Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2020

2021

Nú líður að seinni helmingi ársins 2020 og því ekki úr vegi að byrja að spá fyrir um atburði ársins 2021. Það er hægur vandi því oft er fortíðin góð vísbending um framtíðina og úr nægu að moða þar.

Árið 2021 er kosningaár. Það þýðir að stjórnmálaflokkar munu keppast við að lofa kjósendum gulli og grænum skógum. Ríkisstjórnarflokkarnir munu að sjálfsögðu taka þátt í þeim leik. Skiljanlega. Kjósendur hafa ítrekað sýnt það og sannað að þeir verðlauna stjórnmálaflokka fyrir að lofa, og þá helst meiru en þeir geta nokkurn tímann staðið við, á kostnað skattgreiðenda. Það þarf að fara mörg ár aftur í tímann til að finna kosningasigur flokks sem lofaði því af fullri alvöru að lækka skatta svo einhverju nemi, greiða upp opinberar skuldir, vinda ofan af opinberri framfærslu, fækka opinberum starfsmönnum og draga úr ríkisafskiptum og -umsvifum. Munu kjósendur verðlauna slíkt í dag? Sennilega ekki.

Árið 2021 verður líka veiruár eins og það sem nú gengur yfir. Ofan á kóróna-veiru á eftir að bætast við inflúensu-veira, að ónefndum öllum kvefpestunum. Veiruárið 2021 verður samt ekki ár samstöðu og sáttar um að takmarkanir þurfi að gera til að minnka útbreiðslu og verja ákveðna þjóðfélagshópa. Nei, veiran verður orðin rammpólitísk og enginn skortur verður á nýjum hugmyndum til að umbylta samfélaginu í nafni hennar. Hið opinbera hefur sjaldan látið gott neyðarástand fara til spillis og upp munu spretta tillögur að alls kyns ríkisstofnunum og bólgnum útgjaldahugmyndum sem á yfirborðinu eiga að renna til veiruvarna en eru í raun bara hendur að grípa það sem þær geta á meðan almenningur situr skelkaður við sjónvarpsfréttirnar.

Árið 2021 verður svo að öllum líkindum kreppuár. Góðæri undanfarinna ára hefur verið vel nýtt til að halda uppi gríðarlegri skattheimtu til að byggja undir gríðarlega stórt opinbert bákn. Það mátti ekki skella á veira og hallarekstur ríkisins hljóp upp í þriggja stafa milljarðatölu, rétt eins og hendi væri veifað, og nákvæmlega ekkert svigrúm til að hækka skatta og borga þann reikning, né pólitískur vilji til að selja eigur upp í skuldir eins og venjulegt fólk gerir í hallæri. Sveitarfélögin hafa mörg hver heldur ekkert gert til að búa sig undir niðursveiflu. Menn geta auðvitað kennt veirunni um en almennt má segja að allar áætlanir hafi gert ráð fyrir endalausu góðæri, og engin áætlun B til staðar. Áfallið hefði hæglega geta verið gjóskugos, nýtt bankahrun, hrun bandaríska dollarans, léleg veiði eða tískubylgjubreytingar meðal ferðamanna, sem vildu allt í einu frekar fljúga til Istanbúl en Íslands. Með skatta í himinhæðum og skuldir upp fyrir háls, eftir blússandi góðæri undanfarinna ára, blasir því við að kreppuár sé framundan.

Að þessu sögðu má því segja að árið 2021 verði fyrirsjáanlegt. Kjósendur munu kjósa þá sem lofa mestum ríkisafskiptum. Stjórnmálamenn og hið opinbera mun ekki láta veiruástandið fara til spillis og nota tækifærið til að taka yfir enn stærri hluta samfélagsins. Með skatta og víða skuldir í himinhæðum verður síðan ekkert andrými til að hleypa hagkerfinu af stað á ný. 

En vonandi skjátlast mér, að öllu leyti.

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu, 15. ágúst 2020, og er aðgengileg áskrifendum blaðsins hér.


Ásetningur og afleiðingar

Stjórnmálamenn vilja bjarga umhverfinu. Auðvitað. Með sköttum og lögum er hægt að bjarga umhverfinu!

Slíkur ásetningur hefur leitt til allskyns löggjafar, t.d. löggjöf sem takmarkar magn vatns sem má fara í gegnum sturtuhaus. Þetta var ágætlega tekið fyrir í Seinfeld-þætti á sínum tíma - sjá myndskeið hér að neðan.

En svo koma afleiðingarnar í ljós. Fólk getur ekki þvegið sér! Hvað er til ráða?

Það má t.d. leita til svarta markaðarins. 

Það má fikta við dótið og reyna að breyta virkninni.

Svo er auðvitað bara hægt að vera lengur í sturtu eða fylla baðkar. Fólk vill sitt bað. Lögin gleymdu bara að taka tillit til þess.

Svipuð keðjuverkum ásetnings og afleiðinga finnst mjög víða. Og fólk aðlagast gjarnan. En stjórnmálamaðurinn fær sinn nætursvefn, þess fullviss um að hann hafi bjargað heiminum.


mbl.is Lögum um sturtuhausa breytt til að þjónka Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú hefst ringulreiðin

Fram kom á blaðamanna­fundi al­manna­varna í gær að Þórólf­ur Guðnason, sóttvarnarlæknir, spámaður og veðurfræðingur, myndi leggja nokkr­ar ólík­ar til­lög­ur fyr­ir stjórn­völd í nýju minnisblaði. Hingað til hef­ur hann ein­fald­lega lagt fram til­lög­ur sem hlotið hafa staðfest­ingu ráðherra án beinn­ar aðkomu stjórn­valda. Staðan nú sé önn­ur.

Og þá hefst fjörið.

Stjórnvöld geta ekki lengur tekið skjal frá embættismannakerfinu og innleitt í lög. Núna þarf að taka pólitíska afstöðu!

Ekki verður lengur hægt að segja: Við fylgjum ráðum sérfræðinga. Nei, nú verða gefnir valkostir sem þarf að hugleiða!

Persónulega hef ég þannig séð ekki haft neitt á móti nálgun Íslendinga hingað til. Það tókst að hemja útbreiðslu veiru sem menn vissu lítið um og töldu vissara að kynna sér betur áður en hún næði til fleiri. Það tókst að verja viðkvæma hópa betur en í flestum öðrum ríkjum, og halda flestum þeim á lífi sem veiktust alvarlega.

En núna vita menn meira en í mars og apríl, eða það ætla ég rétt að vona.

Menn vita að í Svíþjóð er veiran nánast hætt að breiðast út og fjöldi dauðsfalla að staðna jafnvel þótt þar hafi ekki einu einasta fyrirtæki verið sagt að loka. Hvernig stendur á því?

Menn vita af lyfjum sem hafa virkað vel á veiruna en eru dottin úr einkaleyfi og því erfitt að græða mikla peninga á þeim. Ný lyf gefa mestan ávinning. Er því skrýtið að það finnist raddir sem tali gegn notkun þekktra lyfja?

Menn komust að því frekar snemma að börn smita minna og smitast minna og hafa styrkst í þeirri trú, sem er gott. En hafa menn ekki lært neitt annað? Af hverju á heilbrigt fólk á aldrinum 15-45 ára að forðast veiru?

Allt svona tal er nú komið á borð yfirvalda sem þurfa að taka afstöðu sem tekur tillit til ýmissa hagsmuna, ekki bara þeirra sem einblína á að forða fólki frá smiti. Kannski fara menn sænsku leiðina (sem íslensk umræða virðist kalla frjálshyggjuleiðina, ótrúlegt en satt). Kannski fjölgar andlitsgrímum. Kannski takmarka menn flugumferð. Kannski verður opnað á meira og hraðar í ljósi þess að álag á heilbrigðiskerfinu vegna veiru er lítið (fyrir utan gríðarlega prófanakeyrslu). 

Kannski. 

En nú hefur sóttvarnarlæknir gefist upp á því að vera settur í stól míní-forsætisráðherra. Nú þarf kjörinn forsætisráðherra að fylla eigin skó.


mbl.is Sóttvarnalæknir afhenti minnisblað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræða um persónulega ábyrgð

Pístill Páls Óskars um persónulega ábyrgð er gott lesefni með góðan boðskap. Það mætti halda að hann hafi verið að horfa á fyrirlestur Dr. Jordan Petersen um persónulega ábyrgð. Enginn verður verri af því. Fleiri einstaklingar sem hafa prófað eitt og annað í lífinu og raunverulega lært eitthvað á því mættu tjá sig um persónulega ábyrgð.


mbl.is Páll Óskar: „Ég elska að vera hommi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lyf og lyf

Allskyns plöntur og sveppir hafa verið notaðar til að lækna kvilla, lina sársauka og framkalla ýmis hughrif frá örófi alda. Kannabisplantan er t.d. eins konar hlaðborð. Úr henni er ekki bara hægt að vinna allskyns lyf og efni heldur líka hráefni í fatnað og reipi, meðal annars. Ég þekki manneskju sem fór á skipulagt sveppa"trip" og hætti í kjölfarið algjörlega að reykja. Krabbameinssjúklingar geta notað kannabis til að auka matarlyst sína. Notagildi plantna og sveppa er nánast óendanlegt.

En hvað gerist þegar ódýr og aðgengileg náttúrulækningalyf flækjast fyrir hagsmunaaðilum? Jú, sömu hagsmunaaðilar æða inn á skrifstofur þingmanna og biðja um lögbann.

Fíkniefni!

Vímuefni!

Lög eru sett sem banna fullorðnum einstaklingum að setja efni að eigin vali í eigin líkama. Lögleg viðskipti færast yfir á svarta markaðinn. Glæpamenn byrja að einblína á fíknina og vímuna og efnin verða sterkari og hættulegri, og auðvitað dýrari sem rekur viðskiptavinina í glæpi til að fjármagna neysluna.

Sem betur fer virðist þessi þróun hægt og rólega að vera snúast við. Kannabis hefur víða verið gert löglegt, eða a.m.k. hætt að vera ólöglegt. Portúgal er hætt að fylla fangelsi af friðsölum fíklum. Hollendingar hafa alltaf umborið hin vægari fíkniefni. Í Danmörku lítur lögreglan að miklu leyti framhjá jónureykingum á útihátíðum. Meira að segja Íslendingar, sem banna allt sem einhver bannar, eru byrjaðir að ræða svokallaða afglæpavæðingu neysluskammta

Það er samt viðbúið að einhver spyrni við þessari þróun. Lyfjafyrirtækin eiga greiðan aðgang að stjórnmálamönnum, bæði innan ríkja og í ríkjasamtökum. Þau vilja viðhalda háum reglugerðamúrum og rándýrum klínískum prófunum til að verja tæknilega einokunarstöðu sína. Þau munu snúa allri náttúrulækningaumræðunni á höfuðið og tala um að eiturlyf og fíkniefni séu nú að renna ofan í grunlaust fólk. Og fólk sem lætur sannfæra sig um öll boð og bönn tekur undir.

En vonum ekki.


mbl.is Töfralyf gætu orðið að veruleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En þú býrð ekki í réttu póstnúmeri ...

Í frétt frá árinu 2008 er svo sagt frá:

Björk Guðmundsdóttir hvatti til sjálfstæðis Tíbets á tónleikum sem hún hélt í Sjanghæ í Kína á sunnudaginn.

Hvernig dirfist hún! Hún býr ekki einu sinni í Tíbet! Af hverju fer hún ekki til Tíbet og beitir þar kylfum á kínverska kúgara svæðisins! Kannski er Tíbet bara miklu betur statt en Björk Guðmundsdóttir gerir sér grein fyrir! Ef Tíbet er svona frábært svæði sem verðskuldar sjálfstæði af hverju flytur hún ekki bara þangað! Hvaða annarlegu ástæður liggja á bak við áhuga hennar á málefnum Tíbet! 

Í annarri frétt er svo sagt frá:

Bæði Björk og Andri gagnrýndu ríkisstjórnina fyrir stóriðjustefnu hennar. Þá sögðu þau sæstrenginn vera fugl í hendi sem ástæðulaust væri að fórna fyrir fugl í skógi.

Fáheyrt! Býr hún ekki í London? Er hún ekki meira erlendis en á Íslandi? Ef hún vogar sér að segja eitthvað um upprunaland sitt, þar sem megnið af vinum hennar og fjölskyldu býr, þá skal hún gjöra svo vel að flytja til Íslands áður en hún tjáir sig! Skítt með að atvinnutækifærin og leitin að lífsreynslu hafi togað hana til London, til lengri eða skemmri tíma - hún á ekki að tjá sig um íslenska náttúruvernd úr húsi í London!

Ég segi svona.

Auðvitað má Björk Guðmundsdóttir hafa skoðanir á ástandinu í Tíbet og Íslandi og hverju sem er, og er sennilega búin að lesa sér til um það sem hún tjáir sig um og hefur ágætlega upplýsta afstöðu þótt fólki greini á um allt og ekkert.

En það er athyglisvert að sjá þá tegund gagnrýni á málflutning að viðkomandi sé með lögheimili og atvinnu á öðru svæði en það sem fjallað er um. Svona eins og það skipti máli. En það gerir það ekki. Íslendingar tjá sig um Donald Trump, ég tjái mig um íslensk stjórnmál, Íslendingar á Íslandi tjá sig um ESB og Björk tjáir sig um Tíbet. Gott mál, og vonandi lætur enginn segja sér annað.


Hugleiðingar hægrimanns

Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. 

Þessi orð standa í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og svipuð orð má finna í flestum stjórnarskrám frjálslyndra lýðræðisríkja. Þegar orðin eru lesin ein og sér þá eru þau ávísun á frjálst samfélag óhefts tjáningarfrelsis (nema einhver nenni að draga þig fyrir dómstóla). Leigubílaakstur er frjáls. Matvöruverslanir selja áfengi. Auglýsendur lofa varning sinn og nota efstastig lýsingarorða til að lýsa honum. Áfengisauglýsingar finnast víðar en undir rós eða í erlendum tímaritum og útsendingum frá fótboltaleikjum í ensku deildinni. 

En stjórnarskráin er með varnagla. Tjáningar- og atvinnufrelsi má „setja skorður með lögum“ enda „krefjist almannahagsmunir þess“. Leigubílaakstur er því á höndum einokunarhrings, ríkið eitt selur áfengi og fer ekki leynt með það, auglýsingafé innlendra áfengisframleiðenda rennur úr landi og öllum er gert að nota í mesta lagi miðstig lýsingarorða í auglýsingum.

Þar fauk frelsið út um gluggann. Almannahagsmunir enda kröfðust þess.

En hvað með skatta? Má ríkið féfletta þig af handahófi? Nei. Stjórnarskráin er skýr: Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.

Á þessu eru nú samt nokkrir brestir. Hvað gerist þegar þú hækkar í tekjum? Jú, skattheimtan eykst og hafir þú þegið einhverja aura í vaxtabætur, húsaleigubætur, barnabætur eða ellilífeyri þá er slíkt umsvifalaust skert. Tvöföld skattheimta! Ef húsnæði þitt hækkar í verði þá er hlutfallsútreikningur fasteignagjaldanna fljótur að breytast í aukna skattheimtu. Svona mætti lengi telja. Stjórnarskráin dugir hér jafnvel sem vörn gegn yfirgengilegri skattheimtu og fiskinet á lúsmý.

Ekki er svo að sjá að stjórnmálamenn séu að halda aftur af sér þegar ýmsar glufur stjórnarskrár og annarrar löggjafar eru misnotaðar til að auka völd hins opinbera. Götum er lokað með tilskipunum, fjölmiðlum er mútað með skattfé til að hlífa stjórnmálamönnum við óþægilegri gagnrýni, og þeir ritskoðaðir í nafni upplýsingaóreiðu þegar þeir reyna að bera á borða annað en hina einu sönnu skoðun. Bílar og bensín er skattlagt í himinhæðir til að fjármagna eitthvað allt annað en greiðfæra og holulausa vegi. Gæluverkefnin rúlla af færibandi þinghúss og ráðhúsa á meðan foreldrum með ungabörn er haldið í gíslingu svo mánuðum skiptur, aldraðir sitja fastir á göngum sjúkrahúsa og ónýtir liðir bíða hálfu og heilu árin eftir aðgerð sem tekur enga stund, eða eru sendir á einkasjúkrahús í Svíþjóð með tilheyrandi umstangi og óþægindum, og auðvitað kostnaði.

Tálmanir á atvinnu- og tjáningarfrelsi og yfirgengileg skattheimta í skiptum fyrir hvað? Velferðarkerfið? Heilbrigðisþjónustu? Menntakerfi? Vegi? Aldeilis ekki. Miklu frekar virðist öll hringekjan snúast um að blása í segl stjórnmálamanna sem gera góðverk sín á kostnað almennings og hljóta fyrir það endurkjör. 

Stjórnarskráin var ekki skrifuð til að gefa hinu opinbera óendanleg völd, jafnvel ekki í þágu allsherjarreglu. Hún var skrifuð til að halda aftur af ríkisvaldinu, á tímabili í sögu okkar þar sem menn mundu vel eftir einveldiskonungum miðalda og óttuðust völd ríkisvaldsins. 

En hvað er til ráða? Ekki dugir að kjósa. Það virðist engu máli skipta hvað nýkjörinn stjórnmálamaður fer ákveðinn inn í þinghús Alþingis eða ráðhús sveitarfélaganna: Þegar þangað er komið mætir honum einfaldlega embættismannakerfið, andspyrna, íhaldssemi kerfis sem ver sjálft sig og í mörgum tilvikum persónuárásir. 

Kannski fyrsta ráðið sé að hætta að hlusta á stjórnmálamenn sem einoka umræðu- og fréttatíma og krefja stjórnmálamennina þess í stað um að halda kjafti og byrja að hlusta. Um leið má láta fréttir eiga sig. Þar bjóða stjórnlyndir blaðamenn stjórnlyndum einstaklingum í viðtal eftir viðtal og boða þannig heimsmynd sína undir fána fagmennsku og fréttaflutnings. 

Í kjölfarið má svo biðja stjórnmálamenn um raunverulega réttlætingu á öllum þessum ríkisafskiptum: Hvað eru menn að fá fyrir skattheimtu á öllu sem hreyfist, eða er kyrrstætt? Þarf virkilega að halda úti skattheimtu þar sem jaðarskatturinn er miklu nær 100% en 40% til að styðja við fátæka, reka svolítið heilbrigðiskerfi og bjóða ungu fólki upp á einhverja menntun? Þarf í raun að takmarka atvinnu- og tjáningarfrelsi okkar í miðaldastíl til að tryggja allsherjarreglu? Þarf fullfrískt fólk á öllum þessum bótum – og sköttum – að halda til að samfélagið grotni ekki niður í hreysabyggðir og glæpaöldu? Er stjórnmálamaður svona miklu hæfari til að ráðskast með líf þitt en þú að stjórna því nokkurn veginn á eigin spýtur?

Fyrsta skrefið er hjá okkur sjálfum. Ríkið er ekki mamma okkar. Það á að þjóna okkur ef það á að geta réttlæt tilvist sína. Það gerir það ekki í meiri mæli en svo að á eftir klappi kemur krepptur hnefi. Nú er mál að linni.

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu í dag. Hún er aðgengileg áskrifendum blaðsins hér.


Líkön og samfélag

fort-dennison-sea-levelsTilhneiging fólks til að treysta líkönum fyrir lífi sínu og samfélagi virðist vera að aukast. Tölvulíkön eru notuð til að spá fyrir um veðrið í nokkra daga, þróun á hitastigi loftslagsins í nokkra áratugi, hæð sjávarmáls og útbreiðslu sjúkdóma. Margir trúa þessum líkönum, e.t.v. með fyrirvara (hver trúir 3ja daga veðurspánni?). En eiga líkön að hafa svona mikil völd?

Líkön voru notuð til að réttlæta stórkostleg ríkisinngrip í samfélagið þegar veira fór á stjá. Þau reyndust röng. Þau hafa lengi verið notuð til að spá fyrir um hitastigið á loftslagi Jarðar, en ekki spáð neinu rétt. Sjávarmál hækkar í sífellu í líkönunum en reynist óbreytt í raunveruleikanum. Ísbjörnum fjölgar og ísbreiður heimskautanna vaxa, en líkönin segja hið gagnstæða. 

Auðvitað er gott og gilt að búa til allskyns líkön. Þau eiga hins vegar ekki að koma í staðinn fyrir heilbrigða skynsemi. Tölfræðingar og forritarar tala kannski með sannfærandi hætti, en þeir eru ekki kóngar og drottningar.


mbl.is Spálíkanið gæti reynst áhrifamikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neytendur og tortryggni

Tortryggnir neytendur eru verðmætir neytendur. Þeir þrýsta á gegnsæi, betra verð, bætta þjónustu, meira úrval, snyrtimennsku, hagkvæmni og skilvirkni. Þeir spyrja spurninga, færa viðskipti sín annað eða hóta því og gefa fyrirtækjum vísbendingar um hvar þarf að bæta sig. 

En þurfum við nokkuð á tortryggnum neytendum að halda? Við búum jú við lagaramma þar sem fyrirtæki þurfa að sækja um leyfi fyrir allskyns hlutum, fá ekki að sundrast og sameinast nema veita yfirvöldum rækilegan rökstuðning fyrir slíku, búa við stíft opinbert eftirlit og þurfa að innleiða allskyns ferla og fyrirkomulag svo allir fái sanngjörn laun, þrífi hjá sér klósettin og mismuni ekki fólki á grundvelli einstaklingsbundinna eiginleika.

Við getum til dæmis treyst bönkunum, ekki satt? Þeir eru jú undir stífu eftirliti og þurfa að fylgja mörg hundruð blaðsíðum af regluverki í starfsemi sinni. 

Við getum líka treyst öllum sérvöruverslunum með kjöt og fisk ekki satt? Þær eru jú undir stífu eftirliti allskyns stofnana sem fylgjast með hreinlæti, meðhöndlun á hrávöru og hafa skoðun á því hvar niðurföllin eigi að vera.

Og svo eru það blessuðu samfélagsmiðlarnir. Er ekki löggjöf í Evrópusambandinu um meðferð persónuupplýsinga? Slakið á, regluverkið passar gögnin!

Maður í sáttahug gæti sagt: Við þurfum bæði hið stífa opinbera eftirlit og hina tortryggnu neytendur. En staðreyndin er sú að mikið opinbert regluverk sem er fylgt eftir með miklu opinberu eftirliti slævir neytendur, og ætti reynsla Íslendinga af bönkum að duga sem ágætt dæmi um slíkt. Neytendur slaka á verðinum og treysta því að regluverkið passi upp á allt. Fyrirtæki geta um leið slakað á verðinum og sparað sér ómakið að innleiða staðla og gæðakerfi sem duga oft betur en lagatextar hins opinbera, og tryggja um leið sveigjanleika í rekstri til að innleiða nýjungar og umbætur.

Og um leið blasir við að mikið regluverk er dýrt og þungt í vöfum og virkar beinlínis eins og samkeppnishamlandi múr sem dregur úr innkomu nýrra aðila með ferskar hugmyndir.

Tortryggnir neytendur eru hollasta hráefnið í vel heppnuðu markaðshagkerfi. Þeim ber að hrósa, og fyrir þá ber að þakka.


mbl.is Ungt fólk hættir á samfélagsmiðlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband