Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Af hverju birtir Morgunblaðið svona lagað?

Ég bara spyr.

Femínistafélag Íslands vill hafa afskipti af líkömum kvenna og stjórna því hvað hver gerir við líkama sinn, annað hvort á eigin vegum eða í samvinnu við aðra. Það er ekkert nýtt. Hér er því engin "frétt" á ferðinni. 


mbl.is Leggst gegn staðgöngumæðrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki vegna Icesave, heldur þrátt fyrir Icesave

Bandarískir fjárfestar ætla að byggja verksmiðju á Íslandi. Menn hafa reynt að tengja tímasetningu samningsundirritunar við Icesave-álög Alþingis, en ættu að hafa varann á. Þessi verksmiðja rís þrátt fyrir Icesave-álögin, en ekki vegna þeirra.

Samningurinn virðist líka vera góður fyrir hinn erlenda fjárfesti. Úr fréttatilkynningu hans:

We executed a contract for 66 megawatts of competitively priced, fixed cost power for 18 years. 

Hérna virðist hinn erlendi fjárfestir hafa tryggt sér raforku á föstu verði til 18 ára. Geri aðrir betur!

Mörg svona verkefni væru komin á fulla ferð (í fjarveru Icesave-álaganna) ef ekki værir fyrir aukið skrifræði og skattalegt óhagræði í tíð núverandi ríkisstjórnar. Ég er raunar undrandi á því hvernig þetta verkefni "slapp" í gegnum nálarauga umhverfisráðherra. Var hægt að sýna fram á að ekkert þyrfti að virkja til að knýja þessa verksmiðju? Er enginn mosi að fara undir malbik? 

Hvað sem því líður þá er þetta gott mál allt saman. 


mbl.is Samningar um kísilverksmiðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitamælir í sýrubaði?

Mönnum er alveg óhætt að vantreysta hverju orði sem kemur frá "nútímalegum" seðlabönkum, eins og þeim í Bandaríkjunum. Þar stinga menn hitamæli í sýrubað og komast að því að sýrustigið sé ásættanlegt. Menn "mæla" verðbólgu með því að skoða breytingar á verðlagi, í stað þess að telja fjölda nýprentaðra peninga í seðlaprentunarverksmiðjum ríkisins (sem í dag eru bara tölva og lyklaborð). Verðhækkanir eru afleiðing verðbólgu (e. inflation), en ekki öfugt.

Ég hef sjaldan séð Peter Schiff í jafnmiklum ham og þegar hann ræðir nýjustu frasa-ræðu Obama. Mæli með myndbandabloggi hans og menn gerist áskrifendur að því. Hérna er það nýjasta (þegar þetta er skrifað):

Til að gera langa sögu stutta: Hagkerfi Bandaríkjanna er á hraðri niðurleið og verður að rjúkandi brunarústum ef núverandi hagstjórn þar í landi verður haldið til streitu. Ef þú átt bandaríska dollara, þá skaltu reyna að skipta þeim í eitthvað annað sem fyrst, t.d. í sígarettur eða klósettpappír eða eitthvað sem þú veist að þú getur selt seinna þegar þig vantar kaupgetu. 


mbl.is Búist við meiri hagvexti í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleymdar heitstrengingar um þjóðaratkvæðagreiðslur

Kosningaáherslur VG samþykktar á landsfundi í mars 2009
Aukið lýðræði – vegur til framtíðar.
Lýðræðisumbætur

Tryggjum að tiltekinn hluti þjóðarinnar (t.d. 20%) geti með undirskrift sinni átt frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslum um öll stórmál eða krafist þingrofs og nýrra kosninga.

Kosningastefna Borgarahreyfingarinnar 2009
Þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um mál sem varða þjóðarhag óski 7% þjóðarinnar þess. Sama skal gilda um þingrof.

Stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar 2009
Nauðsynlegt er að breyta stjórnarskrá til að tryggja þjóðareign á sameiginlegum auðlindum, rétt almennings til þjóðaratkvæðagreiðslna og gera kleift að breyta stjórnarskrá með samþykki þings og þjóðar, án þingkosninga.

Lýðræði og jafnrétti - stjórnkerfisumbætur
Umbætur á stjórnkerfi og ný stjórnarskrá
•Þjóðaratkvæðagreiðslur.
•Milliliðalaust lýðræði verði aukið verulega á kostnað fulltrúalýðræðisins.
•Tiltekinn hlutfallsfjöldi þjóðarinnar getur kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.
•Minnihluti þingmanna, t.d. 30 % þingmanna, getur kallað eftir þjóðaratkvæði um samþykkt lög áður en forseti hefur staðfest þau.
•Reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins 2009
Lýðræði og réttlæti fyrir okkur öll
Við viljum að heimildir til þjóðaratkvæðagreiðslu verði auknar og oftar leitað beint til þjóðarinnar.

Úr landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins árið 2009: Ályktun um réttarfars- og stjórnskipunarmál
Landsfundur telur að setja skuli almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og þær lágmarkskröfur sem gera á um stuðning við mál á Alþingi og við þjóðaratkvæðagreiðslu. 

(Heimild.)

Um 20.000 undirskriftir komnar þegar þetta er skrifað. Það er um 8,4% Íslendinga 18 ára og eldri. Hvað er "nóg"?


mbl.is Styður ekki þjóðaratkvæði um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímamót: Ísland lýsir sig gjaldþrota

Þannig fóru 20% af heildartekjum ríkissjóðs Argentínu í vaxtagjöld árið 2001 en árið eftir varð þarlendur ríkissjóður gjaldþrota. Í dag má áætla að um 22% af heildartekjum ríkissjóðs Íslands fari í vaxtagjöld. (Ólafur Margeirsson, pressan.is)

Einnig:

Ef Icesave er hins vegar samþykkt get ég nánast fullyrt að þá verður ríkissjóður gjaldþrota. Að ríkissjóður ynni sig út úr slíku skuldafeni án „endurskipulags“ á útistandandi skuldbindingum væri einsdæmi í fjármálasögunni. (Ólafur Margeirsson, pressan.is)

Margir hafa hneykslast á því í seinni tíð hvað Íslendingar litu stórt á sig á "útrásar"tímunum. Íslenskir bankamenn töldu sig hafa fundið nýjar leiðir til að hagnast á bankastarfsemi. "Víkingarnir" frá Íslandi voru að sigra heiminn. Menn tóku mikla áhættu og græddu vel, og engin ástæða til að halda að það færi illa (t.d. með þjóðnýtingu á öllum skuldum þeirra).

Núna er sama viðhorf í gangi. Íslendingar þykjast geta greitt yfir 20% af tekjum sínum í vexti. Þá eru allar afborganir eftir. Nú þegar er ríkissjóður Íslands á barmi gjaldþrots, ef marka má sögu annarra hagkerfa. Samt ætla menn að taka meira á sig. "Útrásarvíkingurinn" er hættur að stunda bankaviðskipti og byrjaður að stunda eyðslu á erlendu lánsfé. "Útrásarvíkingurinn" er hættur að gorta sig af því hvað hann er ríkur og hefur það gott, og byrjaður að stæra sig af stærð skuldasúpunnar sem hann syndir í. 

Eða eins og einn moggabloggarinn orðar það: "Steingrímur eys fé í gjörspillt fjármálafyrirtæki og lygasöngurinn frá öðrum fjármálastofnunum minnir nú mjög á ,,greiningadeildir" bankanna hér fyrrum."

Bankarnir bíta ekki hendina sem fóðrar þá. Ríkisstjórn sem tekur fé frá almenningi og færir bönkunum getur alltaf reiknað með stuðningi bankanna. 


mbl.is Segir samþykkt Icesave muni marka tímamót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kornið sem fyllir mælinn?

Rök hafa verið leidd að því að ef Icesave-klafinn verður lagður á íslenska skattgreiðendur, þá geti það orðið til þess að ríkissjóður verði að lýsa sig gjaldþrota, og þá fyrst hefjist efnahagsvandræði á Íslandi!

Þannig fóru 20% af heildartekjum ríkissjóðs Argentínu í vaxtagjöld árið 2001 en árið eftir varð þarlendur ríkissjóður gjaldþrota. Í dag má áætla að um 22% af heildartekjum ríkissjóðs Íslands fari í vaxtagjöld [án Icesave].

Einnig:

Það veit enginn maður hvað Icesave mun í endann kosta fyrir ríkissjóð. Bjartsýnt mat (óhóflega bjartsýnt ef ég er spurður) GAM Management er 26ma.kr. Svartsýna matið er 233ma.kr. Ríkissjóður getur nú þegar varla borið kostnað upp á 26ma.kr.; skuldastaða ríkissjóðs má ekki versna öllu meir af þeirri einföldu ástæðu að hann ræður ekki við það!

Þingmenn hafa látið sannfæra sig um að Íslendingar "ráði við" Icesave og gert það að kjarna málsins. Það á samt ekki að vera kjarni málsins. 

Grundvallarspurningin er ekki hvernig og á hvaða kjörum eigi að greiða kröfur Breta og Hollendinga, heldur hvort. Þeirri grundvallarspurningu er enn ósvarað. Ungir sjálfstæðismenn hafa frá upphafi hafnað að þeirra kynslóð, og kynslóð barna þeirra, verði bundin á skuldaklafa Icesave án þess að réttmætur grundvöllur sé til þess og að þær séu undirseldar mikilli áhættu um endanlega fjárhæð þeirra skulda. (sus.is)

Mikið hefur verið rætt um vaxtakröfu Breta og Hollendinga vegna Icesave-kröfu þeirra. Vextirnir í Icesave III eiga að vera "ásættanlegir" að mati stuðningsmanna Breta og Hollendinga á Íslandi. En hvað með vextina af þeim erlendu gjaldeyrislánum sem Íslendingar þurfa að taka til að greiða fyrir Icesave-gíróseðlana? Eru þeir svona frábærir?

Þessi 26 milljarðar í erlendum gjaldeyri sem Íslendingar eiga að láta af hendi við Breta og Hollendinga á þessu ári eru að sjálfsögðu ekki til í ríkissjóði enda ríkissjóður rekinn með skelfilegum halla þessi misserin. Ríkissjóður þarf því væntanlega að eyða þessum 26 milljörðum af því lánsfé sem hann hefur fengið í gegnum Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Hvaða vaxtakjör eru aftur á þeim lánum? Eru það ekki svipuð kjör og voru á fyrri Icesave-samningum og öllum þykja nú aldeilis fráleit? (andriki.is)

Íslenska ríkið þarf að fá sér kreditkort til að borga vaxtaberandi "skuld" (sem er engin skuld, heldur fjárkúgun sem Íslendingar ætla að kyngja). Slíkt verður seint talið til fyrirmyndar. Ég veit a.m.k. að pabbi minn mundi skamma mig vel og lengi ef ég hagaði fjármálum mínum með þeim hætti að ég notaði kreditkortið til að borga yfirdráttinn.

En Alþingismenn ætla samt að láta vaða ... 


mbl.is Þingnefndir ræða Icesave í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

'Eistneska' leiðin: Tiltekt

Ríkisstjórnir heimsins brugðust mismunandi við fjármálakreppunni. Sumar hófu seðlaprentun og gríðarlega skuldasöfnun til að "drekka sig" út úr timburmönnunum, og stefna núna hratt í aðra timburmenn. Aðrar fóru í blöndu af aðhaldsaðgerðum og skuldsetningu (t.d. Danir og Svíar). Enn færri fóru hina réttu leið: Afvötnun. Eistar gerðu það.

Timburmenn koma óumflýjanlega eftir mikla drykkju. Hið sama á við um neyslu á ódýru og nýprentuðu lánsfé. Eftir "punktur com" bóluna árið 2000 ákváðu flestar ríkisstjórnir að fylgja fordæmi Bandaríkjanna og prenta sig og skuldsetja út úr timburmönnunum. Þeim var frestað til ársins 2008. Bandaríkjamenn reyna núna aftur að prenta sig og skuldsetja út úr timburmönnunum. Kannski tekst það tímabundið, en meira verður það ekki. 

Íslendingar hafa farið að fordæmi Bandaríkjamanna og forðast allar afvötnunaraðgerðir eins og logandi helvíti. Íslendingar eiga því sinn skell eftir. Núverandi ástand er hátíð miðað við það sem koma skal.

Eistar fóru í strangar aðhaldsaðgerðir. Hvatinn þeirra var upptaka evru, en gæti alveg eins hafa verið skynsemi í hagstjórn. Eistneska ríkið skuldar nánast ekkert (innan við 10% af landsframleiðslu ef ég man rétt), þar er ekki halli á fjárlögum ríkisins og ég veit ekki til þess að ríkisvaldið þar hafi farið í skattpíningarherferð eins og stjórnvöld á Íslandi.

Tiltektin í Eistlandi kostaði sitt í tímabundnum sársauka. Atvinnuleysi rauk upp og gjaldþrota fyrirtæki fóru á hausinn (á Íslandi eru þau þjóðnýtt og sett á spena skattgreiðenda, ef þau eru rétt tengd). 

Núna lítur út fyrir að kreppan sé að skolast af Eistlandi og að aðstæður séu að myndast fyrir sjálfbæran hagvöxt (byggðan á verðmætasköpun en ekki neyslu og eyðslu á lánsfé, eins og bandaríski "hagvöxturinn"). 

Íslendingar eiga ennþá inni sína kreppu. 


mbl.is Atvinnuleysi minnkar í Eistlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísbendingar um afstöðu forsetans

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ætlar að samþykkja Icesave-klafa ríkisstjórnarinnar (og hækjuflokks hennar, Sjálfstæðisflokksins). Þetta gaf Ólafur til kynna í viðtali í Silfri Egils. Hann kallaði fyrri Icesave-samninga "ósanngjarna" og gaf til kynna að Icesave III væri það ekki. Hann talaði um að Bretar og Hollendingar hefðu vikið frá grundvallarkröfum fyrri samninga, þótt svo sé ekki. Hann talaði um að ætla ekki að skipta sér af vinnu Alþingis við Icesave-frumvarpið. Hann sagði nánast berum orðum að ef Alþingismenn ná að sannfæra almenning ("þjóðina") um Icesave-vitleysuna, þá ætlar hann að hleypa henni í gegn.

Ólafur mun því hleypa þessu máli í gegn. 


mbl.is Sex þúsund manns gegn Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankar í faðmi öryggisnets

"Nútímalegt" bankakerfi, eins og það á Íslandi, er afsprengi tiltölulegra nýlegrar hugsunar í peningamálum. Hugsunin er þessi: Ríkið einokar peningaútgáfu. Peningar eru ekki "bakkaðir" af neinu (t.d. gulli eða silfri), þeir eru bara loforð ríkisins um að allir taki við þeim. Ríkið rekur seðlabanka til að sjá um peningaframleiðslu. Þessi seðlabanki sér um að ákveðinn "teygjanleiki" sé í peningakerfinu til að bankar geti aukið hagnað sinn, boðið upp á innlánsvexti og lánað miklu meira út en þeir fá inn í formi sparifjár. Seðlabankinn sé "lánveitandi til þrautavara" og geti alltaf prentað pening til að lagfæra bókhald banka, ef og þegar þeir lenda í vandræðum. Ríkið "tryggi innistæður" almennings með sama hætti (peningaprentun).

Hver er niðurstaðan? 100 ára rússíbanareið vestrænna hagkerfa, þar sem öfgafullar uppsveiflur enda á öfgafullum niðursveiflum - niðursveiflum sem er samt aldrei leyft að klárast því peningaprentvélarnar eru komnar á fullt um leið og þeirra gerist vart, og ný öfgafull uppsveifla knúin af öllum mætti af stað.

"En þarf ekki að vera seðlabanki?" spyr þá einhver. Nei, alls ekki. Peningar hafa verið til í mörg þúsund ár. Seðlabankar eru nýleg uppfinning. 

"En af hverju er þá seðlabanki? spyr þá einhver. Ástæðan er upprunalega sú að bönkunum sjálfum fannst þeir of "bundnir" við góðmálma sem komu í veg fyrir of mikla peningaprentun og takmörkuðu þar með möguleika bankanna til að auka hagnað sinn með því að lána meira út á vaxtaberandi lánum en bankarnir tóku inn af sparifé. Fyrst kom bankastéttin á kerfi að sínu skapi. Seinna mættu hagfræðingar á svæðið og gáfu þessari svikamyllu fræðilegan búning, sem er sá sem hagfræðinemum er kenndur í dag. 

Bankakerfið er ákaflega sátt við núverandi fyrirkomulag. Kerfið býður upp á mikla áhættusækni og stórar stöðutökur. Ef það skilar hagnaði þá má stinga honum í vasann. Ef allt tapast er hægt að senda reikninginn á skattgreiðendur.

Hið blandaða hagkerfi er hrunið. Baráttan fyrir aðskilnaði ríkis og hagkerfis er hafin en þarf að ná meiri þunga. Á meðan núverandi kerfi er við líði munum við aldrei losna við öfgasveiflur í hagkerfinu. 


mbl.is Munar allt að 53 milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Íslendingar þorðu

Sú var tíð þegar íslenskir ráðamenn gátu tekið sjálfstæðar ákvarðanir um málefni og höfðu þor til að fylgja þeim eftir. Sjálfstæðisbaráttan við Dani og þorskastríðin við Breta eru sennilega stærstu sigrar íslenskrar stjórnmálastéttar. Icesave-málið stefnir í að verða stærsta tapið, a.m.k. þar til ESB-aðlögun er komin á endastöð.

Össur Skarphéðinsson lætur nú ljósmyndara taka myndir af sér við skjöl sem minnir á ákvörðun sem Íslendingar tóku án þess að óttast álit annarra. Íslenskir ráðamenn skoðuðu málið og komust að þeirri niðurstöðu að sjálfstæði Litháa ætti að viðurkenna. Skítt með álit annarra þjóða. Sjálfstæðið var viðurkennt.  Rússar fóru í fýlu við okkur. Á endanum náðist samt sátt enda um réttlætismál að ræða. 

Minningarskjöldurinn í Vilníus minnir á tíma þegar íslenskir ráðamenn þorðu. Þeir tímar eru nú fjarlæg fortíð. Össur er holdgervingur þeirra sem beygja sig og bugta þegar "útlendingar" ráðleggja okkur að gera það.


mbl.is Afhjúpaði minningarskjöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband