Verndaðir vinnustaðir opinberra starfsmanna

Ég hef unnið á ófáum vinnustöðum í gegnum tíðina, og má þar nefna ýmsar byggingalóðir, fiskvinnslu, pósthús, skrifstofur og kjallara sem þurfti að hreinsa af myglusveppum í kjölfar yfirfylltra niðurfalla. Sérhver vinnustaður hefur ákveðið andrúmsloft og sín eigin mörk á því hvað þykir við hæfi og hvað ekki. Á sumum hafa hangið myndir af fáklæddu kvenfólki. Á sumum mátti varla heyra mun á sóðalegu tungutaki kvenna og karla. Á sumum er mikið um faðmlög og koss á kinn, á öðrum (sérstaklega á síðari tímum) er eins og að fólk þori ekki að snertast af ótta við að senda einhver röng skilaboð. 

Hvað um það. Stundum sé ég texta frá fyrirtækjum, stofnunum og fjölmiðlum sem fá mig til að íhuga hvers konar andrúmsloft sé á viðkomandi vinnustað. Tökum sem dæmi Ríkisútvarpið. Þar er örugglega mikið talað um samsæriskenningar og hvernig sé nú ekki gott að hlusta á slíkt þvaður. Þótt ég vinni á verkfræðistofu og eigi við tæknileg vandamál sem koma stjórnmálum ekkert við þá skynja ég svipað andrúmsloft. Ég er sennilega meðal örfárra á 1500 manna skrifstofu sem er ekki gataður eins og svissneskur ostur af sprautum. Vinnufélagar mínir hafa sagt að ég sé hallur undir samsæriskenningar en nefna svo aldrei þær kenningar sem hafa ræst, og ég er ekkert að kvelja þá með slíkum áminningum enda ekki allir sem þola mjög vel að hafa látið blekkja sig. Einn og einn hefur samt játað í mín eyru að sjá á eftir sprautunum og óttanum eða játað að hafa bara látið sprauta sig til að geta ferðast eða komast á ráðstefnu í Bandaríkjunum.

Í Staksteinum Morgunblaðsins um daginn er gert svolítið grín að baráttu Umhverfisstofnunar gegn flugeldum. Verðskuldað grín, vel á minnst, enda segir stofnunin:

Flugeldar eru aldrei umhverfisvænir eða skaðlausir en þörfin fyrir flugelda fer minnkandi með nýjum hugsunarhætti. Íslendingar eru nú mun meðvitaðri um þessi skaðlegu áhrif flugelda. Flestir huga að því að endurmóta sínar áramótahefðir þannig að allir geti tekið þátt án þess að heilsa manna og umhverfis hljóti skaða af. 

Er það svo, já? Þessu orð fengu mig til að hugleiða hvernig vinnustaður Umhverfisstofnun er. Hvað tala menn um við kaffivélina? Flugelda? Mengun? Hvað sé hægt að gera við afganginn af fjárheimildum stofnunarinnar áður en árið er á enda svo stofnunin lendi ekki í niðurskurði? 

Ég ætla að draga mjög í efa að „flestir“ Íslendingar séu að endurmóta sínar áramótahefðir með sérstakri áherslu á að forðast flugeldakaup. Mögulega skutu þeir eitthvað minna upp þegar ríkisvaldið bannaði áramótabrennur og fjölskyldufagnaði (og þó) en hafa nú gleymt öllum slíkum inngripum inn í fagnaði og hefðir og ætla sér að skjóta upp eins mikið og þeir hafa efni á. 

Ég held á hinn bóginn að meðal starfsmanna Umhverfisstofnunar ríki ákveðin veruleikafirring, kannski á svipuðu stigi og innan fréttastofu Ríkisútvarpsins. Skoðanakannanir meðal starfsfólks sýni eitthvað allt annað en þær meðal almennings. Yfirgnæfandi kosið til vinstri. Tröllatrú á fjórðu sprautuna. 

Mér gæti skjátlast og læt gjarnan leiðrétta mig, en mun óháð því hugsa til starfsfólks Umhverfisstofnunar þegar ég troðfylli lungu mín og barna minna af brenndu púðri í kvöld.

Gleðilegt ár, allir sem þetta lesa!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Mér hefur tekist að fá alla mína hunda utan einn til að líka vel við flugelda. Sú sem ekki sætti sig við þá, var sannfærð um að þeir væru geltandi vofur genginna og illra hunda sem ekki hefðu komist í hina miklu fjárhundaparadís og það var ekki séns að sannfæra hana um annað. Tveir hundar (systur úr sama goti) vildu helst gelta þessa skratta niður og ná þeim. Sumir hundar sem komu til mín í pössun hættu að vera hræddir við flugelda á meðan þeir voru í pössun en ekki hjá eigendum sínum.

Athugasemdin tengist ekki efni færslunnar með beinum hætti. Bestu kveðjur og þakkir fyrir árið sem er liðið.

Guðjón E. Hreinberg, 31.12.2022 kl. 10:17

2 Smámynd: Grímur Kjartansson

Ef ekki væri fyrir þessa hefð sem ég held að hafi skapast í byrjun því fiskiskipin á Íslandi voru að losa sig við neyðarblysin (skiparaketturnar) um áramótin og endurnýja birgðirnar.

Þá væri eflaust búið að banna allar rakettur á Íslandi.

Ef rakettur yrðu bannaðar í dag þá mundu sjálfsagt margir vilja lýsa yfir þjóðarsorg en það er vandkvæðum háð því ekkert prótokol er til á Íslandi frekar en í Svíþjóð hvað er við hæfi að gera í þjóðarsorg (gamli góði föstudagurinn langi alla daga?).
Bretland er að sjálfsögðu með reglur um þjóðarsorg og ef til vill Brasilía en þegar þjóðarleiðtogar lýsa yfir þjóðarsorg þá virðast reglurnar vera búnar til jafnóðum líkt og ef lýst væri yfir neyðarástandi vegna loftslagsmála. Íslendingar (og svíar) hafa samt mikla reynslu af neyðarástandi á sjúkrahúsum og hafa margoft lýst yfir neyðarástandi á heilbrigðisstofnunum án þess að það gagni nokkuð.

Grímur Kjartansson, 31.12.2022 kl. 10:46

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Grímur,

Listinn yfir hluti, verknaði, íþróttir og jafnvel atvinnugreinar sem fengi aldrei leyfi eða náð hins opinbera í dag er vægast sagt langur.

Augljós dæmi eru sígarettur, tóbak, nektardans, rússíbanar, klámblöð, flugeldar, kannabis, hnefaleikar, fallhlífastökk áhugamanna, skammbyssur og djúpsteiktur kjúklingur. 

Ekki þekki ég sögu flugelda og áramóta en sú saga er lengri en saga fóstruríkisins og það mun því taka hið opinbera tíma að gera hefðina útlæga. En það verður áfram reynt.

Geir Ágústsson, 31.12.2022 kl. 11:14

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Guðjón,

Svo má líka bara gefa dýrunum róandi lyf. Þetta eru ekki margir dagar þessir sprengidagar, þannig séð. Gæludýraeigendur geta svo bara þjálfað dýrin til að búa í samfélagi manna svo samfélag manna þurfi ekki að aðlagast gæludýrunum. Eða bara sleppa því að eiga dýr í þéttbýli. 

Geir Ágústsson, 31.12.2022 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband