Bloggfærslur mánaðarins, maí 2017

Góð hugmynd!

Núna hljóta íslenskir forræðishyggjupostular að kætast!

Yfirvöld í Úsbekistan hafa bannað fjölmarga tölvuleiki sem eru sagðir „bjaga gildi“.

Góð hugmynd! Má ekki skoða eitthvað svipað á Íslandi?

Það hlýtur að liggja fyrir að úr því það má banna fullorðnu fólki að reykja í eigin húsnæði, bölva þeldökku fólki opinberlega, flytja inn tóbak til að sjúga í nefið eða troða í vörina, kaupa áfengi á sunnudegi, horfa á ótextað sjónvarp, slást óvarið fyrir peninga, spila alvöru póker, ganga með frjóvgað egg annarrar konu, velja sína eigin viðskiptavini eða starfsfólk í frjálsum viðskiptum osfrv. þá hlýtur bann við tölvuleikjum að vera rökrétt viðbót.

Íslendingar herma jú oftar en ekki eftir því strangasta sem fyrirfinnst í víðri veröld. Ef Svíar banna eitthvað umfram Dani þá skal sænska fordæminu fylgt. Ef Danir banna eitthvað meira en Svíar þá skal danska fordæminu fylgt.

Kannski íslensk forræðishyggja ætti að gefast upp á þessum norrænu fyrirmyndum og líta lengra til austurs? Heilbrigðiskerfið er jú nú þegar að sovéskri fyrirmynd! Af hverju þá ekki lagaumgjörðin almennt? 

Tölvuleikir á Íslandi - hypjið ykkur!


mbl.is Banna tölvuleiki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gallaður mælikvarði á kaupmátt krónunnar

Einhvern tímann fengu hagfræðingar þá furðulegu hugmynd að það væri hægt að mæla kaupmátt gjaldmiðils með gagnasöfnun og vísitölusmíði. Núna sjáum við hvað þetta er galin hugmynd. Kaupmáttur krónunnar hefur aukist töluvert undanfarin misseri. Samt sýna mælingar að hann sé að rýrna - að það sé verðbólga en ekki verðhjöðnun.

Það er einnig furðulegt að hugsa til þess að ef ríkið hækkar skatta á eitthvað, t.d. áfengi, þá er það túlkað sem rýrnun á kaupmætti krónunnar. 

Og þegar skattur er lækkaður - þegar fé er hætt að streyma jafnhratt úr vasa launþega og í ríkishirsluna - þá mælist kaupmáttur krónunnar meiri!

Þetta er glapræði. 

Kaupmátt gjaldmiðils má á sérhverjum tímapunkti áætla með því að skoða breytingar á magni hans í umferð (og gera ráð fyrir að allt annað sé stöðugt, svo sem framboð á vörum og þjónustu og þess háttar). Þótt það sé ekki alltaf auðvelt mál þá er það bara tæknilegt aukaatriði. Að það sé ekki hægt að búa til hina einu sönnu vísitölu er það líka. Kaupmáttur gjaldmiðils fer eftir magni hans í umferð og auðvitað trúðverðugleika hans. 

Þessu gleymdu menn þegar Excel var fundið upp, eða svo virðist vera. Núna þarf ríkisvaldið auðvitað á allri þessari tölfræði að halda til að keyra samfélagið ekki lóðbeint fram af kletti í afskiptasemi sinni. 

En sem sagt: Ferðamenn dæla milljörðum inn í landið og auka kaupmátt krónunnar um tugi prósenta. Dagur B. Eggertsson ákveður að leyfa engum að byggja í Reykjavík. Niðurstaðan: Verðbólga!

Kæru hagfræðingar, er ekki kominn tími til að hugsa þetta mál upp á nýtt?


mbl.is Húsnæðisverð drífur áfram verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmyndir fyrir umræðuefni

Mér skilst að hið nýstofnaða Framfarafélag leyti nú að einhverju góðu umræðuefni.

Ég er með nokkrar hugmyndir:

Fjölmenningarsamfélagið: Hafa Íslendingar almennt gert sér góða grein fyrir kostum og göllum fjölmenningarsamfélagsins, þar sem hátt hlutfall íbúa er jafnvel andsnúið því samfélagi sem það býr í? Vilji t.d. auka við forréttindi ákveðinna einstaklinga eða hópa á kostnað annarra? Vilji jafnvel banna ákveðnum einstaklingum að gera hluti á grundvelli kynferðis, kynhneigðar eða jafnvel húðlitar?

Hlutverk ríkisins: Það eru ekki allir sammála um hvert hlutverk hins opinbera eigi að vera. Stjórnarskráin gefur ákveðnar leiðbeiningar sem ég held að flestir séu sáttir við, en hvað svo? Það er auðvitað augljóst að ef hið opinbera þjappar á sínar hendur valdi ríkiseinokunar þá er engin leið að velja aðra kosti. Hversu langt á ríkið að ganga í að þjappa völdum saman í sínar hendur? Hvenær á fólk að fá að velja? Hvenær á ríkið t.d. að taka við meðhöndlun líkamlegra meina? Það virðist vera í lagi að hafa samkeppnismarkað fyrir sjóndapra en ekki fyrir mjaðmaveika. Er hægt að leggjar einhverjar línur hér?

Gjaldmiðlamál: Ríkið bannar, beint og óbeint, frjálsa útgáfu peninga á Íslandi. Hefur einhver fært sæmilega rök fyrir því að svo eigi að vera? Hvaða rök eru það? Hvaða mótrök má finna?

Þetta eru bara hugmyndir en vonandi veita þær einhvern innblástur. 


mbl.is Fæddist inn í flokkinn og drepst út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getið þið ekki bara hætt að reykja!

Ég heyrði nýlega sögu sem gerðist á íslensku hjúkrunarheimili. Kona nokkur var Alzheimer-veik og gat orðið lítið gert. Hún kunni samt að reykja og naut þess út í ystu æsar að fá far út á svalir og kveikja sér í einni. Þegar dóttir hennar kom í heimsókn ljómaði hún upp því þá fékk hún að komast út á svalir. Hún var deyjandi og heilabiluð en hafði þó þetta til að færa sér gleði.

Hjúkrunarfræðingarnir voru ekki hrifnir af þessu og nenntu aldrei að keyra konunni út á svalir.

GETUR ÞÚ EKKI BARA HÆTT ÞESSU? ... var hreytt í hana. 

Þetta viðhorf gegnsýrir íslenska löggjöf og jafnvel almennt viðmót fólks. Nú hafa menn fundið upp rafrettuna sem er 99% skaðminni en tóbakið og sennilega skaðminni en útiloftið á Miklubrautinni. Rafretturnar hafa alla kosti reykinga og enga af ókostunum. Er þetta ekki frábær tækni? Eigum við ekki að gera hana sem ódýrasta og aðgengilegasta, a.m.k. fyrir sjálfráða einstaklinga?

Nei.

GETIÐ ÞIÐ EKKI BARA HÆTT ÞESSU? ... er hreytt í reykingafólkið.

Greyið konan sem sat deyjandi í hjólastól og var upp á náð og miskunn annarra komin til að njóta seinustu augnablikanna á ævi sinni gat ekkert gert. Hjúkkurnar áttu hana og réðu henni. 

Þurfa sömu örlög að bíða allra annarra líka?


mbl.is Rafrettufrumvarp á úreltum forsendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En hvernig á þá að fjármagna óráðsíuna?

Það liggur fyrir að rekstur Reykjavíkurborgar er í molum. Borgin hækkar og hækkar skatta en ekkert dugir til að hægja á skuldsetningunni og fjármagna öll gæluverkefnin.

Þegar skattahækkanir duga ekki er gripið til þess ráðs að finna upp nýja skatta. Nú er víst búið að úrskurða einn slíkan ólögmætan. Það mun samt engu breyta. Borgaryfirvöld finna bara upp á einhverju öðru. 

Kannski væri hægt að setja upp aðgangshlið við alla skóla sem nemendur þurfa að setja smápeninga í til að opna. Það mætti kalla það ræstingargjald eða rekstrargjald vegna viðhalds og kyndingar á húsnæði sveitarfélagsins.

Svo mætti setja á sérstakt verndargjald að hætti mafíunnar sem óvinsæl fyrirtæki þurfa að borga til að vera ekki beint eða óbeint hent út úr borginni.

Síðan er auðvitað bara hægt að safna skuldum. Þegar kjósendur fá nóg kjósa þeir Sjálfstæðisflokkinn í eitt eða tvö kjörtímabil sem tekur að sér að greiða niður skuldirnar og létta aðeins á skattbyrðinni. Vinstrimenn geta svo tekið við aftur og byrjað að sóa fé.

Kjósendur í Reykjavík eru ólíkir þeim í nágrannasveitarfélögunum, sem hafa flestir áttað sig á því að það er ekki góð hugmynd að hleypa vinstrimönnum í stjórn sveitarfélags. Sjálfstæðisflokkurinn er að sjálfsögðu langt frá því að vera fullkominn en þar virðast menn samt skilja einföldustu grunnatriði heimilisbókhaldsgerðar.


mbl.is Innviðagjaldið ólögmætt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pilsner-Grímur rifjar upp gamla takta

Íslendingar halda að með því að setja löglegan neysluvarning í hefðbundnar verslanir sé stórhættuleg og róttæk breyting. Svo er ekki. ÁTVR er með rúman opnunartíma, opið víða um land og jafnvel staðsett innan veggja matvöruverslana

Það sem breytist með aðeins vestrænna fyrirkomulagi er að ríkið hættir að vasast í smásöluverslun, starfsmenn verða starfsmenn einkafyrirtækja og kaupmaðurinn á horninu getur aftur keppt við stórmarkaðina sem deila bílastæði með ÁTVR í dag.

Þingmenn ætla samt að láta þetta vefjast fyrir sér og margt er gert til að koma í veg fyrir að þeir geti gengið til atkvæðagreiðslu og afhjúpað afstöðu sína. Og það er hið furðulega í þessu máli.


mbl.is Forsætisráðherra órólegur og roðnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar sósíalisminn nær að þroskast til fulls

Íbúar Venesúela sjá nú fram á að lífskjör þeirra haldi áfram að hrapa. Þeir reyna því í örvæntingu að mótmæla stefnu yfirvalda. Sú stefna var samt ekki önnur en sú sem fólkinu var lofað: Endurdreifing veraldlegra auðæfa og sama fátækt fyrir alla. 

Sósíalismi hljómar vel í eyrum margra en ástæðan er skilningsleysi. Það er ekki hægt að halda uppi stjórnmálastefnu þjófnaðar án þess að lokaniðurstaðan sé jafnmikil fátækt fyrir alla (nema e.t.v. best tengdu toppana í stjórnmálaskipuritinu).

Ef sósíalisminn fær að þróast og þroskast er lokaniðurstaðan alltaf sú sama. Það er ekki hægt að ná markmiðum sósíalismans um jöfn kjör nema sætta sig við hina hlið sama penings: Jöfn fátækt.

Sósíalismi er eitur hvers samfélags sem hann smitar. Það er vissulega hægt að lifa af vægan skammt af þeirri eitrun en ekki ítrekaða skammta í sífellt stærri skammtastærðum. Sósíalisma þarf að halda í skefjum og helst útrýma svo skaðinn af völdum hans nái til sem fæstra og í sem stystan tíma.


mbl.is Annar mótmælandi skotinn til bana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott að sjávarútvegurinn svari fyrir sig

Íslensk umræða á það til að vera einhliða. Kannski er það vegna þess að fjölmiðlafólk er upp til hópa vinstrisinnað og telur ekki ástæðu til að fjalla um önnur sjónarmið en þau sem samrýmast þeirra eigin.

Sjávarútvegurinn hefur orðið nokkuð fyrir barðinu á þessari einhliða umfjöllun. Hann virðist þó vera byrjaður að svara fyrir sig, sérstaklega eftir að SFS réð til sín nýjan framkvæmdastjóra. Það er gott. Umræðan þarf að vera í jafnvægi. Blaðamenn eiga ekki að fá að stjórna henni.

Sjávarútvegurinn er samt ekki eini boxpúðinn sem vinstrimenn lemja á. Allur hinn frjálsi markaður er bitbein vinstrisinnaðra fjölmiðlamanna. Allir sem skila hagnaði eru tortryggðir. Þeir sem tapa fé skattgreiðenda eru lofaðir. Sem betur fer heldur atvinnulífið úti ýmsum samtökum sem tala máli frjálsra fyrirtækja. Að vísu tala þau gjarnan út frá sínum þröngu hagsmunum. Samtök ferðaþjónustuaðila tala t.d. ekki fyrir almennum skattalækkunum - bara áframhaldi á sínum eigin undanþágum. Vonandi munu hin ýmsu samtök bráðum átta sig á því að hagsmunir þeirra eru þeir sömu - að á Íslandi sé hófsamt ríkisvald sem skattleggur lítið og framfylgir fáum en gegnsæjum reglum, og setur fáar hindranir á viðskipti við útlönd. 

Eins og nýleg dæmi sanna þá er alltaf hætta á því að yfirvöld misnoti völd sín. Þau þarf því að takmarka. Og á meðan þau eru mikil þarf samt að veita aðhald - mikið og hávært aðhald, en um leið málefnalegt og yfirvegað. 


mbl.is Misskilningur um fiskveiðilög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neytendastofa mun koma að allri stjórnmálaumfjöllun

Nýleg reglugerðarbreyting var gerð fyrir skömmu og fjallar um aukið hlutverk Neytendastofu í allri umfjöllun og umræðu um stjórnmál á Íslandi. Héðan í frá verður gerð aðför að svokölluðum duldum auglýsingum í tungutaki stjórnmálamanna. 

Í reglugerðinni segir meðal annars:

Koma skal í veg fyrir að stjórnmálamenn geti, með duldum hætti, hvatt kjósendur til að líta til þeirra með jákvæðum augum með fjárútlátum á kostnað annarra nema það sé skýrt tekið fram að um loforð á kostnað annarra sé að ræða. Þannig má ekki lofa göngum, tónleikahúsum, styrkjum, niðurgreiðslum og viðskiptahindrunum nema viðkomandi stjórnmálamaður taki skýrt fram kostnað skattgreiðenda við innleiðingu, bæði beinum og afleiddum. Skal þá miða við svokallaða vísitölufjölskyldu þar sem á heimili búa tveir fullorðnir og tvö börn undir 18 ára aldri. Eftir tilvikum þarf einnig að nefna kostnað á hvern einstakling búsettan á Íslandi. Neytendastofa skal vera viðstödd alla fundi, ræður, málþing, heitapottsumræður og aðrar samkomur þar sem loforð stjórnmálamanna heyrast af fleiri en þremur í einu. 

Um leið er mælst til þess að allir sem tjá sig í samræðum um stjórnmál merki sig sérstaklega með flokksmerki ef um flokksbundinn eða flokkshollan einstakling er að ræða en að öðrum kosti með lýsandi orði eða orðasamhengi svo ekki verði um villst hvar viðkomandi standi í stjórnmálum. 

Dæmi er gefið í viðauka við reglugerðina:

Stjórnmálamaður hefur gefið það út að hann vilji láta gera göng fyrir 9 milljarða, en að líkur séu á að þau muni kosta 20 milljarða. Skal hann þá láta það fylgja að kostnaður við göngin verði 59 þúsund krónur á hvert mannsbarn á Íslandi m.v. mannfjölda 1. janúar 2017. Að auki komi til gjaldtaka ef einhver ætlar sér að ferðast um þau göng. Skulu þessar upplýsingar endurteknar í hvert skipti sem viðkomandi stjórnmálamaður notar fyrirhugaða framkvæmd til að varpa á sig jákvæðu ljósi. Til vara getur blaða- eða fréttamaður á staðnum séð um að koma þessum upplýsingum áleiðis. 

Það er svo tekið fram í skýringum við reglugerðina að hún taki ekki til þess þegar stjórnmálamenn eða aðilar þeim tengdir lofa að skila sjálfsaflafé skattgreiðenda aftur til þeirra, t.d. í tilfelli loforða um skattalækkanir og tilheyrandi afnámi ákveðinna ríkisafskipta. Í skýringum við reglugerðina er þessu líkt við að þegar þjófurinn stelur ber að stöðva hann, og eins bregðast við yfirlýsingum hans um að ætla sér að stela, en þegar hann skilar þýfi sínu sé óhætt að leyfa honum að framkvæma verknaðinn óhindraður. 

Nú má vona að stjórnmálaumræðan á Íslandi verði skýrari. 


mbl.is Notuðu duldar auglýsingar á Instagram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað vantar í löggjöfina?

Ísland er lítið land en á Íslandi gilda mörg lög og margar reglur. Landslögin eru vitaskuld á sínum stað en einnig allskyns alþjóðlegir sáttmálar, t.d. aðild að Mannréttindadómstól Evrópu.

Má spurja: Hvað finnst "Nýja-Ísland" liðinu að vanti upp á svo meinta spillingu megi uppræta? Eru einhverjar gloppur í íslenskri löggjöf sem þarf að fylla upp í? Eru einhverjar lagakrækjur í gangi sem má benda á?

Getur verið að öll þessi meinta spilling sé fyrst og fremst í huga fólks? Að hún finnist varla í raunveruleikanum?

Annars kæmi mér ekkert á óvart að einhver spilling kraumaði á Íslandi. Ríkisvaldið er gríðarlega stórt og innan hins opinbera regluverks er mikið rými til að taka geðþóttaákvarðanir. Það má t.d. ekki alltaf fá vínveitingaleyfi nema maður sé vel tengdur. Ríkisvaldið er mjög valdamikið, og miklum völdum fylgir gjarnan spilling. Einkafyrirtæki eru upp á náð og miskunn neytenda komin og miklu viðkvæmari fyrir skoðuðum viðskiptavina sinna, og spilling innan þeirra er sjálfstortímandi. 

En hvað um það: Hvað vantar upp á löggjöfina og hvar er þessi meinta spilling? Ég er í einlægni forvitinn. 


mbl.is „Ég er búin að fá nóg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband