Bloggfærslur mánaðarins, október 2017

Fólk ætti að selja pappírsverðmæti sín núna

Nú eru kosningavélarnar farnar af stað og menn byrjaðir að dusta rykið af áratugagömlum skjölum. Það má vel vera að það komi einhverjum til góða í kosningabaráttunni. Sjáum hvað setur. 

Við eigendur verðbréfa, hlutabréfa í sögulegu hámarki og ríkisskuldabréfa vil ég samt segja: Seljið allt, strax!

Ef þið haldið að pappírsverðmæti hafi gufað upp árið 2007, bíðið bara! 

Hlutabréf eru í hæstu hæðum og jafnvel hærri hæðum en fyrir október 2007. 

Skuldir víða um heim eru gríðarlegar. Fjölmörg ríki eru tæknilega gjaldþrota, jafnvel sum af stærstu hagkerfum heims. 

Kínverjar ryksuga nú upp ríkisskuldir og auðlindir víða um heim og vita að þegar kemur að greiðslufalli þá eru þeir í alveg einstakri samningastöðu. 

Kínverjar og Indverjar kaupa allt það gull sem þeir komast yfir og byggja þannig upp raunverulegan varaforða.

Skuldsett neysla er víða mikil. Íslendingar virðast þó sem betur fer vera að skuldsetja sig hóflega, a.m.k. í bili. Með nánast enga vexti í mörgum ríkjum eru fólk og fyrirtæki byrjuð að leggja allt undir, kaupa dýrt og treysta á að vextir hækki aldrei. Það munu þeir þó þurfa að gera fyrr eða síðar og þá fara margir á hliðina.

Og hið sama gildir vitaskuld um marga ríkissjóði.

Davíð Oddsson reyndi ítrekað að vara við viðkvæmri stöðu íslenskra banka á sínum tíma. Sumir tóku mark á því og seldu en aðrir treystu á opinberar eftirlitsstofnanir og alþjóðleg matsfyrirtæki. 

Látum viðskipti Bjarna Benediktssonar fyrir 10 árum verða okkur verðmæta lexíu. Hann sá í hvað stefndi (en sagði að því er virðist engum frá því, sem er synd). Seljið strax!


mbl.is Seldi í Sjóði 9 dagana fyrir hrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilja bændur ríkisafskiptin eða ekki?

Landbúnaðarráðherra hefur nú skipað fulltrúa ráðuneytis síns í opinbera nefnd sem heyrir undir ráðuneyti sitt.

Og allt verður brjálað!

Bændur eru ósáttir. Framsóknarflokkarnir eru ósáttir. Talað er um pólitíska afskiptasemi. Bændur hefðu viljað að ráðherra skipaði aðra fulltrúa ráðuneytisins í nefnd ráðuneytisins sem fer með mál þeirra.

Bændur ættu auðvitað að snúa spilinu alveg við og heimta algjörlega frelsun landbúnaðar úr klóm stjórnmálanna. Þeir ættu að óska eftir því að fá að starfa á frjálsum markaði án ríkisstyrkja, verðlagsnefnda, tollverndar, framleiðslukvóta og annarra opinberra afskipta.

Aðilar á frjálsum markaði geta af heilindum mótmælt ríkisafskiptum. Stétt sem er vel vafin inn í allskyns vernd og styrki getur í mesta lagi mjálmað frá matardallinum þar sem ríkisafskiptunum er deilt út. Eigandinn þarf samt ekki að hlusta. 


mbl.is „Ráðstöfunin lyktar af pólitísku makki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstristjórn, og hvað svo?

Ég tek ekki mikið mark á skoðanakönnunum sem stendur. Það er einfaldlega of margt í gangi núna til að kjósendur geti gert upp hug sinn. Frambjóðendur eru ekki byrjaðir í kosningabaráttu. Auglýsingar eru ekki byrjaðar að birtast að ráði. Menn vita rétt svo hverjir eru á framboðslistunum.

Hvað sem því líður er ljóst að það gæti alveg eins verið vinstristjórn sem bíður Íslendinga.

Og hvað þýðir það?

Það þarf ekki að deila um það að skattar hækka og nýir skattar verða til. Vinstrimenn tala gjarnan um ónýtta eða vannýtta skattstofna. Það þýðir með öðrum orðum að fé skal sópað í ríkishirslurnar hvar sem það er að finna. 

Seinustu ríkisstjórnum hefur ekki tekist að útrýma nema brotabroti af skattahækkunum vinstristjórnar Jóhönnu og Steingríms. Við þá flóru munu því bara bætast nýir skattar. Skattar, sem er búið að lækka lítillega undanfarið, munu hækka aftur.

Þetta blasir við. Þetta er raunar yfirlýst stefna vinstrimanna. 

Þá má spyrja: Hvaða skattar hækka, eða skattar á hverja hækka?

Vinstrimenn tala oft um að vilja færa skattbyrðina til, frá einum hópi til annars. Þeir tala breiðu bökin sem eiga að taka á sig meira. Þeir tala um að dreifa hinu og þessu öðruvísi. Raunin er svo alltaf önnur. Enginn fer varhluta af skattahækkunum. Þær birtast annaðhvort beint eða óbeint. Þegar tryggingagjald á fyrirtæki hækkar bitnar það á launum og fríðindum starfsmanna. Þegar fjármagnstekjuskattur hækkar - að sögn til að skattleggja þá ríku meira - bitnar það á leigjendum, lífeyrissjóðum og auðvitað getu fyrirtækja til að greiða góð laun.

Vinstrimenn vilja hækka skatta á eldsneyti, bíla og ýmislegt sem er kallað lúxus en er bara venjulegur neysluvarningur. Lágtekjufólk fær að finna fyrir því þar líka.

Ríkið reynir svo að skattleggja syndsamlegt líferni eins og tóbaks- og áfengisneyslu. Lágtekjufólk minnkar ekki við sig á þessum sviðum. Það borgar bara meira og sleppir einhverju öðru í staðinn.

Vinstristjórnir bera svo enga virðingu fyrir skuldaniðurgreiðslum eða jafnvægi í ríkisbúskapnum. Hallarekstur er undantekningalaust afleiðing vinstristjórnar. Sjáið bara hvað er að gerast í Reykjavík á þessum meintu góðæristímum. Þar vinnur bókhaldsfólk í fullri vinnu við að færa tölur til og fegra stöðu skuldsetts borgarsjóðs í blússandi hallarekstri.

En er ekkert gott sem fylgir vinstristjórn? Jú, Katrín Jakobsdóttir, sem er myndarlegur og röggsamur kvenmaður, verður andlit Íslands út á við í stöðu forsætisráðherra. Fleira dettur mér samt ekki í hug. 

Er þetta ósk landsmanna? Þá segi ég bara: Verði þeim að góðu. Það virðist þurfa vinstristjórn á Íslandi á um 10-20 ára fresti til að minna Íslendinga rækilega á að slík stjórn eru vondar fréttir. Er komið að slíkri áminningu aftur?


mbl.is VG langstærsti flokkurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afætan feitari en hýsill sinn

Menn geta deilt um það lengi hvort skattlagning sé lögleiddur þjófnaður eða ekki en menn deila varla um það að þau verðmæti sem ríkisvaldið hirðir eru framleidd af öðrum. Ríkið kaupir sárabindi fyrir peninga sem ég og þú öfluðum með verðmætaskapandi starfsemi. 

Ríkið er með öðrum orðum afæta og þú ert hýsillinn.

Nú er svo komið að afætan er orðin feitari en hýsillinn. Lúsin í hárinu á þér er orðin stærri en hausinn á þér. 

Þetta er auðvitað óheilbrigt ástand sem verður að bregðast við.

Snyrtilegast er að fækka starfsgildum hjá ríkinu. Ef ríkið vill framleiða þátt um bændur á Norðurlandi getur það boðið verkið út. Ef ríkið vill að brotin bein séu sett í gifs getur það gert þjónustusamning við hjúkrunarfræðing. Starfsmaður sem er ekki ríkisstarfsmaður er ekki skuldbinding fyrir lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, ekki í stéttarfélagi sem knýr ríkisvaldið til hlýðni með verkföllum og vanrækslu á starfsskyldum sínum og ekki með laun sem ríkið ákveður einhliða án nokkurar tengingar við raunverulega verðmætasköpun hans.

Til að fækka starfsgildum þarf vitaskuld að einkavæða, bjóða út og leggja niður stóra afkima ríkisrekstursins. 

Það þarf að grípa til aðgerða áður en lúsin verður orðin svo stór að hýsillinn fellur hálsbrotinn og dauður til jarðar. 


mbl.is Hærri laun hjá ríkinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kveðja til ritstjórnar Viðskiptablaðsins

Það kitlar egóið þegar manns eigin skrif birtast svo til óbreytt en umorðuð á blaðsíðum dagblaðanna.

Í þessum ritstjórnarpistli í Viðskiptablaðinu er talað um kosningarnar sem framundan eru á mjög svipuðum nótum og ég gerði sjálfur fyrir nokkrum dögum [1|2]. Talað er um tvo turna og miðjumoðið sem dansar inn og út fyrir 5% fylgið með tilheyrandi hættu á útrýmingu. 

En auðvitað getur verið um tilviljun að ræða. Að sjálfsögðu. Það væri samt gaman að fá kveðju mína til ritstjórnar Viðskiptablaðsins endurgoldna ef hún kemst til skila. 


S. Davíð tókst á við Golíat og hafði sigur

Sigmundur Davíð lenti í kjötkvörninni sem íslensk umræða og fjölmiðlaumfjöllun getur verið og hafði sigur. 

Það var klaufalegt af honum að segja ekki að eigin frumkvæði frá öllum viðskiptum, kennitölum og sjóðum hans og konu hans. Hann braut hins vegar engin lög og ekki hefur sannast á hann neitt sem bendir til að hann hafi hent hagsmunum kjósenda og skattgreiðenda fyrir borð til að auðgast. 

Menn gleyma því að aflandsfélög eru lögleg.

Menn gleyma því líka að menn geta átt félög og greitt skatta af tekjum án þess að fjölmiðlamenn viti sérstaklega af því.

S. Davíð tókst á við Golíat og hafði sigur. Hann verður sennilega kosinn inn á Alþingi aftur og kemst jafnvel í oddastöðu við næstu stjórnarmyndunarviðræður. 

Það er ekkert sjálfgefið að komast aftur á fæturna eftir að RÚV og aðrir slíkir fjölmiðlar hafa gert sitt besta til að eyðileggja mannorð viðkomandi. Það vita t.d. eigendur veitingastaðar nokkurs á Akureyri. En svei mér þá ef Sigmundi Davíð tókst það ekki. 


mbl.is Ofgreiddi skatta vegna Wintris
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þvinguð sambúð er engum til gagns

Hugsum okkur hjónaband. Lengi vel gekk það ágætlega en svo fóru að koma brestir í sambandið. Annar aðilinn lýsir því loks yfir að hann vilji skilnað. Hinn aðilinn er ekki sáttur. Hvor á að ráða?

Í sumum menningarheimum eru skilnaðir bannaðir. Það sem einu sinni hefur verið hnýtt saman skal aldrei aftur sundrað. Þetta ætti flestum Íslendingum að þykja framandi hugsunarháttur (nema þegar kemur að sveitarfélögum því þau mega víst bara sameinast, en aldrei sundrast). Vond hjónabönd eiga að fá að deyja. Það má hvetja aðilana í hjónabandsráðgjöf en á endanum á að vera hægt að sundra hjónabandi sem virkar ekki lengur fyrir báða aðila.

Heimfærum þetta nú á sambönd ríkja og einstakra hluta þeirra. Víða um heim eru til aðskilnaðarhreyfingar sem vilja koma sínum hluta landskortsins út úr einhverri heild. Má nefna Tíbet sem vill komast út úr Kína. Margir styðja slíkar aðskilnaðarhreyfingar. Þeir skilja að þvinguð sambúð er ekki holl fyrir neinn jafnvel þótt annar aðilinn vilji halda þeirri sambúð áfram. Þeir skilja að það sem gildir um hjónaband einstaklinga gildir líka um ríki. Margir glæpir hafa verið framdir í nafni þvingaðrar sambúðar. Friðsamleg samskipti nágranna eru betri en ofbeldisfullt hjónaband innan veggja sama heimilis. 

Svo eru aðrir sem tala fyrir þvingaðri sambúð. Margir bölva Bretum fyrir að vera á leið út úr Evrópusambandinu. Íbúar Katalóníu fá ekki að kjósa um sambúð sína með yfirvöldum í Madrid. Sagt er að stór og sterk heild sé alltaf betri en frjáls samskipti og viðskipti nágranna. Það er betra að eitt gangi yfir alla en að einingar heildarinnar fái að leita hamingjunnar á eigin forsendum (oft með misjöfnum árangri). 

Ég styð svo gott sem allar aðskilnaðarhreyfingar sem hægt er að hugsa sér. Vilji meirihluti Katalóníu út úr Spáni þá styð ég slíkt. Vilji Bretar út úr Evrópusambandinu styð ég það. Vilji Skotland út úr breska ríkjasambandinu styð ég það. Vilji kona út úr hjónabandi styð ég að hún skilji. Vilji 18 ára einstaklingur flytja að heiman styð ég þá ósk. 

Evrópu tókst á sínum tíma að stinga heiminn af í lífsgæðum og velferð einmitt vegna þess að innan Evrópu ríkti gríðarleg pólitísk samkeppni. Landamæri voru mörg og hlykkjótt en um leið opin og greiðfær. Martin Luther gat flúið ofsóknir kaþólikka af því einhver smáfurstinn veitti honum skjól. Edward Snowden situr ekki í bandarísku fangelsi af því Rússar halda yfir honum verndarskildi. Kósóvu-Albanir eru nálægt því að geta stofnað sitt eigið ríki og losna þar með undan stjórn Serbíu. 

Aðskilnaður er oftar en ekki friðsamlegasta leiðin til að stuðla að frjálsum samskiptum og viðskiptum og að góðri sambúð í okkar flókna heimi. 


mbl.is Leggja hald á kjörkassa í Katalóníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband