Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009
Laugardagur, 5. desember 2009
Ríkisstjórnin gerir illt verra (grein)
Nú þegar Samfylkingin hefur setið í ríkisstjórn í rúmlega eitt og hálft ár, og Vinstri-grænir í tæpt ár, er orðið ljóst að allt sem áður var að á að gera verra. Öll hagfræði og almenn skynsemi er komið í ruslatunnuna, og í staðinn komin hjörð ráðherra sem talar í kross, segir ósatt og valtar ítrekað með framkvæmdavaldinu yfir Alþingi.
Hagfræðin hunsuð
Þeir sem einhvern tímann hafa lesið rétta hagfræði vita að hækkandi skattar virka eins og sandur á tannhjól hagkerfisins. Með hækkandi sköttum er mjólkurkýrin smátt og smátt tekin af lífi í stað þess að fá frelsi og fóður til að vaxa og dafna og mjólka betur í framtíðinni. Hækkandi skattar, ásamt hækkandi opinberum skuldum, gjaldeyrishöftum og pólitískri afskiptasemi af fyrirtækjum og framkvæmdum eru beinar aðfarir gegn hagvexti og almenningi á Íslandi. Þingmenn meirihlutans hafa hins vegar meiri áhuga á að taka úr vasa eins og setja í vasa annars en að leyfa veskjum allra að vaxa með vinnu og framleiðslu.
Almenn skynsemi hunsuð
Slæmt er að hunsa grundvallaratriði hagfræðinnar. Verra er að stinga almennri skynsemi ofan í skúffu. Af hverju er ennþá verið að ausa fé í tónlistarhús, söfn, sinfóníu, listamannalaun og önnur áhugamál menningarelítunnar? Elítu sem lifir á launum almennings sem nær ekki endum saman. Það er gaman að vera ríkur og hafa efni á allskyns afþreyingu, en Íslendingar í dag eru ekki ríkir og hafa hreinlega ekki efni á því að halda uppi heilli hjörð listamanna í einhverri dýpstu kreppu sögunnar.
Almenningi sagt ósatt
Til að herða tök sín á almenningi eru ráðherrar byrjaðir að segja ósatt upp í opið geðið á fjölmiðlamönnum sem ekkert gagnrýna. Fjármálaráðherra hefur t.d. sagt að þjóðnýting Icesave-skuldbindinganna sé forsenda láns frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á meðan forstjóri sama sjóðs segir hins gagnstæða hvor ætli hafi rétt fyrir sér? Umhverfisráðherra segist ekkert hafa á móti stórum framkvæmdum sem nú þegar eru hafnar en snýr sér svo við og kaffærir þeim í pappírsflóði frá hinu opinbera, þvert á vilja forsætisráðherra. Það er orðið engin leið að átta sig á því hvað er raunverulega sagt á bak við luktar dyr í Stjórnarráðinu.
Hvenær er nóg komið?
Fjölmiðlamenn á Íslandi hafa kokgleypt hverja vitleysuna á fætur annarri sem vellur út úr Stjórnarráðinu þessa mánuðina. Almenningur fylgist spenntur með á hverjum degi til að sjá hvar næsti skattaskellur lendir, krossleggur fingur og vonar að hann lendi á einhverjum öðrum. Almenningi er sagt að hann þurfi að eyða næstu árum í að greiða fyrir skuldbindingar einkafyrirtækis í útlöndum. Ráðherrar hlaupa um eins og hauslausar hænur í leit að nýjum leiðum til að koma sér á framfæri með fagurgala um réttlæti og jöfnuð, miðstýring samfélagins eykst og norræna skattbyrðin (án velferðarinnar) færist sífellt nær.
Ekkert af þessu hefur bætt ástand sem fyrir um ári síðan var þó orðið mjög slæmt. Ríkisstjórn Íslands er að gera illt verra, og fyrr en hún víkur mun Ísland ekki geta hafið endurreisn sína. Vonandi þarf ekki mikið fleiri mánuði af skemmdarverkastarfsemi í Stjórnarráðinu til að almenningur átti sig á því.
(Grein mín í Morgunblaðinu í dag)
Kröfufundur á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 3. desember 2009
Umhverfisverndarhreyfing á villigötum
Hún er ekki á réttri leið sú hreyfing sem kennir sig við umhverfisvernd í "mainstream" fjölmiðlum í dag. Því er slegið föstu að sá hluti CO2 sem losnar í andrúmsloftið vegna aðgerða mannanna hafi áhrif á lofthjúpinn, og það til hins verra á nánast allan hátt, alls staðar á Jörðinni. Þetta er ósannað. Því er slegið föstu að endurvinnsla, í sjálfu sér og á nánast hverju sem er, sé góð fyrir náttúruna. Þetta er ósatt. Því er slegið föstu að maðurinn sé að fella skóga og útrýma plöntu- og dýralífi á viðkvæmum svæðum. Þetta á hins vegar fyrst og fremst við um svæði þar sem vernd einkaeignarréttar er veik, eða slíkur réttur hreinlega ekki til staðar.
Paul McCarney segist vera að stuðla að hlýnun jarðar með flugferðum sínum. Gott og vel - hann hlýtur þá að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum sem framleiða loftræstitæki í staðinn, eða hvað?
Hann "endurvinnur" (þá væntanlega eitthvað annað en brotajárn og annað sem fyrirtæki endurvinna með hagnaði og án niðurgreiðslna). Ég geri þá ráð fyrir að hann, í nafni umhverfisverndar, endurvinni bara það sem kostar á endanum ekki enn fleiri náttúruauðlindir að endurvinna en hreinlega að henda í ruslið.
Hann hvetur til minnkandi kjötneyslu, að hluta til í nafni umhverfisverndar. Gott og vel, ég vona þá að hann kaupi sitt gras og grænmeti frá löndum þar sem einkaeignarrétturinn tryggir skynsamlega landnýtingu, frekar en frá löndum þar sem enginn slíkur réttur er til staðar og ódýrast er að útvíkka ræktarland sitt á kostnað skóglendis "allra" frekar en að eyða fjármagni og tækni til að auka uppskeru hvers hektara af eigin eign.
Þessar vangaveltur, auk margra annarra, eru sjaldnast á ferli í huga þeirrar hreyfingar sem kennir sig við umhverfisvernd. Niðurstaðan er oftar en ekki sú að auðlindum er sóað, í nafni verndar á auðlindum!
Fróðlegt lesefni í þessu samhengi: Three Myths about Trash.
Vill að fólk sleppi kjöti einu sinni í viku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 3. desember 2009
Vont er orðið verra
Þeir sem fylgjast með ástandinu á Íslandi þessa mánuði átta sig á því að ástand sem var vont fyrir ári síðan (í stjórnartíð Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks) hefur bara versnað. Efnahagsaðgerðum er slegið á frest með deilum um þjóðnýtingu á Icesave-skuldindingum, skattahækkanir koma í stað niðurskurðar hjá hinu opinbera og höftum á viðskiptum við útlönd er haldið gangandi löngu á eftir áætlun.
Já, Dagur, það fór illa að einkavæða bankana með því að leyfa þeim að halda gróðanum en lofa þeim ríkisábyrgð ef illa færi. Það segir sig sjálft að slíkt gerir jafnvel hófsamasta drykkju- eða bindindismann að húrrandi alkóhólista. En það er ekki lexían sem ríkisstjórn Íslands hefur lært. Hún heldur að enn meira opinbert áfengi sé lækningin á timburmönnum hins einkavædda og ríkisábyrgða.
Dagur ætti að eyða minna púðri í að skamma stjórn sem sat með hans eigin flokki í stól bankamálaráðherra fyrir meira en ári síðan, og e.t.v. íhuga að vera ánægður með viðbrögð Reykjavíkur til að bregðast við minnkandi pyngjum skattgreiðenda - aðhald, niðurskurður á fóstruríkinu og stöðvun skuldsetninga, sem sparar heimilum höfuðborgarinnar við hækkandi opinberum álögum.
Dagur gagnrýnir borgarstjóra harðlega | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)