Þegar fylgið kemur af sjálfu sér

Í frétt segir:

Sjálfstæðisflokkurinn í borginni mælist með 31,9 prósenta fylgi, Samfylkingin kemur næst með 17,1 prósent, þá VG (15,4%), Píratar (14,6%), Björt framtíð (13%), Framsóknarflokkur (4%), aðrir flokkar (3,9%).

Þetta er dæmi um fylgisdreifingu sem er drifin áfram af óánægju, ekki ánægju. Ég held að fáir séu eitthvað sérstaklega ánægðir með framgöngu Sjálfstæðisflokksins í borginni. Þeir eru bara óánægðir með meirihlutann. Fylgið lekur því af meirihlutanum og yfir á minnihlutann nánast án þess að minnihlutinn þurfi að gera nokkuð.

Um leið er þetta hrópandi ákall kjósenda um að einhver annar þurfi að taka við rekstri borgarinnar, bara einhver annar: Blindur simpansi, þrífætt rotta, sofandi köttur eða gömul Nintendo-tölva.

Viðkomandi valkostur þarf bara að standa á kjörseðlinum og þá fær hann atkvæði.

Sjálfstæðismenn í borginni ættu að eiga greiða leið til valda við næstu kosningar í Reykjavík með því að vera einfaldlega á kjörseðlinum. Enn betra fyrir þá væri að vera skýr valkostur en ekki bara einhver annar valkostur. 


The Big Short

Ég horfði á myndina The Big Short í gær, loksins!, og sé ekki eftir því. Hún er frábær, upplýsandi, vekur til umhugsunar og skartar Brad Pitt í einu aðalhlutverkanna. Hvað er hægt að biðja um meira?

Boðskapur myndarinnar er margslunginn en meðal annars sá að almenningur var blekktur, spilaborgin hrundi og þeir sem stóðu að svikamyllunni fengu björgunarhring frá yfirvöldum á kostnað skattgreiðenda. Og ekkert hefur breyst.

Donald Trump ætlar vonandi ekki að tala fyrir stórum breytingum - eins og Obama á sínum tíma - og gera svo ekki annað en verða málsvari kerfisins - eins og Obama enn þann dag í dag. 

Því þá er e.t.v. hægt að sjá fyrir sér uppnefnið "The Big Short" á hann, af mörgum ástæðum: Hann er með stutta putta, ætlar að stuðla að annarri stórri skortstöðu á mörkuðum og loforð hans endast í styttra lagi. 


mbl.is Margfalt ríkari en ríkisstjórn Bush
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarta hagkerfið er viðbragð við vandamáli, ekki vandamálið sjálft

Svokölluð svört atvinnustarfsemi finnst víða. Flestir Íslendingar hafa stundað slíka starfsemi eða nýtt sér hana. Þegar Frikki frændi er fenginn til að tengja sjónvarpið gegn 5 þúsundkalli er það svört starfsemi. Þegar Jóna frænka er fengin til að klippa hárið á krökkunum gegn smávegis þóknun er það svört starfsemi. Þegar Njörður nágranni fær lánaða sláttuvélina í nokkur skipti í skiptum fyrir bjórkippu er það svört starfsemi.

Megnið af svartri starfsemi er óskipulögð og tækifæristengd og fer fram á milli fólks sem þekkist. Hún fer ekki í taugarnar á neinum. 

Hins vegar finnst líka skipulögð svört starfsemi. Hvernig stendur á því? Yfirleitt má rekja slíka starfsemi til tvenns konar þátta:

  • Of hárra skatta á löglega starfsemi
  • Of mikillar skriffinnsku á löglega starfsemi

Hvernig á að uppræta hana? Það verður bara gert með því að láta skattheimtu og skriffinnsku hinnar löglega starfsemi nálgast þá á hina svörtu starfsemi. Með öðrum orðum: Lækka skatta og fækka kröfum.

Ég skil vel atvinnurekendur sem stunda löglega, skattlagða og skriffinnskuvædda starfsemi og kvarta yfir hinni svörtu starfsemi. Hvernig væri að jafna leikinn og lækka skatta og fækka eyðublöðum?


mbl.is Svart hagkerfi í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðin skattlögð úr sögunni

Svo virðist sem allt megi skattleggja, eða eins og Ólafur Ragnar Grímsson var látinn segja í áramótaskaupinu 1989 í frægu atriði um Skattmann (valdar setningar): 

Morgunstund gefur gull í mund, skattleggja alla, konur og kalla.

Út að keyra, skattleggja meira, háls nef og eyra.

Skattleggja allt, ríka sem snauða, fæðingu og dauða, ástir og unað, allt nema munað.

Lok, lok og læs, svona er ég næs.

Nú er ekki neinn að græða á framleiðslu vindorku á Íslandi. Landsvirkjun er með svolítið tilraunaverkefni í gangi. Hvað gera sveitarfélög þá? Byrja að tala um skattlagningu á framleiðslu vindorku! Hver ætlar að setja fé í uppbyggingu á vindorkuframleiðslu þegar skattheimtuhamrinum er sveiflað svona?

Ekki tókst vel að bjóða út leitar- og vinnsluleyfi á Dreka-svæðinu í landhelgi Íslands í upphafi enda nánast búið að skattleggja allan hugsanlegan ávinning út í hafsauga.

Íslendingar skattleggja ekki bara það sem gengur vel svo því gangi verr. Nei, þeir skattleggja það sem er ekki einu sinni orðið að veruleika ennþá og verður þar með ólíklega að veruleika nokkurn tímann.

Íslendingar tala heldur ekki um skatta sem nauðsynlegar tekjur til að fjármagna brýnustu verkefni hins opinbera eða ríkieinokun á einhverju. Nei, þeir virðast sætta sig við að eitthvað sé skattlagt af því það er hægt að skattleggja það.

Skattur er þjófnaður. Væri ekki ráð að reyna lágmarka þjófnað frekar en hámarka?


mbl.is Krefjast auðlindagjalds af vindinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkar reyna að finna sársaukamörk skattgreiðenda

Höfum eitt á hreinu: Megnið af þessum stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna undanfarnar vikur hafa snúist um að finna sársaukamörk skattgreiðenda af öllu tagi. Sumir flokkar meina að þeim sé náð, aðrir að bæta megi í skattheimtuna.

Þegar einstaka stjórnmálamenn tala um skattgreiðendur eins og hlaðborð er illt í efni.

Það besta í stöðunni er því sennilega að engin ríkisstjórn sé á Íslandi, a.m.k. um hríð. Slíkt hefur marga kosti í för með sér eins og hér hefur verið rakið áður.

Ég legg til að þingmenn hvíli sig fram á nýja árið. Ég veit að sjálfsálit þeirra eftir kjör til Alþingis er uppblásið og að þeir telji sig hafa mikilvægu hlutverki að gegna að stýra skútunni, en svo er ekki. Þeir geta hvílt sig í marga mánuði. Lífið heldur áfram.


mbl.is Finna hvar sársaukamörkin liggja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar eitthvað er of dýrt hvað er þá til ráða?

Í frétt segir að áætlað er að 25 þúsund manns, eða um 10% fullorðinna á Íslandi, hafi einhvern tímann ekki farið til tannlæknis vegna kostnaðar þegar þeir þurftu á aðstoð tannlæknis að halda í fyrra.

Viðbrögðin er auðvitað fyrirsjáanleg: Margir munu boða skattahækkanir til að fjármagna niðurgreiðslur vegna tannviðgerða á fullorðnum.

Það væri eins og að pissa í skóinn sinn. Hærri skattar skerða kaupmátt allra, bæði þeirra með tannpínu og annarra.

Því er þá um leið bætt við að skatta eigi bara að hækka á fyrirtæki og ríka einstaklinga. Það hljómar eins og söluvænleg ræða fyrir stjórnmálamenn en er ekki skattheimta sem skilar neinum skatttekjum að ráði, og að því ráði sem hún gerir það flýr skattstofninn til útlanda. Sem sagt, eins og að pissa í skóinn sinn.

Það þarf ekki að niðurgreiða tannlækningar svo fleiri hafi efni á einhverju sem er dýrt heldur þarf að finna leiðir til að gera tannlækningar ódýrari svo fleiri hafi efni á henni án aðstoðar.

Spurningin sem við ættum því að spyrja okkur er: Af hverju eru tannlækningar svona dýrar?

Fyrir því eru margar ástæður:

Í fyrsta lagi reisir ríkisvaldið aðgangshindranir að markaði tannlækninga með því að takmarka fjölda einstaklinga sem fá að hefja nám í tannlækningum við sex. Þetta er gömul tala og fyrir löngu orðin alltof lítil.

Í öðru lagi mega tannlæknar ekki auglýsa verðskrá sína eða eins og lögin segja (í 11. gr.): "Tannlæknum eru óheimilar hvers konar auglýsingar um starfsemi sína sem tannlæknar." Markaðsaðhald er því markvisst og vísvitandi takmarkað (sem og málfrelsi). Nýútskrifaður tannlæknir er mun lengur en ella að afla sér viðskiptavina því hann getur ekki keppt í verði, t.d. á algengustu viðgerðum.  

Í þriðja lagi er hár skattur á öllu á Íslandi: Launum, hagnaði, aðföngum og búnaði. Þetta birtist í verðlagi.

Í fjórða lagi eru töluverðar aðgangshindranir að þessum markaði í formi lagaákvæða og reglugerða sem gera tannlækningar dýrari en þær þyrftu að vera.

Í ljósi alls þessa kemur e.t.v. á óvart að það kosti ekki meira en 15-25 þús. að láta tannlækni yfirfara allt, hreinsa tannstein, taka myndir og gefa krökkunum svolítið dót.

Ég vona að umræðan um tannlæknakostnað á Íslandi snúist um það hvernig má gera tannlækningar ódýrari svo fleiri hafi efni á þeim en ekki hvernig á að gera fleirum kleift að ráða við dýrar tannlækningar. 

 


mbl.is Hafa ekki ráð á tannlækningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkur atriði vegna kosninganna næsta vor

Þessi grein eftir mig birtist í Morgunblaðinu í dag. Vonandi hreyfir hún við einhverjum!

********

Nokkur atriði vegna kosninganna næsta vor

Eitthvað virðist flokkunum sem eiga fulltrúa á Alþingi ganga illa að púsla sér saman. Það er skiljanlegt. Ekki er hægt að mynda meirihlutastjórn nema einhver flokkur kasti einhverju stefnumáli sínu alveg fyrir borð og enn sem komið er hefur sá flokkur ekki gefið sig fram. Enginn vill vera svikari við kjósendur sína, a.m.k. í bili.

Það má því gefa sér að boðað verði til kosninga í vor. Slíkt hefði marga kosti í för með sér sem hér verða lauslega taldir upp.

Í fyrsta lagi færist kjörtímabilið aftur á skynsamlegan árstíma fyrir kosningar þegar eitt fyrsta verk nýkjörinna þingmanna verður að fara í langt og gott sumarfrí.

Í öðru lagi gefst flokkunum færi á því að skerpa á stefnumálum sínum. Ekki var mögulegt að aðgreina alla flokka að þessu sinni ef bara er miðað við kosningaloforð þeirra. Í grófum dráttum mátti samt greina flokka sem vildu hækka skatta eða lækka, rústa fiskveiðistjórnarkerfinu eða sleppa því og innlima Ísland í erlent ríkjasamband eða ekki.

Í þriðja lagi má með kosningum í vor tryggja að flokkarnir á þingi geri engin ósköp af sér þangað til. Þeir geta sammælst um höggva ekki gat á botn fleysins og sökkva því. Þeir geta myndað eins konar starfsstjórn sem sér um að stimpla eyðublöð og uppfæra ártöl á lagaköflum en breytir að öðru leyti litlu sem engu. Þar með er ekki sagt að núverandi ástand sé fullkomið og að allar breytingar séu slæmar. Hins vegar er betra að hugsa sig vel um áður en eldspýtan er tendruð við opinn gaskút og þá betra að sleppa því en taka áhættuna. Sumir flokkar tala nefnilega fyrir því að tendra eldspýtuna og skrúfa frá gasinu á sama tíma.

Í fjórða lagi hafa þingmenn gott af löngu fríi. Þingmenn í fríi eru oftar en ekki ódýrari fyrir skattgreiðendur en iðandi og uppteknir þingmenn í þingsal.

Í fimmta lagi má vona að með hækkandi sól renni það upp fyrir landsmönnum að það vantar sterkari frjálshyggjuáherslur í íslensk stjórnmál. Þeir sem lofa skattalækkunum eru ekki fyrr búnir að því fyrr en þeir eru líka búnir að lofa auknum ríkisútgjöldum sem á að fjármagna með „hagvextinum“. Þeir sem tala fyrir einföldun regluverksins leggja ekki í embættismannakerfið. Þeir sem vilja að Íslendingar geti keypt lambakjöt í gámaförmum frá Nýja-Sjálandi eru allt í einu búnir að samþykkja 10 ára frystingu á niðurgreiðslum til innlendrar framleiðslu sem þolir enga samkeppni þegar í þingsal er komið. Þeir sem vilja bjór í matvöruverslanir hafa yfirleitt efni á því að ferðast svo oft til útlanda að fríhafnarlagerinn sprengir skápaplássið og nenna því ekki að berjast fyrir frelsi annarra til að kaupa sér sopann hvar sem er.

Kosningar í vor verða vonandi settar á dagskrá sem fyrst svo óstarfhæf starfsstjórn geti hist og fengið sér kaffi og átt einn af þessum góðu fundum sem svo tíðrætt er um þessar vikurnar.


Neyslustýring fríhafnarfólksins

Á Íslandi er áfengi skattlagt í himinhæðir, nema í fríhöfnum landsins. Þetta kemur sér vel fyrir þá sem tala hæst um að skattar á áfengi á Íslandi þurfi að vera háir svo fólk fari sér ekki að voða. Þetta er fólkið sem hefur efni á því að ferðast oft eða þarf að ferðast oft á vegum vinnunnar. Þetta fólk á stútfulla vínskápa með koníaki, vodka og gini og munar ekkert um að kaupa sér bjór á uppsprengdu verði.

Aðrir sitja eftir - lágtekjufólkið, ungt fólk og rónanir. Þetta lið er mjólkað eins og hlekkjaðar beljur eða neytt til að leggja sér heimabrugg til munns.


mbl.is Áfengisskatturinn hækkar um áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurskoða: Já. Að fara úr öskunni í eldinn: Nei

Það er alveg sjálfsagt að biðja þingheim um að íslenska ríkið skoði peningastefnu sína. 

Menn skulu samt vara sig á því að taka við slíkri endurskoðun með það eina markmið að koma hagkerfi Íslands í klær erlends seðlabanka frekar en íslensks.

Ríkisvaldið ætti að endurskoða peningastefnu sína með það að markmiði að koma íslenska ríkinu alveg út úr útgáfu peninga.

Um leið ætti að breyta lögum þannig að kverkatak verkalýðsfélaga á atvinnulífinu er losað, að hinn svokallaði verkfallsréttur, þar sem fólk getur lagt niður vinnu án þess að missa vinnuna, sé afnuminn.

Markaðurinn verður fljótur að skipta út íslensku krónunni fyrir allskonar annað: Dollara, pund, danskar krónur, svissneska franka, evrur eða hvað það nú er sem höfðar til hvers og eins. Það má jafnvel hugsa sér að Bitcoin og gullpeningar byrji að láta sjá sig. Einstaklingar og fyrirtæki vilja peninga sem hafa stöðugan kaupmátt og duga til að skiptast á varningi og þjónustu. 

Fari svo að gjaldmiðill sem fyrirtæki gerir upp í eða aflar megnið af tekjum sínum í styrkist á það fyrirtæki að geta lækkað laun (sem gerir það að verkum að upphæð launanna lækkar án þess samt að kaupmáttur þeirra geri það). Hér kemur kverkatak verkalýðsfélaganna til sögu. Það getur í dag lamað fyrirtæki sem reynir að aðlaga launaútgjöld að tekjum ef það vill halda í alla starfsmenn sína. Verkalýðsfélögin stuðla að atvinnuleysi og hafa gert alla tíð.

Svo já, endurskoðun peningastefnu ríkisins: Komum ríkinu út úr framleiðslu og verðlagningu peninga eins og ríkinu var á sínum tíma komið úr framleiðslu og verðlagningu á sementi á sínum tíma. 

Þess má að lokum geta að lágir vextir evrusvæðisins eru merki um veikt hagkerfi, ekki sterkt, og þar með eitthvað sem ætti í sjálfu sér að vera fráhrindandi. 


mbl.is Spurði út í „óþolandi vaxtabyrði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æfingarbúðir vinstrimanna

Það má vorkenna Reykvíkingum. Þeir kjósa yfir sig vinstristjórnir trekk í trekk og alltaf er niðurstaðan sú sama: Skattar eru botnaðir, skuldir eru auknar og grunnþjónustan er vanrækt. Stokkhólmsheilkennið er sterkt í Reykvíkingum. Þeir elska kvalara sinn. Mætti kannski kalla það Reykjavíkurheilkennið?

Um leið bjóða hægrimenn í borginni ekki upp á mjög afgerandi valkost við vinstriflokkana. Tal þeirra er a.m.k. mjög varfærnislegt oft á tíðum, því miður. 

Stærðarhagkvæmni er klárlega ekki eitthvað sem á við um rekstur sveitarfélaga á Íslandi eins og Óli Björn Kárason þingmaður bendir á í þessari grein og ég hef sjálfur bent á í annarri grein. Þingmenn ættu að gera það að forgangsatriði að opna löggjöfina þannig að sundrung sveitarfélaga í smærri sveitarfélög verði auðveldari og fækka um leið lagaskyldum sem hvíla á herðum þeirra sem og kvöðum eins og lágmarksútsvari.

 


mbl.is Borgin hækkar gjaldskrár um áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband