Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Dæmigerð afstaða ríkiseinokunarfyrirtækis

Afstaða Seðlabanka Íslands í "evrumáli" Kaupþings kemur ekki á óvart. Þetta er dæmigerð afstaða ríkisrekins stjórntækis sem má heimfæra upp á jafnréttisstofur, samkeppniseftirlitið svokallaða og landbúnaðarráðuneytið. Einkaaðilar eru taldir vera ögra Kerfinu og við því þarf að bregðast.

Í Bandaríkjunum má finna hliðstætt dæmi um seðlabanka í baráttu gegn samkeppni um gjaldmiðla. Þar í landi hafa nokkrir framtaksamir einstaklingar stofnað mynt, Liberty Dollar, sem er bökkuð upp af silfri og gulli (sem sögulega hefur verið markaðslausn til að tryggja stöðugleika gjaldmiðils, og mun betri leið en bara loforð ríkisvalds að skatta megi alltaf innheimta).

Í fyrstu var bara um að ræða hálfgert áhugamál nokkura einstaklinga, en eftir því sem verðmæti hins bandaríska dollara hefur fallið (sem afleiðing peningaprentunar) þá hafa fleiri og fleiri ákveðið að eiga viðskipti með Liberty Dollar. Þetta hefur svo vakið athygli seðlabanka Bandaríkjanna sem í kjölfarið hefur reynt að stöðva útgáfu Liberty Dollar og jafnvel verið að gera þá upptæka!

Peningaútgáfa ríkisvalds í fjarveru gullfótar hefur verið áhugaverð tilraun sem nú hefur varað í nokkra áratugi. Margir spá því að senn sé þessi tilraun á enda og í staðinn muni traustir "harðir" gjaldmiðlar sem keppa við hvern annan aftur verða hið viðtekna. Ég vona það svo sannarlega. Á meðan þurfum við hins vegar að horfa upp á seðlabanka ríkisvaldsins verja sína verðlausu framleiðslu með kjafti og klóm.


mbl.is Seðlabanki andvígur evrubókhaldi fjármálafyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétti tíminn er NÚNA

Nú hélt ég að a.m.k. flestir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu skilning á því að skattar eru ekkert annað en sá hluti launa okkar sem við fáum ekki að ráðstafa sjálf, og að sá hluti eigi að vera eins lítill og hægt er. Nú virðist sem Samfylkingarsóttin sé komin í þessa sömu þingmenn - sú sótt að telja skattalækkanir ætíð vera ótímabærar (skattalækkun í góðæri = þensluhvetjandi, skattalækkun í hallæri = ótæk tekjuskerðing ríkisvalds í björgunaraðgerðum).

Í hvað er ríkið að eyða launum okkar nú til dags? Það er að eyða því í eigin útþenslu. Eftirlitsstofnunum fjölgar og þær fara stækkandi. Heilbrigðiskerfinu er leyft að þenjast út í kostnaði og dragast saman í getu. Fleiri og fleiri ríkisstarfsmenn fylgjast með kynjaskiptingu, fyrirtækjauppkaupum, verðlagi og reykingum í einkahúsnæði en nokkru sinni fyrr. Sendiráðin skjóta upp kollinum í stórum stíl. Forseti Íslands tvöfaldar kostnað embættis síns. Listinn er endalaus. Ár kartöflunnar er kartafla í skó skattgreiðenda.

Rétti tíminn fyrir skattalækkanir er núna. Ef "kreppa" er handan við hornið þá hjálpa skattalækkanir skattgreiðendum að greiða sínar skuldir og búa í haginn fyrir mögru árin. Ef "þenslan" er viðvarandi þá hjálpa skattalækkanir ríkinu að hægja á vexti sínum (og þó, því skattalækkanir hingað til hafa þýtt auknar skatttekjur ríkisvaldsins þökk sé auknum umsvifum í hagkerfinu).  

Árni M. Mathiesen, vinsamlegast hættu að eyða laununum okkar. 


mbl.is Ekki tímabært að tímasetja skattalækkanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gat Sarkozy ekki fundið sósíalista innan Frakklands?

Forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, greindi frá því í dag að hann hafi fengið tvo erlenda sósíalista til að starfa með frönskum stjórnvöldum. Ástæðan fyrir því að útlenskir vinstrimenn en ekki innlendir voru valdir er óljós, en líklega hefur titla- og heiðurmerkjatog eitthvað með málið að gera, enda Sarkozy annálaður aðdáandi fínnar merkjavöru.

Sá fyrri, Joseph Stiglitz, hefur þá skoðun frægasta að vilja beina alþjóðavæðingunni í auknum mæli í hendur ríkisstjórna heimsins. Þannig telur hann að hagur hinna fátækustu muni vænkast. Að vísu eiga skoðanir hans ekki við um lönd eins og Singapore, Hong Kong hluta Kína, Suður-Kóreu, Skandinavíu fyrir 1950 og Ísland í dag, sem byggja/byggðu efnahag sinn á traustum einkaeignarrétti og verslun og viðskiptum, en það er önnur saga.

Skoðanir Stiglitz eiga fyrst og fremst við um lönd þar sem sósíalistar eru við völd - gjarnan afrískir - og þar sem eignarréttur og viðskiptafrelsi eru framandi hugtök og því haldið þannig af þarlendum stjórnvöldum. Skuldinni skellir Stiglitz samt á eitthvað hann kallar "Information asymmetry" sem snýst í stuttu máli um að ekki viti allir allt og það sé vandamál sem ríkisvaldið þarf að leysa af sinni alvisku. Þessi maður ætlar nú að gefa ráð í Frakklandi. Verði Frökkum að góðu!

Ekki virkar hinn útlendi vinstrimaðurinn betur á mig. Sá berst, að sögn, fyrir þróun " í þágu félagslegra umbóta", sem þýðir væntanlega að fyrirtæki mega græða á meðan stjórnvöld geta eytt hagnaðinum í ýmis ríkisrekin verkefni. Hver nennir að græða í þannig Hróa-hattar-samfélagi?

Nú erum við fá sem náðum að standa í löngum biðröðum í tómar matvælaverslanir hins sovéska ríkisvalds, en sennilega fleiri sem höfum staðið í biðröð í "fjársvelt" heilbrigðiskerfi hins íslenska ríkis. Núna ætlar forseti Frakklands að skreyta franskan sósíalisma með fjöðrum Nóbelsverðlaunahafa, og búa til biðraðir þar sem fólki er yfirvegað sagt að standa því frægir útlenskir vinstrimenn töldu það nauðsynlegt.

Frábært! 


mbl.is Nóbelsverðlaunahafar til starfa fyrir frönsk stjórnvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

REI-listinn rakar inn á verðbólgunni

"Í ljósi þess sem að framan greinir er með ólíkindum að fyrirhuguð hækkun fasteignaskatta [í Reykjavík] hafi ekki vakið meiri athygli. Með henni hækka fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði um 14%. Áhrif gjaldahækkana til hækkunar neysluverðsvísitölu eru líklega um 15%, og innheimt fasteignagjöld í Reykjavík hækka líklega um hátt í eitthundrað þúsund krónur á árinu á hverja fjölskyldu í borginni eða um 20%. Er ekki kominn tími til að einhver segi eitthvað?"

Vefþjóðviljinn er reiður í dag, og ekki að ástæðulausu. REI-listinn ætlar ekki að láta sitt eftir liggja í baráttunni fyrir hækkandi útgjöldum heimilanna og raka inn tveimur milljörðum í fasteignaskatta umfram seinustu innheimtu.

Á Seltjarnarnesi lækka menn útsvarið og fasteignagjöld. Í Garðabæ sömuleiðis. Sjálfstæðismenn kunna að reka sveitarfélög. Fer einhver ekki að sjá það?


Hvernig er hitastig Jarðar að þróast?

Ein kenningin segir: Niður á við!

c_documents_and_settings_user_my_documents_ve_urfar_image51

Mynd tekin héðan (sést í fullri stærð hér).  

Ég ætla ekki að leggja persónulegt mat á réttmæti þessarar kenningar en hún er óneitanlega áhugaverð. Mér finnst til dæmis fátt benda til að í Danmörku sé einhver sérstök hlýnun í gangi nema síður sé.  Hins vegar geta þeir sem hafa blandað veðurfræði í hugmyndafræði sína ekki annað en haldið því til streitu að Jörðin sé að fara í fjandans og það sé manninum (þá aðallega Kínverjum og Indverjum) að kenna í óþolandi sókn sinni í bætt lífskjör með hjálp vaxandi orkunotkunar!


Á að banna sölu flugelda til almennings?

"Það eitt kemur í veg fyrir bann við flugeldasölu til almennings á Íslandi að nákvæmlega núna er tíðarandinn því óvilhollur. Hver veit hvað gerist ef hann sveigist í aðra átt, þótt ekki sé nema tímabundið?"

Meira hér.

Forræðishyggjan er ekki hætt þótt reykbann sé nú á skemmtistöðum! Vittu til - raddir flugeldasölubanns munu berast til Íslands fyrr en síðar.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband