Gerið Reykjavík að tilraunastofu!

Ný könnun Zenter fyrir Strætó bs. bendir til að einn af hverjum tuttugu íbúum á höfuðborgarsvæðinu taki strætó daglega. Hefur hlutfallið lítið breyst síðustu ár. 

Margir telja að við þessu þurfi að bregðast og að það þurfi að koma fleiri ferðalöngum í strætó. Menn hafa til dæmis breytt leiðakerfinu milljón sinnum og það er meira að segja hægt að pissa í Mjóddinni í dag (held ég). Einnig stendur til að eyða tugmilljörðum í enn eina gerð strætóa sem keyra á sérakreinum á milli örfárra stoppistöðva og svo vonast til að fólk nenni að labba restina.

En þarf ekki róttækari lausnir? Nú er ég ekki endilega að tala um einkavæðingu vegakerfisins þar sem aðgengi að vegum er verðlagt eftir framboði og eftirspurn og það í sífellu aðlagað að þörfum notenda (sem er samt frábær hugmynd). Hér legg ég til að menn hleypi öðrum að vegunum en strætó.

Í upphafi gæti þetta falist í því að hleypa Uber, Lyft og slíkum fyrirtækjum að íslenskum markaði. Til þess þarf bara svolitla lagabreytingu (sem bæði opnar á samkeppni við leigubíla og fækkar kröfum á hina hefðbundnu leigubíla svo þeir geti mætt samkeppninni, og svo þarf auðvitað að afnema þak á fjölda leigubílaleyfa).

Með Uber verða Reykvíkingar kannski heppnir og fá aðgang að Uber Transit en það er tækni sem hefur þann yfirlýsta tilgang að gera það óþarfi fyrir fólk að eiga sinn eigin bíl. Aðferðin er ekki valdboð, þrengingar, tafir og ofurskattlagning heldur þægindi.

Lyft er líka fyrirtæki sem vill stuðla að minni umferð og meiri sveigjanleika og hafa upp á ýmislegt að bjóða fyrir borgir í leit að lausnum.

Það má heita fullreynt að fjarstýra umferð borgar frá miðlægum skrifstofum ráðhúsanna. Stjórnmálamenn ættu einfaldlega að gefast upp og hleypa öðrum að. Um leið geta þeir losað um tíma til að huga að öðru, t.d. hver á að hljóta mannréttindaverðlaun eða annað slík.


mbl.is Hlutfall Strætó hefur lítið breyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það hefur einfaldlega verið ákveðið að ráðast í gerð Borgarlínunnar á höfuðborgarsvæðinu hér á Íslandi til að fjölga þeim sem nota almenningssamgöngur og vagnarnir munu ekki nota jarðefnaeldsneyti.

Hávaða-og loftmengun frá umferðinni verður því minni en ella, auk þess sem hlutfall einkarafbíla mun stöðugt aukast hér, eins og í Noregi.

Byggðin verður einnig þétt við Borgarlínuna. Tugþúsundir munu því búa við línuna og þurfa ekki að ganga langar leiðir að henni.

Þeir sem ekki vilja búa nálægt Borgarlínunni eða í þéttri byggð geta það hins vegar að sjálfsögðu.

Flestir Reykvíkinga vilja samkvæmt skoðanakönnunum búa vestan Kringlumýrarbrautar í Reykjavík, þar sem byggðin er mun þéttari en til dæmis austan Elliðaáa og þriðjungur Reykvíkinga býr vestan Kringlumýrarbrautar.

Þar eru þó og verða áfram stór opin svæði, Klambratún (Miklatún), Öskjuhlíð, Nauthólsvík, Ægisíða og Hljómskálagarðurinn.

Þrátt fyrir nafnið verður Borgarlínan ekki eingöngu í Reykjavík og mun liggja til að mynda á nýrri brú yfir Fossvoginn á milli Kópavogs og Reykjavíkur, frá Hafnarfirði og í Mosfellsbæ.

Sífellt fleiri hjóla á höfuðborgarsvæðinu og auðvelt verður að hjóla frá Kársnesi í Kópavogi að háskólunum á Vatnsmýrarsvæðinu, þar sem nú er verið að byggja bæði atvinnu- og íbúðarhúsnæði, til dæmis fyrir nemendur háskólanna.

Hjóla- og göngustígar hafa verið lengdir verulega á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár, enda nota þá sífellt fleiri.

Flestir Reykvíkinga starfa vestan Kringlumýrarbrautar í Reykjavík og þar eru þrír háskólar með um 20 þúsund nemendur og kennara.

Við Landspítalann, stærsta vinnustað landsins, starfa um 5 þúsund manns, og stórar byggingar verða reistar þar á næstu árum.

Því er mikilvægt að byggja íbúðarhúsnæði á Vatnsmýrarsvæðinu nálægt háskólunum og Landspítalanum, enda er verið að byggja á Hlíðarendasvæðinu og íbúðarhúsnæði verður einnig byggt við Háskólann í Reykjavík og Skerjafjörðinn á næstu árum.

Þorsteinn Briem, 16.5.2019 kl. 07:58

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Því sem hér hefur verið lýst er enn ein glærusýningin úr smiðju borgarstjórnar. Þetta og hitt á að gerast. Fólk mun hjóla og leggja bílnum og byggja hér og þar.

Það sem gerist eftir seinustu glærusýningar - þær um þéttingu byggðar - var að fólk fór að byggja enn utar til að hafa efni á húsnæðinu.

Hvað gerist eftir þessa?

Það eru a.m.k. engar vísbendingar um að borgarstjórn ætli að sleppa hreðjatakinu af miðstýringu sinni, því miður.

Geir Ágústsson, 16.5.2019 kl. 09:47

3 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Yfirvald gengur aldrei út á þægindi.  Þau ganga út á *vald.*  Þú átt bara að hlýða, hversú óhentugt það er fyrir þig, mig eða nokkurn.  Vegna þess að völd.

Ásgrímur Hartmannsson, 16.5.2019 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband