Bloggfærslur mánaðarins, mars 2020

Allir vinna, 2. hluti

Á tímum farsótta, sóttkvía og tímabundinna erfiðleika er oft gott að reyna róa hugann og sjá stóru myndina. Núna gengur vírus yfir heimsbyggðina og allt kapp lagt á að hægja á útbreiðslu hans. Á meðan er samfélagi flestra ríkja haldið í einskonar gíslingu með tilheyrandi skaðlegum áhrifum á hagkerfið. Þetta mun auðvitað ganga yfir en engu að síður er athyglisvert að sjá þau úrræði sem gripið er til svo gjaldþrotahrinan verði ekki óstöðvandi, eins og vírusinn að einhverju leyti er.

Í ríkjum eins og Danmörku, Íslandi og víðar hafa yfirvöld blásið til mótvægisaðgerða til að koma til móts við suma af þeim sem finna fyrir efnahagslegum áföllum á meðan fyrirtækjum er haldið lokuðum og fólki heima. Að stórum hluta snúast slíkar aðgerðir um að slaka á skattheimtunni. Slíkt á að hafa örvandi áhrif og bæta efnahag fólks og fyrirtækja. Undir það má auðvitað taka en ef skattalækkanir á veiru-tímum hafa örvandi áhrif af hverju mátti þá ekki framkvæma þær á heilbrigðari tímum?

Þetta minnir á orð fráfarandi fjármálaráðherra í vinstristjórn sem var vitnað í á kreppuárinu 2011 á eftirfarandi hátt: „Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir að átakið Allir vinna, sem veitir endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna byggingaframkvæmda, hafi tekist einstaklega vel. Þessi skattaívilnun skilar líklega meiru í ríkissjóð en ella.“

Núna boðar flokkssystir hans, forsætisráðherra, svipaða hagfræði.

Allt er þetta gott og blessað og sýnir okkur að allir eru í raun sammála um að mikil skattheimta er letjandi fyrir hagkerfið og dregur þrótt úr atvinnulífinu. Á góðæristímum er þessu innsæi samt sópað undir teppið. Þá skal vera eitthvað fyrir alla og skattar skrúfaðir upp í rjáfur til að fjármagna bruðlið.

Kannski veiru-tímar kenni okkur eitthvað um forgangsröðun: Að úr því ríkisvaldið vill standa í rekstri á heilbrigðiskerfi (beint eða óbeint) þá sé mikilvægt að það sé í forgangi. Að milljarðar sem renna í gæluverkefni græningja og femínista og fleiri slíkra séu loksins afhjúpaðir sem sóun á verðmætum sem hefðu geta runnið í eitthvað mikilvægara. 

Um leið væri hægt að slaka varanlega skattheimtunni og örva hagkerfið alla daga ársins og búa það undir ýmis áföll sem óumflýjanlega ganga yfir bæði ríki og heimsbyggð. 

Ef sú veira sem heitir aðdáun á gæluverkefnum hins opinbera nær að bugast um svipað leyti og hin kínverska veira þá verðu kannski langtímaávinningurinn stærri en fórnarkostnaður úrræðanna.

Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu, 31. mars 2020, og er aðgengileg áskrifendum blaðsins hér.


Minnsti hiksti banvænn

Nú keyrir vírus yfir heiminn og aðgerðir vegna hans munu ýta hagkerfum flestra ríkja út í samdrátt, atvinnuleysi, skuldasöfnun og stöðnun.

Er þá hægt að kenna vírus um niðursveiflu? Já kannski, en þegar hagkerfi flestra ríkja eru svo heilsutæp var bara spurning um tíma hvaða hiksti kom upp á til að senda þau í sjúkrarúm.

Síðan 2008 hefur lítið verið gert til að koma í veg fyrir að spilaborg peningaprentunar hrynji við minnstu vindkviðu.

Fjármálakreppan sem hófst haustið 2008 er ekki búin. Henni hefur bara verið haldið í skefjum. Maður sem drekkur frá morgni til kvölds fær ekki timburmenn. Það er læknisráðið sem menn lærðu haustið 2008.

Það má kannski kenna vírus um að gríðarlega skuldsett, svimandi skattlögð og kæfandi regluvædd hagkerfi upplifðu niðursveiflu. En það er þá bara heppileg átylla. Niðursveiflan var óumflýjanleg. Það vantaði bara einhvern til að hrópa á keisarann að hann væri nakinn.

Því miður mun vírusinn enn frekar styrkja kverkatak stjórnmálamanna á samfélagi og hagkerfi. Því miður munu flestir láta heilla sig af stríðsópi yfirherra okkar sem heimta meiri völd í skiptum fyrir meira öryggi. 

COVID-19 fer í sögubækurnar, af mörgum ástæðum.


mbl.is Kreppan verði verri en sú síðasta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Því meira heilbrigðiskerfi, því betra

Heilbrigðisþjónusta er svolítið sérstök þjónusta að því leyti að því meira sem er af henni, því betra. Auðvitað getur hún ekki sogað til sín 100% af verðmætum samfélagsins en það er erfitt að sjá hvenær viðbót við heilbrigðisþjónustu leiðir ekki af sér einhvern ávinning. Til dæmis er alltaf gott að hafa enn betra aðgengi að lækni, fá enn meira eftirlit með heilsufari sínu og fá enn hraðari aðgang að sjúkrarúmi ef og þegar þess gerist þörf.

Það er því einkennilegt að fylgjast með því þegar yfirvöld reyna beinlínis að draga úr heilbrigðisþjónustu og standa svo uppi með skort á henni þegar tímabundið álagstímabil kemur upp.

Sem dæmi má nefna aðgengi að liðskiptaaðgerðum. Í stað þess að nýta fé skattgreiðenda til að byggja upp enn meiri heilbrigðisþjónustu (með því að stunda viðskipti við innlenda aðila sem geta framkvæmt nauðsynlegar aðgerðir) er peningunum fleygt í flugmiða og erlenda aðila sem veita nákvæmlega sömu þjónustu, en bara eftir að sárþjáðir einstaklingar hafa beðið svo mánuðum skiptir á biðlista. 

Vonandi fer af stað hugarfarsbreyting núna. Það liggur mikið við. 


mbl.is Einkarekna kerfið tekur þátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérfræðingar

Nú eru furðulegir tímar. Vírus gengur laus og yfirvöld allra ríkja, og framkvæmdastjórnir fjölríkja samtaka, leita allra leiða til að bregðast við því.

Yfirleitt er fólki sagt að fylgja leiðbeiningum og fyrirmælum yfirvalda. Þau hafa jú aðgang að bestu sérfræðingunum og klárasta fólkinu. 

En það er kannski ekki nógu gott.

Hvernig á til dæmis að melta það að færustu sérfræðingar mismunandi ríkja eru ekki alltaf sammála? Í einu ríki er sett á ferðabann, skólum lokað og fólki sagt að halda sig heima við. Í öðru eru skólar opnir svo fólk geti haldið áfram að vinna og auðvitað viðbúið að einhverjir veikist en að það sé óumflýjanlegt - betra sé að koma á hjarðónæminu sem fyrst og auðvitað að hafa getuna til að taka við þeim sem veikjast illa.

En þá má auðvitað segja að fólk eigi að fylgja ráðum yfirvalda í því ríki sem það býr í. Sértu Dani áttu að vona að Svíunum skjátlist í sinni nálgun, og öfugt. 

Ég er ekki að mæla með því að ganga gegn ráðum yfirvalda í því ríki sem maður er staddur í. Ég er einfaldlega að benda á að færustu sérfræðingar eru alls ekki allir á sama máli. Jú, það er gott ráð að dreifa smittímabilinu til að tryggja næga getu heilbrigðiskerfisins, en sumir segja að það eigi að gera með innilokun en aðrir með því að leyfa hraustu og heilbrigðu fólki að einfaldlega fá veiruna, læknast af henni og hætta þar með að vera smitberar. 

Í Danmörku, þar sem ég bý, má enn sem komið er fara út úr dyrum, versla í stórmörkuðum og apótekum og viðra ungviðið á meðan það myndast ekki hópar. Kannski breytist það í dag eða á morgun eða hinn og ekki annað að gera en hlýða því eða hætta á lögregluheimsókn og jafnvel sektir. Þá það. Þetta eru furðulegir tímar.


Brexit-bólan

Svo virðist sem flest ríki stundi nú ákveðið Brexit-ferli: Taki stjórn á eigin landamærum og takmarki það sem þau telja sig þurfa að takmarka.

Má kannski uppnefna vírusinn Brexit-bóluna?


mbl.is Leggur til takmarkanir á ferðum til ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar feta-ostur varð salatostur

Einu sinni var hægt að kaupa íslenskan feta-ost. Núna er það ekki hægt. Feta-ostur er nú bara það sem kemur frá Grikklandi og er búið til úr kindamjólk. Það er dýrt að flytja ost yfir heilu heimsálfurnar og því líklegt að feta-ostur fáist nánast hvergi á Íslandi. Um leið er hið gríska orð dottið úr daglegu tali og mín ágiskun er sú að þar komi færri ferðamenn en áður til að fá ekta feta-ost. Það er jú hægt að fá ekta salatost hvar sem er!

Af hverju er ég að benda á þetta? Jú, til að vekja til umhugsunar. Stundum er besta auglýsingin sú að vera hin upprunalega vara sem allir reyna að herma eftir. Kannski er betra að selja "ekta íslenskar lopapeysur" en bara "íslenskar lopapeysur skv. reglugerð nr. 103 frá 2020".

En kannski skjátlast mér og feta-ostur selst nú í bílförmum eftir að reglugerð var sett á eftirhermurnar, og að íslenska lopapeysan geti búist við öðru eins. Kannski, en það kæmi mér á óvart.


mbl.is Íslenska lopapeysan nú verndað afurðaheiti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búið að spila úlfur-úlfur spilinu mjög oft

Nú breiðist mjög alvarleg veira um heiminn og smitar marga og fellir suma. Þetta er auðvitað slæmt og alvarlegt og ber að taka alvarlega.

En hversu hræddur á maður að vera?

Ef fjölmiðlar einir eru teknir til viðmiðunar á maður að vera dauðskelkaður, kaupa fullt af dósamat, lýsa yfir löngu veikindaleyfi og vona að heimsendir gangi yfir eins hratt og hægt er.

En ef fjölmiðlar einir eru teknir til viðmiðunar hefur heimsendir gengið yfir a.m.k. einu sinni því loftslagsbreytingar eiga að hafa eytt öllu, drekkt eyjum og útrýmt lífríkinu.

Fjölmiðlar þurfa því miður að kyngja þeirri pillu að þeir hafa hrópað úlfur-úlfur aðeins of oft án þess að úlfurinn hafi látið sjá sig.

Það er ekki hægt að boða heimsendi mjög oft án raunverulegs heimsendis áður en trúverðugleikinn beri skaða af. 

Kannski er veiran það versta sem hefur skollið á mannkyninu í 100 ár eða 200 ár. Kannski eru loftslagsbreytingar handan við sjóndeildarhringinn en það þurfi að bíða í önnur 20 ár eftir að þær skelli á fyrir alvöru. Kannski. En það er búið að hrópa úlfur-úlfur svo oft að menn eru farnir að hunsa slíkt gól.

Kannski er það því miður. Kannski er úlfurinn í raun og veru, hér og nú, að koma. Sá sem hrópar úlfur-úlfur og er tekinn alvarlega verður samt ekki fjölmiðlar heldur einhver annar.


mbl.is Mikilvægt að gera ekki lítið úr hlutunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppskrift án aðgengilegra hráefna

Það vantar ekki góðu ráðin. Það er gott. Góð ráð má vega og meta og beita þegar aðstæður leyfa. Góð ráð eru eins og veðurspá: Það er hægt að skoða þau og ef trúverðugleikinn er nægur, og önnur góð ráð segja svipaða sögu, þá má beita þeim.

Andstæða ráðgjafar eru fyrirbæri eins og reglugerðir. Það er ekki hægt að dæma heimskulega reglugerð úr leik. Henni þarf að fylgja. Ef reglugerðin segir þér að dansa og syngja til að fá sleikjó þá þarftu að gera það. En gott og vel, þannig er það.

Til að nálgast góð ráð þarf auðvitað að kveikja á rökhugsun: Er þetta ráðgjöf sem fellur að mínum aðstæðum? Er hún að koma frá manneskju sem ég treysti? Er hún raunhæf eða draumórakennd? Sé ég árangur eftir að hafa prófað hana eða þarf ég að hafna henni?

Ég tek dæmi.

Ráðgjafi segir: Aldrei segja þetta orð í at­vinnu­viðtali.

Ráðgjafinn heldur áfram: 

Það er orðið „við“. Þegar þú seg­ir frá þínum fyrri störf­um forðastu það eins og heit­an eld­inn að segja setn­ing­ar á borð við: „Við í minni deild sáum um.“ Orðið „ég“ er í lang­flest­um til­vik­um mun betra.

Persónulega tel ég þessa ráðgjöf vera algjöra þvælu. Ég er nýbúinn að skipta um vinnu og sagði ítrekað „við“ í samtölum mínum í ráðningarferlinu. Ég fékk starfið og fékk að auki að vita að ég hefði verið valinn framyfir mun reynslumeiri menn í því fagi sem ég starfa nú við. Ég fékk enga athugasemd fyrir að játa að ég hafi tilheyrt deild sem vann í sameiningu að ákveðnum hlutum. Skiljanlega. Fólk vinnur yfirleitt saman og segir því „við“. 

Að mínu mati er ráðgjöfin um að forðast orðið „við“ algjörlega gagnslaus og jafnvel til ama því hún færir athyglina frá innihaldi samtalsins og að því að reyna orða hlutina ofurvarlega til að styggja ekki þann sem rætt er við.

Það er best að koma til dyranna eins og maður er klæddur, eða það finnst mér og það er mín ráðgjöf.

Sem betur fer eru greinar og ráðgjöf valfrjáls fyrirbæri. Reglugerðir og lög eru það ekki. Ráðgjöf má mæta með gagnrýnni hugsun og það er hægt að prófa hana, velja og hafna. Gerum það.


mbl.is Aldrei segja þetta orð í atvinnuviðtali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskhyggja græningjanna að rætast?

"It is cosmically unlikely that the developed world will choose to end its orgy of fossil-energy consumption, and the Third World its suicidal consumption of landscape. Until such time as Homo sapiens should decide to rejoin nature, some of us can only hope for the right virus to come along."

Bill McKibbenThe End of Nature (tilvitnun tekin héðan)

Mörg af hinum stærri nöfnum umhverfisverndarhreyfingarinnar hafa í áratugi óskað þess að einhver vírus fari á stjá og stráfelli fólk, lami atvinnulífið og stuðli þannig að aukinni náttúruvernd. 

Nú er COVID-19 sennilega ekki sá vírus (kannski aðeins skæðari en inflúensa en vel sigranlegur), en þá halda menn bara áfram að óska sér.

Þetta er mannfjandsamlegt hugarfar sem ég deili ekki. Auðvitað er mér illa við mengun en mér er líka illa við ungbarnadauða, fátækt og sjúkdóma. Til að sigrast á öllu þessu þarf tækni, auðsköpun og seinast en ekki síst: Tíma. Það tekur tíma að brjótast yfir hungurmörkin og leggja grunninn að bjartari framtíð. Það tekur tíma að leggja vatn og rafmagn og setja í gang þvottavélar og ísskápa. 

Til að lágmarka þennan tíma þarf að innleiða sem hraðast og víðast frjálsan markaðsbúskap þar sem fólk getur varið eignir sínar og sparnað og gert áætlanir til lengri tíma. Um leið og brýnasta brauðstritinu er mætt hefst svo kröfugerð á hreinna loft og vatn, græn svæði og náttúruvernd.

Þetta skilur umhverfisverndarhreyfingin ekki og óskar þess í stað eftir vírusum sem stráfella fólk og lama samfélagið.

Megi baráttan gegn útbreiðslu COVID-19 ganga sem hraðast og best fyrir sig svo mannkynið geti á ný sett í gang verksmiðjur sínar og orkuver og haldið áfram að berjast gegn fátækt og sjúkdómum.


mbl.is Mengun í Kína minnkar verulega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband