Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Hvað liggur á?

Þegar ríkisstjórnin tók við völdum, þá var hennar fyrsta verk að eyða öllu púðrinu í að reka Davíð Oddsson. Þetta átti að "auka traust" á hinum íslenska seðlabanka, og liðka fyrir lántökum og fleiru. Ekki rættist það.

Næsta verk var að eyða púðri í að kreista umsóknaraðild að ESB út úr Alþingi. Slík umsókn átti að "auka traust" á endurreisn hins íslenska hagkerfis, og liðka fyrir lántökum og fleiru. Ekki rættist það.

Í sumar var mikið kapp lagt á að fá Alþingi til að samþykkja einhvers konar Icesave-frumvarp. Fyrirvarar voru smíðaðir og frumvarp samþykkt. Þetta átti að mýkja reiða Breta og Hollendinga, og liðka fyrir lántökum og fleiru. Ekki rættist það.

Nú er sagt að Icesave-frumvarp verði að samþykkja, fyrirvaralaust, sem allra fyrst, því annars sé of miklu púðri í það eytt, og það hægi á endurreisn hagkerfisins. Hversu oft á að hrópa "úlfur, úlfur!" þar til við hættum að nenna að hlusta á forystumenn ríkisstjórnarinnar?

Núverandi ríkisstjórn er viljandi að hægja á endurreisn hagkerfisins með gjaldeyrishöftum og skattahækkunum. Að samþykkja með öllu allar kröfur Breta og Hollendinga, fyrirvaralaust, verður bara til þess að hægja enn frekar á efnahagsbata á Íslandi.

Icesave-frumvarpið niður í skúffu takk, og Alþingi í framlengt áramótafrí, sem fyrst. Þannig gerir ríkisstjórnin sem minnstan skaða.


mbl.is Þingfundi frestað til 13:30
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin er hætt að hlusta

Forsætis- og fjármálaráðherra hafa fyrir löngu ákveðið að hætta að hlusta þegar kemur að Icesave-málinu. Pólitísk ákvörðun var tekin strax í byrjun árs um að kokgleypa hvað sem er sem skuldbindur íslenska skattgreiðendur til að taka á sig innistæðutryggingar vegna Icesave. Síðan þá hafa lögfræðingar, hagfræðingar og fleiri bent á ótal nýjar hliðar málsins. Síðan þá hafa eftirlitstofnanir tjáð sig um ýmis deilumál í kringum hrun íslenska bankakerfisins. Síðan þá hafa stoðir allra lagalegra raka gegn samþykkt Icesave-frumvarpsins styrkst, á kostnað annarra.

Allt ber að sama brunni: Skuldbindingar vegna Icesave eru ekki íslenskra skattgreiðenda.

En ríkisstjórnin er hætt að hlusta á lagaleg rök eða annað sem hald er í.  Samfylkingarmaður segir:

 "Það er morgunljóst að ef ekki verður gengið frá Icesave hefur Ísland (við) enga samningsstöðu í aðildarviðræðum um Evrópusambands aðild, sem er landi og þjóð lífsnauðsynlegt."

Icesave-málið er knúið áfram af pólitískum ástæðum, en ekki lagalegum eða öðru sem stendur á blaði.


mbl.is Önnur tillaga um þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Iceslave.is gegn Icesave-klafa Samfylkingarinnar

Þó breska og hollenska ríkið telji sér trú um að þau eigi kröfu á íslenska ríkið, þá mun það engin áhrif hafa á íslenska hagsmuni. Alþjóðaviðskipti munu ganga eins og venjulega. Traust Íslands erlendis verður óbreytt. Hvorki Þýskaland né Tékkland hafa beitt hitt ríkið viðskiptaþvingunum þó mál súdeta-Þjóðverjanna hafi verið óuppgerð í hálfa öld.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er búinn að endurskoða efnahagsáætlun Íslands. Lánin frá svokölluðum frændþjóðum eru tekin að streyma í hús. Deilan um Icesave skiptir engu.

Nema hún gæti gert það á einum stað: Það er hugsanlegt að hún spilli fyrir Evrópusambandsumsókn Samfylkingarinnar. Sú er nú ástæðan fyrir því að Samfylkingin og bandingjar hennar, þingmenn Vinstrigrænna, ætla nú að leggja allt að þúsundmilljarða króna skuldbindingu á kynslóðir Íslendinga.

Hér er skýrt ágætlega frá því hvers vegna Samfylkingin vill að Íslendingar kokgleypi þúsund milljarða í skuldir sem koma íslenska ríkinu ekkert við. Og Vinstri-grænir taka þátt til að styggja ekki ríkisstjórnarsamstarfið. Alveg hreint nánast viðurstyggileg aðgerð gegn íslenskum almenningi sem verður vonandi hægt að afturkalla síðar meir, þegar öllu skárri ríkisstjórn er tekin við stjórnartaumunum.

Ég hvet alla til að taka þátt í fjármögnun minnisvarða um þá þingmenn sem kjósa með þessari fásinnu, eða sleppa því að kjósa gegn henni. ICESLAVE.IS er staðurinn.


mbl.is Icesave á Alþingi á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Marklaus populismi

Svandís Svavarsdóttir tilheyrir hópi stjórnmálamanna sem segja það sem vinsælast þykir hverju sinni og beitir ógnum og fagurgala til skiptis en leið og fína fólkið og fjölmiðlarnir eru farnir, þá gleymist hvert orð.

Þetta minnir svolítið á þann hnút sem viðræður um afnám tolla og viðskiptahafta hafa verið í í mörg ár. Allir segjast tilbúnir að skera á böndin og brjóta niður múrana, en eingöngu að því gefnu að allir aðrir geri það. Jú, vissulega eru tollar slæmir fyrir hvert hagkerfi, en á meðan aðrir grýta höfnina sína þá ætla ég líka að gera það. 

Nú er ég mikill stuðningsmaður þess að viðskiptafrelsi sé sem mest, og harður andstæðingur þess að eitthvað sé gert í allri CO2 taugaveikluninni, en ég sé ýmislegt sameiginlegt í "viðræðum" um hvort tveggja.

Af hverju lofar Svandís því ekki að Ísland muni kæfa allan iðnað á Íslandi, einhliða? Veit hún að innst inni sé þessi CO2 taugaveiklun bara nýjasta tískubólan og ekki þess virði að kasta hagkerfi sínu á bálið til að þóknast henni? Og hún sé þess vegna að lofa öllu því sem allir hinir eru að lofa,

að því gefnu að metnaðarfullt alþjóðlegt samkomulag í loftslagsmálum náist.

 Er það ekki kjarni málsins?

Lofaðu því sama og allir hinir (lægri tollar, minna CO2, fleiri peninga til sósíalískra þróunarlanda, osfrv.), en bættu því alltaf við að ekkert verði aðhafst nema "allir hinir" lofi að gera það sama, sem verður auðvitað aldrei raunin því það eru alltaf til smáatriði til að hengja sig á og tryggja þannig að engin samstaða náist.

Hver króna sem uppihald íslenskrar sendinefndar í Köben kostar er sóuð króna.


mbl.is Ísland minnki losun um 30%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örvænting Icesave-stjórnarinnar?

Eftir því sem andstaða Íslendinga við þjóðnýtingu Icesave-skuldbindinganna eykst, þeim mun örvæntingarfyllri verða yfirlýsingar Icesave-stjórnarliða. Nú er vísað í eitthvað bréf sem enginn vill lengur kannast við, og var sent af Bretum fyrir um ári síðan. Er Steingrímur með þessum hætti að reyna réttlæta Icesave-frumvarpið? Er hann að segja ósatt?

Nú þykir mér ljóst að réttarstaða Íslands liggi alveg fyrir fyrir með nýlegum úrskurðum ESA, og "just in case" röksemdin fyrir þjóðnýtingu á Icesave-skuldbindingum því úr sögunni. Nú er vísað í gamalt bréf, sem enginn má sjá, sent af Bretum, þegar önnur ríkisstjórn var við völd, og yfirvöld ekki búin að skrifa undir skuldabréf til kynslóðar eða tveggja. Breytir það einhverju? Hvað með það þótt þáverandi bankamálaráðherra Samfylkingarinnar hafi sagt eitthvað á lokuðum fundi með Bretum fyrir 12 mánuðum síðan? 

Spurningin er svo bara núna hvað Icesave-stjórnarliðar finna upp á næst. Að Bretar séu í svo miklum fjárhagskröggum að við verðum að gefa þeim 1000 milljarða án nokkurar lagakröfu og án óvissu með réttarstöðu Íslands í Icesave-málinu?


mbl.is Segir Breta hafa hótað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave-málið þá úr sögunni?

Eru þetta ekki ánægjulegar fréttir? Mér, sem andstæðingi þess að íslenska ríkið þjóðnýti skuldbindingar vegna Icesave, finnst það allavega, hvað sem "vinir" okkar í Bretlandi og Hollandi tauta og raula.

Er ekki mótsögn í fréttinni? Á einum stað segir að "forgangur sem innstæðum var veittur fær staðist að mati ESA", en á öðrum að ekki sé "fjallað um hugsanlega mismunun milli innlendra og erlendra innstæðueigenda í neinu þessara mála", þá samkvæmt tilkynningu frá Icesave-málsvararáðuneytinu (gjarnan kallað forsætisráðuneytið). Hvort er það? Eða var "forgangurinn" sem ESA er búið að blessa ekki nákvæmlega sá að Íslendingum var forgangsraðað ofar útlendingum?

Ein besta röksemdin sem ég hef heyrt fyrir því að íslenska ríkið þjóðnýti skuldbindingar vegna Icesave  er að sé það ekki gert, þá eigi íslenska ríkið á hættu að fá á sig lögsóknir (erlendra) innistæðueigenda sem hvorki fengu sneið af tryggingarsjóðum innistæða, né hlutdeild í þrotabúum gjaldþrota banka (þar eð allar góður eigurnar voru teknar af þeim með neyðarlögunum og settar til hliðar, í hina "nýju" banka, "out of reach" fyrir þá sem töpuðu innistæðum sínum). Og að þar með þurfi íslenska ríkið að hugsanlega, ef málsókn tapast, að bæta allar innistæður í topp, í stað þess að geta stuðst við lög um ákveðna hámarkstryggingu í Icesave-"viðræðunum" í dag.

Er sú röksemd ekki úr sögunni með úrskurði ESA? Meira að segja áður en þessi úrskurður kom voru lögfræðingar búnir að kalla réttarstöðu Íslendinga "góða". Hvað ætli þeir segi í dag? "Pottþétta"?

Hvað er þá eftir í vopnabúri þeirra sem ólmir vilja pakka Íslendingum inn í 1000 milljarða skuld í erlendum gjaldeyri? Þóknun við Breta og Hollenda svo blautur innilimunardraumur Samfylkingar geti ræst, svo Jóhanna Sig. og Steingrímur J. geti fengið þægilegan stól á Evrópuþinginu, og ríflegan lífeyri að því loknu?


mbl.is Sjö úrskurðir Íslandi í hag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innantómt fjas, sem betur fer

Þá fór eins og marga grunaði og aðrir vissu: Ráðstefna fína fólksins í Kaupmannahöfn ætlar að enda á samþykkt innantómrar yfirlýsingar sem þjóðhöfðingjar víða um heim munu einfaldlega stinga ofan í skúffu. Sem betur fer.

Það vita það e.t.v. ekki allir en markmið ráðstefnunnar var að koma á fót eins konar alheimsríkisvaldi með sjálfstæða skattstofna. Svo sannarlega skelfileg tilhugsun. 

Sem betur fer er partý fína fólksins senn á enda. Annað kvöld leggja mótmælendur borgina í rúst, lögreglan handtekur, skattgreiðendur borga fyrir smá þrif, og svo getur vonandi venjulegt fólkið haldið áfram að vinna að auðsköpun og bætingu lífskjara, í stað baráttu við saklaust mólikúl sem er undirstaða alls lífs á Jörðinni, bæði beint og óbeint.


mbl.is Engar tölur í nýju uppkasti í Kaupmannahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óli grís svíkur ekki vini sína

Ef það er eitthvað sem Ólafur Ragnar Grímsson sem forseti hefur sýnt og sannað, þá er það að hann svíkur ekki vini sína. Það getur vel verið að Jón Ásgeir sé ekki lengur vinur forsetans en sáÓlafur Ragnar Grímsson og Jón Ásgeir Jóhannesson á meðan allt lék í lyndi fékk nú aldeilis að nýta Bessastaðinu á sínum tíma, meira að segja til að hrinda löggjöf frá sjálfu Alþingi.

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. þurfa ekki að óttast andstöðu frá Bessastöðum, sama hvað 30.000 Íslendingar tauta og raula. Og skiptir þá engu máli hvað undirskriftirnar verða margar. Lögin verða samþykkt ef og þegar Ólafur fær þau inn á sitt borð.


mbl.is Hversu margar undirskriftir duga til?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave-frumvarp þá væntanlega óþarfi

Ef Kristinn H. Gunnarsson túlkar úrskurð ESA rétt, og segir rétt frá innihaldi hans, þá hlýtur Alþingi að geta stungið Icesave-frumvarpi sínu í skúffu og leyft lögum um tryggingar innistæða ganga sinn gang, ekki satt?

Engin ástæða til taka pólitíska ákvörðun um að þjóðnýta Icesave-innistæður. Engin ástæða til að gera eitthvað sérstakt "samkomulag" við Breta og Hollendinga. Engin ástæða til að óttast lögsóknir vegna neyðarlaganna. Engin ástæða til annars en að leyfa lögum ESB um tryggingar innistæða að ganga sinn gang. Ekki satt?

Með þessa bráðabirgðaniðurstöðu á borðinu getur enginn þingmaður borið því við að Íslendingar "verði" að taka á sig Icesave-ánauðina vegna "óvissu" um réttarstöðu Íslendinga sem "gæti" leitt til lögsókna og skaðabótarmála. Sú afsökun er nú úr sögunni (til bráðabirgða að vísu, en samt). Sú eina sem stendur eftir er sú að vilja þóknast stórríkjum ESB til að liðka fyrir innlimun Íslands í sambandið.

Það er, ef Kristinn er að segja efnislega rétt frá og að ég skilji hann rétt, auðvitað. Sem ég vona að sé raunin.

Hvet, í tilefni bráðabirgðaniðurstöðu ESA, alla til að taka þátt í Iceslave-minnisvarðaverkefninu.


mbl.is Jafngildir 1.100 milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppgjöf stjórnarandstöðunnar

Nú lítur út fyrir að stjórnarandstæðan ætli að gefast upp á vörn sinni fyrir hagsmunum Íslendinga, og beygja sig fyrir óskiljanlegri áráttu ríkisstjórnarinnar til að þjóðnýta skuldbindingar Tryggingasjóðs innistæða, þvert á stjórnarskrá, lög Evrópusambandsins og alla almenna skynsemi.

Því miður.

Sagt á einum stað:

Það sem stjórnarandstaðan fær í sinn hlut með samningunum er svo að önnur mál ríkisstjórnarinnar komast nú á dagskrá og til umræðu í nefndum. Ekki hefur stjórnarandstaðan viljað að skattahækkunarfrumvörpin tefðust. Annað fær stjórnarandstaðan ekki, nema frið fyrir spurningum fréttamanna Ríkisútvarpsins.

Snilld stjórnarandstöðuleiðtoganna tekur engan enda.

 Nær hefði verið fyrir stjórnarandstöðuna að halda út lengur, og gefa andstæðingum Icesave-áráttu ríkisstjórnarinnar færi á að ná vopnum sínum og ná eyrum almennings. Eða eins og stendur á einum stað:

Og þegar einn stjórnarandstöðuþingmaður sá ekkert athugavert við að tala í rúmar tíu klukkustundir um frumvarp um húsnæðismál, hvernig geta menn þá búist við að tuttuguogníu stjórnarandstöðuþingmenn geti rætt þúsundmilljarðaskuldbindingu til erlendra ríkja á nokkrum kvöldum?

 Þingmaður þessi er vel á minnst núverandi forsætisráðherra sem skammast og frussar þessa dagana yfir "málþófi" á Alþingi - það var og!


mbl.is Lokasprettur Icesave-umræðna hafinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband