Bloggfærslur mánaðarins, október 2009
Fimmtudagur, 15. október 2009
Af hverju?
Ég bara spyr.
Loftslag Jarðar er alveg rosalega breytilegt, hvort sem mannkynið hefur eitthvað um það að segja eða ekki. Besta ráðið til að tækla loftslagsbreytingar (sem af einhverjum ástæðum eru sjaldan kallaðar "loftslagshlýnun" lengur) er að gera mannkynið aðlögunarhæft. Og það gerist með frjálsum viðskiptum og tækniþróun, ef einhver er í vafa.
Svo já, ég spyr bara - hvað vakir fyrir finnskum stjórnmálamönnum að lofa einhverju og einhverju sem mun ekki verða mælt fyrr en eftir 10 kjörtímabil og jarðaför þeirra allra?
Finnar dragi úr losun um 80% fram til ársins 2050 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 9. október 2009
Skattman flæmir fólk úr landi
Hver man ekki eftir verndara sitjandi ríkisstjórnar og núverandi forseta Íslands í embætti fjármálaráðherra?
Skattmaaaaaaaaaan....
Morgunstund gefur gull í mund
skattleggja alla,
konur og kalla.
Út að keyra,
skattleggja meira,
háls nef og eyra!
Berja kýla slá vá!
loka hlekkja
hald'afram að svekkja,
hér kemur ekkja,
berja kýla slá,
farðu svo frá!
Skattleggja allt,
ríka sem snauða
fæðingu og dauða
ástir og unað,
allt nema munað!
Berja kýla slá,
mér liggur áááá
Skattmaaaaan
Lok lok og læs,
svon'er ég næs!
Slóð á atriði úr Áramótaskaupinu 1989: http://www.youtube.com/watch?v=-qIfjVjLqpY
Íslendingum fækkar enn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. október 2009
Ríkisábyrgð hér, ríkisábyrgð þar
Kristján Gunnarsson hefur rétt fyrir sér - tilraun seinustu tveggja áratuga mistókst. Það mistókst að vilja eiga kökuna en jafnframt borða hana. Það mistókst að aðskilja ríki og hagkerfi - bankar voru einkavæddir en skuldbindingar þeirra voru ríkisvæddar og -ábyrgðar (þótt regluverk ESB banni í raun slíkt).
Núna virðist næsta tilraun vera hefjast, og hún felst í því að ríkisvæða allt. Þetta er vel þekkt tilraun með vel þekktum niðurstöðum: Hækkandi skattar, fleiri haftir, vaxandi ríkisvald, minnkandi einkageiri. Henni lýkur fljótlega, í seinasta lagi við lok þessa kjörtímabils.
Tilraunin sem þá skal hefjast, að mínu mati, er algjör aðskilnaður ríkis og hagkerfis. Til þess þarf að leggja niður Seðlabanka Íslands fyrst og fremst. Hvort einhver nenni að gefa út íslenskar krónur eða ekki kemur svo bara í ljós. Íslendingar ættu að rifja upp árið 1922, þegar íslenska krónan stóð jafnfætis þeirri dönsku, og báðar á gullfæti, en slíkur fótur er einhver öflugasta vörn markaðarins gegn peningaprentun hins opinbera og annarra peningafalsara.
Tilraun ríkisábyrgðar á einkavæddum skuldbindingum hefur mistekist. Senn lýkur tilraun ríkisábyrgðar á öllu sem hreyfist. Eftir það má gjarnan hefjast tilraun einkavæðingar á bæði áhættu og gróða.
Tilraunin mistókst með herfilegum afleiðingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 7. október 2009
Áhrif tillagna VR
VR ályktar sem svo:
Stjórn VR skorar á ríkisstjórnina og alþingi að nota tækifærið nú til að leiðrétta óréttlæti fyrri stjórna, að hækka skattleysismörk verulega og hækka skattprósentuna á móti. Þannig má laga skattbyrðina og færa upp á við í tekjustiganum. Einnig bendir VR á þá leið að taka upp fastskattavísitölu sem drægi úr áhrifum neysluskatta á vísitölu til verðtryggingar og að frekari áhersla verði lögð á beina skatta. Þannig má forðast óþarfa hækkun á höfuðstól og afborgunum verðtryggðra lána almennings þrátt fyrir nauðsynlega tekjuöflun ríkisins.
Segjum sem svo að þessum tillögum yrði fylgt eftir. Hverjar yrðu afleiðingarnar?
Hækkun skattleysismarka og hækkun skattprósentu
Hér er gerð tilraun til að flytja skattbyrðina "upp tekjustigann" í stað þess að lækka hana. Eru til einhver gögn sem benda til þess að þetta hafi gerst við seinustu hækkun skattleysismarka? Að vísu var þá einnig farið í lækkun skatthlutfallsins sem ætti að draga úr tilhneigingu þeirra sem geta til að lækka sig í beinum launatekjum og hækka við sig annars konar tekjur, t.d. vegna svartrar vinnu. Þegar múrinn milli núll-skatts og einhvers skatts er hækkaður, þá er hætt við að færri vilji og nenni klifra yfir hann. Þegar það borgar sig varla að vinna fyrir meira en sem nemur tekjum upp að skattleysismörkum, þá er hætt við að færri muni nenna því.
Áhrif hækkandi neysluskatta reiknuð út úr vísitölu neysluverðs
Hvert er hlutverk vísitölu neysluverðs? Á einum stað segir: "Vísitala neysluverðs er viðmiðunarkvarði milli tímabila og lítur til verðbreytinga á vörum og þjónustu sem eru á útgjaldalið heimilanna."
Af hverju er þessi vísitala reiknuð út? Það er meðal annars gert til að lánveitendur geti fengið vísbendingu um kaupmátt útlána sinna ef þeir hefðu peninginn í höndunum í dag og ætluðu út í búð og versla fyrir þá. Kaupmáttur þessi hangir ágætlega saman við magn peninga í umferð (í tiltekinni mynt).
Ef verðlag er hækkað með skattahækkunum, þá minnkar kaupmáttur peninga - fleiri peninga þarf til að eignast sama varning. Segjum nú sem svo að ég láni út 1000 kr. sem í dag duga til að kaupa eina DVD-mynd (DVD-vísitala upp á 1). Segjum svo að á morgun setji ríkið á afþreyingarskatt upp á 10% sem hækkar verð á DVD-myndum upp í 1100 kr (DVD-vístalan fer í 1,1). Ég sem útlánandi sé kaupmátt útláns míns minnka, en hafði sem betur fer sett ákvæði í lánasamninginn um að kaupmáttur lánsins eigi að vera fastur, mælt í DVD-vísitölunni. Höfuðstóll þess hækkar því í 1100 kr, samkvæmt þeim samningi.
En nú setur ríkið lög sem segir að afþreyingarskattur eigi ekki að reiknast inn í DVD-vísitöluna. Það sé hreinlega bannað. Ég sem útlánandi þarf því að sjá á eftir þeim kaupmætti sem skatturinn ylli á útláni mínu. Hvernig bregst ég við því, ef ég lögsæki ríkið hreinlega ekki fyrir þessa árás á gildan lánasamning minn við lántakanda? Ég hætti að nota DVD-vísitöluna sem viðmiðun, fer t.d. að styðjast við gullverð eða einhverja aðra vísitölu sem er ekki búið að brengla.
Og þannig er það nú einfaldlega.
VR: Ótrúverðug framkoma stjórnvalda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 6. október 2009
'Tekju'tap ríkisins hvað?
Stórmerkileg skoðun er þessi:
Hún sagði að vandamálið væri ekki vaxandi ríkisútgjöld heldur mikið tekjutap ríkisins.
Hér er öllu snúið á haus. Ríkið hefur ekki tekjur, þótt ríkið geti eytt peningum. Ríkið framleiðir ekkert - engin verðmætasköpun fer fram hjá eftirlitsstofnunum, ráðuneytum og á Alþingi sjálfu. Ríkið dregur hins vegar fé út úr verðmætaskapandi fyrirtækjum, og eyðir því. Vandamálið er því nákvæmlega vaxandi ríkisútgjöld, en ekki hversu mikið ríkið getur kreist út úr þeim sem enn hafa tekjur á Íslandi.
AGS herðir tökin á Íslendingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 6. október 2009
Ríkisábyrgð á áhættu er slæm
Getur verið að einhver eða jafnvel stór hluti þeirrar áhættu sem íslensk fyrirtæki tóku undanfarin ár hafi verið tekin í skjóli ríkisábyrgðar á bönkum og þeirra skuldbindingum?
Öll fyrirtæki og öll heimili og allir einstaklingar vilja bæta hag sinn og gera gjarnan það sem þykir fýsilegt hverju sinni til að gera það. Einstaklingar biðja um launahækkun eða skipta um störf þegar kostur er, fyrirtæki hækka verð og lækka kostnað þegar þau geta og heimilin kaupa inn eftir efnum og aðstæðum - þykkari og þykkari klósettpappír, betra og betra kjöt, osfrv.
En hvað kemur í veg fyrir að fyrirtæki eyði öllu í markaðssetningu á einum varning, að heimilin botni öll kreditkort á einu bretti, að einstaklingar leggi allt spariféð undir á einn lottóvinning? Svarið er: Hættan á að tapa meira af eigin fé en efni er á. Græðgin er stillt af með ótta við áhættuna að tapa öllu sínu eigin fé.
En hvað nú ef einhver segði að bankakerfið muni aldrei fara á hausinn vegna ríkisábyrgðar, að slæm lán þurfi ekki að greiða, að slæmar fjárfestingar þurfi ekki að skila tapi? Hvað ef áhættan er fjarlægð úr jöfnunni? Það gefur augaleið að græðginni eru þá engar hömlur settar. Þegar lán má borga með stærra láni, þegar gróðanum er hægt að stinga í vasann en senda tapið til skattgreiðenda, þegar eyðsluna má fjármagna með enn einu veði í húsinu á meðan ríkisvaldið finnur upp leiðir til að koma láninu yfir á skattgreiðendur, þá verður vitaskuld til umhverfi þar sem "óráðsía en ekki hagsæld" ræður ríkjum.
Hvað eru stjórnvöld svo að gera í dag til að skapa ný og traustari skilyrði til hagvaxtar? Hafa þau afnumið ríkisábyrgð á skuldbindingum banka og annarra einkafyrirtækja? Hafa þau gefið skýr skilaboð um að markaðurinn verði sjálfur að finna sitt jafnvægi áhættusækni og gróðavonar þar sem bæði hagnaður og tap er á ábyrgð spilaranna en ekki skattgreiðenda? Ónei. Þvert á móti þá sópaði ríkið undir sig öllum bönkunum og ráðherrar keppast um að sannfæra þjóðina um að taka á sig skuldbindingar einkafyrirtækja, þvert á reglur Evrópusambandsins, auk þess sem bjóða á stórskuldurunum að fá lækkun lána sinna á kostnað lánveitenda.
Betri tímar í vændum? Ónei.
Óráðsía en ekki hagsæld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 6. október 2009
Endalok dollarans?
Það skal engan undra að olíuframleiðsluríki séu byrjuð að hugleiða viðskipti með olíu í einhverju öðru en bandarískum dollar. Sá dollar er núna fjöldaframleiddur sem aldrei fyrr, og kaupmáttur dollara að falla miðað við nánast hvað sem er - gull, olíu, aðrar myntir og svona má lengi telja.
Það mikla traust sem dollarinn hefur notið seinustu 100 ár fer nú þverrandi. Það er auðvelt að falsa "hagvöxt" þegar hagvöxtur er mældur í neyslu og neyslan er fjármögnuð með peningaprentun. Þessu fara vonandi fleiri og fleiri að átta sig á.
Það næsta sem gerist er að Kínverjar, Japanir og fleiri hætta að lána Bandaríkjamönnum til að fjármagna botnlausa skuldahít, og byrja að eyða peningunum sjálfir eða í fjárfestingar í öðrum heimshlutum. Efnahagsstefna Bandaríkjastjórnar er að eyðileggja hagkerfi Bandaríkjanna, og þegar kjörtímabili Barack Obama lýkur mun varla standa steinn yfir steini þar í landi. Allt sem G. W. Bush og A. Greenspan gerðu rangt í sínum efnahagsaðgerðum eru nú B. Obama og B. Bernanke að gera af miklu meiri þrótti.
Þeir sem eiga dollara í dag ættu að selja þá sem fyrst og flýja með verðmæti sín yfir í hrávörur eða aðra gjaldmiðla (þó ekki í breska pundiðsem stefnir sömu leið í stöðu klósettpappírs). Seðlabanki Zimbabwe hrósaði nýverið seðlabönkum heimsins fyrir að framfylgja peningamálastefnu í anda sinnar eigin. Er það ekki ágætis víti til varnaðar?
Vilja hætta nota dollar í olíuviðskiptum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |