Fyrsta viðbragð: Loka, læsa, banna!

Eigum við bara að vera umburðalynd þegar kemur að sumum skoðunum og lífsviðhorfum en ekki öðrum? Hver flokkar í rétt og rangt, leyft og bannað? Hver hefur slíkt úrskurðarvald?

Þú og ég? Já, auðvitað. Við getum valið að horfa ekki á eitthvað, hlusta ekki á eitthvað, lesa ekki eitthvað og mæta ekki á einhvern viðburð, og auðvitað reynt að sannfæra aðra um að gera hið sama.

Þurfum við að ganga lengra en það og biðja um bann? Að lokað sé á einhverja leið fyrir tiltekinn einstakling að tjá sig? Það finnst mér ekki af mörgum ástæðum, meðal annars þeirri að slíkt styrkir aðstöðu þess sem ég er ósammála.

Þegar búið er að takmarka leið einstaklings til að tjá sig á opinberum vettvangi þá er hætt við að viðhorf viðkomandi finni heppilegan bergmálshelli þar sem skoðanir viðkomandi styrkjast. Þær mæta aldrei málefnalegu aðhaldi, gagnrýni og mótrökum. Þær skjóta djúpum rótum innan um fylgjendur og aðdáendur. 

En hættum við ekki á að óhörðnuð ungmenni falli ofan í einhverja gryfju sem þau komast aldrei upp úr? Vaxi úr grasi með hættulegar og fordómafullar hugmyndir í hausnum? Kannski, en líkurnar á að ungmennin mæti mótrökum, aðhaldi og gagnrýni aukast í umhverfi opinna samskipta um allar hugmyndir, vinsælar og óvinsælar. Ungmennin loka sig síður inni í bergmálshelli þar sem það er hert í afstöðu sinni.

Sérðu óvinsæla skoðun eða jafnvel hvatningu um að beita ofbeldi? Vill til dæmis senda sprengjur á konur og börn í fjarlægu ríki? Gefðu viðkomandi þá sviðið! Leyfðu honum að mæta þér í rökræðum! Hver veit, kannski ertu með betri rök en viðkomandi og vinnur hann yfir á þitt band? Þú kemst aldrei að því nema geta prófað.

Fái viðkomandi ekki sviðið getur þú verið verið viss um að hann sé ekki að þegja. Hann er að vinna á bak við tjöldin, í bakherbergjum, án aðhalds.

Ef veirutímar hafa kennt okkur eitthvað þá er það að hin leyfilega skoðun yfirvalda og strengjabrúða þeirra getur verið argasta þvæla og heilaþvottaáróður með vafasaman tilgang og óskýr markmið.


mbl.is Kallað eftir að TikTok skerist í leikinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Læsti greinina?  Þú veist þá að börn niður í 13 ára hafa aðgang að þessum "manni"  Er þetta það sem þú villt kenna þínum börnum og annarra?  Að ofbeldi, nauðganir og barsmíðar gegn konum séu bara hið besta mál?  Þetta er ólöglegt athæfi, nema kannski í Afganistan.  Þér finnst semsagt í góðu að upphefja glæpssmlegt athæfi á samfélagsmiðlum, sem börn hafa aðgang að og að það sé einhverskonar "frelsi"  Og enginn eigi að taka ábyrgð á eigin gjörðum. 

Fyrir mér þá hafa orð ábyrgð, hvort sem þau eru sögð augliti til auglitis eða á samfélagsmiðlum og með málfrelsi kemur lagaleg og siðferðisleg ábyrgð á eigin orðum.  Hvort sem um er að ræða hvatningu til glæpa, eða órökstuddar ásakanir um að einhver, nafngreindur eða ekki, hafi gerst sekur um glæpssmlegt athæfi.  Þess vegna ber samfélagsmiðlum siðferðisleg skylda til að koma í veg fyrir orðræðu sem hvetur til eða afsakar glæpsamlegt athæfi.  

Arnór Baldvinsson, 15.8.2022 kl. 15:00

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Arnór,

Það ætti að vera hlutverk foreldra að sjá um börnin sín. Sjálfur á ég 11 ára son með óheftan aðgang að öllum heiminum og um leið óheftan aðgang að mér til að spyrja út í hluti og ég með óheftan aðgang að honum ef ég vil skoða hvað hann er að bauka. Að einhver lúsablesi sé að tjá sig eins og bjáni á TikTok er einfaldlega ekki eitthvað sem ég sé sem vandamál.

Geir Ágústsson, 15.8.2022 kl. 15:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband