Frumvarpið gangi til atkvæðagreiðslu sem fyrst

Langdregin umræða á sér nú stað um hið svokallaða áfengisfrumvarp sem er ætlað að færa áfengisverslun á Íslandi nær því fyrirkomulagi sem viðgengst í flestum öðrum vestrænum ríkjum. Þingmenn hafa flestir gert upp hug sinn. Skoðanakannanir eru afgerandi (Íslendingar segja nei þar til breytingin er komin á og verða svo himinlifandi með hana). 

Það er því ekki eftir neinu að bíða og kominn tími til að koma þessu frumvarpi í atkvæðagreiðslu á Alþingi. Þannig og bara þannig er hægt að komast frá þessu máli. Frumvarpið verður þá samþykkt eða fellt og þingheimur getur snúið sér að öðru.

Þetta mál ætti ekki að þurfa stífla alla umræðu í samfélaginu og á þingi. Atkvæðagreiðsla er eina leiðin til að skera úr um framhaldið. Að hóta þingmönnum, hræða þá eða svívirða eða kaffæra í póstum og athugasemdum er e.t.v. góð leið til að fá persónulega útrás en lagasetningarvaldið er hjá Alþingi. 

Kjósa - fá niðurstöðu - snúa sér að einhverju öðru.

Núna, takk. 


mbl.is Vilja ekki vín í verslanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfengi, Íslendingar og útlönd

Enn á ný er gerð tilraun til að færa umhverfi áfengisverslunar á Íslandi nær því sem gengur og gerist í hinum vestræna heimi.

Ýmis rök eru færð gegn þessari breytingu, sum þokkaleg og önnur beinlínis furðuleg. 

Mig langar samt að ráðleggja þeim sem eru andsnúnir fyrirætluðum breytingum eitt:

Ekki ferðast til útlanda!

ftxÉg vara hér sérstaklega við ríkjum eins og Danmörku, Þýskalandi og Frakklandi svo einhver séu nefnd. Í Frakklandi er seldur bjór á McDonalds. Í Þýskalandi og Danmörku er hægt að kaupa áfengi nánast hvar og hvenær sem er, oft á tilboði. Áfengisauglýsingar sjást líka víða. Í Danmörku er sterka áfengið oft í hillum við kassana svo það er auðvelt að freistast til að kippa með sér einni vodkaflösku í biðröðinni. Áfengiskaupaaldurinn í Danmörku er 15 ár (fyrir áfengi upp að 18% styrkleika), að hugsa sér! Engin furða að Danmörk sé fyrst og fremst fræg fyrir blindfulla unglinga með ólæti alla daga. 

Nú fyrir utan hætturnar við sjálf útlöndin er það auðvitað fríhöfnin á Íslandi. Þar er áfengi úti um allt gólf, við innganginn og við kassana. Fáir Íslendingar sleppa ófullir í gegnum fríhöfnina. Þá er líka hægt að kaupa bjór á barnum klukkan 5 á morgnana. 

Nú fyrir utan hætturnar við fríhöfnina og við sjálf útlöndin eru það auglýsingarnar í erlendu sjónvarpsstöðvunum og tímaritunum. Allt útlenskt ber að forðast.  

Svo á auðvitað að forðast nálægð við íslenska skemmtistaði og kaffihús. Helst á bara að loka þessum búllum. 

Hvernig á venjulegur Íslendingur að geta stjórnað áfengissýki sinni í þessari erlendu mengun? Hann getur það ekki. Mótmæli hans við evrópskt fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi eru því skiljanleg. Dómsdagsspádómarnir hljóta að rætast í þetta skipti, öfugt við það sem gerðist þegar slíkir spádómar voru bornir á borð þegar bjórinn var leyfður. 


Þetta með kynbundna launamuninn, svokallaða

Háskólaprófessor í tölfræði hefur nú vogað sér á ritvöllinn til að gagnrýna mælingar á hinum svokallaða kynbundna launamun. Hann uppsker vitaskuld fátt annað en ávítur en ég fagna því að hann taki slaginn samt. Hann reynir sem sagt að beita vísindalegum rökum á pólitíska goðsögn. Vísindalega gengur honum vel. Pólitískt ekki alveg eins vel.

En er hinn kynbundni launamunur til? Nei, og það má fullyrða án þess að kafa ofan í ringulreiðina sem mælingar á slíkum launamun snúast um. 

Það má fullyrða einfaldlega vegna þess að... það borgar sig ekki að mismuna! 

Því segjum sem svo að konur fái kerfisbundið lægri laun en karlar þrátt fyrir að forgangsraða eins í þágu vinnu og á kostnað fjölskyldulífs, fórna sér í sama mæli fyrir vinnuna á kostnað barnanna, keyra sig út á sama hátt í vinnunni til þess eins að vera alveg búin(n) á því heima fyrir og annað slíkt. 

Af hverju er eitthvað ótrúlega gráðugt einkafyrirtæki ekki búið að sópa öllum þessum fórnfúsu, ofur-metnaðarfullu, fjölskyldu-vanrækjandi konum inn á launaskrá sína, borga þeim lægri laun en karlkynsstarfsmönnum sínum og uppskera ofsagróða? 

Því það er ekki eftir neinum slíkum ofsagróða að sækjast. Hann er ekki til. Konur sætta sig ekki við lægri laun. Lögin banna það en það er aukaatriði. Aðalatriðið er að þessir vinnukraftar kvenna eru einfaldlega metnir á nákvæmlega sama hátt og karlanna.

Það sem skiptir máli í vinnunni er andstæða þess að hafa áhuga á því að rækta vini og fjölskyldu. Flest okkar finnum eitthvað hentugt jafnvægi. Það má hrósa ofurduglega starfsmanninum fyrir framlag sitt á vinnustaðnum en líka gagnrýna hann fyrir að vanrækja börnin sín. Það má gagnrýna þann sem hendir alltaf vinnunni frá sér um leið og einhver krakkinn heima hóstar oftar en tvisvar á sama morgni. 

Vissulega er það innbyggt í vinstrimenn að hugsa bara um peningana sem fylgja launaumslaginu. Það þýðir ekkert að segja þeim að önnur gildi skipta meira máli fyrir sumum. Vísindalega er allt tal um kynbundinn launamun kjaftæði og rökfræðilega gengur slíkt tal heldur ekki upp, a.m.k. ef maður hefur lágmarksþekkingu á lögmálum hagfræðinnar.

Ef ekki væri fyrir eilífa afskiptasemi hins opinbera væri þessi umræða bara svolítill sandkassaleikur á bloggsíðunum og Facebook, á sömu línu og rökræður um þróunarkenningu Darwins sem fáir efast en sumir neita að kaupa vegna trúarskoðana. En hið opinbera ætlar hér að þenja sig enn meira út. Vinsamlegast, kæra ríkisvald, slepptu því. 


Er ódýrara að vinna eða ferðast?

Opinberir starfsmenn og sérstaklega stjórnmálamenn ferðast mikið vegna vinnu sinnar. Það kostar auðvitað sitt fyrir skattgreiðendur og hefur vafasaman ávinning í för með sér. 

Ég er hins vegar í klípu. Er hugsanlega ódýrara að hafa opinberan starfsmann í vinnuferð með tilheyrandi flugmiðakaupum, dagpeningum og rauðvínsdrykkju á kostnað skattgreiðenda á kvöldin en að hafa hann í fullri vinnu á Íslandi?

Opinber starfsmaður í vinnuferð getur voðalega lítið gert af sér. Hann er aðallega að hlusta á aðra tala og eiga við timburmenn eftir þambið á flugvellinum og opinberu mótttökunum. Opinber starfsmaður í fullri vinnu er að framleiða reglugerðir og skýrslur sem geta skaðað hagsmuni launþega og fyrirtækja. 

Það liggur t.d. alveg fyrir að það er ódýrara að hafa þingmenn í jóla- og sumarfríi en í sölum Alþingis að framleiða skatta og hamlandi reglugerðir. Þess vegna vil ég lengja jólafrí þingmanna til sumarsins svo þeir fái góða 9 mánuði til að slappa af. En gildir það sama um vinnuferðir opinberra starfsmanna erlendis? Ég er ekki alveg viss. Kannski bara já. 


Offitusjúklingurinn fær afslátt af hamborgaranum

Nú hafa Ríkiskaup samið við Icelandair og WOW air um afsláttarkjör á fargjöldum. Eru það góðar fréttir eða slæmar?

Vandamálið er að hið opinbera sendir alltof marga starfsmenn til útlanda. 

Dæmi 1:

Bjarni Bene­dikts­son, for­sæt­is­ráðherra Íslands, verður einn tíu þjóðarleiðtoga í for­svari fyr­ir HeForS­he, kynn­ingar­átak UN Women þar sem karl­menn um all­an heim eru hvatt­ir til að taka þátt í bar­átt­unni fyr­ir jafn­rétti kynj­anna. (frétt)

Dæmi 2:

Á ráðstefnunni í Helsinki verður fjallað um snjallborgir eða Open cities og aðgerðir í þeim efnum.  Tíu manna hópur sækir ráðstefnuna fyrir hönd borgarinnar, fulltrúar frá hverjum flokki auk embættismanna. (frétt)

Tíu manna hópur, takk fyrir!

En úr því opinberir starfsmenn eru á ferð á flugi er þá ekki góð hugmynd að fá afslátt af fargjöldum þeirra?

Nei, af þremur ástæðum fyrst og fremst.

Í fyrsta lagi hvetja afslættir til aukinnar neyslu. Við þekkjum þetta sjálf. Kosta tveir tannburstar 500 kr. en einn tannbursti kostar 300 kr.? Best að kaupa tvo og spara. Heildareyðslan eykst. Munar litlu að senda þriðja manninn af stað? Sendum hann þá af stað!

Í öðru lagi eru opinberir starfsmenn að fylla sæti (á afsláttarkjörum) sem þrýstir verðinu á öðrum sætum upp. Samkeppnin um sætin bitnar því á farþegum sem um leið eru skattgreiðendur. Þeir tapa tvisvar.

Í þriðja lagi er opinber starfsmaður í útlöndum ekki bara að kosta skattgreiðendur flugmiðana. Hann kostar líka dagpeninga eða uppihald almennt. Hann er líka á leið eitthvert til að hitta aðra opinbera starfsmenn og þeir þurfa að hittast í húsnæði sem skattgreiðendur þurfa að standa undir. Frá því hinn opinberi starfsmaður yfirgefur heimili sitt og þar til hann snýr aftur heim er hann því stanslaus aukakostnaður fyrir skattgreiðendur (fyrir utan hefðbundin laun sín).

Ríkið eða hið opinbera hvar sem er ætti ekki að leita leiða til að lækka fargjaldakostnað og keppa um sæti við einstaklinga og fyrirtæki. Miklu frekar ætti það að leita leiða til að fækka ferðalögunum. Það má t.d. sækja Skype og fjárfesta í vefmyndavél. Nú eða senda tölvupósta og skiptast á skýrslum. 


mbl.is Spara 100 milljónir með útboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið afnemi nauðsynlega skatta

Sjómenn eru í verkfalli. Deila þeirra við atvinnurekendur þeirra virðist stranda á skattlagningu á fæðisgjaldi. Gott og vel, ríkið ætti hér að bregðast hratt við og afnema þá skattlagningu. Fyrir alla. 

En hvað með þá sem borga eigið fæði undir fullri skattlagningu? Afnemið þá skattlagningu líka.

Hvað með þá sem fá bara sín laun og kaupa þá mat eða ekki fyrir þau? Lækkið launaskatta.

Hvað með þá sem vinna sem verktakar? Lækkið skatt á vinnu þeirra.

Það er ekki sanngjarnt að skattleggja eina stétt eða eitt fyrirkomulag en ekki aðrar stéttir eða annars konar fyrirkomulag. Með því að afnema skatta á alla má komast hjá mismunum. Um leið má rýra ríkiskassann. Allir vinna.

Ef lausnin á sjómannadeilunni leysist með því að lækka skatta þá ber að lækka skatta. Svo ber að lækka skatta meira og á alla. 

Annars er það nú svo með verkfall sjómanna eins og verkfall annarra stétta sem njóta sérstakra forréttinda af hálfu löggjafans: Hún snýst um að það sé hægt að leggja niður vinnu án þess að það megi manna störfin með fólki sem vill vinna vinnuna. Það er kominn tími til að endurskoða þessi forréttindi útvaldra aðila á vinnumarkaði, og afnema þau. 


mbl.is „Höfum daginn til að klára þetta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verð á einokunarþjónustu er hvorki rétt né rangt en alltaf handahófskennt

Þegar opinbert ríkiseinokunarfyrirtæki ákveður verð fyrir vörur sínar eða þjónustu er það verð óumflýjanlega handahófskennt. Það er hvorki rétt né rangt. Rangt verð þýðir annaðhvort óseldir lagerar og vinnutæki sem standa óhreyfð eða umframeftirspurn og biðraðir. Rétt verð þýðir það verð sem má setja á vöru eða þjónustu sem fær það til að borga sig að standa í rekstrinum en um leið laðar að viðskiptavini.

Ríkiseinokun er yfirleitt á rekstri sem allir eru skyldugir til að kaupa (t.d. förgun rusls) eða neyðast til að kaupa (t.d. heilbrigðisþjónusta). Reykvíkingar eru skyldugir til að versla við Sorpu. Sorpa missir því aldrei viðskiptavini sína. Það skiptir því ekki máli hvaða verð hún rukkar. Viðskiptavinirnir komast ekki neitt og geta ekki flúið þjónustu Sorpu. Þeir verða að borða uppsett verð. Verðið er samt handahófskennt.

Sorpu á vitaskuld að einkavæða og selja sem fyrst. Það er til nóg af fyrirtækjum til að taka við rusli og meðhöndla það samkvæmt öllum kröfum löggjafans. 


mbl.is Nær 70% hækkun gjalds
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarthvíta sjónvarpið

Það er til einföld leið til að flokka þingmenn: Hegða þér eins og Steingrímur J. eða ekki?

Steingrímur J. Sigfússon var á móti bjórnum, litasjónvarpinu og frjálsu útvarpi. Menn hlægja sjálfsagt að því í dag að þessir hlutir hafi verið ræddir af fúlustu alvöru á Alþingi og að menn hafi haft skiptar skoðanir. En jú, menn töluðu af fúlustu alvöru um að það væri alveg nóg að hafa sjónvarp í svarthvítu. Helsti ókosturinn væri sá að það væri erfitt að greina á milli liða í boltaíþróttum sem væri nú smávægilegt vandamál engu að síður sem réttlæti alls ekki sjónvarp í lit.

Það kemur að því að bjór fari í íslenskar matvöruverslanir. Heimurinn mun ekki fara til fjandans. Menn munu hlægja að þeirri tilhugsun að svona hafi ástandið ekki alltaf verið og minnast þingmanna sem börðust gegn fyrirkomulaginu sem kjána. 


mbl.is Allt er þegar þrennt er?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fimm leiðir til að afsala sér sjálfræðinu

Flest erum við þannig skrúfuð saman að við trúum því að við eigum okkar eigin líkama. Af því leiðir að þau verðmæti sem við sköpum með þeim líkama eða fáum að gjöf eða í arf séu einnig okkar eign. Nú má vera að þetta sé rétt í mörgum tilvikum. Við ákveðum sjálf hvenær við förum á fætur, við getum valið að borða óhollan mat og við getum horft á sjónvarpið þegar við viljum. Við fáum að eiga okkar tannbursta í friði og skrapa að okkur einhverjum heimilishlutum án hættu á eignaupptöku. Hins vegar eru til nokkrar leiðir til að missa algjörlega sjálfræði sitt og þar með tilkall til þeirra verðmæta sem við köllum eign okkar. Verða fimm slíkar nú nefndar.

Númer 1: Maður á húsnæði. Hann býr í því. Hann reykir í því. Nú langar honum að stofna veitingastað í sama húsnæði. Þá tekur löggjafinn af þessum manni sjálfræðið og forræðið yfir húseigninni. Hann má ekki lengur reykja í húsnæðinu. Eldamennska hans þarf nú aragrúa vottana frá opinberum eftirlitsaðilum. Skattframtalið hans flækist gríðarlega. Hann þarf nú að biðja um leyfi ef hann ákveður að færa eldhúsvaskinn um tvo metra. Sjálfræði hans er horfið.

Númer 2: Maður hefur skoðanir. Hann segir gjarnan frá því hvað honum finnst vorið vera fallegt, hvað menntun er góð, hvað líkamsrækt er holl og hvað grænmetisfæði er gott fyrir loftslag plánetunnar. Nú les hann bók sem honum fannst áhugaverð. Í henni segir að íslam boði beinlínis morð á trúleysingjum og kúgun kvenna og að siðfræði kristinnar trúar sé boðskapur friðar og kærleikar, gagnkvæmrar virðingar og friðar. Maðurinn endurtekur þennan boðskap á opinberum vettvangi. Yfir hann hellast ákærur og jafnvel lögsóknir. Hann ákveður að halda þessum skoðunum fyrir sjálfa sig en til vara fyrir þá sem deila þeim með honum. Sjálfræði hans hefur verið skert bæði óbeint með hótunum og beint með tilvísun í einhver lög sem banna ákveðinn talsmáta.

Númer 3: Atvinnurekandi nokkur rekur vinnustað þar sem starfsmenn tala með nokkuð sérstökum tón til hvers annars. Mikið er notað af blótsyrðum, konur eru kallaðar „kellingar“, karlmenn eru „pungar“ og þeldökkt fólk er kallað „svertingjar“ og jafnvel „niggarar“. Tóninn er harður en enginn er misskilinn og stemmingin er góð. Nú sækja tveir einstaklingar um starf hjá fyrirtækinu. Annar er karlmaður með góð meðmæli en litla reynslu og enga menntun en metið sem svo að hann muni styrkja stemminguna á vinnustaðnum og bæta upp skort á menntun með réttu viðhorfi. Hinn umsækjandinn er þrautlærður kvenmaður með langan lista af viðeigandi gráðum og námskeiðum á bakinu en hún metin sem svo að hún muni draga andrúmsloftið á vinnustaðnum niður. Nú er karlmaðurinn ráðinn. Konan kærir á grundvelli mismununar og telur sig mun hæfari. Jafnréttisstofa óskar eftir gögnum á grundvelli laga um slíkt. Úrskurður kærunefndar jafnréttismála fer á þá leið að konan eigi að fá starfið. Atvinnurekandinn er sviptur sjálfræðinu.

Númer 4: Verslunareigandi nokkur ákveður að við hlið ávaxtasafans og epladjússins hljóti að vera vinsælt meðal viðskiptavina hans að hafa kaldan bjór í boði. Hann sér þetta sem sjálfsagða þjónustu við viðskiptavini sína enda nýkominn úr ferðlagi til Danmerkur þar sem bjór er að finna úti um allar trissur í verslunum. Um leið veit hann að bjór er löglegur neysluvarningur á Íslandi. Hið opinbera kemur á svæðið, sviptir verslunareigandann sjálfræði sínu, leggur á hann sektir og skikkar honum að stöðva áfengissöluna. Sjálfræði hans hefur verið skert.

Númer 5: Maður nokkur hefur misst allan metnað fyrir vinnu, vinum, starfi og eigin sjálfsrækt. Hann hefur safnað í digran sjóð og ætlar að nota hann til að fjármagna vímuefnaneyslu. Heróín, hass og kókaín verða fyrir valinu. Hann spyrst fyrir um hvar þessi efni séu til sölu og fær að vita að þau fáist ekki löglega þótt mikil eftirspurn sé til staðar. Búið er að svipta framleiðendur og sölumenn slíkra efna sjálfræðinu og varpa þeim í steininn. Maðurinn nær samt að verða sér úti um efni en er þá handtekinn og líka sviptur sjálfræðinu. Honum er sagt að hann hafi framið glæp og einnig að hann eigi á hættu að verða háður þjónustu velferðarkerfisins og verða þannig fjárhagslegur baggi á skattgreiðendum. Þó hafði hann aldrei skráð sig í neitt velferðarkerfi né fær möguleika á að skrá sig úr því. Sjálfræði hans er núna algjörlega horfið, á bak við lás og slá.

Eins og sjá má á þessum dæmum eru margar leiðir til að missa sjálfræðið á Íslandi. Ég vona að með nýrri ríkisstjórni fækki þeim eitthvað.


Ríkið ætti að gefast upp á þessum vegaleik

Ríkisvaldið hefur í mörg ár innheimt himinháa skatta af bifreiðum og eldsneyti til að standa undir framkvæmdum við vegakerfið. Þetta fé hefur hins vegar ekki dugað til. Ástæðan er einföld: Þeir skattar sem innheimtir eru vegna vegakerfisins eru ekki bundnir við ákveðna notkun. Allir hafa jafnan rétt til að nota alla opinbera vegi allan sólarhringinn allan ársins hring. Þess vegna er þung umferð á morgnana, síðdegis og í tengslum við ákveðna viðburði, t.d. 17. júní í miðbæ Reykjavíkur og troðninginn á Vesturlandsveginum í byrjun júlí.

Nokkrar leiðir eru út úr þessum ógöngum. Ein er sú að afnema skatta af bílum og eldsneyti og setja upp tollahlið. Þetta yrði flókin opinber framkvæmd og sennilega illa skipulögð. Féð myndi lenda í sama ríkiskassa og ekkert endilega notað til að bæta umferðina þar sem mest er þörf frekar en í dag. Hins vegar myndi dreifast úr umferðinni. Fleiri sæju beinan hag í að sameinast í bifreiðum. Álagspunktarnir yrðu vægari.

Önnur leið sem hefur alla kosti hinnar fyrri en enga af ókostunum er að ríkið gefist einfaldlega upp á rekstri, viðhaldi og fjármögnun vegaframkvæmda. Þetta yrði hreinlega einkavætt - hver einasti vegspotti. Í staðinn kæmi haugur af sérstökum vegafélögum sem brjóta upp ríkiseinokunina og þefa uppi viðskiptatækifæri í vegaframkvæmdum.

Þetta má bera saman við afnám ríkiseinokunar á dreifikerfi síma og gagna og einkavæðingu gamla Pósts og síma. Mörgum fannst erfitt að trúa því að samkeppni einkaaðila gæti orðið einhver á þessum markað þungra fjárfestinga í dýrum búnaði. Vonandi hefur reynslan blásið allar slíkar efasemdir af borðinu. 

Núna er talað um að bæta gjaldtöku ofan á alla skattana. Þetta er dæmigerð opinber lausn sem snýst einfaldlega um að moka meira fé í ríkiskassann til að hafa efni á fjármögnun verkefnis sem ríkinu hefur verið treyst fyrir. Er ekki kominn tími til að hugsa út fyrir kassann?


mbl.is Brýtur ekki gegn jafnræði íbúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband