Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007
Fimmtudagur, 29. nóvember 2007
Þetta með loftslagsbreytingar
Það sem gleymist oft og iðulega þegar stækkunargler er sett á suð-mælingar á hitastigi sem ná yfir nokkra áratugi er að,
- Loftslag Jarðar hefur oft verið hlýrra en í dag, og sveiflast mun meira en í dag, og það bara á seinustu örfáu öldum.
- CO2-magn er að vaxa línulega á meðan hitaupp- og niðursveiflur halda áfram að eiga sér stað eins og ekkert sé í skorist (eða hefur hitauppsveiflan hætt við?).
- CO2-magn hefur verið miklu hærra í andrúmsloftinu en í dag án þess að neinn hafi sýnt fram á að það hafi verið á tímum ofsaveðurs og hamfara í náttúrunni.
- Ótalmargt hefur áhrif á loftslag Jarðar án þess að það njóti sömu athygli og CO2-losunin (sem er meira að segja byrjað að kalla "mengun"!). Þetta er samt vel og tryggilega látið ónefnt, enda sannarleg utan mannlegrar getu að hafa áhrif á (mundi til dæmis ekki hjálpa Græningjunum að tala fyrir útþenslu ríkisvaldsins á reikning hins frjálsa markaðar). Dæmi: Vatnsgufa, sólgeislar, aldalangar sveiflur í náttúrulegum veðrabrigðum, osfrv.
- CO2 er afurð notkunar á hagkvæmasta orkugjafanum: Jarðefnaeldsneytis. (Undantekningar eru fáar og langt á milli - fallvatnsorka, kjarnorka.) Að ætla sér að skera í notkun hagkvæmasta orkugjafans en jafnframt útrýma fátækt, sjúkdómum og ísskápaleysi í þróunarríkjum er fjarstæð barnaleg bjartsýni.
- Kannski eru áhrif mannsins á loftslagið mun minni en svartsýnir vísindamenn á ríkisstyrkjum halda fram! A.m.k. einhverjir vísindamenn með stóra titla tala fyrir hófsemi í þessum málum.
Sem "ráðamaður" mundi ég hlaupa eins langt frá niðurskurði í CO2-losun og hægt er, hafi ég í raun áhuga á að bæta og lengja líf, auka frelsi og gera mannkyni kleift að verða tæknilega og fjárhagslega statt til að mæta hverju því sem náttúran hefur í hyggju, með eða án aðstoðar mannanna.
Hollendingar reistu flóðgarða áður en fyrsti reykspúandi strompurinn var reistur á Englandi. Íbúar Bangladesh gera það seint á meðan þeir hafa ekki aðgang að orku til að knýja sig upp í nauðsynlegt ríkidæmi.
Þessi færsla er endurvinnsla á athugasemd minni við fyrri færslu á þessari síðu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 27. nóvember 2007
Eru þingmenn Alþingis of uppteknir?
"Hvað sem því líður er ljóst að þingmenn hafa nóg að gera í dag, svo mikið að ákall á aðstoðarmenn hefur náð alla leið til Alþingis. Það út af fyrir sig sýnir að þingmenn hafa of mikið að gera, og ættu hið snarasta að fækka verkefnum sínum og minnka álag á sig þar með."
Meira á Ósýnilegu höndinni.
Þess má geta að ef ég segi við yfirmann minn að ég hafi of mikið að gera þá gerir hann annað af tvennu: Fækkar verkefnum mínum eða tekur meðvitaða ákvörðun á eigin reikning um að fleiri þurfi að ráða til að sinna því sem ég næ ekki. Í tilfelli Alþingismanna ætti hið fyrrnefnda alltaf að eiga við því enginn er að fara gera hið síðarnefnda á eigin reikning!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 26. nóvember 2007
Samkeppniseftirlitið skikki Iceland Express og Iceland Air til að hækka verð sín
Hér er fætt dæmigert verkefni fyrir hið svokallað samkeppniseftirlit (gamla Verðlagsnefndin í nútímalegum búning). Nú fækkar rekstraraðilum á flugleið, og þar eð samkeppnishugtakið er oft (ranglega) skilgreint sem "fjöldi aðila á tilteknum markaði" þá liggur í augum uppi að Iceland Express og Iceland Air þurfa að hækka verð sín til að tryggja afkomu British Airways. Ekki satt?
Kannski menn hugsi sig tvisvar um áður en talað er um "samráð" og "launráð gegn neytendum" þegar um er að ræða starfsemi á opnum samkeppnismarkaði. Kannski menn byrji að endurskoða samkeppnishugtakið, hætti að skilgreina það út frá fjölda fyrirtækja á markaði og byrji að hugsa það sem aðgengi að markaði. Hver sem er sem á flugvél og hefur tilskilin leyfi getur hafið áætlunarflug til og frá Íslandi. Hver sem er getur opnað búð eða heildsölu með matvöru, skófatnað eða heimilistæki á Íslandi. Allt tal um "samráð" og "svikamyllu" er tómahljóð eitt.
Hinu er ekki að neyta að ríkið gerir stofnun reksturs á ýmsum sviðum erfiðan með hafsjó reglugerða og skilyrða, auk skatta og skylda. Stundum er beinlínis bannað með lögum að stofna til samkeppnisreksturs og þá er yfirleitt um að ræða rekstur sem ríkið sinnir að einhverju leyti.
Engan skal undra að t.d. heilbrigðisgæsla og leikskólarekstur vex í kostnaði á hverju ári enda um að ræða ríkisrekna einokunarstarfsemi í öllum helstu meginatriðum. Gremjan sem olíu- og tryggingafélög uppskera oftar en ekki er í röngum farvegi og á að beinast að þeim sviðum þar sem skortur á samkeppni og vaxandi verðlag er heimatilbúið vandamál.
BA hættir flugi til Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 25. nóvember 2007
Hvað með Ísland og Danmörku í gamla daga?
Þessi frétt er vægast sagt holótt og vantar alla útdýpkun á því sem er raunverulega að gerast í Úsbekistan.
Sagt er að skólunum sé lokað svo börn geti "unnið launalaust" við að tína bómull. Í Danmörku var, fyrir tilkomu ríkidæmis, skólum lokað í viku eða tvær á hverju hausti til að börn gætu aðstoðað við kartöflutínslu. Haustfríið í Danmörku er ennþá kallað "kartöflufrí". Já, mikið rétt, skólabörnum var gefið frí í skólum til að vinna við landbúnað. Fríið er enn haldið í dag þótt kartöflutínslan sé horfin úr lífi langflestra Dana.
Á Íslandi er sumarfrí í skólum þrír samhangandi mánuðir sem er nokkuð óvenjulegt miðað við flest önnur lönd. Ástæða þessa fyrirkomulags skýrist einnig af landbúnaði. Börnin voru send á bændabýlin til að aðstoða við sauðfjárrækt og aðra landbúnaðarvinnu. Mjög sennilega "launalaust". Síðar kom iðnvæðing og ríkidæmi en skipulag sumarfrísins er enn meira og minna óbreytt.
Ekki er sagt neitt til um hvort starfsskilyrði hinna launalausu barna í Úsbekistan sé slæmt eða verra en það sem gilti áður um Ísland og Danmörku meðan þau lönd voru enn fátæk eins og Úsbekistan er í dag. Sögunni er stillt upp eins og hverri annarri "stórfyrirtæki eru vond"-sögu, sem er slæmt því þá er hætt við að athyglin á raunverulegri misnotkun og barnaþrælkun dofni og dreifist á víð og dreif. "Úlfur, úlfur" er sagan sem hérna birtist okkur. Því miður fyrir þá sem þurfa raunverulega á athygli alþjóðasamfélagsins að halda.
Börn tína bómull fyrir H&M | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Sunnudagur, 25. nóvember 2007
Klassísk talnaleiksbrella
Oxfam-samtökin verða seint ásökuð um það að kunna ekki að vekja athygli á sér. Til þess hafa þau margar brellur, og ein er sú að "komast að" sláandi niðurstöðum sem verða að góðum fyrirsögnum. Fátt virkar betur á fjölmiðlamenn í leit að næsta stóra málinu!
Skýrsluhöfundar vilja til dæmis bera saman fjölda fellibylja á seinustu árum við fjöldann fyrir tveimur áratugum. Snjallt, séu eftirfarandi orð höfð í huga: "When taken as a whole, the pattern appears to be better characterized as being dominated by active and inactive periods that oscillate through time, rather than being one that indicates a temporal trend. This characterization is one that does not fit so well with the concept that hurricanes are becoming more intense because of increases in atmospheric CO2." (#)
Á árunum ca. 1930-1970 fór stórum fellibyljum fækkandi en minni byljum fór fjölgandi. Nú, 25-35 árum seinna, hefur stórum fellibyljum farið fjölgandi og þeim smærri fer fækkandi. Allt þetta á meðan vöxtur CO2 í andrúmsloftinu hefur vaxið línulega svo gott sem sleitulaust frá fyrri hluta 20. aldar. Sjá einnig mynd hér. Einnig athyglisvert.
Oxfam voru samt snjallir að miða ástandið í dag við ástandið "fyrir tveimur áratugum". Þannig er búin til niðurstaða sem er ekki beinlínis röng út af fyrir sig, en ámælisverð því hún segir ekkert til um náttúrulegar sveiflur sem taka miklu fleiri áratugi en viðmiðunartímabil "rannsóknarinnar".
Fjölmiðlamenn kokgleypa samt með glöðu geði. Athugasemdalaus endurbirting á æsilegum "niðurstöðum" er víst aðalhlutverk nútímalegra fréttamanna.
Náttúruhamfarir stöðugt algengari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 24. nóvember 2007
Er Stefán Ólafsson svona lengi að skrifa bækurnar sínar?
Framleiðni er vissulega góður eiginleiki starfsmanns. Mikil verðmæti á stuttum tíma - þetta vilja allir, bæði starfsmenn og atvinnurekendur. Hins vegar ber að varast að sýna oftrú á talnaleikfimi, og þá sérstaklega þeirri sem ber saman ólík hagkerfi án þess að leiðrétta fyrir ýmsum mismun.
Í Frakklandi, Þýskalandi og Svíþjóð, svo dæmi séu tekin, er atvinnuleysi mikið. Sérstaklega gildir þetta um ungt fólk, ófaglærða og innflytjendur. Ástæðan er ekki sú að það vanti verkefni heldur sú að lög og reglur gera ráðningu þessa fólks mjög dýra miðað við þau verðmæti sem því tekst að skapa. Oft er fyrirtækjum einnig gert erfitt fyrir þegar kemur að því að reka starfsfólk þegar harðnar í dalnum.
Í stað þess að ráða "jaðar"hópana til að sinna verðminni störfunum þá er einfaldlega reynt að minnka þörfina fyrir þau eða fá þau unnin eftir krókaleiðum. Sum má til dæmis senda til útlanda þar sem starfsfólk er ódýrara. Einnig að ráða á formi tímabundinna samninga sem gjarnan eru taldir sem störf til að fegra atvinnuleysistölur, en sennilega mundu fáir Íslendingar telja sig vera í fastri vinnu þótt samningur upp á 6 mánaða verkefnavinnu væri til staðar.
Á Íslandi er auðvelt að ráða og reka og oftar en ekki ágætur sveigjanleiki til að semja um laun. Á Íslandi vinna innflytjendur og unglingar daginn út og daginn inn við störf sem skila ekki miklum verðmætum á tímann (t.d. fiskvinnslu, aðhlynningarstörf, hreingerningar), en skila svo sannarlega verðmætum til lands og þjóðar.
Frekar að ásaka þetta fólk um að draga niður tölfræði Stefáns Ólafssonar á að fagna því að Ísland hafi pláss fyrir aðra en bara þá allrafærustu og framleiðnustu, og geri ekki atvinnuleysi að augljósasta kosti þeirra sem eru að byggja upp reynslu, þekkingu og færni á atvinnumarkaðinum.
Höfum of mikið fyrir lífsgæðunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 23. nóvember 2007
Ríkisafskipti bakdyramegin
Hið íslenska ríki hefur á undanförnum árum áttað sig á því að opinberlega skipaðir og ábyrgðarlausir embættismenn eru ekki hið fullkomna hráefni í rekstraraðila fyrirtækja. Einkavæðingar og skattalækkanir eru til marks um þann skilning.
Ríkisvaldið hefur á móti komist að því að beint eignarhald er ekki endilega nauðsynlegt til að stjórna öllu því sem fer fram í frjálsum samskiptum og viðskiptum. Hafsjó allskyns jafnréttis- og samkeppnislaga streymir nú frá eirðarlausum stjórnmálamönnum sem vilja halda starfsfólki sínu uppteknu ella eiga á hættu á að missa það í uppsagnir og flutninga. Ekki urðu Vesturlönd rík á því að þvinga fyrirtæki til að verðleggja jafnhátt og önnur (eða hærra, eða lægra, eftir því hvað kallast "samráð" eða "misnotkun markaðsráðandi stöðu" hverju sinni). Ekki urðu konur að meirihluta íslenskra háskólanema í gegnum löggjöf. Ísland var áður fyrr kaffært í danskri löggjöf. Þegar því sleppti tóku góðir tímar við. Á nú aftur að kaffæra íslenskri áræðni og dugnaði í tilgangslausri en tíma- og fjárfrekri eftirlits- og yfirumsjónarlöggjöf?
Burt með hið nýja frumvarp um sósíalisma bakdyramegin! Á því þarf Ísland svo sannarlega ekki að halda!
Samtök atvinnulífsins gagnrýna jafnréttisfrumvarp harðlega | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 20. nóvember 2007
'Trúðu, mannfjandi, trúðu!'
Svo virðist sem fá orð kveiki upp heitari tilfinningar (a.m.k. í athugasemdakerfi þessarar síðu) en að þverneita því að vilja brenna lífskjör mín (og annarra í orkuétandi kapítalískum hagkerfum) á bál CO2-heimsendaspádómanna.
Umorðum: Að ég þverneiti að segjast vilja brenna lífskjör mín á bál CO2-heimsendaspádómanna (flestir sem segjast vilja gera það gera það ekki enda veldur slíkt óþægindum) stuðar mjög marga!
Viðurnefnin (og stundum uppnefnin) vantar ekki. Ég er sagður heilaþveginn af stjórnmálaskoðunum, í afneitun, óvinur vísindamanna, óraunsær, bjartsýnn, barnalegur að halda að við getum bara "haldið áfram á sömu braut" um ókomna tíð, efnishyggjumaður, sértækur á rannsóknir og mælingar og ég er sagður grafa undan framtíð okkar á þessari plánetu (þó ekki endilega í verki enda erum við öll að njóta orkuaðgengis okkar, en frekar í orði með því að neita því að boða takmörkun orkuaðgengisins).
Kannski er ég allt þetta. Mér finnst ekki eins og heimur versnandi fari. Milljónir manna eru að rísa úr ömurleika fátæktar. Veðrið er e.t.v. annað í dag en á sama tíma fyrir ári en það þarf ekki að þýða neitt, og í raun kemur oftar en ekki í ljós að heil mannsævi og minningar "elstu manna" um snjófall, óveður og hlýindi eru ómarktækar vísbendingar um heimsenda. Miklu frekar er um ræða merki þess að maðurinn lifir stutt á mælikvarða Jarðarinnar og loftslags þess.
Fyrir 300 árum bjuggu flestir Evrópubúar við sjúkdóma og sult í dreifðum en ómenguðum sveitum. Eftir örfáa áratugi, jafnvel öld eða tvær allt eftir stað og stund, af sóðalegri kolabrennslu og skítugu borgarlífi var sá veruleiki að baki. Með ríkidæmi fæddist athygli að öðru en brýnasta brauðstritinu. Grasið átti að vera grænt og götur hreinar. Með réttu hugarfari náðist það fram á örfáum árum. Ríkt Vestur-Þýskaland hreinsaðist, fátækt Austur-Þýskaland varð lauflaust sökum súrrar úrkomu.
Kínverjar og Indverjar feta nú sömu fótspor en munu gera það á töluvert skemmri tíma, enda orðið ódýrt að kaupa fullkomna tækni sem áður stóð ekki til boða og þurfti að finna upp frá grunni.
Ég er víðsfjarri því að vera sannfærður um heimsendaáhrif CO2-losunar (sem ég reyni að rugla ekki saman við mengun sem er erfitt því ég sé þann rugling daglega í fjölmiðlum). Það sem er ekki búið að afskrifa sem náttúrulegar (oft óreglulegar og gjarnan aldalangar) sveiflur í veðurfari og loftslagsbreytingum er rökrætt fram og til baka af vísindamönnum hverjir í sinni sérfræðigrein (sumir að rannsaka sólina, aðrir að lesa af hitamælum, enn aðrir að mæla magn CO2 í andrúmsloftinu). Þeir enda sjaldnast á því að verða einhuga um orsakir og afleiðingar. Þá fyrst að opinberir embættismenn fá að þjappa saman vísindaniðurstöðum í fjölmiðlavæna útdrætti næst fram einhvers konar "samstaða" án óvissu (eða hún orðin að "90% vissu", hvað sem það nú þýðir).
Ég ætla að halda áfram að vera "barnalegur" og "bjartsýnn" - jafnvel "barnalega bjartsýnn". Það er ekki bara mér fyrir bestu heldur einnig þeim sem fyrirlíta hina barnslegu bjartsýni mína, auk þeirra hundruð milljóna sem fyrst og fremst vantar orku til að komast út úr ömurlegustu fátæktinni (t.d. til að knýja ísskápa og traktora).
Mánudagur, 19. nóvember 2007
Sönnunarbyrðin er á Græningjunum
"The basic libertarian principle is that everyone should be allowed to do whatever he or she is doing unless committing an overt act of aggression against someone else. But what about situations where it is unclear whether or not a person is committing aggression? In those cases, the only procedure consonant with libertarian principles is to do nothing; to lean over backwards to ensure that the judicial agency is not coercing an innocent man. If we are unsure, it is far better to let an aggressive act slip through than to impose coercion and therefore to commit aggression ourselves. A fundamental tenet of the Hippocratic oath, "at least, do not harm," should apply to legal or judicial agencies as well." (#)
Það er einhvern veginn á þessum nótum sem ég hafna sósíalisma í nafni dómsdags-tölvumódela CO2-heimsendaspáanna sem enginn trúir á en eru notaðar sem söluvara boðskapsins. Sé vafi (og já, það er svo sannarlega vafi), gera ekkert, því ef vafinn reynist réttur þá hefur ofbeldi verið beitt í nafni sjálfsvarnar, og slíkt er ekki réttlætanlegt undir nokkrum kringumstæðum.
Sönnunarbyrðin hvílir á þeim sem kærir eða hefur frami ásakanirnar, en ekki hinum sem stunda frjáls samskipti og viðskipti sín á milli og nýta sér náttúruauðlindir til að bæta lífskjör sín og lengja líf. Baráttan við 0,02 gráðurnar eftir 50-100 ár mætti gjarnan enda hér og nú. Hún er ekki einnar trilljón evranna virði, hvorki fjárhagslega né í tapinu á frelsi mannkyns.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Sunnudagur, 18. nóvember 2007
Oftrú á vísindin, eða bara þar sem hentar?
"Ekki er vísindamönnum treyst til að segja fyrir um jarðskjálfta og eldgos með meira en nokkurra klukkustunda fyrirvara (yfirleitt mun minna). Margir efast um getu vísindanna til að áætla sjálfbært aflamark á fisknum í sjónum. Veðurspáin hlýtur yfirleitt vissa tortryggni og af fæstum talin marktæk meira en örfáa daga fram í tímann. Margir algengir sjúkdómar blómstra enn víða um heim þrátt fyrir að vísindamenn hafi haft þá til meðhöndlunar svo áratugum skiptir. Oftrúin á vísindin er hvergi til staðar nema þar sem dyr alheims-sósíalismans virðast ætla opnast upp á gátt. Á bál þessarar oftrúar vilja margir kasta hinni kapítalísku iðnvæðingu sem nú loksins er byrjuð að breiðast almennilega um heiminn."
Fleiri hressandi setningar í þessum dúr hér. Njótið!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)