Bloggfærslur mánaðarins, desember 2015

Rétt ....og rangt

Afmarkaður en hávær hópur fólks á erfitt með að sætta sig við góðar fréttir og jákvæð þróun vekur hjá honum gremju, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra. Nefnir ráðherrann deilur um tölur Hagstofunnar um brottflutta Íslendinga máli sínu til stuðnings.

Það er rétt hjá forsætisráðherra að sumir - sérstaklega stuðningsmenn stjórnarandstöðuflokkanna - eigi erfitt með að sætta sig við jákvæðar hagtölur undanfarinna missera. Sumir í þessum hópi gera jafnvel tilraunir til að rekja allt sem gæti flokkast sem árangur til fráfarandi ríkisstjórnar - einhverra funda innan hennar eða tillagna sem náðu ekki hylli neins. 

En gott og vel, það er hlutverk stjórnarandstöðu að benda á aðrar hliðar málsins en þær sem blasa við (þótt það sé nú yfirleitt óþarfi að vera fjarstæðukenndur, en það er önnur saga).

En er þá ekki blússandi góðæri á Íslandi og allt á uppleið? Forstjórar fyrirtækja virðast vera jákvæðir. Jákvæðni almennings virðist vera á uppleið. Fasteignaverð er á rjúkandi uppleið. Kaupmáttur er sýnilega að batna. Skattar eru í hænuskrefum að lækka sem er mikil framför frá tíð fyrri ríkisstjórnar þar sem allir skattar voru á uppleið og nýir að bætast við.

Það er batnandi tíð á Íslandi en grundvöllur þessara betri tíma stendur á brauðfótum. Peningastefnan er sú sama og seinustu ár. Ríkisvaldið hleður á sig skuldbindingum í gegnum lífeyrisskuldbindingar opinberra starfsmanna. Báknið er enn risastórt og mun ekki þola neina skerðingu á mjólkun á fé úr vösum skattgreiðenda. Menntun og heilbrigðisþjónusta landsmanna er enn í vítahring rýrnandi þjónustu og aukins kostnaðar. Engar grundvallarbreytingar hafa átt sér stað frá því árið 2002 eða 2003 þegar allt var vissulega á uppleið en um leið á hraðferð fram af bjargbrún skuldsetningar og óhóflegrar bjartsýni. 

Ég vil leyfa mér að vera bjartsýnn á horfur Íslands á komandi árum og vona það allrabesta og sé margt sem hefur tekið breytingum á jákvæðan hátt undanfarin misseri. Ég vil um leið vara við því að hugarfar og ástand áranna 2002-2003 sé endurtekið - að ósjálfbært ástand sé lofað og á það trúað sem traustan grundvöll fyrir framtíðanna þegar svo er alls ekki.

Gleðilegt nýtt ár, kæru lesendur. 


mbl.is Sætta sig ekki við góðar fréttir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin sem gleymdist (grein)

Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir mig með hinn hressandi titil: Ríkisstjórnin sem gleymdist.

Hún vekur vonandi einhverja af þingmönnum stjórnarflokkanna upp frá værum svefni og hvetur þá áfram á komandi ári - seinasta heila ári ríkisstjórnarinnar. 

grein

Þeir sem fá Morgunblaðið í hendurnar í dag lesa vonandi greinina. Áskrifendur að vefútgáfu geta nálgast greinina hérna. Ætli ég setji svo ekki greinina hingað inn á þessa síðu við tækifæri. 

Njótið vel!


Svíar lærðu af reynslunni

Fyrir nokkrum áratugum sáu Svíar hvert stefndi ef ríkisvaldið héldi áfram að einoka alla heilbrigðisþjónustu: Kostnaður færi síhækkandi og gæðin versnandi. Heilbrigðisþjónustan yrði þyngri og þyngri baggi sem skilaði sífellt minna af sér. Róttækar breytingar voru gerðar. Í dag er heilbrigðiskerfi Svíþjóðar blanda af opinberum rekstri og einkarekstri. 

Wikipedia segir svo frá: "Private companies in 2015 provide about 20% of public hospital care and about 30% of public primary care ..."

Á öðrum stað segir: "Today, you can find private hospitals with for-profit healthcare operations, which encourages the promotion of Sweden as a top destination for medical tourism."

Vissulega greiðir hið opinbera fyrir nánast alla heilbrigðisþjónustu í Svíþjóð (eitthvað sem mörgum finnst heillandi) en einkaaðilar fá að bjóða í sjúkdómana og veikindin ef svo má að orði komast og bjóða upp á valkosti við opinberar stofnanir. Í Danmörku er eitthvað svipað uppi á teningnum. Þetta er hið norræna módel. Á Íslandi er miklu frekar hægt að tala um hið sovéska módel.  

En af hverju fóru Svíar út í að leyfa einkaaðilum að taka að sér verkefni í heilbrigðiþjónustu? Það var af hreinni pólitískri nauðsyn (svipaðri því og neyddi Ný-Sjálendinga á sínum tíma til að skera landbúnaðarkerfið úr snöru hins opinbera). Sérstaklega var ástandið orðið slæmt í Stokkhólmi eins og rekið er í viðhengdu skjali frá sænsku hugveitunni Timbro. Hafa sumir talað um breytingarnar þar á bæ á 8. áratug 20. aldar sem byltingu. Það sem hægri- og miðjumennirnir losuðu úr greipum ríkisvaldsins urðu vinstrimennirnir að láta eiga sig þegar þeir náðu aftur völdum. Þeir gátu einfaldlega ekki aflífað einkaframtakið, svo vel gekk það. 

Nú fer íslenskur læknir og sérfræðingur til Svíþjóðar til að vinna fyrir einkarekið fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu. Íslendingar gætu hæglega gert nauðsynlegar breytingar þannig að Ísland laði að sér erlenda sérfræðinga (eða þá íslensku sem velja frekar að starfa erlendis fjarri vinum og ættingjum en hoppa inn í hið íslenska kerfi). Til þess þarf samt róttækar breytingar sem enginn virðist þora út í. 


mbl.is Ráðinn forstjóri spítala í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sorpa: Risaeðla á tækniöld

Starfssemi Sorpu er gamalt, úrelt, rándýrt og lélegt fyrirkomulag sorphirðu og -flokkunar. 

Auðvitað eru verðmæti í sorpinu eins og öðru. Það segja talsmenn endurvinnslu og flokkunar sjálfir. Þar með er hægt að leggja niður opinbera sorphirðustarfssemi og hleypa einkaaðilum að. Það er bara ekki hægt á meðan borgin sjálf (eða sveitarfélög almennt) hefur völd til að ákveða hver má og hver má ekki fara í samkeppni við sig. 

Fólk á að geta krafist þess að geta bara hent fullum ruslapokum ofan í risastóra ruslatunnu við dyrnar hjá sér og síðan beðið eftir ávísun í pósti fyrir að hafa látið verðmætt sorpið frá sér. Einkaaðilar sækja síðan sorpið, flokka það og finna í því verðmæti, t.d. lífrænan úrgang, málma og pappír, sem verður að verðmætri söluafurð án aðkomu skattgreiðenda. 

Enn betra væri að geta bara opnað lúgu inni á heimilinu og látið sorpið detta ofan í stóra trekt sem sýgur sorpið út, svipað því og gildir um skólp. 

Troðfullir gámar sem þarf að keyra illa lyktandi sorpinu að í nýþvegnum bílum eru glatað fyrirkomulag. Hlé á sorphirðu á meðan sorpframleiðsla er hvað mest er líka glatað fyrirkomulag.

Megi hið opinbera hætta sem fyrst að vasast í einhverju sem það ræður ekkert við, fyrir gríðarlegt fé. 


mbl.is Opið í Sorpu á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í aðdraganda jólanna

Senn koma jól. Á þessum árstíma njótum við tímans með fjölskyldu okkar, skiptumst á gjöfum, borðum góðan mat, klæðumst snyrtilegum fötum og njótum afraksturs brauðstritsins. Margir hugsa til þeirra sem eiga um sárt að binda - sjúklinga, íbúa fátækra ríkja, flóttamanna, götufólks og fátæklinga almennt. Við vonum að allir geti átt gleðileg jól, sama hvað líður líkamlegri eða andlegri heilsu og fjárhagslegum aðstæðum. 

Þeim sem vegnar ágætlega - sem er hratt stækkandi hluti mannkyns - geta leyft sér að fagna og slappa af. Margir gefa til góðgerðarmála og vona að peningarnir skili sér til þeirra sem á þurfa að halda. Aðrir bjóða fram krafta sína til að þeir sem eiga um sárt að binda geti átt gleðileg jól. 

Ég hugsa oft til þeirra sem búa til erfiðar aðstæður, njóta fárra tækifæra til að bæta aðstæður sínar og til þeirra sem eru njörvaðir fastir við fátækt og hungur vegna ytri aðstæðna. Það er nefnilega oft hægt að rekja ástæður fátæktar og vosbúðar til ytri aðstæðna. Fyrir örfáum áratugum var Asía hið stóra vandamál heimsins, svo dæmi sé tekið. Þar bjuggu hundruðir milljóna við fátækt og hungur og höfðu fá tækifæri til að brjótast úr erfiðum aðstæðum. Síðan breyttust ytri aðstæður. Böndin, sem bundu fólk við fátækt, voru losuð eða skorin. Hundruðir milljóna gátu leitað uppi og nýtt sér tækifæri til að bæta hag sinn. Ófrjáls viðskipti urðu frjálsari. Boð og bönn voru rýmkuð. Fátækt gaf eftir og velmegun tók við.

Í dag er Afríka í vandræðum. Þar geysa stÅ•ið og hungur plagar tugi milljóna. Fólki er haldið niðri af kerfinu, ef svo má segja. Fátæktin er, í stuttu máli, heimatilbúin og henni er haldið við af stjórnmálamönnum með misskilar hugmyndir og hugsjónir.

Á jólunum hugsa margir til skemmri tíma og óska þess að næg aðstoð sé í boði til að fleyta fólki í gegnum árstímann og veitt skammvinna vellíðan. Til lengri tíma eigum við að hugsa um það hvernig allir geti átt gleðileg jól án aðstoðar ókunnugs fólks. Hvernig geta sem flestir notið jólanna á grundvelli eigin vinnu og verðmætasköpunar, í friðsælu umhverfi og við góða heilsu?

Gefum heiminum kapítalisma í jólagjöf og þannig heimsbyggðinni sem gleðilegust jól, ekki bara hér og nú yfir stuttan árstíma, heldur til lengri tíma, og alltaf. 


Ríkisvaldið sem fyrirstaða

Það er gott að einhverjir séu að hugleiða breytt hlutverk opinberra sjóða eða breytta aðkomu ríkisvaldsins að einhverju. Því miður virðist slík umræða samt alltaf leiða til þess að meira skattfé eigi að eyða í eitthvað. Sjóðum skal fjölga og það hugsað upp á nýtt hvernig ríkisvaldið velur í vinningslið og hverjir tapa í kapphlaupinu við skattfé annarra.

Það væri óskandi að fleiri gerðu sér grein fyrir að ríkisvaldið er fyrst og fremst fyrirstaða þegar kemur að nýsköpun. Í fyrsta lagi skattleggur það allt og alla sem kostar sitt og kæfi margar hugmyndir í fæðingu. Í öðru lagi þarf að sækja um leyfi fyrir nánast hverju sem er, sem er dýrt og kæfir marga hugmynd í fæðingu. Menn þurfa líka að passa sig á að skila ekki hagnaði strax og þegar sprotafyrirtækið er á viðkvæmu vaxtarferli því þá eykst skattheimtan enn. Ekki er samt betra að skila tapi og safna dýrum skuldum í rýrnandi gjaldmiðli á himinháum vöxtum sem bankarnir krefjast til að fjármagna sín eigin útgjöld til ríkisvaldsins. 

Nú fyrir utan að opinberir styrkir eru letjandi - þeir eru fé sem rignir af himnum ofan fyrir hina heppnu móttakendur.

Ef ríkisvaldið vill að einkafyrirtæki eyði meira fé í nýsköpun þá ætti það að hætta að skattleggja þau. Ef ríkisvaldið vill að einstaklingar stofni sprotafyrirtæki og stundi nýsköpun þá á það að slaka á taumnum og fjárþorsta sínum og einfalda leiðarkerfið í gegnum reglugerðarfrumskóginn. Ef ríkið vill laða fjárfesta að markaði nýsköpunar þá þarf það bara að lækka skatta almennt og koma sér úr veginum og gefa þannig þau skilaboð að nýsköpun sé einkamál hvers og eins sem ekki sé hægt að gera ráð fyrir að skattgreiðendur fjármagni. 

Tækniþróunarsjóð á að leggja niður, skattfé hans á að skila til skattgreiðenda í formi lægri skatta og opinberar hindranir á nýsköpun á að afnema. Þannig nást öll þau markmið um nýsköpun sem menn láta sig dreyma um og gott betur. 


mbl.is Rétt að endurskoða Tækniþróunarsjóð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki í lagi, eða hvað?

Úr frétt:

Stjórnvöld í Danmörku hafa verið ófeimin við að auglýsa þá staðreynd að flóttamenn eru minna en velkomnir en nú hafa þau til skoðunar nýtt frumvarp sem veitir yfirvöldum heimild til að leggja hald á verðmæti sem flóttamenn kunna að hafa í fórum sínum við komuna til landsins. 

Nú má deila um það hvort þessi aðgerð stafi af því að flóttamenn séu "minna en velkomnir" en látum það liggja á milli hluta. 

Það er ekki í lagi að leita á fólki og hirða af því verðmæti til að mæta hugsanlegum kostnaði vegna komu þess. Þannig virka raunar skattar: Maður er féflettur í hverjum mánuði því maður gæti lent á ríkisreknu sjúkrahúsi, gæti notað vegakerfi hins opinbera og gæti þurft að senda krakka í skóla sem nýtur opinberra styrkja. 

Það sem væri í lagi væri að gera flóttamönnum og öðrum sem koma til landsins (líka íslenskum námsmönnum og öryrkjum sem fylla alla spjallþræði með spurningum um bætur og opinbera aðstoð) það ljóst að viðkomandi sé hugsanlega að fara nýta sér fé annarra í eigin þágu og að fyrir það þurfi að greiða (jafnvel fullt verð). Flóttamenn, námsmenn og aðrir fengju þá skriflegan samning í hendurnar sem segði eitthvað á þessa leið:

Fyrir þá þjónustu, varning eða húsnæði sem þú hyggst nýta þér á kostnað annarra verður innheimt og kostnaðurinn greiddur aftur til þeirra sem lögðu út. Fari það hins vegar svo að þú finnir vinnu þá greiðir þú bara af henni skatta eins og aðrir og færð sama rétt og aðrir til að nýta þér þá þjónustu sem skattarnr fjármagna fyrir almenna launamenn. Við gerum engar kröfur um að þú lærir eitthvað tungumál eða skiptir um trú á meðan þú fylgir landslögum og þessu samkomulagi. 

Þetta gæti náð markmiðum um að takmarka ásókn í skattfé annarra en um leið hvatt þá sem til landsins koma til að standa á eigin fótum eins fljótt og hægt er. 

Annars er það ekki mitt að segja hvað dönsk yfirvöld gera og gera ekki. Ég greiði skatta í þessu landi en get ekki kosið til þingsins. Ríkisvaldið getur gert hvað sem því sýnist enda nýtur það gríðarlegs stuðnings sem fyrirbæri. Best væri að losna við það og gera flutning á milli landa að einkamáli hvers og eins í samstarfi við aðra einstaklinga og fyrirtæki. Ölmusi héti þá ölmusi á meðan laun væru laun í stað þessa blandaða kerfis af útborguðum launum annars vegar og hins vegar sköttum sem ríkisvaldið getur gert hvað sem það vill við. 


mbl.is Vilja leggja hald á verðmæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

" ... í samræmi við óskir yfirstjórnar sjúkrahússins"

Einnig vilji minni­hlut­inn tryggja Land­spít­al­an­um full­nægj­andi fjár­magn í sam­ræmi við ósk­ir yf­ir­stjórn­ar sjúkra­húss­ins.

Þetta er athyglisverð ósk. Hún segir svo margt um það hugarástand sem ríkir í kringum ríkisreksturinn. Þar eru bara ákveðnar "þarfir" sem eru fyrirfram þekktar og þarf einfaldlega bara að uppfylla með fé úr vösum skattgreiðenda. Annars verður hallarekstur eða deildum er lokað. Svona líka einfalt.

Úti í raunveruleikanum - þar sem einkaaðilar starfa - lítur málið öðruvísi við. Þar eru vissulega ákveðnar þarfir og óskir allra eru að nægt fé fáist með sölu á varning og þjónustu til að fjármagna þær. En viti menn, það er ekkert víst! Hvað gerist þá? Er deildum lokað og þjónustan skorin niður auk þess sem verðið er hækkað? Nei. Þvert á móti þarf fyrirtækið núna að leggja enn meira á sig fyrir minna fé og jafnvel færra starfsfólk til að krækja í aukin viðskipti. Allra leiða er leitað til að spara án þess að það bitni á þjónustunni eða flæmi viðskiptavinina í hendur samkeppnisaðila. Starfsfólki er kennt nýjar leiðir til að nýta tæki og tól og eigin tíma. Yfirmönnum er sagt að finna leiðir til sparnaðar og fjarlægja allan óþarfa. 

Á sama tíma þarf að heilla viðskiptavinina og bjóða betur en sá næsti svo tekjurnar aukist.

Þarfir og óskir stjórnenda eru vissulega til staðar en þeir geta ekki bara rétt út höndina og ætlast til þess að einhver leggi fé í þær. 

Ríkisreksturinn kemst upp með að gera minna og minna fyrir meira og meira fé, út í hið óendanlega. 

Ríkisvaldið á ekki að reka sjúkrahús frekar en önnur fyrirtæki eða stofnanir. Það er eins og að rétta unglingi bíllyklana og vodkapela og óska honum góðrar skemmtunar. 


mbl.is „Menn eru í algjörri sjálfheldu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarflokkarnir geta lært af stjórnarandstöðunni

Stjórnarandstaðan heldur nú ræðustól Alþingis í gíslingu til að knýja á um enn meiri ríkisútgjöld til helstu kjósendahópa sinna. Það er í sjálfu sér skiljanlegt. Stjórnarandstöðuliðar halda, ranglega, að nú sé runnin upp ný gósentíð og að gjafaregnið geti nú hafist að nýju eftir langt hlé.

Stjórnarflokkarnir gætu lært margt af stjórnarandstöðunni. Þegar stjórnarflokkarnir voru í stjórnarandstöðu létu þér ríkisstjórnina komast upp með að kollvarpa skattkerfinu og innleiða óteljandi lög sem enn þann dag í dag valda miklu skaða í íslensku samfélagi. Þetta létu þeir viðgangast nánast án andspyrnu.

Það man enginn eftir stjórnarandstöðu sem máli skiptir frá seinasta kjörtímabili. Hins vegar muna allir eftir gæluverkefnum Jóhönnu og Steingríms: ESB, hærri skattar, meira eftirlit (t.d. með fjölmiðlum), aðförin að stjórnarskránni, Vaðlaheiðargöng, útþensla hins opinbera, eyðilegging heilbrigðiskerfisins, einkavæðingar bankanna bak við lokaðar dyr, björgun gjaldþrota banka, Icesave-málin, spunagreinarnar, tíð ráðherraskipti, sundrung á stjórnarheimilinu og sitthvað fleira. 

Þeim í þáverandi stjórnarandstöðu hefði verið nær að spýta í lófana og berjast eins og villidýr en gerðu það ekki.

Nú segi ég ekki að það eigi að taka tillit til allra kröfugerða stjórnarandstöðu sem sættir sig ekki við að vera það - stjórnarandstaða. Það á að taka slaginn við hana. Ef ríkisstjórnin er með hugsjónir og trúir á þær þá á hún að berjast. Í raun ætti hún að gera gott betur en það og túlka óskir stjórnarandstöðunnar sem góðar hugmyndir um hvað á ekki að gera.

En ríkisstjórnarflokkarnir geta engu að síður lært mikið af stjórnarandstöðunni hér. Þannig er það. 


mbl.is Ekki samkomulag um afgreiðslu mála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisrekstur er bjarnargreiði

Að byggja mikinn ríkisrekstur ofan á samfélag til þess að hjálpa fólki og stuðla að einhverju jákvæðu er eins og að veita einhverjum bjarnargreiða. Ríkisreksturinn hleður fljótlega svo miklum álögum og þyngslum ofan á samfélagið að það hrynur undan þunganum. 

Tökum dæmi: Ríkisvaldið ákveður að það muni nú sjá öllum sjóndöprum fyrir viðeigandi sjóntækjum og þjóðnýtir á einu bretti allar gleraugnabúðir, augnlæknastofur og aðra aðila sem stunda sjónleiðréttingar. Í staðinn er öllum sjóndöprum lofað viðeigandi sjóntækjum - linsur fyrir íþróttafólk, gleraugu fyrir skrifstofufólk og svo framvegis. Enginn muni lengur þurfa að greiða fyrir slíkt úr eigin vasa - allt verði nú fjármagnað með skattfé.

Frábært, ekki satt? Nú sitja sjóndaprir við sama borð og hjartveikir, slasaðir og pestarsjúkir! Nú verða ekki sumir vel settir með bestu fáanlegu gleraugun á meðan aðrir þurfa að láta sér nægja þykka flöskubotna úr Kolaportinu.

En hvað gerist í leiðinni?

Í stað ötulla starfsmanna einkafyrirtækja í leit að mestum fáanlegum viðskiptum í viðleitni til að skila hagnaði eru nú komnir daufir opinberir starfsmenn sem fá sín laun sama hvað, og geta jafnvel búist við að fá meiri laun ef þeir standa sig illa eða sóa miklu fé (bera þá við fjárskorti og fara í verkfall).

Í stað einkaaðila í eilífri samkeppni í að útvega bestu lausnir á sem hagstæðustu kjörum tekur við þunglamalegt kerfi sem þarf að raða fólki í biðraðir, rýra gæði varnings og þjónustu til að fara ekki fram úr fyrirframaákveðnum fjárframlögum og innleiðir flókið kerfi af beiðnum og biðlistum.

Í stað þess að efnaðir einstaklinga geti sett mikið fé í nýjustu tækni og þannig stuðlað að þróun hennar sem síðar leiðir til þess að hún lækkar í verði eru allir settir undir sama hatt. Þannig er stuðlað að því að úrelt tækni verði sú eina í boði. Að vísu munu þá hinir öfundsjúku sofa betur, vitandi að allir hafi það jafnskítt, en til lengri tíma bitnar þetta illa á öllum, en þó verst á þeim sem þurfa nýrri tækni til að hafa bærilega sjón.

Ríkisvaldið er eins og krabbameinsfruma sem á að ráðast á aðrar illkynja frumur á líkamanum en endar á því að breiða sig út til heilbrigðu líkamshlutanna og drepa þá líka.

Að óska sér meiri ríkisreksturs í nafni háfleygra hugsjóna er bjarnargreiði. Ég segi nei takk. 

 


mbl.is Vantalið um tugi milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband