Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Það finnast jákvæðir punktar í þessu öllu

Þótt illa unnið, hraðsuðumeðhöndlað og svo gott sem órætt og ólesið frumvarp sé nú orðið að lögum (eða verður það bráðum), þá er alveg hægt að finna jákvæða punkta í samþykkt þess.

  • Lögreglan getur byrjað að stunda löggæslu í stað þess að passa upp á skemmdarvarga sem kalla sig "mótmælendur".
  • Sprengjur hætta vonandi og væntanlega að springa í þeirri götu sem Davíð Oddsson býr í.
  • Ríkisstjórnin missir seinasta blóraböggulinn sinn og mun því sitja ein eftir sem ábyrg fyrir klúðrinu sem hún mun nú kalla yfir landsmenn (einhver óræð og óskilgreind "efnahagsstefna" sem hékk víst á samþykkst frumvarpsins, án þess að það hafi verið útskýrt).
  • Nú verður skipuð bankastjórn til bráðabirgða, og síðan enn önnur þegar umsækjendur enn óauglýstra stöðugilda verða ráðnir. Atvinnuskapandi svo ekki sé meira sagt.
  • Skipt verður um nafn í persónuárásum ríkisstjórnarinnar. Davíð fær þá frið, og nú er bara að vona að næsta skotmark hafi líka bein í nefinu og taki ekki þvætting of nærri sér.

Jákvæðni ræður nú ríkjum hjá mér. Það má nú segja.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins ættu að nýta tímann núna og halla sér aftur í sætum sínum og endurtaka við fjölmiðla reglulega að þeir séu í minnihluta og séu því ekki ábyrgir fyrir hækkandi sköttum, auknum ríkisútgjöldum, útvíkkun hins opinbera, hægum dauða einkaframtaksins, og svona má lengi telja.

Þeir ættu svo í leiðinni að endurskoða afstöðu sína til ríkisrekinnar einokunarútgáfu á peningum.

Obamanomics says to Iceland: Here I come!


mbl.is Seðlabankafrumvarpið samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna 'rök'ræðir við sjálfa sig

Úr Vefþjóðvilja gærdagsins (feitletrun mín):

Talað var við Jóhönnu Sigurðardóttur á forsíðu Fréttablaðsins í dag og þar útskýrði hún af hverju það er alveg svakalega hræðilegt að seðlabankastjórafrumvarp Samfylkingar og Vinstrigrænna, sem þeir telja sig hafa heimtingu á að framsóknarmenn stimpli, tefjist um tvo daga:

Við erum að fá hingað til lands fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, væntanlega á fimmtudaginn. Það verður að vera komin festa í starf bankans til að fulltrúar AGS geti rætt við bankastjóra sem ekki eru á förum úr bankanum, samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Endurnýjun þar er nauðsynleg til að endurreisa trúverðugleika Seðlabankans innanlands og utan,

Já, þeir mega ekki hitta seðlabankastjóra sem eru á förum úr bankanum sko, segir Jóhanna Sigurðardóttir við landsmenn. En svo vill nú til að í hennar eigin lífsnauðsynlega frumvarpi stendur orðrétt:

Við gildistöku laga þessara er bankastjórn Seðlabanka Íslands lögð niður og þar með embætti þriggja bankastjóra sem sæti eiga í stjórninni, þ.m.t. embætti formanns bankastjórnar. Forsætisráðherra skal svo fljótt sem við verður komið auglýsa nýtt embætti seðlabankastjóra og nýtt embætti aðstoðarseðlabankastjóra laus til umsóknar samkvæmt ákvæðum laga þessara.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 23. gr. laganna skal forsætisráðherra við gildistöku laga þessara setja tímabundið menn sem uppfylla skilyrði laga þessara í embætti seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra. Um þessa tímabundnu setningu gilda ekki ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. eða 1. mgr. 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Settur seðlabankastjóri og settur aðstoðarseðlabankastjóri skulu gegna embætti þar til skipað hefur verið í stöðurnar á grundvelli auglýsinga samkvæmt ákvæðum laganna.

Af hverju 'forsenda'?

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra (og flugfreyja - nú til dags er víst "inn" að taka fram menntun ráðherra), segir að samþykkt á hraðsuðufrumvarpi um aukið hreðjatak ríkisins á Seðlabanka Íslands sé "forsenda" efnahagsaðgerða núverandi ríkisstjórnar.

Þetta útskýrir hún ekki, en ég sé nokkrar mögulegar túlkanir á orðum hennar (sem ég ber hér með undir lesendur þessarar færslur):

  • Seðlabanka verði gert að lækka vexti umtalsvert: Þetta mundi gera lántökur ódýrari, þ.á.m. lántökur bankanna í nýprentuðum peningum (hvað heitir það nú aftur? Skuldabréf?). Keynes-hagfræðin segir að fjöldaframleiðsla á peningum komi "hjólum hagkerfisins" aftur af stað. Jóhanna virðist hafa lesið um Keynes samhliða flugfreyjunámi sínu og ætti því að þekkja vel til.
  • Seðlabanka verði gert að skipta um stjórnendur sínar samkvæmt forskrift Jóhönnu: Jóhanna vill að bankastjórar séu tilnefndir, af henni, "faglega", samkvæmt meðmælum þeirra sem nú þegar stjórna Seðlabanka Íslands (eða starfssystkinum þeirra). Ætli hún taki Ingu-sollu á þetta og ráði vinkonur sínar í allar lausar stöður sem þá myndast?
  • Jóhanna ætlar sér að nota allskyns frumvörp eins og þetta til að slá á frest nauðsynlegum og mjög sársaukafullum niðurskurði í rekstri hins opinbera (sem hún kryddar sennilega með hressilegum skattahækkunum): Að mínu mati mjög líkleg ástæða þess að Jóhanna einblínir á skipurit einnar ríkisstofnunar af ótalmörgum, þar sem fyrir tilviljun situr fyrrverandi forsætisráðherra hinna hræðilegu Sjálfstæðismanna. Eða hvers vegna ekki að stokka upp Fjármálaeftirlitið? Nú eða Samkeppnisstofnun? Ekki vantar íslenskar ríkisstofnanir sem hafa engu minni völd til afskipta af viðskiptalífinu en Seðlabanki Íslands (sem er meira að segja tiltölulega vanmáttugur, sérstaklega nú þegar IMF hefur verið boðið í heimsókn þangað).

Sennilega hafa trúfastir stuðningsmenn Samfylkingar (t.d. þeir sem kjósa allt nema Sjálfstæðisflokkinn, sama hvað er í boði) einhverjar aðrar og betri útskýringar á því hvers vegna lagafrumvörp á nú að samþykkja innan ákveðinna, mjög þröngra tímamarka, og að engin umfjöllun, skýrsla, ígrundun eða nánari skoðun má seinka. Ég hlakka til að heyra þær, en held mig við mínar tilgátur í bili.

Annars verð ég nú að vera góður þegn og segja eitthvað slæmt um Sjálfstæðisflokkinn líka. Þar á bæ láðist að einkavæða bankana að fullu. Þeir voru seldir en samtímis var þeim og viðskiptavinum þeirra talið í trú um að ríkið gæti og ætlaði sér að ábyrgjast skuldbindingar þeirra þegar bólusprengjan óumflýjanlega færi af stað. Skamm, Sjálfstæðismenn, að hafa ekki lagt Keynes og Marx á hilluna fyrir löngu!


mbl.is Framsókn skekur ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað segja 'raddir fólksins' þá?

Hin nýja hraðsuðuaðferð Alþingis - að setja fram og keyra í gegn frumvörp á örfáum dögum, löngu fyrir frí þingmanna - virðist virka vel. Jóhanna ætlar sér að "ná" að reka Davíð Oddsson og hendir heilu lagabálkunum, að ekki sé minnst á margumrætt "sjálfstæði Seðlabanka Íslands", út um gluggann á mettíma. Verði henni að góðu. Til þess er fulltrúalýðræðið - meirihlutinn (á Alþingi) ræður.

Það gæti samt verið góð hugmynd að setja spurningamerki eða tvö við hina nýja hraðsuðumeðferð. Oft hefur verið talað um að lagabreytingar fái ekki "málefnalega umræðu" eða að almenningur hafi ekki náð að "mynda sér skoðun". Nú er ekkert slíkt rætt. Gott og vel. Til þess er fulltrúalýðræðið - meirihlutinn (á Alþingi) ræður. Það skyldi nú samt ekki vera að þeir þingmenn sem núna mynda stjórn hafi gleymt fyrri orðum? 

En gott og vel. Til þess er fulltrúalýðræðið - meirihlutinn (á Alþingi) ræður.


mbl.is Stefnt að lokaumræðu á mánudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnusköpun eða auðseyðilegging

Sú hagfræði er vinsæl sem telur að eyðsla eyðslunnar vegna sé góð fyrir hagkerfið. Þetta er vond hagfræði, byggð meðal annars á ofurtrausti á gallaðri hagfræðibreytu - GDP.

Eins og segir á einum stað (og gæti alveg eins átt við um tónlistarhúsageðveiki Katrínar Jakobsdóttur):

"For instance, if a government embarks on the building of a pyramid, which adds absolutely nothing to the well-being of individuals, the GDP framework will regard this as economic growth. In reality, however, the building of the pyramid will divert real funding from wealth-generating activities, thereby stifling the production of wealth. "

Nánar hér.

Katrín, þú ert á villigötum. 


mbl.is Tónlistarhúsið verði klárað árið 2011
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirborðskennd lýsing

Jón Daníelsson og Gylfi Zoega hafa sjálfsagt rétt fyrir sér þegar þeir með yfirborðskenndum ræða um hinn svokallaða vítahring hárra vaxta, mikillar skuldsetningar almennings og innflæðis erlends gjaldeyris til Íslands. Yfirborðskennd er lýsingin samt.

Spurningin sem enginn spyr sig að er sú: Hvað veldur því að kaupmáttur peningaeiningar (t.d. íslensku krónunnar) minnkar? 

Svarið er: Aukning á magni hennar í umferð.

Seðlabanki Íslands, samkvæmt lögum, gaf út íslenskar krónur í stórum stíl í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri (tæknilega hvernig það gerist er önnur og flóknari saga, sem ég treysti mér ekki til að endursegja).

"Verðbólga" er ekki hækkun verðlags, heldur minnkandi kaupmáttur peningaeininga vegna aukins magns á henni í umferð. Þessu gleyma flestir hagfræðingar (jafnvel viljandi), og almenningur þá sérstaklega.

Hvernig á að stöðva verðbólgu? Svarið er einfalt: Með því að stöðva aukningu á magni peningaeiningar í umferð. Hinn frjálsi markaður hefur leyst þetta með því að binda peningaeiningar við eitthvað sem verður ekki fjöldaframleitt jafnauðveldlega og pappírsmiðar með myndum af Jóni Sigurðssyni, til dæmis gull eða silfur. 

Ef  yfirvöld vilja stöðva verðbólgu þá er þeim í lófa lagt að skilgreina allar íslenskar krónur í umferð sem ákveðið hlutfall af t.d. gullbirgðum Seðlabanka Íslands. Þetta fjarlægir hins vegar stórt peningaöflunartæki úr höndum hins opinbera, sem á Íslandi þýðir lántökur í erlendum gjaldmiðlum sem umbreytast yfir í íslenskar krónur til að eyða í hin ýmsu verkefni ríkisvaldsins.

Verðbólgan er pólitískt meðvitað tekjuöflunartæki hins opinbera. Jón Daníelsson og Gylfi Zoega mættu huga að því ef þeir ákveða að setja saman aðra skýrslu.


mbl.is Vítahringur í peningamálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband