Mánudagur, 13. nóvember 2017
Hvað er frjálshyggja (og hvað ekki)?
Ég var að hlusta á svolítið viðtal í dag þar sem einn viðmælenda sagði (réttilega) að margt fólk vissi ekki í raun og veru hvað frjálshyggja væri því það fær upplýsingar sínar um frjálshyggju frá fólki sem er andsnúið frjálshyggju.
Spyrill sagði þá að það jafnaðist á við að fólk fræddist um þróunarkenningu Darwins frá Gunnari í Krossinum.
Mikið rétt!
En hvað er frjálshyggja?
Frjálshyggja er sú hugsjón að einstaklingurinn sé frjáls til að gera það sem hann vill á meðan hann skaðar ekki frelsi annarra til að gera það sama. Grundvallarforsendan er hið svokallaða friðsemdarlögmál, eða Non-aggression Principle, sem er skilgreint svo á einum stað:
The non-aggression principle (also called the non-aggression axiom, or the anti-coercion or zero aggression principle or non-initiation of force) is an ethical stance which asserts that "aggression" is inherently illegitimate.
En hvað er "aggression" eða árás? Það er t.d. ofbeldi af fyrra bragði, augljóslega (en ekki sjálfsvörn með beitingu valds). Þjófnaður er líka árás, hvort sem þjófurinn ógnar þér líkamlega og þvingar þig til að láta eigur þínar af hendi eða þjófnaðurinn fer fram í skjóli nætur og án þinnar nærveru.
Hvað leiðir svo af þessu? Það er margt. Skattheimta er t.d. ekki skilgreind öðruvísi en sem þjófnaður enda vita allir hvernig fer fyrir þeim sem borga ekki sína skatta, t.d. af því viðkomandi er ekki sammála því hvernig fjármununum er eytt eða vill frekar borga öðrum til að veita sömu þjónustu og skattheimtan á að fjármagna.
Af þessu leiðir að þú sem sjálfráða einstaklingur átt að geta drukkið þig til dauða eða sprautað þig með vímuefnum. Þú hefur um leið ekki rétt á að heimta að aðrir borgi fyrir þá heilsukvilla sem þú aflar þér með slíku líferni.
Af þessu leiðir að þú átt að sjá fyrir þér sjálfur en að öðrum kosti treysta á frjáls framlög frá öðrum til að halda þér uppi. Allar þær góðhjörtuðu sálir sem vilja aðstoða þá sem þurfa hjálp af einhverjum ástæðum þurfa að sýna í verki ásetning sinn og láta eigið fé af hendi og geta ekki bara sigað lögreglunni á samborgara sína til að fjármagna örlæti sitt.
Af þessu leiðir að ef þú átt verksmiðju sem spýr eitri eða sóti og drullu yfir hús nágranna þíns þá getur hann sakað þig um eignaspjöll, sama hvað líður vilja stjórnmálamanna til að búa til atvinnu í kjördæmi sínu.
Af þessu leiðir að þú hefur ekki rétt til að gera hvað sem er á lóð annarra, t.d. halda fjöldafundi eða bjóða í saumaklúbb. Þú getur leigt húsnæði og með leyfi eiganda sagt hvað sem þú vilt, eða talað á eigin landareign. Allt sem þú gerir í leyfisleysi á landi annars, eða er gert í leyfisleysi á þínu landi, flokkast sem árás.
En hvernig birtist frjálshyggjan í stjórnmálum?
Það er svo margt.
Frjálshyggjan álítur ríkiseinokun af hverju tagi vera árás. Þetta gildir um menntun, rekstur sjúkrahúsa eða framleiðslu peninga.
Frjálshyggjan tortryggir samþjappað vald í höndum stjórnmálamanna eða ríkisvalds því neytendur og þar með almenningur eru bjargarlausir gagnvart ákvörðunum hins opinbera. Selji maður ólífræn hænuegg sem eru verðlögð og merkt sem lífræn fer hann á hausinn daginn eftir að það spyrst út. Selji ríkisvaldið okkur eitraðar tannfyllingar gerist lítið og hægt og enginn missir vinnuna.
Lýðræðið er lítil sárabót. Það er lítið aðhald fólgið í því að kjósa á margra ára fresti og þurfa að vega og meta góð og slæm verk til að velja fólk í stöður. Þá er betra að geta kosið oft á dag, með því að velja eitt en ekki annað, og örva þannig frjálsan markað til að koma til móts við þarfir sem flestra sem hraðast og hagstæðast. Lýðræðið er skilvirkast þar sem stjórnmálamenn hafa lítið á sinni könnu og kjósendur geta auðveldlega lagt mat á verk þeirra eða verkleysi.
Frjálshyggjan snýst ekki um að fyrirtæki eigi að fá að græða. Þau eiga bara að fá að starfa, og engar hömlur eiga að vera á stofnun hvers kyns fyrirtækja. Fyrirtæki tapa og græða, stundum til skiptis. Gömul fyrirtæki deyja og ný koma í staðinn. Hestvagnasmiðir fara á hausinn og bílaframleiðendur græða. Þetta er hin skapandi eyðilegging svokallaða. Henni ber að fagna. Það er ekkert fyrirtæki ómissandi og það á enginn að fá sérstaka vernd hins opinbera í samkeppnisumhverfi.
Frjálshyggjan álítur ekki að núverandi ástand sé endilega það besta. Að rusli sé í dag safnað saman í stórum trukkum er bara ein leið af mörgum til að koma úrgangi frá heimilum. Í frjálsari heimi væri kannski búið að finna upp margar aðrar mögulegar lausnir sem fengju að þróast í samspili neytenda og veitenda.
Frjálshyggjan snýst ekki um að traðka á öldruðum, öryrkjum og langveikum. Hún snýst um að við, sem frjálsir einstaklingar, finnum bestu lausnirnar á þeim takmörkunum sem jarðnesk tilvist setur óumdeilanlega á okkur. Sumir vilja bara græða, aðrir vilja bara gefa, en flestir eru einhvers staðar þarna mitt á milli. Það er þörf á kröftum okkar allra, hvort sem þeir felast í vöðvastyrk eða forritunargáfum. Frjáls markaður hjálpar okkur að hámarka bæði framlag okkar til lausna á vandamálum heimsins og finna hamingjuna á eigin forsendum.
Það er ekki til ein einasta persóna sem getur búið til blýant ein og óstudd. Hinn frjálsi markaður framleiðir margar milljónir á dag og selur á örfáar krónur. Að hugsa sér hvað samtakamáttur mannkyns gæti gert fengi hann meira svigrúm til að athafna sig!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Mánudagur, 13. nóvember 2017
Sammála um margt
Sumir telja að það sé mikill munur á Vinstri-grænum og Sjálfstæðisflokki. Það er að vissu leyti rétt, en flokkarnir eru þó sammála um margt.
Ég hef t.d. ekki séð VG tala fyrir róttækri eyðileggingu á kvótakerfinu svokallaða. Alltaf vill VG samt hærri skatta á allt.
Hvorugur flokkanna vill innlima Ísland í ESB.
Báðir vilja auka ríkisútgjöld um heilan helling. VG telur að slíkt eigi að fjármagna með skattahækkunum en Sjálfstæðisflokkurinn treystir á endalaust góðæri sem stækkar alla skattstofna svo að þeir halda áfram að mjólka vel þótt skattprósentur séu stöðugar eða lækki.
Hvorugur flokkanna leggur áherslu á róttækar breytingar í landbúnaði.
Hvorugur flokkanna talar fyrir róttækri uppstokkun menntakerfisins þar sem einkaaðilar fá að kenna meira og víkja frá opinberum námskrám.
Hvorugur flokkanna talar um að einkavæða heilbrigðiskerfið. Meðal Sjálfstæðismanna eru mjóróma raddir um að flytja rekstrarábyrgð yfir á hendur einkaaðila í örfáum sértilvikum. Meira er það samt ekki.
Það er helst að innan grasrótarinnar svokölluðu sé hægt að koma auga á mismunandi áherslur. Innan Sjálfstæðisflokksins hamast nokkrir frjálshyggjumenn við að reyna ýta flokknum lengra til hægri. Innan VG eru einarðir kommúnistar sem vilja að ríkisvaldið gleypi stóra hluta af samfélaginu.
Ef þessir flokkar ákveða að ganga til samstarfs bíður okkar sennilega mjög yfirvegaður stjórnarsáttmáli, fullur af fögrum fyrirheitum en fátækur af mjög áþreifanlegum aðgerðum.
![]() |
Þrjár ástæður til að hefja viðræður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 12. nóvember 2017
Ef stór fyrirtæki eru olíuskip ...
Maður nokkur í viðskiptalífinu hefur nýlega sagt í viðtali að "[s]tóru fyrirtækin eru olíuskip sem þurfa að fylla kvótann á hverjum mánuði og hafa lítinn tíma og rými til að breyta sér hratt". Þessi maður stofnaði sitt eigið fyrirtæki til að auka sveigjanleikann gagnvart viðskiptavinunu
Ef samlíking hans um stór fyrirtæki er viðeigandi hvað má þá segja um stór ríkjasambönd? Eru þau borgarísjakar? Eða má kannski líkja þeim við risastóra skriðjökla sem haggast um örfáa sentímetra á ári á meðan umheimurinn í kringum þá gjörbreytist oft á dag?
Auðvitað eru einstök ríki sveigjanlegri en þau stóru. Þetta hefur kosti og ókosti. Einn kostur er sá að þau geta hraðar gripið tækifæri. Annar er sá að ef eitthvað er að er fljótlegt að laga það. Einn ókostur er sá að þau geta farið sér hraðar að voða ef rangar ákvarðanir eru teknar. Þau eru líka viðkvæmari fyrir ytri áföllum.
Það hlýtur samt að vera eftirsóknarvert að vera sveigjanlegur og aðlögunarhæfur. Við sem einstaklingar þekkjum þetta vel. Sé maður á hjóli sem stefnir ofan í holu vill hann vera fljótur að geta bremsað eða breytt um stefnu. Sé maður staddur í þungri lest með lélegar bremsur og sér að framundan er þverhnípi er freistandi fyrir hann að óska sér þess að væri frekar á hjóli þótt það sé yfirleitt óöruggara.
Þegar Bretar losna úr viðjum ESB opnast heimurinn fyrir þá. Mér sýnist þeir ætla að grípa tækifærin sem það veitir þeim og stofna til fríverslunar við mörg ríki. ESB mun aldrei græða á því að flæma Breta frá sér.
Það var einn helsti styrkur Evrópu á miðöldum að vera sundruð í hundruð ríkja, stór og smá. Þau gátu þá keppt um besta fólkið og bestu markaðina og ýtt undir hraða framþróun álfunnar. Því miður fóru þau líka oft í stríð við hvort annað, en yfirleitt voru það stærstu ríkin að slást við önnur stór ríki. Þau litlu voru of vanmáttug til að stunda stríð að einhverju ráði, nema við hvert annað og þá með notkun atvinnuhermanna sem kostuðu skildinginn.
Með því að leggja niður velferðarkerfið mætti á ný koma á heimi opinna landamæra þar sem það eru hæfileikarnir sem flæða á milli en ekki fólk í leit að ölmusa.
![]() |
Einfaldara að semja við Breta en ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 11. nóvember 2017
Kæru Íslendingar, ekki safna skuldum!
Árið 2007 er komið aftur á Íslandi segja sumir. Það er hægt að benda á margt sem styður slíka fullyrðingu. Einkaneyslan er komin á sama stað. Skuldir heimila eru byrjaðar að aukast eftir mörg ár af niðurgreiðslum. Nýir bílar seljast sem aldrei fyrr, sem og heitapottar og annað sem telst ekki til brýnustu nauðsynja. Byggingakranarnir gnæfa yfir mörgum svæðum.
Ég vona að íslenskur almenningur fari samt varlega. Við lifum í brothættum heimi. Eitthvað eldfjall gæti gosið og stöðvað ferðamannastrauminn. Einhver fisktegundin gæti ákveðið að synda yfir í aðra landhelgi. Einhver banki í Bandaríkjunum eða Ítalíu eða annars staðar gæti farið á hliðina og ýtt við spilaborginni sem fjármálakerfi heimsins er (flóra seðlabanka sem prenta peninga í miklu magni og vona það besta).
Ekki bætir úr skák að ríkisvaldið á Íslandi spennir bogann í botn. Vissulega hafa skuldir verið greiddar niður undanfarin ár en ekki nógu hratt. Skattar eru enn í hæstu hæðum eftir seinustu vinstristjórn. Fjölmörg fyrirtæki í áhættusömum rekstri eru í eigu hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga. Hið opinbera stendur undir gríðarlegum fjölda fólks, bæði opinberra starfsmanna (með tilheyrandi lífeyrisskuldbindingum) og bótaþegum (bæði þeim sem lifa algjörlega á bótum og að hluta).
Það má mjög lítið út af bregða til að valda mjög mörgum miklum sársauka og óþægindum!
En á fólk að spara og leggja fyrir? Hár fjármagnstekjuskattur og lágir raunvextir eru ekki beinlínis hvetjandi þættir til að auka sparnað. Gjalmiðillinn er líka frekar óstöðugur til lengri tíma. Stjórnmálamenn munu ekki hika við að gengisfella krónuna ef það hjálpar þeirra pólitíska málstað.
Á fólk að fjárfesta í einhverju sem heldur verðgildi sínu þokkalega? Já, en verðlag á hlutum eins og húsnæði og hlutabréfum er nú þegar í bóluástandi og því frekar hæpnar fjárfestingar.
Það væri kannski ráð að sanka að sér traustum erlendum gjaldmiðlum, eins og svissneska frankanum, og setja í bankahólf. Gull og aðrir góðmálmar eru líka alltaf eftirsóttir. Hið sama má segja um margar gerðir Rolex-úra.
Ég vil hvetja alla sem geta til að bæta við sig verðmætaskapandi þjálfun og þekkingu sem bætir möguleikana til að afla tekna ef hagkerfið tekur hikstakast. Það má t.d. taka námskeið á netinu fyrir lítinn pening, svo dæmi sé tekið.
Ég vil hvetja alla sem eru með neysluskuldir, yfirdrátt, bílalán og annað slíkt til að borga niður mínusinn.
Ekki endurnýja bílinn ef hann er þokkalegur. Ekki fara í dýrasta mögulega fríið. Keyptu notað. Fáðu lánað eða gefins. Góði hirðinn er að springa. Verslaðu þar!
En sama hvað þá vona ég að íslenskur almenningur fari sér hægt í hinu meinta góðæri. Stjórnmálamenn tala vissulega eins og það sé svigrúm til gríðarlegra útgjalda, en látum ekki blekkjast.
![]() |
Meiri einkaneysla á mann en árið 2007 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 10. nóvember 2017
Vatnslitaverk Britney Spears og hagfræði
Söngkonan Britney Spears seldi vatnslitamynd fyrir dágóða summu en það er ljóst að ekki öllum þykir mikið til teiknihæfileika hennar koma.
Hvernig stendur þá á því að verk hennar seldist fyrir háa fjárhæð?
Hvernig stendur á því að allskonar drasl selst fyrir háar fjárhæðir á meðan annað, mun vandaðra og betur gert, selst fyrir minna?
Af hverju er fasteignasali, sem gerir fátt annað en birta myndir af húseignum annarra og fylla út eyðublöð, með hærri laun en grunnskólakennarinn sem veitir börnum ómetanlega þekkingu fyrir lífið?
Af hverju er vatn, sem við þurfum öll á að halda, ódýrara en demantar, sem eru varla nothæfir fyrir nokkurn mann?
Af hverju fá menn ekki borgað í hlutfalli við verðmæti þeirrar þjónustu sem þeir veita? Verksmiðjustarfsmaður hjá Mercedes Benz fær ekki borgað í hlutfalli við söluvirði Benz-bílanna. Hann fær svipað mikið borgað og starfsmaður Skoda og Citroen, sem eru mun ódýrari bílar. Er þetta ekki óréttlátt?
Af hverju er allt sem Karl Marx sagði um hagfræði vitleysa?
Hagfræðin hjálpar okkur að svara þessum spurningum.
Svarið er örstutt: Hlutir eru verðlagðir út frá persónulegu mati kaupenda á nauðsyn þess sem þeir kaupa. Það mætti kalla þetta framboð og eftirspurn, en mér finnst betra að tala út frá kaupandanum.
Svo já, listaverk Britney Spears eru kannski ekkert augnayndi, en af því einhver er tilbúinn að borga 10 þúsund dollara fyrir mynd eftir hana þá er mynd eftir hana 10 þúsund dollara virði. Það er svo einfalt, í rauninni.
![]() |
Britney seldi mynd á milljón |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 9. nóvember 2017
Gæti orðið sammála um að gera ekkert
Ríkisstjórn Vinstri-grænna, Sjálfstæðismanna og Framsóknar gæti orðið sammála um að gera ekkert. Það væri frábær ríkisstjórn!
Í stað þess að deila um það hvort skatta eigi að hækka eða lækka er sammælst um að halda þeim óbreyttum. Auðvitað væri betra að fá lægri skatta en það er skárra að þeir haldist óbreyttir en hækki.
Í stað þess að þjóðnýta er ákveðið að þjóðnýta ekki. Um leið er sammælst um að ekkert verði einkavætt, því miður.
Það er kannski von fyrir íslenskan almenning ef til valda kemst ríkisstjórn sem ákveður að gera ekkert frekar en að gera illt verra og bæta við skuldirnar og skattana.
![]() |
Myndi skapa pólitískan stöðugleika |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 9. nóvember 2017
Ekki nógu vinsælir, eða of dýrir í rekstri?
Tveimur vinsælum tónleikastöðum í miðborg Reykjavíkur hefur nýlega verið lokað. Hjá borginni er nú verið að skoða að skattgreiðendur styðji rekstur slíkra staða úr því viðskiptavinirnir vilja ekki gera það.
Þetta er auðvitað fáheyrt. Rekstur tónleikastaða er ekki verkefni borgaryfirvalda. Hverja á að styðja og um hvað mikið og hversu lengi? Á að styðja tóman stað þar sem spiluð er tónlist sem enginn nennir að hlusta á? Á að styðja tónleikastað sem fyllist um hverja helgi? Hvernig á að gera upp á milli? Er nóg að einhver glamri á gítar eða þarf fleiri en tvo á sviðið eða hvað?
Nákvæmlega hvaða tónleikar eru það sem skattgreiðendur eiga að styðja við, og hvers vegna?
Þetta meinta vandamál er einfalt í eðli sínu. Annaðhvort er of dýrt að reka skemmtistað eða fólk er einfaldlega hætt að stunda þá. Háan rekstrarkostnað má rekja til margra hluta sem má flesta rekja til hins opinbera: Ýmis leyfi og gjöld, eftirlit, skattar á aðföng og fleira slíkt kostar kannski bara of mikið til að það sé hægt að velta því út í verðlagið og ætlast til að fólk vilji borga.
Ef fólk er hætt að nenna í bæinn og hella í sig áfengi er ekkert víst að það sé slæmt. Leigubílaleyfin eru hvort eð er of fá til að hægt sé að koma of mörgum heim til sín eftir kvöld í miðbænum. Þeir sem slást fullir en ekki edrú slást minna ef þeir eru sjaldnar fullir. Túristarnir geta væflast um í miðbænum án þess að óttast áreiti. Borgaryfirvöld geta sparað enn meira við sig í þrifum og viðhaldi. Tómur bær er hreinn bær.
Lengi vel þjarmaði borgin að þeim sem vildu reka skemmtistaði í miðbænum. Lokunartímar eru takmarkaðir, áfengisgjöldin himinhá og leigubílarnir troðfullir. Nú er hins vegar talað um að niðurgreiða starfsemi sömu skemmtistaða.
Geta yfirvöld ekki ákveðið sig bráðum?
![]() |
Vinsælum tónleikastöðum lokað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 7. nóvember 2017
Vinstristjórn í tilraunaglasi
Reykjavík hefur, síðan á dögum R-listans, verið eins konar tilraunaglasaútgáfa af vinstristjórn á landsvísu. Nokkur einkenni slíkrar stjórnar eru:
- Skuldir vaxa jafnvel þótt skatttekjur vaxa
- Hoggið er í grunnstoðirnar en gæluverkefnunum hleypt áfram
- Áætlanir um að skila rekstrarafgangi settar fram árlega, en standast ekki árlega
- Skattalækkanir veittar á afmarkaða en atkvæðamarga hópa, en aðrir fá skattahækkanir inn um sína lúgu
- Reynt að kenna öðrum um eigin vandræði í rekstri og stjórnsýslu. Einhverjum utanaðkomandi er um að kenna
- Erfiðum málum kastað á milli eins heitri kartöflu þar til þau lenda á grandlausum embættismönnum
R-listinn var ákveðin fyrirmynd vinstristjórnar Jóhönnu og Steingríms. Borgarstjórn Dags er vísbending um það sem koma skal ef Katrín Jakobsdóttir fær nógu marga á sitt band í Stjórnarráðinu.
![]() |
Reksturinn verði jákvæður upp á 3,4 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 5. nóvember 2017
Hvað með þessa brandara?
Brandarar sem gera grín að heilu þjóðunum eru oft fyndnir. Brandarar sem alhæfa um heilu hópana eru það almennt. Sem MR-ingur er ég t.d. alinn upp við það að hæða veslinga (nemendur verslunarskóla Íslands, eða vÍ). Sem fyrrum Árbæingur hef ég heyrt margar alhæfingar um fólk úr Breiðholti og Grafarvogi. Sem starfsmaður í verkfræðideild fyrirtækis finnst mér fyndið að alhæfa um verkefnastjórana, starfsmannadeildina og fleiri.
Sem frjálshyggjumaður finnst mér líka fyndið að lesa brandara sem alhæfa um fólk með annars konar pólitískar hugsjónir (eða hugsjónaleysi).
Sem betur fer hefur pólitískur rétttrúnaður ekki náð tökum sínum á bröndurum af þessu tagi. Pólitískur rétttrúnaður hefur að mestu útrýmt bröndurum um þeldökka og nasista, svo dæmi sé tekið ("Hver er munurinn á svertingja og körfubolta?", "Hvað komast margir Gyðingar fyrir í Volkswagen bjöllu?").
Brandarar fá okkur til að hugsa um marga hluti og svartur húmor fær okkur jafnvel til að hugleiða ýmis alvarleg vandamál í samfélaginu sem við gerðum annars ekki.
Megi sem flestir brandarar um sem flesta og sem flest vera sagðir um alla framtíð!
Hér er svo að lokum einn frumsaminn (ekki mjög góður samt):
Hver er munurinn á Vinstri-grænum og Pírötum?
Vinstri-grænir vilja stela peningunum þínum en Píratar vilja stela innihaldi tölvu þinnar.
![]() |
Er eitthvað til að grínast með? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 3. nóvember 2017
Hrunamannastjórnin?
"Fulltrúar fjögurra stjórnmálaflokka, sem stefna að því að mynda nýja ríkisstjórn, munu hittast á fyrsta formlega fundi stjórnarmyndunarviðræðnanna að heimili Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins, á Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi, í dag."
Það er vel til fundið að hittast í Hrunamannahreppi. Stjórnin, ef úr verður, gæti þá heitið Hrunamannastjórnin.
Framundan er áfall á alþjóðlegum fjármálamarkaði sem verður engu minna en það árið 2008, og jafnvel miklu verra því heilu ríkin gætu sogast niður í gjaldþrotaholuna sem gleypti fyrst og fremst banka árið 2008. Búið er að blása í hlutabréfabólur, fasteignaverð víða um heim er í hæstu hæðum og skuldirnar víða geigvænlegar og þola ekki kommutölu í vaxtahækkun, sem þó er óumflýjanleg eftir stanslausa peningaprentun í 10 ár. Jarðvegurinn hefur verið lagður. Núna vantar bara þetta "eitthvað" sem hrindir dómínókubbunum af stað.
Ísland er að mörgu leyti betur statt en mörg ríki og mun betur statt en árið 2008 að mörgu leyti, fyrir utan að ríkið skuldar of mikið og allir skattar eru í hæstu hæðum.
Hið komandi alþjóðlega hrun mun samt ekki hlífa Íslendingum. Margir erlendir markaðir munu þurrkast út og krónan mun veikjast. Það leiðir til verðbólgu og þess að öll verðtryggð lán hækka. Stjórnvöld munu ekki hafa náð að greiða upp skuldir sínar (enda stendur það ekki til) og það er lítið svigrúm til skattahækkana sem einhverju máli skipta nema gramsa dýpra í vösum almenns launafólks, sem um leið missir getuna til að borga af eigin lánum.
Þetta verður eitthvað.
Að ríkisstjórnin sem situr heiti Hrunamannastjórnin væri því ákaflega viðeigandi.
![]() |
Funda heima hjá Sigurði Inga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |