Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2023

Hamfarahlýnunin

Mikið er rætt um loftsmál og ég sé að sumir hafa meira að segja þróað með sér sérstakan loftlagskvíða. Það er því við hæfi að skoða nokkur línurit. 

Fyrsta línuritið er byggt á gögnum frá heimasíðu Veðurstofunnar (heimild):

lofts1

Höfundur línuritsins fjallar aðeins nánar um merkingu þess í annarri grein sem er óhætt að mæla með:

Á einni öld nemur hlýnunin 0,25°C á Stórhöfða, 0,36°C í Reykjavík og 0,57°C í Stykkishólmi. Hlýnun á einni öld er því minni en sem nemur sveiflu í meðalárshita (staðaðalfrávik) þessara stöðva.

Næsta línurit er fengið með því að slá inn tölur úr tímariti sem Veðurstofan gaf út í áraraðir og skeyta við það rafrænum gögnum fyrir tímabilið eftir að útgáfan hætti.

lofts2

Línuritið er frægt fyrir að fjésbókin bannaði það og hlýtur það að auka nokkuð trúverðugleika þess, en höfundur þessa línurits hefur sagt:

Þessar upphaflegu hitamælingar eru ekki í samræmi við þær hitamælingar sem í dag er að finna á heimasíðu Veðurstofu Íslands. Veðurstofan hefur breytt öllum þessum hitamælingum í þeim tilgangi að sanna tilgátuna um hlýnun jarðar af mannavöldum. 

Það er auðvelt að sjá hvað er á seyði: Ekkert. En ef menn byrja línurit um miðbik 20. aldar, eins og algengt er, þá er auðvitað auðvelt að búa til línurit sem gerir ekkert nema vaxa og vaxa upp á við.

Ég verð að viðurkenna að loftslagskvíði minn er enginn. Ég óttast miklu meira mengun, þ.e. eitraðar agnir í loftinu. Þær er til dæmis hægt að finna við eldunaraðstöðu rafmagnslauslausu húsanna í Afríku og Indlandi, þar sem vantar að byggja orkuver og innviði til að bæta líf fólks og gæði loftsins í kringum það. Slík orkuver eru ekki byggð því menn þjást af loftslagskvíða eða fá ekki lán frá alþjóðlegum fjármálastofnunum sem þykjast vera grænar og loftslagsvænar. Mengunin fær því að halda áfram að meiða og drepa fólk.

Mögulega upplifum við núna tíma hjátrúar og hindurvitna sem menn í framtíðinni munu hlægja að, rétt eins og við undrumst nornabrennur miðalda. Mögulega erum við á leið inn í langt tímabil hjátrúar sem að lokum tortímir menningu okkar. Sjáum til.


Herra bráðið smjör

Nú er um ár liðið síðan Norðurlöndin, meðal annarra, hentu sóttvarnaraðgerðum (takmörkunum á atvinnufrelsi, ferðafrelsi, frelsi til athafna, frelsi til að afþakka lyfjagjöf án afleiðinga og frelsi frá lögregluheimsóknum í kjölfar þess að nágranni þinn klagaði þig fyrir að halda barnaafmæli) í ruslatunnuna. 

Við urðum svo fegin að við völdum að gleyma öllu og drífa okkur í gamla gírinn. Engar rannsóknarskýrslur. Engin uppgjör. Ekkert.

En stundum koma upp áminningar. Ég sé til dæmis að íslenskur listamaður sem kallar sig Herra Hnetusmjör ætlar að halda tónleika hérna í Kaupmannahöfn á næstunni. Að sjá það minnti mig á nokkuð:

Árni Páll Árnason, sem betur er þekktur sem rapparinn Herra Hnetusmjör, hefur fengið sig fullsaddan af aðgerðarleysi stjórnvalda þegar kemur að smitum sem koma í gegnum landamærin. Árni hefur nú ákveðið að efna til aðgerða í mótmælaskyni, það er að loka veginum við flugvöllinn í Keflavík.

Herra brædda smjör var svo lamaður af hræðslu vegna veiru, sem ungir menn eins og hann (og raunar flestir hópar) hrista af sér eins og flensu eða svolítið kvef, að hann ætlaði að stuðla að ónæði fyrir margskimaða ferðalanga, aðskilnaði vina og fjölskyldna, ýta undir atvinnuleysi og að auki gera ferðalög innanlands erfiðari, en mótmælendur sem loka vegum eiga það til að tefja vöruflutninga og fólk á leið til eða frá vinnu.

Menn sem nota sólgleraugu innandyra og skreyta sig með keðjum og húðflúrum telja sig sjálfsagt vera algjöra nagla. En sumir eru bara eins og svolítið smjörstykki á lítið hitaðri pönnu, og bráðna. Verða bráðið smjör. Orðspor slíkra nagla er varanlega ónýtt í mínum augum.


Pólitískuleikarnir

Einhver þrýstingur er nú á skipuleggjendur Ólympíuleikana að banna íþróttafólki með rússnesk eða hvít-rússnesk vegabréf að keppa. Orðalagið er vitaskuld ekki svona heldur það að banna „Rússum“ og „Hvít-Rússum“ að taka þátt, þannig að rækilega verði komið í veg fyrir að Pútín og Lukashenko geti mætt í sundfötum og keppt í skriðsundi og bringusundi við friðelskandi Saudi-Araba og hjartahreina fulltrúa Aserbaídsjan

Rússneskir íþróttamenn eiga þá væntanlega í kjölfar slíks banns að fjölmenna á torg rússneskra borga og standa fyrir mótmælum gegn rússneskum yfirvöldum, ekki satt? 

Eða fá þeir kannski á tilfinninguna að Rússar þurfi í auknum mæli að snúa sér til suðurs og austurs og leyfa þessum Evrópubúum og Ameríkönum að eiga sig?

Við erum að tala um ungt fólk að eltast við persónulega drauma sín. Hvað gerist ef þeir draumar eru teknir af því? Hvað vinnst með því að meina þessu íþróttafólki að umgangast annað slíkt, ræða við það um heima og geima og spreyta sig gegn því í drengilegri keppni?

Ég legg til að rússneska íþróttafólkið verði boðið sérstaklega velkomið á Ólympíuleikana. Það fái að velja hvort það keppi undir rússneska fánanum eða ekki. Það verði sérstaklega boðið til að tala við umheiminn, segja frá draumum sínum og væntingum og ræða við aðra. Að Vesturlönd hætti í augnablik að sá hatri og gremju í æðar rússnesks almennings og bjóði þvert á móti í opinskáar umræður þar sem allar skoðanir eru virtar og vegnar. Ef rétt er sem sagt er að málfrelsi eigi mjög undir högg að sækja í Hvít-Rússlandi, Úkraínu og Rússlandi þá eiga Ólympíuleikarnir að verða vettvangur til að leyfa fólki að tjá sig, óhindrað og óþvingað.

Þannig má halda Ólympíuleika íþróttafólks og sleppa Pólitískuleikum pólitísks rétttrúnaðar og ofsókna á almennum borgurum í nafni þjóðernis þess.


Ný vandamál kalla á nýjar lausnir

Heilbrigðiskerfi þurfa alltaf að taka mið af nýjum aðstæðum. Samfélagið er að eldast, heimsfaraldrar ganga yfir, ný lyf eru í sífellu að koma á markað, starfsfólkið er eftirsótt, húsnæði þarf að viðhalda, nýjar meðferðir þarf að prófa og svona mætti líka telja.

Og jú, eitt í viðbót: Fleiri og fleiri virðast nú vera að gera sér grein fyrir að þeir eru í röngum líkama sem þarf þá að breyta. Karlar verða konur og konur verða karlar, jafnvel áður en þessir einstaklingar mega kjósa, taka lán, keyra bíl eða kaupa áfengi. 

Það er því ekki skrýtið að Landspítali allra Íslendinga sé nú að koma á fót þjónustu Transteymis og leiti nú að teymisstjóra

Auðvitað þarf að þjónusta þennan hóp vel, en það verður auðvitað erfiðara eftir því sem hann stækkar. Er að fara úr um 0,5-1,3% samfélagsins áður fyrr í um tuttugu-falt hlutfall nú til dags. Á móti kemur mögulega sparnaður. Sá sem var með pung en ekki lengur fær væntanlega ekki krabbamein í eistun. Brjóst úr sílikonpúðum eru væntanlega ekki að þróa með sér krabbamein. Auðvitað kosta ýmis hormón og geðrænar meðferðir sitt en markmiðið er auðvitað að hjálpa. 

Vandamál þeirra sem eru í röngum líkama eiga svo að sjálfsögðu að vera á könnu ríkisins. Annað gengur ekki. Og ekki langt að bíða þar til þau eru leyst. Án langra biðlista, auðvitað. 


Ertu kona? Þá ertu að velja vitlaust starf

Í kafla um jafn­rétt­is­mál í kynn­ingu á til­lög­un­um, sem birt var á vef Mat­vælaráðuneyt­is­ins ný­verið, er vak­in at­hygli á því að til séu grein­ing­ar á stöðu kvenna í sjáv­ar­út­vegi og að veru­lega halli á þátt­töku þeirra þegar kem­ur að störf­um til sjós.

Þetta er auðvitað áfellisdómur fyrir konur. Af hverju eru þær ekki að velja sjómennsku, eða störf í sjávarútvegi? Vel launuð störf með mikið af samfelldum frítíma. Eru konur alveg veruleikafirrtar? 

Nei, auðvitað ekki.

Sjómennska er líkamlega erfið, vinnutímar margir og vinnudagar langir, félagslífið auðvitað mjög takmarkað á úthöfunum og lyktin slæm. Þetta höfðar ekki til allra með aðra valmöguleika. Jafnvel fæstra, óháð kyni. En þeir sem nenna og vilja, þeir gera. Og uppskera auðvitað ágætlega. 

Af hverju eru konur ekki að sækjast í þetta? 

Það skiptir ekki máli. Öllum er frjálst að sækja í hverja þá stöðu sem viðkomandi vill. 

Af hverju er þá verið að skamma konur fyrir að vilja ekki starfa við sjávarútveg? Að vilja ekki vinna á þilfari? 

Kannski til að ímyndað vandamál geti útvegað vel launuðu skrifstofufólki innan hins opinbera þægilega innivinnu við skýrslugerð?

Það er mín besta ágiskun, í bili.


mbl.is Vilja „kvenna/kvára“ fyrsta togarann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband