Þriðjudagur, 10. janúar 2017
Minnst menntaðir en hugsanlega sveigjanlegastir allra
Íslendingar ættu að taka alla minnimáttarkennd vegna menntastigs og grafa ofan í djúpa gröf. Slík minnimáttarkennd er óþarfi og getur raunar verið skaðleg.
Að ætla sér að mennta svo og svo stóran hluta þjóðar í háskóla er glapræði og fyrir því eru mjög margar ástæður.
Í fyrsta lagi er með slíku markmiði óbeint gert lítið úr annars konar menntun og e.t.v. mikilvægari, svo sem iðnmenntun eða hreinlega "skóla lífsins". Ég þekki ekki bara einn heldur tvo einstaklinga sem skara fram úr á sínu sviði án þess að hafa lokið háskólagráðu og gera það í blússandi samkeppni við sprenglærða einstaklinga með gráður frá öllum heimshornum. Menntakerfið hélt aftur af þeim svo þeir rifu sig lausa og tóku sprettinn á eigin forsendum.
Íslandi vantar núna iðnaðarmenn en fá ekkert nema kynjafræðinga og sérfræðinga í útlendum bókmenntun. Hver græðir á því?
Í öðru lagi hentar háskólanám ekki öllum. Þannig er það bara. Fjölmargir einstaklingar láta lokka sig inn í háskólana og þeir upplifa þar bara vanmáttarkennd og uppgjöf og sóa bæði eigin tíma og fé sem og annarra. Til eru frábærir læknaritarar sem hefðu orðið ömurlegir viðskiptafræðingar en það eru líka til ömurlegir viðskiptafræðingar sem hefðu orðið frábærir smiðir.
Í þriðja lagi er háskólanám oftar en ekki ofmetið. Ekki allt nám skilar nothæfri þekkingu inn á atvinnumarkaðinn. Fólk með slíkt nám á bakinu lendir í atvinnuleysi eða störfum sem tengjast náminu ekkert og það fer illa með sálina á því. Sumt háskólanám má hreinlega flokka sem afþreyingu eða áhugamál og ætti bara að vera sjálfsnám í eigin frítíma en ekki háskólanám á kostnað annarra.
Í fjórða lagi er menntakerfið þannig skrúfað saman að tengsl ávinnings af menntun og kostnaði af menntun eru rofin. Sá sem fer í háskólanám getur sent megnið af reikningum á aðra. Hér er framboðið niðurgreitt og eftirspurnin því mikil - miklu meiri en ef hver og einn þyrfti að reikna út hvað menntunin skilar viðkomandi (t.d. í formi hærri launa eða þægilegri vinnu). Þannig má segja að læknanám skili það mikilli verðmætasköpun fyrir viðkomandi að hann eigi að geta fjármagnað frekar dýrt nám. Á hinum pólnum er kynjafræðingurinn sem hefur ekkert að gera nema það sé vinstrisinnaður ráðherra í stjórnkerfinu sem deilir út fé annarra.
Íslendingum er hrósað um allan heim fyrir að vera góðir starfskraftar: Ábyrgir, samviskusamir, duglegir og allt þetta. Ekki skemmir fyrir að Íslendingar hafa flestir vinnureynslu sem nær niður til unglingsáranna og jafnvel fyrr. Háskólanám bætir litlu við þessa eiginleika.
![]() |
Íslendingar minnst menntaðir Norðurlandabúa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 9. janúar 2017
Á að banna Íslendingum að eiga eignir erlendis?
Íslendingar hafa nú í marga mánuði fengið að heyra dynjandi lúðrablástur um að félög ákveðinna Íslendinga erlendis séu óheiðarlegar undankomuleiðir frá skattinum. Auðvitað er um pólitískan leik að ræða. Félög erlendis, svokölluðu aflandsfélög, eru engin ávísun á óheiðarlega viðskiptahætti, eða með orðum skattyfirvalda (Tíund, des. 2016, bls. 38):
Aflandsfélög gegna oft lögmætu og þýðingarmiklu hlutverki í alþjóðlegum viðskiptum og mikilvægt er að hafa í huga að þrátt fyrir að þau séu stundum notuð til að gera skattyfirvöldum erfitt fyrir er ekki þar með sagt að þeir sem tengist félögunum séu sekir um skattaundanskot eða önnur lögbrot.
Þannig hafa langflestir sem fjölmiðlar hafa nefnt undanfarna mánuði ekki brotið nein lög og er ekki verið að undirbúa sakarmál gegn.
En svo er það hitt að menn sem sækist eftir opinberum embættum segi af eigin frumkvæði frá öllum hagsmunatengslum sínum. Slíkt á að vera á milli þeirra sjálfra og kjósenda.
Íslenskir vinstrimenn ættu miklu frekar að berjast fyrir því að skráning aflandsfélaga sé einföld, ódýr og gegnsæ svo fleiri geti dreift eigum sínum í stað þess að hafa þær allar múlbundnar í einni körfu: Íslenskum lífeyrissjóðum eða fasteignamarkaði.
![]() |
Vill fund um eignir í skattaskjólum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 9. janúar 2017
Þingmaður talar ekki í takt við pólitískan rétttrúnað
Brynjar Níelssen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er um margt skeleggur þingmaður og segir skoðanir sínar umbúðalaust. Þetta hefur oft komið honum í klípu. Hann á t.d. mjög erfitt með að aðlagast stífustu kröfum pólitísks rétttrúnaðar. Það hefur orðið mörgum fréttamanninum tilefni til að skrifa eitthvað niður.
Brynjar segir t.d. að það sé ekkert sjálfgefið í hans huga að ráðherrar af kvenkyni séu jafnmargir og ráðherrar af karlkyni. Hann vill líta til annarra þátta eins og hæfni, reynslu og umboðs frá kjósendum.
Hvernig dirfist hann!
Þekking og reynsla er "harðar" kröfur sem tilheyra fortíðinni. Núna eiga aðrar kröfur við. Í dag ber að líta til kynferðis fyrst og fremst og til vara húðlitar. Kynhneigð kemur líka sterk inn.
Það sem sjálfstæðismönnum vantar á þing er svört, samkynhneigð kona sem er hægt að setja í ráðherrastól. Ekki væri verra ef þessi kona er fyrrverandi karlmaður, þ.e. kynskiptingur. Og sé í hjólastól, þ.e. fötluð. Þannig getur Sjálfstæðisflokkurinn uppfyllt alla kvóta í einu.
Er eftir einhverju að bíða?
![]() |
Hefur ekkert á móti konum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 5. janúar 2017
Afþreying styrkt á kostnað lífsviðurværis
Höfum eitt á hreinu:
Þegar yfirvöld veita skattfé í íþróttir, tölvuleikjagerð, kvikmyndagerð, leikhús eða aðra listsköpun eru þau að niðurgreiða afþreyingu með lífsviðurværi fólks.
Fólk þarf að sætta sig við verri klæði, bíla, hús og matvæli til að fjármagna aukna afþreyingu.
Með slíkum niðurgreiðslum eru yfirvöld að ákveða að í stað þess að borða góða steik eigi fólk að láta tímann líða yfir glápi á einhverja afþreyingu, hvort sem hún er á striga, leiksviði, skjá eða í íþróttahöll.
Og gott og vel, sumir vilja sjálfsagt að fólk fórni fríinu sínu til að góna á niðurgreidda kvikmynd á sjónvarpsskjá svo greyins leikarastéttin hafi eitthvað að gera og eru hreinskilnir með þá afstöðu sína.
Og margir hugsa sjálfsagt með sér að á meðan almenningur er vel búinn í afþreyingardeildinni þá geri hann ekkert af sér eins og að fara á fyllerí eða sólbrenna sig á erlendri sólarströnd.
Og margir hugsa sjálfsagt með sér að niðurgreidd afþreying sé góð því annars er engin leið að láta allan þennan frítíma líða.
Og svo eru þeir eflaust til sem telja að sumt verði bara að vera til hvort sem einhver markaður sé fyrir því eða ekki og fela ekkert þá afstöðu sína.
Persónulega finnst mér ekki að ríkið hafi rétt á því að ráðskast svona með tíma og eigur annarra - að niðurgreiða tímaeyðslu og afþreyingu með lífsviðurværi fólks - en vonandi er ég ekki einn um þá afstöðu.
![]() |
Þetta verður algjör bylting |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 1. janúar 2017
Vonandi bara stuttur sprettur
Því miður virðist ætla að takast að mynda ríkisstjórn. Dofna þá svolítið væntingar mínar um að kosið verði aftur í vor til að fá skýrari línur á Alþingi.
Þetta verður vonandi verklítil ríkisstjórn sem einsetur sér að vinna fá mál vel frekar en mörg mál illa. Vonandi fá ESB-flokkarnir ekki að gera neitt sem veldur varanlegum skaða. Vonandi fær útgerðin vinnufrið. Vonandi fá skattar að halda áfram að lækka þótt ekki sé nema um einhverjar kommur til að aðgreina hægri- og miðjumenn frá vinstrinu.
Vonin um að ríkisvaldið dragi sig út úr einhverjum rekstri eða eignarhaldi er dauf. Það sem er starfrækt með fyrirkomulagi ríkiseinokunar í dag heldur sennilega áfram að vera ríkiseinokun. Kannski sleppur bjórinn inn fyrir dyr matvöruverslana svo menn taki nú yfirleitt eftir því að vinstrimenn eru í stjórnarandstöðu.
Þetta verður hin bragðlausa starfsstjórn sem lítur vonandi bara á sig sem bráðabirgðastjórn fyrir kosningar í vor.
![]() |
Ný ríkisstjórn líklega kynnt í vikulok |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 29. desember 2016
Sjómenn bíta höndina sem fóðrar þá
Að heill hópur manna geti einfaldlega lagt niður störf án þess að vera sagt upp er furðulegt fyrirkomulag. Löggjafinn heimilar svona hegðun en ekki fyrir alla. Þeir sem njóta þessa bareflis geta einfaldlega lamið á atvinnurekendum sínum þar til þeir bugast. Niðurskurðurinn bitnar svo á hluthöfum og þeim starfsmönnum sem hafa ekki þetta barefli í farteski sínu.
Núna bíta og naga sjómenn í höndina sem fóðrar þá. Fórnarlömbin eru svo annað starfsfólk í sjávarútvegnum. Sjómenn vilja njóta ágóðans þegar gengið er hagstætt, nóg er af veiðiheimildum og fiskverð er hátt en að aðrir taki á sig skellinn þegar gengið verður þeim óhagstæðara. Þeir vilja belti og axlarbönd á meðan aðrir eiga að ganga um á brókinni, berskjaldaðir fyrir öllu fyrirséðu og ófyrirséðu.
Sjómenn eru ekki einir um að haga sér svona. Verkfalls"vopninu" er bíða beitt á þá sem löggjafinn hefur ekki blessað með sérstöku vopnabúri. Þetta er lagaleg mismunun sem ber að afnema.
![]() |
Uppsagnirnar ekkert einsdæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 27. desember 2016
Dæmi um störf sem tæknin útrýmdi (að mestu leyti)
Tæknin útrýmir störfum nánast daglega og það er engin ástæða til að kvíða því sérstaklega nema maður sé auðvitað sjálfur að sjá fram á alla sína menntun, þjálfun og reynslu gufa upp í sögubækurnar. Flestir geta samt brugðist við breytingum með einhverjum ráðum.
Nú er talað um að tæknin muni útrýma hinum og þessum störfum en rifjum upp nokkur störf sem tæknin er nú þegar búin að útrýma nánast að öllu leyti.
Hestvagnasmiðir hafa lítið að gera nú til dags. Einhverjir finnast samt sennilega sem smíða gripi fyrir söfn eða sérstakar sögusýningar.
Gufuvélasmiðir eru orðnir fátíðir á okkar tímum. Þeir höfðu nóg að gera á sínum tíma en aðrir hafa tekið við vélasmíðinni og vélarnar nota annað eldsneyti.
Í gömlum tölvum - þær sem fylltu heilu skrifstofurnar af vélbúnaði en gátu voðalega lítið miðað við tölvur og síma nútímans - voru notaðir ýmsir hlutir sem eru ekki notaðir í tölvur lengur. Þeir sem framleiddu þá hafa fyrir löngu snúið sér að einhverju öðru.
Öll þessi störf eru horfin en það er gott. Í staðinn eru komin önnur störf sem framleiða fleiri verðmæti. Þetta er sú þróun sem á sér enn stað og við eigum að fagna. Í þeim ríkjum þar sem yfirvöld ríghalda í úrelta framleiðsluhætti eru lífskjör að batna hægar en í þeim sem stökkva af fullum þunga á vagninn sem dregur framtíðina áfram.
![]() |
5 atvinnugreinar sem tæknin ógnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 25. desember 2016
Heimurinn orðinn öruggari og betri
Margir virðast fá eitthvað út úr því að tala niður ástand heimsins. Þótt auðvitað sé alltaf hollt að hugsa til þeirra sem eiga um sárt að binda, líða skort eða búa við óöryggi þá er almenna heimsmyndin sú að flest er verða betra og öruggara. Líf fólks eru að lengjast, lífsgæði þess að batna og átök og stríð á undanhaldi í flestum heimshlutum. Þetta má meðal annars sjá á þessari síðu eða þessa.
Þetta er að mínu mati gleðilegt að hugleiða á þessum árstíma þar sem margir heimshlutar fagna hátíð af einhverju tagi, frá hátíð hækkandi sólar til fæðingardags Jesú Krists til einhvers annars, gjarnan í félagsskap sinna nánustu.
Gleðileg jól kæru lesendur.
![]() |
Heimurinn orðinn hræddari og klofnari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 23. desember 2016
Útgjöld ríkisins þenjast út
Þingið hefur samþykkt fjárlög. Það er gott. Útgjöld ríksins eru í hæstu hæðum. Það er slæmt.
Engin grundvallarbreyting hefur verið gerð á neinu síðan hið opinbera var útþanið og óð í skatttekjum fyrir hrun. Ríkisvaldið gefur ennþá út gjaldmiðil, bankarnir eru ennþá með bæði belti og axlarbönd og ætlaða ábyrgð skattgreiðenda af starfsemi sinni, vega-, heilbrigðis- og menntakerfið er ennþá rekið í sovéskum stíl ríkiseinokunar og svona mætti lengi telja.
Um leið berjast sumir fyrir enn meiri ríkisútgjöldum og hærri sköttum.
Vonandi framlengir forseti Alþingis leyfi þingsins fram að sumarfríi þess.
![]() |
Fjárlög samþykkt af minnihluta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 21. desember 2016
Hvað gera íslenskur landeigendur erlendis?
Óttinn við erlent eignarhald einkaaðila að jörðum á Íslandi er óþarfur. Einkaaðilar vilja ávaxta fé sitt og gera það með því að fara vel með fjárfestingar sínar.
Erlent eignarhald opinberra aðila er önnur saga. Við slík kaup eyða sumir fé annarra og hætt við að áherslan á ávöxtun og varðveitingu eigna víki fyrir öðrum sjónarmiðum.
Íslendingar hljóta að þekkja þetta á eigin skinni. Á enginn Íslendingur jörð erlendis? Sumarhús í Danmörku? Einbýlishús í Þýskalandi? Landspildu í Bandaríkjunum? Hvernig fara þessir Íslendingar með eigur sínar? Ég man ekki eftir að neinn hafi kvartað undan íslensku eignarhaldi erlendis. Íslendingar eiga því ekki að kvarta yfir erlendu eignarhaldi innanlands, a.m.k. ekki fyrirfram.
Íslendingar kunna alveg að eyðileggja eigin jarðir án aðstoðar útlendinga. Sem dæmi má nefna hina niðurgreiddu framræsluskurði sem hafa þurrkað upp iðandi votlendi um allt land og látið ónotað beitar- og ræktarland koma í staðinn. Úr skurðunum streyma svo allskyns lofttegundir sem þykja óvinsælar í dag. Hér þurfti enga útlendinga til að eyðileggja gott land.
Til hamingju, Jim Ratcliffe, með landið!
![]() |
Ríkið vildi ekki Grímsstaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |