hafa yfirherrar okkar í stjórnarráðinu góðar ástæður. Brussel býður þægum og iðnum stjórnmála- og embættismönnum víðsvegar að mjög gjarnan að koma inn í hlýjuna og þiggja stöður með stórum titlum, litlu vinnuálagi og veglegum lífeyrisréttindum. Jóhanna Sigurðardóttir er sennilega á höttunum eftir einhverju slíku, ef ekki fyrir sjálfa sig þá fyrir skjólstæðinga sína í Samfylkingunni. Steingrímur J. hlýtur líka að hafa séð ljósið í þessum efnum, enda maðurinn duglegur að taka við fé skattgreiðenda þótt hann fordæmi slíkt í orði.

Orðið "sérhagsmunagæsla" er ekki vel liðið. Það gleymist samt stundum að við höfum öll hagsmuni, og að við reynum öll að standa vörð um þá. Stjórnmálastéttin reynir að styrkja stöðu sína og völd og sópar að sér öllu sem hún getur á meðan hún getur. Kvótaeigendur vilja skiljanlega ekki gefa rándýra og verðmæta eign frá sér baráttulaust. Svona er þetta bara. Samsæriskenningar eru oft skemmtilegar en það er óþarfi að setja sig á háan hest gagnvart þeim.


Hugmynd: Hittast á kaffihúsi

Ég er með hugmynd sem leysir öll ágreiningsmál varðandi stjórnlagaþingið. Hún er sú að þessir 25 einstaklingar sem voru kosnir til stjórnlagaþings hittist reglulega, t.d. á kaffihúsi, og komi sér saman um breytingar á stjórnarskránni. Tillögur hópsins verði skrifaðar niður og færðar forsætisráðherra (eða einhverjum þingmanni). Forsætisráðherra getur svo lagt þær fram á Alþingi og Alþingi síðan tekið afstöðu til þeirra, eins og stjórnarskráin mælir fyrir um.

Það skiptir nefnilega engu máli hvað hver segir um stjórnarskránna - henni verður ekki breytt nema á Alþingi skv. eftirfarandi forskrift:

79. gr. Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki [Alþingi] ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.

 

Ef einhverjum þingmanni þykir áríðandi að skoðanir ákveðins 25 manna hóps njóti áheyrnar umfram aðra, þá á viðkomandi þingmaður bara að biðja þessa 25 einstaklinga um að setjast niður og koma sér saman um breytingatillögur. Menn geta svo kallað það "stjórnlagaþing" eða "kaffihúsahitting" eða hvað menn vilja. Skattgreiðendur spara stórfé og allir sem vilja "virða" stjórnlagaþingið geta þá gert það í eigin frítíma. 


mbl.is Formlega farið fram á endurupptöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarti markaðurinn sýnir klærnar

Þjófarnir höfðu 150 karton af sígarettum og eitthvað af smámynt upp úr krafsinu.

Fréttir af þessu tagi eru að verða sífellt algengari. Ég skrifaði nokkur orð um keimlíka frétt fyrir nokkrum vikum og endurtek nokkur þeirra núna:

Fáránlega háar opinberar álögur á tóbak hafa ýtt mörgum tonnum af íslenskri sígarettusölu út á hinn svarta markað. Sígarettum er smyglað til landsins í stórum stíl, en líka stolið úr löglegum verslunum og seldar til venjulegs fólks á mun lægra verði en gengur og gerist. 

...

Venjulegt fólk finnur sig í auknum mæli knúið til að skipta við lögbrjóta til að verða sér úti um neysluvarning, t.d. tóbak og áfengi en einnig ýmislegt annað (kjöt, fatnaður og svona má lengi telja).

Vítahringurinn sem yfirvöld eru í er vel þekktur í sögubókunum. Fyrst er eitthvað skattlagt upp í rjáfur, síðan tekur svarti markaðurinn við, venjulegt fólk byrjar í auknum mæli að versla við glæpamenn og gera sjálft sig að lögbrjótum í leiðinni, yfirvöld herða refsingar og stinga sífellt fleirum í steininn, og svona vindur þetta upp á sig þar til menn sjá að fangelsi eru yfirfull af venjulegu fólki sem engu ofbeldi hefur beitt og var einfaldlega að reyna bjarga sér í umhverfi vaxandi ríkisvalds og óhóflegrar álagningar.

Þetta byrjar á "syndsamlegum" varningi eins og tóbaki og áfengi, en breiðir sig smátt og smátt (eða hratt og örugglega) út til matvæla, fatnaðar og allskyns annars varnings, svo ekki sé talað um þjónustu sem nú þegar er veitt í ríkulegum mæli "undir borðið" (utan skattkerfisins).

Eina leiðin út úr þessum vítahring er sú að vinda ofan á fjárþorsta ríkisvaldsins með því að minnka það niður í mýflugumynd af núverandi stærð. 


mbl.is Stálu 150 sígarettukartonum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarnargreiði

bjarnargreiða gera e-ð í greiðaskyni við e-n en það verður honum þó til skaða (snara.is)

ESB réttir nú fram hjálparhönd og býður fram sérfræðinga sína til að aðstoða Íslendinga við að aflétta gjaldeyrishöftunum. Þetta er bjarnargreiði.

ESB gerir ekki neinn fyrir neinn sem er ekki tilbúinn að renna undir miðstjórnarvaldið í Brussel. ESB getur ekki einu sinni aflétt innflutningstollum á afrískum hnetum án þess að vefja afríska hnetuframleiðslu inn í evrópska "umhverfisverndar"löggjöf og halda þannig hnetunum víðsfjarri öllum búðarborðum.

Auðvitað er gríðarlega mikilvægt að aflétta gjaldeyrishöftunum. Það verður hins vegar ekki gert með aðstoð ESB nema því fylgi eitthvað í kaupbæti. 

Leiðinni úr úr vandanum er lýst hérna, ef einhver hefur áhuga. Þó er hætt við að henni verði ekki vel tekið af þeim sem þrá mest af öllu að standa ljósabekkjabrúnir í ræðupúlti með bláum bakgrunni í Brussel og horfa brosandi á alla blaðaljósmyndarana. 


mbl.is ESB býður aðstoð við að aflétta gjaldeyrishöftum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar vilja minnka landhelgi Íslands í 12 mílur

Bretar hafa nú sent ríkisstjórninni bréf þar sem Íslendingar eru vinsamlegast beðnir um að minnka landhelgi sína niður í 12 mílur á ný. Verði Íslendingar ekki við þessu muni Bretar stöðva allar lánafyrirgreiðslur Evrópusambandsins og stofnana þess til Íslands og íslenskra fyrirtækja. Landsvirkjun fái ekki lán til framkvæmda frá fjárfestingarbanka Evrópusambandsins. "Lánalínur" Íslands í sjóði Evrópusambandsins lokast. Aðlögunarferli Íslands að ESB verði sett í uppnám.

Bretar ræða í bréfi sínu samræmi kröfu sinnar við ýmsa löggjöf, breska, íslenska og alþjóðlega, og segja að vissulega sé lagalegur grunnur kröfunnar veikur, en að það hafi sýnt sig að kröfur á slíkum grunni valda því ekki að neinn fari fyrir dómstóla. Miklu nær sé að leggja fram gríðarlega ósanngjarnar kröfur í þrígang og fá þá þriðju útgáfu samþykkta, enda virðist hún miklu hófsamari en fyrstu tvær útgáfur hennar.

Nú er að bíða og sjá hvort Alþingi setji ekki saman lög fljótlega sem gera kröfur Breta að lögum. Samfylkingn mun styðja slík lög til að ógna ekki ESB-aðlögunarferlinu. VG mun styðja slík lög til að ógna ekki stjórnarsamstarfinu og þar með eigin valdastöðu. Sjálfstæðismenn munu styðja slík lög til að mýkja ímynd sína sem "harðlínumanna" og krækja þannig í atkvæði á miðjunni. 

Viðbót/leiðrétting (6/2 2011): Landhelgin er 12 mílur og hefur verið frá 1958. Hins vegar er fiskveiðilögsagan og efnhagslögsagan 200 mílur og hefur verið það frá árinu 1976. Ég vona samt að "punkturinn" sé skýr


mbl.is Lófaklapp í lok ræðu Bjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sósíalismi andskotans

Þetta voru einkabankar og ég er þeirrar skoðunar, að inntak kapítalisma sé að ef einkastofnanir falli þá eigi að leyfa þeim það.

Ég er sömu skoðunar og Ólafur Ragnar Grímsson. Kapítalismi snýst um að hafa frelsi til að græða og frelsi til að tapa án þess að gróðinn sé gerður upptækur eða tapið þjóðnýtt. Frelsi og ábyrgð þarf að haldast í hendur. Frelsi án ábyrgðar er ekki kapítalismi, heldur sósíalismi, þar sem stjórnmálamenn hafa frjálsar hendur til að skipta sér af öllu en þurfa aldrei að éta afleiðingarnar af slæmum ákvörðunum. Sjá einnig: Sósíalismi andskotans (stefnu ríkisstjórnarinnar í nánast öllu).

Það er ánægjulegt að fylgjast með Ólafi Ragnari halda uppi málstað Íslands í útlöndum. Alþingismenn okkar eru svo sannarlega ekki að gera það. Menn úr viðskiptalífinu eru jafnvel að tala Ísland niður og telja sjálfsagt að það gagnist fyrirtækjum sínum. En Ólafur Ragnar er að standa sig vel. Vonandi tekur hann stuðning sinn við Ísland alla leið með því að hafna Icesave III, sem í eðli og inntaki er nákvæmlega sama eiturpillan og Icesave II, en á annarri vaxtaprósentu (stigsmunur, ekki eðlismunur). 

Ef Icesave II voru blóðugar barsmíðar á íslenskum skattgreiðendum, sem ber að hafna, þá er Icesave III rotandi höfuðhögg, sem ber einnig að hafna. 


mbl.is Leyfðum bönkunum að falla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband