Hvað segja 'raddir fólksins' þá?

Hin nýja hraðsuðuaðferð Alþingis - að setja fram og keyra í gegn frumvörp á örfáum dögum, löngu fyrir frí þingmanna - virðist virka vel. Jóhanna ætlar sér að "ná" að reka Davíð Oddsson og hendir heilu lagabálkunum, að ekki sé minnst á margumrætt "sjálfstæði Seðlabanka Íslands", út um gluggann á mettíma. Verði henni að góðu. Til þess er fulltrúalýðræðið - meirihlutinn (á Alþingi) ræður.

Það gæti samt verið góð hugmynd að setja spurningamerki eða tvö við hina nýja hraðsuðumeðferð. Oft hefur verið talað um að lagabreytingar fái ekki "málefnalega umræðu" eða að almenningur hafi ekki náð að "mynda sér skoðun". Nú er ekkert slíkt rætt. Gott og vel. Til þess er fulltrúalýðræðið - meirihlutinn (á Alþingi) ræður. Það skyldi nú samt ekki vera að þeir þingmenn sem núna mynda stjórn hafi gleymt fyrri orðum? 

En gott og vel. Til þess er fulltrúalýðræðið - meirihlutinn (á Alþingi) ræður.


mbl.is Stefnt að lokaumræðu á mánudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Jón

Er þetta ekki það sem þessi stjórn kom saman til að gera? Eitt aðal stefnumálið (leynt og ljóst) var að hreinsa út úr Seðló, og nú nöldraðu yfir að það sé að gerast of hratt. 

Í skoðanakönnun (sem var öruggleg keypt af "röngum aðilum") var 90% almennings búinn að mynda sér skoðun "með frumvarpinu" (þ.e. burt með DO). Þarf það að vera eitthvað skýrara?
Auk þess hefur lítið málefnalegt verið við umræðuna um bankann síðustu mánuði, svo ég sé ekki hvað græðist á að tefja þetta, nema bara til að tefja. Veistu um einhver atriði sem þarf að ræða frekar?

Auk þess sé ég ekki hvernig það skaðar sjálfstæði seðlabankans að henda út pólitískt skipuðum stjóra fyrir faglega ráðinn. Nema þú meinir sjálfstæði í merkingunni "undir stjórn sjálfstæðisflokksins". Ertu til í að útlista það?

Einar Jón, 21.2.2009 kl. 09:23

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Skoðanakannana-hraðsuðuaðferðin er jú sennilega "aðal stefnumálið". Allt fyrra fjas um "málefnalega umræðu" og "vandaðan málflutning" út um gluggann. Gott og vel. Meirihluti Alþingismanna ræður.

Forsætisráðherra verða nú færð miklu meiri völd til að skipa bankastjóra en áður. 

Geir Ágústsson, 21.2.2009 kl. 17:50

3 Smámynd: Einar Jón

Ég las í gær að bankastjóri og stjórn væru skipuð af forsætisráðherra, svo sá partur er víst réttur hjá þér. Ég hafði vonast eftir faglegu ráðningarferli, en ef staðan er auglýst og forsætisráðherra skipar í samráði við ráðningarnefnd eins og gert er með dómara (fyrir utan Davíðsson-klúðrið) er þetta nú ásættanlegt.

Að öðru leyti myndi ég nánast kalla þetta þjóðþrifaverk (og það sem "Raddir fólksins" hafa verið að kalla eftir svo þær myndu líklega ekki kvarta þó hestur væri ráðinn í staðinn).

En ef menn hafa engu málefnalegu að bæta við umræðuna (eins og sjálfstæðismenn virðast varla geta gert núna), hvernig í ósköpunum geta þeir þá kvartað yfir því að málefnalega umræðu vanti?

Það er vissulega engin ástæða til að kasta til höndum við gerð frumvarpsins, en ef þú getur ekki bent á neina galla sem þessi flýtimeðferð veldur liggur beinast við að afskrifa þetta sem nöldur og biturleika vegna þess að ákveðinn flokkur tilheyrir ekki lengur meirihlutanum sem ræður.

Merkilegt að nú er allt í einu ómögulegt að meirihlutinn fái bara að ráða öllu sem hann vill, fyrst það heyrðist ekki múkk um það í 17 ár.

Einar Jón, 22.2.2009 kl. 11:29

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Einar,

Þetta var athyglisvert lögmál sem þú fannst upp þarna;

"Ef hægt er að keyra máli svo hratt í gegn að engir gallar sjáist í fljóti bragði, þá er lagafrumvarp álitið samþykkt og útrætt."

Meirihluti þingmanna ræður, því mótmælir enginn (í dag). Góð vinnubrögð gera það hins vegar ekki, en það áttu erfitt með að sjá því ákveðinn flokkur tilheyrir sannarlega meirihlutanum sem ræður núna.

Geir Ágústsson, 22.2.2009 kl. 11:51

5 Smámynd: Einar Jón

Er þetta lögmál ekki mikið notað á árum áður, með eftirlaunafrumvarpið og fjölmiðlafrumvarpið? Varla fann ég þau upp líka...

Ég ætla ekki að reyna að halda fram þessu lögmáli, en þetta eru nú engin geimvísindi, eins og maðurinn sagði. Fyrst þarf að stoppa blæðinguna - svo má athuga hvort snarvöndullinn sé 100% sótthreinsaður.

Það þarf að ná stjórn á seðlabankanum sem allra fyrst (þ.e. losna við karlugluna sem 2 síðustu forsætisráðherrar hafa beðið að hætta), og "nauðsyn brýtur lög", ef svo má að orði komast. Markmiðið er skýrt. Það mætti auðvitað henda þessu á milli nefnda í nokkra mánuði til að sníða af alla vankanta, en við höfum ekki tíma til þess.

Betri eru vond lög með góðan tilgang (sem mætti laga síðar, ef þess þarf) en góð lög sem koma ári of seint. Það er nefnilega hægt að breyta lögum eftir á.

Einar Jón, 22.2.2009 kl. 13:05

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Gott og vel. Hver ríkisstjórn hefur sinn forgangslista og vegur og metur í krafti þingsstyrks síns og hollustu þingmanna hvað á að keyra í gegn á leifturhraða (þar sem "faglegri umsögn" er sópað undir teppið), eða hvað þarf að ræða til dauða.

Spurningin sem fáir spurja og enn færri svara:

Hvað hefst upp úr því að skipta um framkvæmdarstjóra sömu gölluðu hagfræðinnar og þeirri sem Seðlabanki Íslands, núgildandi og verðandi lögum samkvæmt, á að framfylgja?

Það er samt efni í annan pistil.

Geir Ágústsson, 22.2.2009 kl. 19:37

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Jóhanna mætti vera duglegri að lesa eigið blogg. Svo mikið er víst.

Geir Ágústsson, 22.2.2009 kl. 19:45

8 Smámynd: Einar Jón

Loksins eitthvað af viti í stað þess að segja bara "4 fætur góðir, hraði vondur". Þetta er meira að segja merkilega málefnalegt hjá Andríki.

Annars finnst mér hjákálegt að benda á orð fólks frá því fyrir kreppuna (m.a.s. fyrir "góðærið"), og láta sem það séu skoðanir þess í dag.

Einar Jón, 23.2.2009 kl. 03:58

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Af hverju datt mér í hug orðið "vindhani" eftir lestur seinustu athugasemdar?

Geir Ágústsson, 24.2.2009 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband