Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Hrói höttur er vinur skattgreiðandans

Hrói höttur hefur löngum verið dáð persóna í hugum fólks. Litlum börnum er kennt að hann "steli frá þeim ríku og færi þeim fátæku" og þetta sagt í slíkum aðdáunartón að engin leið er fyrir litla krakka að átta sig á afleiðingum aðgerða hans. Enginn bendir litlum börnum á að Lenín, Stalín, Maó og Hugo Chavez hafa allir verið einskonar holdgervingar Hróa hattar, og milljónir manna hafa dáið úr hungri, vosbúð og þjáningum sem afleiðing þess. Hversu margir ætli snúist snemma til vinstrimennsku og sósíalisma eftir innblástur frá sögum um Hróa hött?

Hins vegar er hægt að finna nútímalega nálgun á iðju Hróa hattar sem mér er mjög að skapi. 

Fyrst skal rifjað upp að á tímum Hróa hattar voru í grófum dráttum bara tvær stéttir - ríkur aðall sem lifði á skattfé, og fátækir bændur sem greiddu skattana. Nánast ómögulegt var að komast í námunda við auð aðalsins með heiðarlegri vinnu. Eingöngu þeir sem innheimtu skatt gátu efnast. Það voru þessir aðilar sem Hrói höttur rændi. Hann rændi skattneytendur og færði skattveitendum fé sitt aftur. Með þetta í huga kann ég vel að meta Hróa hött sem ævintýrapersónu.

Hver er svo Hrói höttur dagsins í dag? Allir sem svindla undan skatti, vinna svart, smygla, telja fram í skattaparadísum, berjast gegn skattahækkunum og berjast fyrir samdrætti ríkisvaldsins. Ég er einn af Hróum nútímans.


Ástæður hinnar íslensku fjármálakreppu

Vefþjóðviljinn segir satt og rétt frá (ólíkt mörgum öðrum) um ástæður hinnar íslensku fjármálakreppu:

"Hvernig stendur þá á því að Íslendingar urðu svo hart úti? Ekki var lánsfé á útsölu hérlendis? Nei, stýrivextir Seðlabanka Íslands voru þvert á móti svimandi háir undanfarin ár. En Íslendingar höfðu aðgang að ódýru erlendu lánsfé og hinn mikli vaxtamunur við útlönd gerði innflutning lánsfjár afar girnilegan. Seðlabanki Íslands verðlagði krónuna út af markaðnum og inn streymdi lánsfé úr erlendum seðlabönkum á niðursettum vöxtum. Því miður bitu margir á agnið og eins og Sigríður segir tók við tímabil útlánaþenslu og offjárfestingar á nær öllum sviðum þjóðfélagsins. Við þetta bættist svo taumleysi í fjármálum ríkis og sveitarfélaga."


Kreppa kapítalismans?

Grein úr vetrarhefti Þjóðmála, 2008 (eftir mig)

Kreppa kapítalismans?

Á Íslandi og víðast hvar í hinum vestræna heimi ríkir nú djúp og mikil fjármálakreppa. Lán eru varla veitt, fyrirgreiðslur eru á hverfandi hveli og verð hlutabréfa hefur gufað upp. Þessari fjármálakreppu vilja margir blanda saman við hinn frjálsa markað. Sagt er að kreppan sé ekki bara kreppa fjármálafyrirtækja og almennings heldur líka kreppa frelsis og frjálshyggju - kreppa kapítalismans. Ekkert er þó fjær sanni. Til að útskýra það er ekki nóg að stinga hausnum ofan í sand af tölfræði og aðsendum greinum í Morgunblaðinu. Skilningur fæst eingöngu með réttri undirstöðu, sem nú verður veitt. 

Hvað eru peningar?

Peninga má skilgreina í mjög stuttu máli sem millilið í viðskiptum. Þegar bakarinn selur brauð þá tekur hann við peningum sem hann getur svo notað til að kaupa sér skó, nýja hrærivél eða aðgang að fyrirlestri í hagfræði. Skósalinn og hagfræðingurinn taka við greiðslu í peningum og nota þá til að kaupa sér brauð eða egg eða hvað sem þeir vilja.

Peningum þarf samt ekki alltaf að eyða í kaup á þjónustu og varningi. Þá má líka geyma eða lána til annarra. Ef bakarinn bakar 10 brauðhleifa en eyðir eingöngu andvirði tveggja þeirra þá hefur hann sparað það sem nemur andvirði átta brauðhleifa. Hann getur ákveðið að sitja á þeim sparnaði eða lánað hann til einhvers gegn ákveðnu gjaldi (vöxtum). Í stað þess að eyða í neyslu í dag hefur bakarinn með þessum hætti aukið framboð á lánsfé (kapítali) sem aðrir nota til fjárfestinga í þeirri von að þær borgi sig og skili arði sem má nota til að endurgreiða lánið. Vextirnir á þessu lánsfé fara eftir framboði og eftirspurn eftir lánsfé. Ef margir vilja lána þá geta lánþegar samið um lága vexti við lánardrottna sína. Ef lítið er um lánsfé þá krefjast lánardrottnar hárra vaxta.

Takið eftir að hér að ofan er gert ráð fyrir því að magn peninga sé fast þótt framboð á lánsfé breytist. Framboð á lánsfé og vextir á því stjórnast af því hversu margir eru viljugir til að fresta eyðslu á peningum sínum og lána þá þess í stað út, og vextirnir á því lánsfé stjórnast af framboði lánsfjár og eftirspurn eftir því. Vextir í slíku hagkerfi eru, ef svo má segja, náttúrulegir - ákvarðaðir af óheftum samskiptum og viðskiptum allra einstaklinga á tilteknum markaði, og breytast í takt við breytingar á vilja einstaklinga til að eyða og leggja þess í stað fyrir.

Takið einnig eftir því að hér skiptir ekki máli hvað peningarnir heita (hvaltennur, gull eða dúkatar) eða hver gefur þá út (hver banki fyrir sig, ríkisvaldið eða hópur geimvera sem býr á tunglinu). Það eina sem skiptir máli er að magn þeirra sé nokkurn veginn fast eða hægbreytilegt þannig að markaðsaðilar geti treyst því að fyrir ákveðna upphæð í dag fengist álíka mikið af vörum og þjónustu á morgun. Einnig er mikilvægt að gera sér grein fyrir að af traust á tiltekinni tegund peninga minnkar (t.d. vegna skyndilegrar breytingar í peningamagni) þá hafi einstaklingar frelsi til að draga úr viðskiptum með þá og leita að traustari peningum sem halda enn betur verðgildi sínu, nú eða hækka og lækka verð þannig að jafnvægi náist. Þannig er vondum peningum útrýmt en góðir peningar verðlaunaðir með mikilli notkun. Að lokum má benda á að ef peningamagn eykst skyndilega þá þýðir það ekki að fleiri verðmæti hafi verið sköpuð eða að úrval þjónustu hafi aukist. Ef eitthvert almættið eða yfirvaldið ákvæði að á morgun ættu allir tvöfalt fleiri peninga en í dag þá mun tvöföldun peningamagnsins einfaldlega valda því að tvöfalt fleiri peningar elta einfalt framboð varnings og þjónustu, sem mun í kjölfarið nokkurn veginn tvöfaldast í verði þar til jafnvægi kemst á á ný.

Fiktað við peningamagnið

Ímyndum okkur nú að inn á markaðinn komi aðili (t.d. seðlabanki ríkisins) sem þvingi alla til að nota eina tegund peninga - sína tegund - sem enginn má keppa við í útgáfu eða með öðrum eða annars konar peningum (t.d. gullmyntum). Að auki væri skylt að greiða skatta og skuldir við hið opinbera með einokunarpeningunum.

Þessi aðili fylgist með vöxtum á frjálsum markaði stíga og falla, framboð á lánsfé sveiflast í sífellu og sér suma lenda í skorti á lánsfé og aðra sitja uppi með mikið lánsfé sem enginn vill lána (þótt slíkt sé ólíklegt ástand á meðan frelsi til viðskipta og vaxtabreytinga er óskert).

Í skjóli einokunarstöðu sinnar ákveður þessi aðili nú að auka peningamagnið (t.d. með skuldabréfakaupum af bönkunum, fjármögnuðum með nýútgefnum peningum) og með hinu aukna framboði peninga tekst honum að lækka vexti. Fleiri geta nú tekið lán og gera það, fjárfestingar aukast, eftirspurn eftir vinnuafli eykst, laun hækka og mikil uppsveifla virðist eiga sér stað í hagkerfinu. Bráðum er byrjað að tala um þenslu og hvert er rétta meðalið við henni? Einokunaraðili peningaútgáfu grípur til þess ráðs að minnka peningamagn og hækka vexti. Lán verða dýrari og þeir sem áður eyddu og skuldsettu sig draga nú saman seglin og byrja að leggja fyrir. Háir vextir draga fé inn í bankakerfið og hið meinta góðæri breytist nú í stöðnun og jafnvel niðursveiflu. Hefst þá hringrásin upp á nýtt - vextir eru lækkaðir og hið nýja góðæri tekur við. Einfalt, samkvæmt bókinni, allt undir stjórn og engin vandamál, eða hvað?

Upp- og niðursveiflur

Hið eilífa fikt við peningamagnið er ekki til þess fallið að auðvelda líf markaðsaðila þegar til lengri tíma er litið. Síbreytilegt peningamagn, handstýrt af ríkisvaldi eða seðlabanka, sendir röng skilaboð út á markaðinn. Ef magn peninga er skyndilega aukið og vextir á því þvingaðir niður fyrir hið náttúrulega eða eðlilega vaxtastig markaðarins þá blekkir það fjárfesta. Þeir líta í auknum mæli til óarðbærra fjárfestinga sem, í skjóli hins lága vaxtastigs, virðast nú vera arðbærar. Langtímafjárfestingar í hrávöruvinnslu og framleiðslutækjum sem ekki nýtast til neyslu (verksmiðja, bygginga og þess háttar) aukast. Langtímafjárfestingar í stórum verkefnum taka flugið.

Neytendur á sama tíma sjá laun sín hækka í kjölfar aukinnar samkeppni um vinnuafl sitt sem veldur auknum kaupum á neysluvörum. Fjárfestar hafa hins vegar einbeitt sér að fjárfestingum í framleiðslutækjum sem lenda sjaldan á borði neytenda og framboð neysluvarnings minnkar því hægar en eftirspurnin vex. Neytendur hafa ekki breytt um smekk hvað varðar vilja sinn til að spara og kaupa dýrar framleiðsluvörur sem fjárfestar hafa eytt miklu í að fjárfesta í. Á endanum kemur skellurinn - fjárfestar í langtímafjárfestingum losna ekki við varning sinn og lenda í fjárhagsvandræðum. Neytendur höfðu þrátt fyrir allt ekki meiri áhuga á að fjárfesta en áður en peningamagnið var skyndilega aukið.

Kreppa siglir nú í kjölfarið. Óarðbærar fjárfestingar eru leystar upp, fyrirtæki fara á hausinn og laun lækka. Þetta veldur stjórnmálamönnum óþægindum og þeir krefjast þess að peningamagnið sé enn aukið til að bjarga fyrirtækjum frá gjaldþroti og neytendum frá launalækkun. Fjárfestingar stórra fjárfesta í dýrum langtímafjárfestingum aukast á ný. Neytendur hefja eyðslu á ný. Jafnvægi eyðslu, sparnaðar og fjárfestinga er raskað á ný. Snjóboltanum er haldið við þegar hann ætti helst af öllu að bráðna.

Ísland og fjármálakreppan

Ofangreind lýsing á upp- og niðursveiflum á frjálsum markaði var fyrst sett fram á 2. áratug 20. aldar af hagfræðingnum Ludwig von Mises [sjá t.d. hér], og rættist skömmu síðar með kreppunni miklu sem hófst árið 1929 og varaði í um áratug. Lýsing Mises hefur staðist tímans tönn með endurteknum upp- og niðursveiflum og fjármálakreppum alla tíð síðan. Ísland er engin undantekning þótt smáatriði málsins séu tæknilega ögn frábrugðin. Á Íslandi hefur vöxtum verið haldið háum af ríkisvaldinu í mörg ár. Erlendir aðilar hófu því að flytja fé til Íslands til að fá góða ávöxtun. Þetta fé leitar inn í bankana sem leggja það inn á reikning sinn hjá Seðlabanka Íslands. Með 10% bindiskyldu þýðir þetta að ef íslenskur banki leggur inn íslenskar krónur að andvirði 100 evrur á reikning sinn hjá Seðlabanka Íslands þá getur hann lánað íslenskar krónur að andvirði 90 evrur áfram til viðskiptavina sinna, t.d. til kaupa á hlutabréfum eða húsnæði. Gríðarleg aukning peningamagns hefur því komið fram sem sprenging á meðal annars hlutabréfa- og húsnæðisverði, og skyndilega eiga allir greiðan aðgang að ódýru lánsfé sem margir eyða í langtímafjárfestingar, enda virðast þær hækka í verði á undraverðum hraða. Fyrirtæki hafa fengið ódýr lán til uppkaupa og útþenslu, og innflutningur tekið flugið.

Hin röngu skilaboð sem hið aukna peningamagn sendi út á markaðinn hafa ekki valdið því að auðsköpun hefur vaxið eða sparnaður og markaðsaðhald fengið næga athygli. Skyndilega er það neysla almennings en ekki sparnaður fjárfesta sem knýr hagkerfið áfram. Ríkisvaldið reynir að skrúfa fyrir eyðslu með háum vöxtum á einum stað (í gegnum Seðlabanka Íslands) en hvetja til húsnæðiskaupa með óeðlilega lágum vöxtum á öðrum stað (með notkun Íbúðalánasjóðs og margföldunar á ráðstöfunarfé bankanna). Það kom mörgum á óvart að bullandi góðæri hefði orðið að einhverjum versta skelli Íslandssögunnar. Ríkisvaldið, stofnanir þess og bankarnir skilja ekkert í stöðunni og binda nú björgunarhringa hvert utan um annað á kostnað skattgreiðenda. Slæmum fjárfestingum á að halda á lífi af öllum öðrum en þeim sem græddu á þeim á meðan veislan stóð sem hæst. Snjóboltanum á að halda á lífi þótt sólin hafi brotist í gegnum reykmökkinn sem var þyrlað upp í mörg ár.

Krónan og kapítalisminn

Fjármálakreppa hins vestræna heims er ekki markaðsgalli. Hún er afleiðing formgalla á peningaútgáfu í flestum ríkjum heims - svokallaður ríkisgalli! Ríkisvaldi og seðlabönkum er treyst fyrir útgáfu peninga og handstýringu hinna svokölluðu stýrivaxta. Röng merki eru send út á markaðinn og fólk og fyrirtæki bregðast við þeim, en þegar allt kemur til alls er ekki hægt að bæla markaðslögmálin til lengri tíma. Hin röngu merki leiða til rangra fjárfestinga og í stað þess að þjóna neytendum byrjar kerfið að þjóna sjálfu sér. Gróðinn er einkavæddur en tapið þjóðnýtt.

Nú eru liðin hátt í 100 ár síðan Ludwig von Mises skýrði ástæður hinna endurteknu og öfgakenndu upp- og niðursveiflna sem fylgja eilífu fikti ríkisins með peninga okkar, magn þeirra í umferð, og vaxtastigs þeirra í bankakerfinu. Kenningar hans hafa síðar verið útskýrðar og þeim beitt á hverja niður- og uppsveifluna á fætur annarri. Ef Íslendingar ætla að læra af reynslu seinustu missera og koma í veg fyrir að eitthvað álíka endurtaki sig í framtíðinni þá væri þeim hollast að sópa röngum kenningum hagfræðinnar til hliðar, láta tölfræðina eiga sig í smástund og byrja að hugleiða grundvallaratriðin þau sem útskýra markaðslögmálin út frá sjónarhóli einstaklinga í stað þess að líta á einstaklinga sem stök í mengi einhverrar tölfræðibreytunnar.

Grein birtist áður í vetrarhefti Þjóðmála, 2008, sem er fáanlegt hér. Tenglum bætt við hér.


Peningamagn, einhver?

Morgunblaðið fjallar í léttum dúr um ástandið í Zimbabwe eins og land undantekninga. Raunin er samt súm að ástandið í Zimbabwe er hið sama og framkallar hina svokölluðu "fjármálakreppu"Vesturlanda  - ofurframleiðsla á peningum sem raskar ró framboðs og eftirspurnar. Íslendingar, Bandaríkjamenn og Evrópusambandið keppast nú um að auka peningamagn til að "koma hjólum hagkerfisins af stað". Leið Zimbabwe ræður ríkjum. 

Hvenær verða núllin klipp af evrunum? Tíminn einn um leiða það í ljós. Miðað við "aðgerðir" dagsins í dag er það bara spurning um hvenær, en ekki hvort það gerist.


mbl.is Nýr seðill: 500.000.000 dollarar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppubók dagsins: The Politically Incorrect Guide to Capitalism

Í góðæri eru þeir margir sem ráðleggja um hvernig á að skulda og kaupa meira án þess að spara eða auka tekjur sínar. Í hallæri fæðast hagfræðingar á hverju götuhorni og vilja gefa "ráð" til yfirvalda um hvernig eigi nú að stýra fólki og fé inn í nýja og betri tíma.

Fæstir skilja að góðæri eins og nær allur heimurinn hefur upplifað undanfarin ár hefur verið keyrt áfram af nákvæmlega sömu ástæðum og kreppan sem nú siglir í kjölfarið. Höfuðástæða (auk annarra) bæði góðærisins og kreppunnar er sú sama: Fikt ríkisvaldsins við peninga okkar. Þeir hafa verið fjöldaframleiddir af flestum seðlabönkum heims undanfarin ára og runnið til framkvæmda sem virtust vera arðbærar á ríkis-niðurþvinguðum vöxtunum. Þegar markaðslögmálin loks koma til leiks og benda á að húsnæðisverð sé úr öllu samhengi við framboð og eftirspurn (og knúið af  yfirboðum með notkun nýrra peninga), og hlutabréfaverð löngu hætt að tengjast verðmætasköpun fyrirtækja (heldur eltingaleik eigenda nýrra peninga við hærri og hærri ávöxtun á kostnað allra annarra), já hvað gerist þá? Margfalt peningamagnið afhjúpast sem verðlausir pappírsmiðar, og heimurinn lendir í "fjármálakreppu".

Gott og vel, segja þá hinir nýútklöktu hagfræðingar, er málið þá ekki bara að auka ríkisútgjöld og framleiða enn fleiri peninga með núllun stýrivaxta? Það var jú ástæða seinasta góðæris ekki satt? Nýtt góðæri hlýtur að geta fæðst með sömu aðferð!

Það er þá sem ég segi við fólk: Lestu hið ágæta, auðskiljanlega og tiltölulega blaðsíðufáa kynningarrit um hagfræði, frjálsan markað og kapítalisma sem heitir The Politically Incorrect Guide to Capitalism, og hugleiddu texta þess út frá núverandi ástandi hins alþjóðlega og innlenda fjármálakerfis (meðal annarra hluta). Þú sérð ekki eftir því!

Og veistu hvað! Þar sem ég bý, vinn og þéna í landi sem bíður enn síns tíma í fjármálakreppu heimsins (Danmörku) þá skal ég meira að segja senda þér eintak þér að kostnaðarlausu ef þú ert einn/ein af þeim fyrstu þremur sem sannfærir mig um nauðsyn þína á að eignast ritið (sem, ef marka má fréttir frá mótmælum á Íslandi um þessar mundir, ætti ekki að vera ýkja erfitt).


Af hverju er (fjármála)kreppa á Íslandi?

Stærsti ókostur meðvitaðrar fjarveru hagfræðikennslu í íslensku skólakerfi er sá að fáir skilja hvað er í gangi þegar fjármálaheimurinn fer í upp- og niðursveiflur. Í uppsveiflum er öllum alveg sama. Það er ekki fyrr en að herðir að að fólk byrjar að leita að svörum. Ástæður upp- og niðursveiflna eru samt þær hinar sömu. Hvernig væri að fjalla um undirliggjandi ástæður þess?

Í næsta hefti Þjóðmála birtist grein eftir mig. Næsta hefti Þjóðmála má kaupa hér þegar það kemur út. Njótið!


Jón og séra Jón - hver sér muninn?

"Síðdegis í dag hafa Linda Blöndal og félagar hennar á Rás tvö og fréttastofu Ríkisútvarpsins sagt mjög skilmerkilega frá einhverjum samblæstri nokkurra manna fyrir utan Seðlabanka Íslands. Útvarpsfólkið lagði mikið kapp á kynna samkomuna sem „friðsamlega“ en hópurinn hafi þá ruðst inn í bankann og sumir í hópnum huldu andlit sitt til að undirstrika góðan vilja og friðarást. Lögreglan mat ástandið þannig að betra væri að hafa fulltrúa úr óeirðalögreglunni en umferðarskólanum viðstadda.

Það sem var þó mest nýlunda í fréttaflutningi Lindu og félaga var að útvarpsmennirnir héldu því statt og stöðugt fram að „engin skemmdarverk“ hefðu verið unnin á staðnum heldur bara „slett rauðri málningu“ um allt og „eggjum kastað“ í húsið. Hva?

Ekki er þó víst að dómstólar telji það að sletta málningu á opinberar byggingar eitthvað annað en skemmdarverk. Á sama tíma og hinir friðsamlegu mótmælendur voru og hnýta á sig grímur og kaupa rauða málningu áður en haldið væri niður í friðinn í Seðlabanka kvað héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm yfir manni sem hafði úðað málningu á veggi undirganganna við Miklubraut og Lönguhlíð.

Þrátt fyrir að Linda Blöndal hafi veitt öllum sem sletta málningu friðhelgi með ítrekuðum yfirlýsingum í Ríkisútvarpinu í dag var maðurinn dæmdur til að greiða eiganda undirganganna skaðabætur og greiða sekt í ríkissjóð en sitja í fangelsi ella."

Vefþjóðviljinn í dag.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband