Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Gamalt mjöl í nýjum sekkjum

Enn og aftur rjúka fjölmiðlar til og segja frá því þegar hin pólitíska vísindanefnd, IPCC, kynnir gamlar niðurstöður og vangaveltur með nýjum glærum. Enn og aftur er því haldið fram að CO2 (þú veist, þetta sem líkami þinn er byggður úr og rotnandi laufblöð á köldum haustdegi dæla út í andrúmsloftið) hafi áhrif á veðrið. Enn og aftur er svo þessi dansleikur stjórnmála- og vísindamanna (vísindamenn rannsaka og skrifa skýrslur, stjórnmálamenn skrifa útdrátt úr niðurstöðum þeirra) notaður til að rökstyðja stofnun alþjóðlegs opinbers eftirlits. Alheimssósíalisminn varð þá að veruleika eftir allt saman!

Ef við höfum í raun og veru áhyggjur af veðrinu, af hverju berjumst við þá ekki frekar fyrir því að fátæklingar geti orðið nógu ríkir til að kaupa sér úlpu (ef það kólnar) eða stuttbuxur (ef það hlýnar), nú eða stígvél (ef það rignir) eða sandala (ef 'ann hangir þurr)? Eru efnahagsleg úrræði til að bregðast við óumflýjanlegum og eilífum breytingum á umhverfi okkar lúxus sem við svo vísvitandi viljum halda frá íbúum fátækustu svæða jarðar (að undanþegnum þeim sem má gefa þeim með þróunaraðstoð og ölmusa)? 

Dómsdagur er í nánd segja margir (þó ekki villitrúarmennirnir) en ég vil a.m.k. gjarnan hafa næg úrræði til að verjast brennisteinsrigningum og himnasendum plágum og óska þess að sem flestir hafi efni á því sama. 

Þess má geta að vísindin og grundvöllurinn bak við stofnun alþjóðaríkisvalds í nafni banns við rotnun og orkuframleiðslu í þróunarríkjum (takmörkun á losun CO2) eru ósköp fátækleg, en meira um það má lesa hér. Ég ítreka svo þá skoðun mína að mér finnst ekki á neinn hátt réttlætanlegt að nota veðurspánna til að takmarka frelsi einstaklingsins sama hvað ískjarnaboranir og völvuspár og hermilíkön segja mér um framtíðina.


mbl.is Hlýnun jarðar er staðreynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danskir skattgreiðendur vona hið besta

Sem íbúi í Danmörku og skattgreiðandi hér í landi get ég ekki annað en vonað að hinir svokölluðu hægriflokkar haldi völdum. Vinstriflokkarnir hafa lofað því að skattar verði ekki lækkaðir ("velferð eða skattalækkanir?" segja sósíaldemókratarnir), og útgjöld ríkisins snaraukin (um 68 milljarða danskra króna segir næststærsti vinstriflokkurinn). Þeir eru samt alltaf að skipta um skoðun á því hvort útgjaldaaukningum verði dembt á húsnæðiseigendur eða launþega. Svolítill vindhanagangur sem er erfitt að átta sig á og hvað þá spá fyrir um hvar endar ef vinstrið nær völdum.

Í Danmörku er hægt að reikna sig fram til að hæstu skattarnir hér í landi nemi allt að 71% þegar allt er talið með.  Um 900.000 Danir á "vinnufærum aldri" eru á opinberri framfærslu og þá eru þeir ekki taldir með sem þiggja bætur eða einhvers konar aðstoð, heldur eru beinlínis á opinberri framfærslu. Hvað ætli verði margir eftir þegar fólk í raunverulegri nauð hefur verið dregið frá níu hundruð þúsundunum? Varla einn fimmti af íbúunum eða hvað!

Um þetta er samt ekki kosið. Allir flokkar lofa að eyða meiru í allt. Þeir sem lofa skattalækkunum gera það ekki til að svipta ríkið fjármunum heldur til að "hvetja" fleiri til að vinna meira og hugsanlega ná einhverjum til baka af þeim tugum þúsundum landflótta vel menntaðra Dana sem hafa flúið land og skattkerfi.

Skattkerfið er líka flókið. Á meðan sumar holur í því eru búnar til viljandi til að laða að vel menntað fólk (með lægri skatti í ákveðinn árafjölda) þá verða aðrar til þess að peningar hverfa úr landi í stórum stíl. 

Enginn flokkur berst fyrir einfaldri og gegnsærri stjórnsýslu. Ekki er um það að ræða að leysa vandamál ríkisrekstursins með öðrum leiðum en áframhaldandi auknu fjáraustri.  Ríkisreksturinn vex svo hratt í kostnaði að margmilljarða árlegar útgjaldaaukningar kallast "niðurskurður" af stjórnarandstöðunni! 

Þetta er meira að segja svo brenglað að ef hinir íslensku Vinstri-grænir myndu lofa því sama og dönsku "hægri"flokkarnir þá yrðu þeir sennilega þurrkaðir út í næstu kosningum! Eða hvaða Íslendingur ætlar að kjósa flokk sem beinlínis lofar því að "hæstu skattar á laun verða 50%" og "rekstur hins opinbera á að vaxa í kostnaði um 50 milljarða á næstu þremur árum"? Ekki margar, að ég held! 

Skattalækkanir ef hið danska svokallaða hægri vinnur? Varla nema á yfirborðinu. Áframhaldandi stopp á skattahækkanir? Vonandi!


mbl.is Útgönguspár benda til sigurs dönsku stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðurlöndin vs. Bandaríkin

Eftirfarandi er ekki á allra vitorði: 

"...Scandinavians are the poorest people in Western Europe once income is adjusted for taxes and the cost of living."

"If nations are being judged on the prosperity of their poorest citizens, then Nordic nations certainly are equal to the United States."

"...strong economic growth is better than income redistribution if the goal is to help the least fortunate in society."

Setningar teknar úr mjög svo athyglisverðri skýrslu sem ég ætla troða ofan í kokið á öllum sem halda því fram að Norðurlöndin séu eitthvað sérstök, t.d. miðað við Bandaríkin, t.d. þegar kemur að lífskjörum fátækra. Að vísu bara talnaleikfimi (versus rökleiðsla) í gangi, en talnaleikfimi sem sést ekki oft í fjölmiðlum!

Á öðrum stað má svo finna eftirfarandi orð (upprunaleg heimild stundum og stundum ekki aðgengileg netleiðis gjaldfrjáls en samt alltaf aðgengileg í færslu-viðhengdri skrá):

"[I]f the E.U. was treated as a single American state, it would rank fifth from the bottom [in economic output per person], topping only Arkansas, Montana, West Virginia and Mississippi. In short, while Scandinavians are constantly told how much better they have it than Americans, [...] statistics suggest otherwise."

Ekki að furða eftir að Evrópa hefur viljandi grafið hratt undan hagvexti sínum í 40 ár samfleytt á meðan  Bandaríkin hafa gert það aðeins hægar.

Lögmál Wagner's virðist svo sannarlega ekki vera mjög rangt! 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kerfisbundin mismunun á lágvöxnum karlmönnum og ófríðu kvenfólki

Með því að spyrja réttu spurninganna er hægt að grafa upp (eða finna upp) mismunun mun víðar en í kynfæradeildinni. Spurningin er bara: Hvað kemur það ríkisvaldinu og löggjafanum við?

Til dæmis hafa eirðarlausir vísindamenn komist að því að hávaxnir menn þéna meira en lágvaxnir og "venjulega" útlítandi kvenmenn þéna 11% minna en þeir sem teljast myndarlegir.

Er þetta ástæða til að hafa áhyggjur? Er þetta verkefni sem ríkisvaldið þarf að eyða fé þegna sinna í að reyna uppræta?

Þeir sem þekkja ekki muninn á class probability og case probablity ættu að halda sig frá umræðunni um umfang og verksvið ríkisvaldsins. 


mbl.is Kerfisbundið misrétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er okkur alvara með þessum "aðgerðum" gegn loftslagsbreytingunum eilífu?

Nú er mjög "inn" að tala um "aðgerðir gegn loftslagsbreytingum", en er okkur alvara í eitt aukatekið orð þegar við segjum þetta? Gerir sér einhver grein fyrir afleiðingunum ef róttækum (og meira að segja "hófsömum") ráðum á að fylgja eftir með aðgerðum? Þá gefið að með "aðgerðum" sé verið að meina "takmörkun á losun manna á CO2 í andrúmsloftið", sem kannski og kannski ekki hefur einhver áhrif svo nemur kommum úr gráðu á 100 árum.

Í fyrsta lagi þyrftum við að hætta lífrænni ræktun hið fyrsta. Þessi landfreka gerð landbúnaðar er einfaldlega meira CO2 losandi en hefðbundinn landbúnaður. Mörgum þætti mikið miður að sjá lífræna ræktun hverfa úr verðflokki hins venjulega ríka Vesturlandabúa þótt ekki væri af öðrum ástæðum en vegna bragðsins sem hægvaxta landbúnaðarvörur ku víst hafa umfram hinar hraðvaxta.

Í öðru lagi þyrfti að raða kjarnorkuverum niður hvar sem hægt væri til að sinna orkueftirspurninni sem í dag er svarað af orkuverum sem eru knúin með jarðefnaeldsneyti. Ekki veit ég hvernig gengið er frá kjarnorkuúrgangi í dag en ég er viss um að það yrði ærinn vandi ef fleiri en Frakkar, Bretar, Kanar og fleiri ætluðu sér út í stórkostlega kjarnorkuvæðingu. Til dæmis myndi bráðvanta hæfa sérfræðinga til að sjá um rekstur kjarnorkuveranna og slíkt opnar á dyr óvandaðra vinnubragða.

Þróun Kína, Indlands, Afríku og fleiri svæða yrði að stöðva. Þróun krefst orku - ódýrrar orku í tilviki þróunarlandanna - og hún er einfaldlega ekki fáanleg í dag nema með brennslu aðgengilegs jarðaefnaeldsneytis, og á örfáum svæðum með virkjun jarðhita og fallvatna. Hundruðum milljóna manna væri því beinlínis meinað að bæta lífskjör sín og Vesturlönd munu áfram féfletta sjálfa sig í nafni þróunaraðstoðar um ókomna tíð (eða þar til hagkvæmur orkugjafi finnst sem veldur ekki losun á CO2).

Lífskjör Vesturlandabúa yrði að skerða eða a.m.k. yrði að breyta neyslumunstrinu frá (tiltölulega) ódýrri orku og t.d. dýrum (oft lífrænt ræktuðum) matvælum og yfir í dýra orku og ódýra (verksmiðju)framleiðslu matvæla, svo dæmi sé tekið. Erum við tilbúin að annaðhvort skerða lífskjör okkar stórkostlega eða breyta útgjaldaskiptingu okkar frá ódýrri orku til dýrrar, með þeim afleiðingum að t.d. dýr læknismeðferð eða menntun er ekki lengur innan fjárhagslegs ráðrúms?

En hvað með blessaðan lofthjúpinn, spyr nú einhver. Já, hvað með hann? Ég segi: Ef valið stendur á milli kalds lofthjúps yfir milljörðum fátæklinga (algjörlega á valdi breytinga í lofthjúpi og veðurfari) og heits lofthjúps yfir milljörðum sem búa við góð og batnandi lífskjör (sem eiga auðveldar með aðlögun að t.d. breyttu veðurfari og sjávarmáli), þá vel ég hið síðarnefnda!


mbl.is Forseti Íslands ræddi áhrif loftlagsbreytinga á orkubúskap heimsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafa hryðjuverkamennirnir unnið?

Í einhverjum hellinum í Pakistan sitja nú helstu forkólfar múslímskra hryðjuverkasamtaka og hlægja sig máttlausa yfir því hvað Vesturlönd eru orðin hrædd við þá, og að ekki megi einu sinni gagnrýna þá án þess að hryðjuverk séu "afsökuð" eða "útskýrð". Þessu neita dönsk yfirvöld að kyngja og ég segi bara: Gott hjá þeim!

Auglýsing Dansk Folkeparti er alls ekki neitt til að missa málið yfir. Engu að síður uppskera Danir morðhótanir vegna hennar og allir kinka kolli og vilja sennilega að auglýsingin sé tekin úr umferð. Það má jú ekki styggja þessa ofstækismenn, eða hvað?

 

 


mbl.is Múhameðsteikning notuð í dönsku kosningabaráttunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband