Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Góð gjöf eða skuldafangelsi?

Fjármálaráðherra vill "klára" Icesave-málið. Hann leit ekki á höfnun Icesave-samnings #2 í þjóðaratkvæðagreiðslu sem afgreiðslu málsins. Nei. Hann stakk þeirri atkvæðagreiðslu í skúffuna og lét eins og hún væri ekki til. Hann tók upp þráðinn aftur.

Ríkisstjórnin hefur það pólitíska markmið að beygja sig og bugta fyrir Hollendingum og Bretum því þeir sitja við hinn enda "samningsborðsins" í innlimunarviðræðum Íslands og ESB. Ríkisstjórnin mun því hunsa bæði þjóð og lögfræðinga og keyra á Icesave þar til þjóðin brotnar niður og tekur á sig háar greiðslur sem koma henni ekkert við.

En hver er hvati stjórnarandstöðunnar? Af hverju talar formaður Sjálfstæðisflokksins um "viðsemjendur"? Ef innbrotsþjófur brýst inn á heimili Bjarna, og Bjarni þorir ekki í slag við hann vegna líkamsstyrks og hótunarorða þjófsins, er Bjarni þá kominn í "samningsviðræðu" til að reyna lágmarka eignatjón sitt? 

Íslensk yfirvöld þora ekki að taka slaginn við Breta og Hollendinga. En að Bretar og Hollendingar séu "viðsemjendur" er rangnefni. 


mbl.is Góð gjöf að sameinast um málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirbúningur óþarfur: Frumvarpinu ber að hafna

Þingmenn mega vitaskuld gagnrýna frumvörp sem eru lögð fyrir þannig að ekki sé hægt að undirbúa umræðu fyrir þau. Það er skiljanleg gagnrýni.

Sem betur fer er samt engin ástæða til að undirbúa sig mjög mikið undir Icesave-frumvörp af neinu tagi. Þeim ber öllum að hafna, og óþarfi að eyða of miklu púðri í að ræða þau fram og til baka. 


mbl.is Icesave frumvarpið lagt fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldsett neysla

Dagur B. Eggertsson lofaði fyrir kosningar að hækka skatta og auka skuldir. Hann stendur við það loforð. Að hann tali eins og hann hafi nokkurn tímann hugleitt aðrar leiðir, t.d. lækka útgjöld borgarinnar, er allt að því lygi. 

"Samfylkingin telur skynsamlegt að taka lán til að halda uppi framkvæmdastigi í kreppunni ..." sagði Dagur í kosningabaráttunni.

"Besti flokkurinn" afhjúpaði sig snemma sem dæmigerður vinstriflokkur sem safnar skuldum, hækkar skatta og kennir fráfarandi stjórnvöldum um. Ekkert frumlegt, nýtt eða ferskt við það. Bara dæmigerð vinstristjórn eins og í langflestum öðrum sveitarstjórnum á Íslandi, og auðvitað á Alþingi.

Borgarstjórn hækkar nú alla skatta og öll gjöld og þvingar þar með fleiri og fleiri borgarbúa á betlandi hnéskeljarnar við dyr ráðhússins. Þar verður þeim réttur matarskammtur og einhver fjárhags"aðstoð" til að brúa bil tekna, skattpyntingar, útgjalda og innkaupa á lífsnauðsynjum. Þetta finnst stjórnmálamönnum vera gott ástand. Þannig búa stjórnmálamenn til góða kjósendur.


mbl.is 6,5 milljörðum varið til fjárfestinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin brennir lánsfé

Morgunblaðið tekur vægt á ríkisstjórninni með hófstilltri fyrirsögn, "Útgjöld hækka um 9 milljarða". Raunin er sú að skuldasöfnun ríkissjóðs vex um 9 milljarða frá fyrri skuldasöfnun. Þetta eru skuldir sem bera vexti. Fyrstu gjalddögum á afborgunum hefur verið frestað fram yfir næstu kosningar eins mikið og hægt er. Þetta gerir ríkisstjórninni kleift að ausa út lánsfé og þagga niður í óánægjuröddum, og velta skuldavandanum yfir á herðar næstu ríkisstjórnar. Núverandi ríkisstjórn veit að hún fær flengingu í næstu kosningum og þarf því ekki að hafa áhyggjur af eigin skuldasöfnun.

Hegðun þingmanna minnir töluvert á hegðun eyðslufíkilsins sem byggir upp dýran lífsstíl á meðan öll kreditkort eru opin, og neitar að skera niður þegar lánalínur lokast. Ríkið stendur í allskyns óþarfa sem er börnin okkar þurfa að greiða vexti af þegar þau fara á vinnumarkaðinn eftir 10, 20 og 30 ár. Þennan óþarfa þarf að leggja niður eða selja út úr ríkisrekstrinum og af herðum skattgreiðenda. SUS hefur bent á þetta í sínum niðurskurðartillögum (sem bera hið skemmtilega heiti "klippum kortið"). 

Þeir sem streitast á móti því að ríkið minnki útgjöld sín í takt við tekjur (án skattahækkana) eru veruleikafirrtir, svo vægt sé til orða tekið. 


mbl.is Útgjöld hækka um 9 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefst stjórnarandstaðan upp núna?

Hvað er það versta við hina nýju Icesave-"samninga"?

Of háir vextir? Of stuttur greiðslutími? Of háar kröfur á hinn íslenska ríkissjóð?

Nei, ekkert af þessu.

En er það af því íslenska ríkið "viðurkennir" nú að kröfur Breta og Hollendinga eigi rétt á sér? Nei. Það hafði ríkisstjórnin áður viðurkennt, tvisvar. Hún hefur ekkert lært, hvorki af þjóðaratkvæðagreiðslunni í mars né lagarökum sem hafa komið fram. 

Það versta við hinn þriðja Icesave-"samning" er að núna er raunveruleg hætta á því að andstaðan við þessari geirvörtugælur á Evrópusambandinu sé búin með allt púðrið. Það tók mikið þrek að safna tugum þúsunda undirskrifta á sínum tíma, sem á endanum sannfærðu hverfulan forsetann um að skrifa ekki undir. Stjórnarandstaðan hafði í raun gefist upp áður með því að skila auðu. Þriðja atlaga ríkisstjórnarinnar að íslenskum skattgreiðendum kemur líka á tímum jóla og hátíðarhalda og því hætt við að menn hafi ekki tíma eða þrek til að berjast við hálaunaða embættismenn sem hafa ekkert betra að gera en að hlaupa þegar Jóhanna Sigurðardóttir biður um hlaup.

Tekst Jóhönnu núna að skuldbinda Íslendinga marga áratugi fram í tímann til að mýkja vini sína á skrifstofum Evrópusambandsins? Líklega.


mbl.is Icesave-samningarnir á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð (og þörf) upprifjun

Morgunblaðið á hrós skilið fyrir upprifjun sína á ummælum yfirherra okkar í Stjórnarráðinu. Það er eins og ríkisstjórnin treysti á aðhaldsleysi fjölmiðla og gleymsku almennings til að hengja Icesave-ánauðina á háls íslenskra skattgreiðenda. Sem betur fer stendur Morgunblaðið vaktina, nánast einn fjölmiðla.

Nú er að vona að þriðja atlaga ríkisstjórnarinnar að skattgreiðendum mistakist eins og hinar tvær. Til þess þarf því miður að treysta á veika stjórnarandstöðu og duttlungafullan forseta, en vonandi heldur vörnin. Icesave-ánauðin er nefnilega ekki á herðum skattgreiðenda nema stjórnmálamönnum takist að koma henni þangað. 


mbl.is Fréttaskýring: Landið tekið að rísa þrátt fyrir Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Plástur á blæðandi svöðusár

Þá tókst loksins að knésetja lífeyrissjóðina sýnist mér.

Menn semja sín á milli um almenna "niðurfærslu" skulda og deila um það eitt hvort skattgreiðendur eða lífeyrissjóðirnir eigi að taka skellinn, nema hvort tveggja sé.

Niðurfærslan færir skuldir á eignum niður í 110% af "markaðsvirði" þeirra (sem er haldið uppi með því að "geyma" hundruð fasteigna á bókum banka og Íbúðarlánasjóðs í stað þess að setja þær á sölu og leyfa verði á húsnæði að falla niður í raunverulegt markaðsvirði þeirra).

Hugmynd

Hvað gerist eftir eitt ár, þegar verðbólgan er búin að þenja skuldirnar upp um 3% í viðbót? Eða 10%? Hvað gerist þegar gjaldeyrishöftunum er loksins sleppt og krónan tekur dýfu um nokkra tugi prósenta með tilheyrandi áhrifum á verðtryggð lán?

Þá erum við komin á byrjunarreit aftur.

Enginn virðist vera ræða hugmynd, sem var lýst í Morgunblaðsgrein 7. október 2010 og einn útvarpsmaður sagði að "væri svo full af heilbrigðri skynsemi að það hálfa væri nóg" (hlusta á mp3-skrá hér frá 13. október 2010 og sjá mynd). Hvers vegna ekki? Er sú hugmynd of laus við afskipti stjórnmálamanna til að njóta áheyrnar?

Plástur á blæðandi svöðusár felur e.t.v. blæðinguna á meðan fjölmiðlamenn eru á svæðinu með myndavélar sínar, en læknar ekkert og sjúklingurinn er ennþá í lífshættu.


mbl.is Rætt um verulegar afskriftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þekktasti frambjóðandinn

Á þingi Þekktra Íslendinga (stundum kallað stjórnlagaþing, en einnig stjörnuþing) verða 20 þekktir Íslendingar og 5 minna eða ekkert þekktir. Þarna verða helstu fulltrúar ESB/vinstristefnu/kjaftastéttarinnar, svo sem Þorvaldur Gylfason og Eiríkur Bergmann, sem eiga það sameiginlegt (fyrir utan skoðanir sínar) að vera tíðir gestir á sjónvarpsskjá í boði vinar þeirra, Egils Helgasonar (sem er þeim sammála í öllum helstu málum). Þorvaldur er auk þess búinn að kynna sig vel og rækilega (en þó ekki alltaf heiðarlega) sem sérsakan speking um lífskjör og hagstjórn.

Á meðan stjörnuþingið brennir hundruðum milljóna af lánuðu fé ríkissjóðs í að kjafta um stjórnarskrána, þá springur stjórnin vonandi. Þá þarf að kjósa til Alþingis. Þá þarf að mynda nýjan meirihluta. Þá þarf að leggja niður stjórnlagaþingið. Þá þarf að rifta samningi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, skera ríkið niður um helming, lækka skatta, afnema gjaldeyrishöftin, hreinsa bóluna úr hagkerfinu og hefja uppbyggingu á ný.


mbl.is Þorvaldur ótvíræður sigurvegari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarstjórn á flótta undan ábyrgð

Besti flokkurinn lofaði einhverju nýju og fersku. Raunin er sú að hann kom með gamaldags vinstri hagstjórn í farteskinu. Hann hækkar skatta og eykur skuldir og styðst við gamalreynda vinstrimenn til að ná því markmiði.

Dagur B. Eggertsson lofaði fyrir kosningar að hækka skatta og auka skuldir. Hann stendur við það loforð. Að hann tali eins og hann hafi nokkurn tímann hugleitt aðrar leiðir, t.d. lækka útgjöld borgarinnar, er allt að því lygi. 

"Samfylkingin telur skynsamlegt að taka lán til að halda uppi framkvæmdastigi í kreppunni ..." sagði Dagur í kosningabaráttunni.

Um vilja vinstrimanna til að skrúfa skatta í botn skal enginn efast. Pólitískur ásetningur er sá að forðast niðurskurð því hann er óvinsæll, og þenja þess í stað frekar út "aðstoð" við þá sem bugast undan skattheimtunni.

Stjórnmálamenn tala gjarnan um að menn eigi að "axla ábyrgð". Stundum nota þeir þann frasa til að ná kjöri. Þegar á hólminn á komið vilja samt fæstir stjórnmálamenn axla ábyrgð. Þeir vilja miklu frekar velta vandanum á undan sér og kenna síðan fráfarandi stjórnvöldum um. Heitir það að axla ábyrgð?


mbl.is Skattheimta sögð auka samdrátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vígtennur Steingríms á háls skattgreiðenda

Er einhver í vafa um pólitískt markmið ríkisstjórnarinnar?

Það er ekki það að leysa sem hraðast og skilvirkast úr efnahagsvandræðum Íslendinga. Þá hefði ríkisstjórnin skorið duglega niður í ríkisrekstrinum og reynt að lækka skatta og einfalda skattkerfið.

Pólitísk markmið ríkisstjórnarinnar er ekki að skila af sér svo góðu búi að kjósendur endurnýi fylgi ríkisstjórnarflokkanna í næstu kosningum.

Pólitísk markmið ríkisstjórnarinnar er að þenja ríkisvaldið út í sem flestar áttir, með eftirfarandi aðferðum:

  • Skattleggja sem flest sem mest.
  • Svara þeim sem kvarta undan álagi skattasvipunnar með því að setja þá á bætur úr ríkissjóði.
  • Stækka þannig hóp "þurfalinga" sem seinna meir munu mótmæla niðurskurði á framfærslu til sín af hreinni sjálfsbjargarviðleitni.
  • Taka sér 4ra ára hlé frá ríkisstjórn eftir næstu kosningar (ríkisstjórnin veit að hún fær flengingu þá) og vonast til að næsta ríkisstjórn klúðri tiltektinni eftir sig og ná þá völdum, með nýrri kynslóð vinstrimanna, eftir þarnæstu kosningar.

Þetta dylst vonandi fáum, eða a.m.k. færri og færri.


mbl.is Hugmyndir um að hækka vaxtabætur um sex milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband