Fimmtudagur, 16. maí 2019
Gerið Reykjavík að tilraunastofu!
Ný könnun Zenter fyrir Strætó bs. bendir til að einn af hverjum tuttugu íbúum á höfuðborgarsvæðinu taki strætó daglega. Hefur hlutfallið lítið breyst síðustu ár.
Margir telja að við þessu þurfi að bregðast og að það þurfi að koma fleiri ferðalöngum í strætó. Menn hafa til dæmis breytt leiðakerfinu milljón sinnum og það er meira að segja hægt að pissa í Mjóddinni í dag (held ég). Einnig stendur til að eyða tugmilljörðum í enn eina gerð strætóa sem keyra á sérakreinum á milli örfárra stoppistöðva og svo vonast til að fólk nenni að labba restina.
En þarf ekki róttækari lausnir? Nú er ég ekki endilega að tala um einkavæðingu vegakerfisins þar sem aðgengi að vegum er verðlagt eftir framboði og eftirspurn og það í sífellu aðlagað að þörfum notenda (sem er samt frábær hugmynd). Hér legg ég til að menn hleypi öðrum að vegunum en strætó.
Í upphafi gæti þetta falist í því að hleypa Uber, Lyft og slíkum fyrirtækjum að íslenskum markaði. Til þess þarf bara svolitla lagabreytingu (sem bæði opnar á samkeppni við leigubíla og fækkar kröfum á hina hefðbundnu leigubíla svo þeir geti mætt samkeppninni, og svo þarf auðvitað að afnema þak á fjölda leigubílaleyfa).
Með Uber verða Reykvíkingar kannski heppnir og fá aðgang að Uber Transit en það er tækni sem hefur þann yfirlýsta tilgang að gera það óþarfi fyrir fólk að eiga sinn eigin bíl. Aðferðin er ekki valdboð, þrengingar, tafir og ofurskattlagning heldur þægindi.
Lyft er líka fyrirtæki sem vill stuðla að minni umferð og meiri sveigjanleika og hafa upp á ýmislegt að bjóða fyrir borgir í leit að lausnum.
Það má heita fullreynt að fjarstýra umferð borgar frá miðlægum skrifstofum ráðhúsanna. Stjórnmálamenn ættu einfaldlega að gefast upp og hleypa öðrum að. Um leið geta þeir losað um tíma til að huga að öðru, t.d. hver á að hljóta mannréttindaverðlaun eða annað slík.
![]() |
Hlutfall Strætó hefur lítið breyst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 14. maí 2019
Hrein peningasóun
Stundum (en ekki nógu mikið) er rætt um sóun í hinum opinbera geira. Sitt sýnist hverjum. Er þessi nefnd eða stofnun óþarfi eða of dýr í rekstri? Eru laun þingmanna of há? Þarf alla þessa ráðherrabíla? Þurfa opinberir starfsmenn að sækja þessa ráðstefnuna eða hina?
Oft má finna einhvern flöt þar sem er hægt að fá svolitla samúð fyrir útgjöldunum en ekki alltaf.
Sem dæmi um kristaltæra og tandurhreina peningasóun er svokallaður loftslagssjóður. Sóunin er slík að það kæmi sennilega betur út að taka framlögin til hans út í reiðufé og brenna á báli. Þá fengi a.m.k. einhver hlýjuna frá bálinu út úr sóuninni!
Og hvernig er það nú aftur, er meðlimur Sjálfstæðisflokksins fjármálaráðherra?
![]() |
Hildur skipuð formaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 12. maí 2019
Málpípur hins opinbera
Fjölmiðlar verða bráðum að þurfalingum á spena ríkisgyltunnar. Þannig má tryggja að frá því verður sagt sem er hinu opinberu þóknanlegt, en ekki frá öðru.
Þannig munu sérhæfðir fjölmiðlar sem fjalla á sérhæfðan hátt um afmarkað efni, t.d. fótbolta eða ferðamenn, lenda í samkeppni við niðurgreidda fjölmiðla sem segja illa frá mörgu.
Þeim fjölgar því málpípum hins opinbera.
Nú þegar tryggir ríkið sér að kennarar hafi réttar og viðteknar skoðanir (dásama velferðarkerfið og vanrækja hagfræðikennslu), og fjölmiðlamenn, sem nú þegar eru yfirgnæfandi til vinstri, verða nú að þóknast hinu opinbera hvort sem þeir vilja það eða ekki.
Nú er að sjá til hvort það takist að múta fjölmiðlamönnum til að hafa réttar skoðanir eða hvort þeir spyrni við fótum og láti reyna á það hvort mútugreiðslurnar berist áfram eða ekki ef rangar skoðanir fá pláss.
Hvernig væri til dæmis að henda í hressandi greinaröð um glæpatíðni innflytjenda frá Miðausturlöndum og Afríku eða um allan þann ríkisrekstur sem er haldið úti á Íslandi en er í höndum einkaaðila í öðrum Vestur-Evrópuríkjum?
![]() |
Mun breyta rekstrarumhverfi fjölmiðla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 7. maí 2019
Danska samfélagið
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur boðað til kosninga 5. júní. Þessu hafa margir beðið eftir lengi. Þetta verða spennandi kosningar, hvað sem líður fréttaskýringum Morgunblaðsins.
Töluverðar breytingar hafa orðið í dönskum stjórnmálum seinustu 10-15 árin. Heitasta umræðuefnið var einu sinni útlendingapólitíkin. Danski þjóðarflokkurinn kom, sá og sigraði þá umræðu. Núna hafa allir stærstu flokkarnir tekið upp útlendingapólitík hans og sá flokkur því að missa sérstöðu sína.
Skattar hafa líka verið mörgum hugleiknir en niðurstaðan virðist hafa orðið sú að þeim skal haldið háum. Um leið hafa menn nokkurn veginn sætt sig við að þeir eigi ekki að hækka meira svo samkeppnisstaða hagkerfisins, og geta þess til að vera mjólkað ofan í ríkissjóð, versni ekki. Þó tókst að lækka skatta á bíla á seinasta ári. Efnaminni fjölskyldur geta skipt út skrjóðnum. Það er nú eitthvað.
Núna virðist heitasta umræðuefnið vera það hvað er hægt að lofa fólki að komast snemma á eftirlaun af einhverju tagi. Sósíaldemókratarnir fundu upp á þessu máli en stærstu flokkarnir fylgja humátt á eftir. Miðað við umræðuna virðist venjuleg vinna vera algjört eitur í beinum venjulegs fólks en ég held að þegar hólminn á komið sé það ekki svo. Þeir sem eiga við meiðsli, örorku og sjúkdóma komast á bætur í dag og aðrir helst ekki. Þannig verður það áfram.
Það sem helst greinir á milli fylkinga í Danmörku er eiginlega ekki neitt. Þó er alltaf hætt við að vinstrimenn hækki skatta meira en aðrir en um leið að hægrimenn (sem má ekki rugla saman við frjálshyggjumenn) hafi enga sýn og leggist bara í vörn fyrir núverandi fyrirkomulagi á öllu. Kunnuglegt ástand, ekki satt?
![]() |
Boðað til kosninga í Danmörku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 6. maí 2019
Áróðurinn verður sífellt langsóttari
Ísland er á meðal fárra landa sem hafa hagnast fjárhagslega vegna hnatthlýnunar síðustu áratuga. Þetta kemur fram í rannsókn frá Stanford-háskóla sem birt var í tímariti bandarísku vísindaakademíunnar, PNAS. Í þeirri rannsókn eru hitasveiflur bornar saman við hagvöxt yfir hálfrar aldar tímabil.
Í annarri rannsókn, ótengd þessari, hefur komið fram að fjöldi þeirra sem drukkna í sundlaugum í Bandaríkjunum á ári helst þétt í hendur við fjölda kvikmynda sem stórleikarinn Nicholas Cage kemur fram í. Ef hann kemur fram í 2 myndum á ári er viðbúið að um 100 manns drukkni í sundlaug.
Þessi eltingaleikur við að reyna tengja síbreytilegt veðurfar við hitt og þetta er orðinn ansi langsóttur. Hagvöxtur er til dæmis bara að litlu leyti niðurstaða veðurbrigða. Miklu frekar tengist hann fjárfestingum kapítalista í atvinnutækjum sem bæta framleiðni, og því hversu vel ríkisvaldinu tekst vel að kæfa ekki frjálst framtak fólks og fyrirtækja.
![]() |
Íslendingar hagnast á hnatthlýnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Sunnudagur, 5. maí 2019
Hverjir eru öfgamenn?
Stóru samfélagsmiðlarnir virðast vera undir mikilli pressu að loka á hina og þessa einstaklinga. Hvaðan sú pressa kemur veit ég ekki en það er engin tilviljun að nákvæmlega sömu einstaklingarnir lendi í lokun á mörgum miðlum á sama tíma, eins og kom t.d. fyrir hinn svokallaða öfgamann Alex Jones.
Það vantar heldur ekki uppnefnin hjá hinum hefðbundnu fjölmiðlum: Öfgamenn, boðberar hatursumræðu og hvaðeina.
Höfum samt eitt á hreinu: Það er ekki það að hinir útilokuðu einstaklingar brjóti notendaskilmála sem leiðir til að það er lokað á þá. Nei, það sem leiðir til þess að lokað er á þá er að þeir stuða riddara hins pólitíska rétttrúnaðar.
Það virðist t.d. vera í lagi að óska karlmönnum dauða fyrir það eitt að vera karlmenn, en svo má ekki benda á að karlar sem vinna langa vinnudaga í fyrirtækjum sem afla mikilla tekna þéna betur en konur sem vinna stutta vinnudaga hjá opinberum stofnunum.
Það má flæma menn úr starfi fyrir að tjá sínar persónulegu skoðanir í lokuðum hópum en ekki benda á að þeir sem tala hæst um að vilja frið í heiminum eru þeir sem senda flestar sprengjur á almenna borgara í eyðimerkurlöndum.
En gott og vel, ef samfélagsmiðlarnir ætla að beygja sig undir pólitískri pressu og rétttrúnaði og gerast bergmálsherbergi fyrir skoðanir sem blaðamenn samþykkja þá þeir um það. Hinn frjálsi markaður og hið stjórnlausa internet mun svara á einn eða annan hátt.
Svo má á lokum benda á að skoðun gufar ekki upp þótt einhver Twitter-reikningur hverfi. Það sem gerist er að sú skoðun skýtur rótum þar sem hún mætir minna aðhaldi, og um leið eflist hún og brýst fram á óvæntan og jafnvel óvægin hátt.
![]() |
Kvartar undan ritskoðun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 4. maí 2019
Norræna leiðin er blönduð leið
Á Íslandi tala menn oft um að vilja gera hitt eða þetta eins og frændur okkar á Norðurlöndunum. Það er samt ekki rétt. Miklu frekar vilja Íslendingar sækja fyrirmyndir til Austur-Evrópu, og jafnvel Sovétríkjanna sálugu.
Á Norðurlöndunum starfar mikill fjöldi einkaaðila í heilbrigðiskerfinu til hliðar við hið opinbera. Það er hin norræna leið. Vilja Íslendingar þá leið eða ekki?
![]() |
Okkur er ekki svarað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 1. maí 2019
Útsölur eru góð kjarabót
Mér finnst afskaplega viðeigandi að fyrirtæki auglýsi sérstaka afslætti í tilefni af 1. maí, baráttudegi verkalýðsfélaganna (verkalýðurinn er bæði innan og utan þeirra).
Útsölur eru jú frábær kjarabót! Þar slá eigendur fyrirtækja af arðsemiskröfu sinni til að auka veltuna tímabundið, minna á vörumerki sitt og auka ánægju viðskiptavinanna.
Fyrirtæki ættu að vera dugleg að halda 1. maí á einn eða annan hátt og lækka vöruverð sitt, ýmist varanlega samhliða hagræðingaraðgerðum eða tímabundið á kostnað eigenda sinna.
Annars legg ég til að menn láti af þeim ósið að fara í frí 1. maí óháð því á hvaða vikudegi sá mánaðardagur rennur upp. Þeir sem vilja spóka sig í miðbænum með merki kommúnista eiga að gera það launalaust í eigin frítíma. Hérna er páskahátíðin öllu fyrirsjáanlegri og miðast við ákveðna vikudaga (skírdagur á fimmtudegi, föstudagurinn langi á föstudegi og þar fram eftir götunum). Ræðudagur verkalýðsforkólfa gæti þá heitið fyrsti laugardagur í maí eða álíka.
![]() |
Ósvífið og til skammar fyrir fyrirtækin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 30. apríl 2019
Til varnar einnota
Einnota vörur hafa marga kosti. Við eigum ekki að dæma þær úr leik - þvert á móti!
Í fyrsta lagi geta þær sparað okkur hreinsiefni. Það þarf ekki að þvo upp einnota vörur með sápu og heitu vatni sem endar í niðurfalli og að lokum í sjónum. Einnota vörur fara einfaldlega í ruslið og eru brenndar eða urðaðar eða jafnvel endurnýttar (þótt endurnýting sé oftar en ekki sóun á orku og felur í sér notkun á hættulegum efnum).
Í öðru lagi geta einnota vörur varið matvæli okkar og ýmsar vörur. Umbúðir koma í veg fyrir skemmdir. Matur endist betur undir plastfilmu. Einnota vörur af ýmsu tagi framlengja líf á ýmsum hlutum.
Í þriðja lagi eru einnota vörur oft handhægari en aðrar og auka sveigjanleika okkar í lífinu. Til dæmis er upplagt að fara með einnota glös og diska í göngutúr á ströndina frekar en að rogast með leirtauið sem um leið er viðkvæmara fyrir hnjaski. Einnota rör eru heppileg fyrir krakka sem sulla á sig þegar þau drekka úr glasi. Að halda barnaafmæli er leikur einn þegar það er einfaldlega hægt að henda öllum glösunum og diskunum að partýi loknu frekar en að þurfa bograst yfir vaskinum og þvo upp.
Í fjórða lagi geta einnota vörur sparað hráefni, orku og auðlindir. Magnið af plasti sem þarf til að búa til eitt plastglas er svo lítið að það er nánast ósýnilegt. Hinn möguleikinn er að nota sápu og heitt vatn til að þvo upp. Plastfilman kemur í veg fyrir matarsóun. Plasthanskinn hlífir okkur við óhreinindum og eiturefnum. Öndunargríman ver lungu okkar.
Við heyrum reglulega að sjórinn sé að fyllast af plasti og rusli. Það er að hluta til rétt en er ekki okkur að kenna. Megnið af ruslinu sem rennur til sjávar rennur úr nokkrum stórfljótum í vanþróaðri ríkjum. Lausnin er sú að styrkja stoðir eignaréttsins þannig að sá sem mengar þurfi líka að sæta afleiðingum.
![]() |
Er einnota óþarfi? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 29. apríl 2019
Kröfuharðir viðskiptavinir!
Vínbúðin á Eiðistorgi er að margra mati orðin nokkuð lúin í samanburði við þær sem endurnýjaðar hafa verið síðustu ár. Kröfuharðir viðskiptavinir hafa til að mynda kvartað undan því að ekki er kælir í versluninni eins og víðast annars staðar.
Já, þeir eru kröfuharðir þessir viðskiptavinir ríkiseinokunarverslunarinnar! En núna stendur til að setja upp kæli og það ratar í fyrirsagnir frétta.
En slaka þá þessir kröfuhörðu viðskiptavinir á kröfum sínum? Eða geta þeir haldið áfram að krefjast? Hver er að hlusta? Hver bregst við, og hvenær? Ekki er um að ræða neitt markaðsaðhald svo hver ákveður hvað á að gera og hvar og hvenær?
Það er ekki hægt að kalla viðskiptavini ÁTVR kröfuharða því það þarf enginn að bregðast við kröfum þeirra og þeir hafa enga aðra valkosti. ÁTVR gerir bara það sem ÁTVR telur að nægi til að bæla niður óánægjuraddir með fyrirkomulag ríkiseinokunar. Sá sem hefur labbað í gegnum stórmarkað í Danmörku eða Þýskaland brosir að nægjusemi Íslendinga með sínar ÁTVR-verslanir - sumar með kæli og aðrar ekki. Kröfur viðskiptavina ÁTVR heyrast ekki nema vísbendingar séu að myndast um að Íslendingar hugleiði frjálsara fyrirkomulag áfengissölu. Og núna er sem sagt kominn kælir á Eiðistorgi, eins og Morgunblaðið hefur hér sagt svo vel frá. Kannski það fái þessa bevítans Seltirninga til að halda kjafti.
![]() |
Fá loks kæli í Vínbúðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |