Ríkisábyrgð á áhættu er slæm

Getur verið að einhver eða jafnvel stór hluti þeirrar áhættu sem íslensk fyrirtæki tóku undanfarin ár hafi verið tekin í skjóli ríkisábyrgðar á bönkum og þeirra skuldbindingum?

Öll fyrirtæki og öll heimili og allir einstaklingar vilja bæta hag sinn og gera gjarnan það sem þykir fýsilegt hverju sinni til að gera það. Einstaklingar biðja um launahækkun eða skipta um störf þegar kostur er, fyrirtæki hækka verð og lækka kostnað þegar þau geta og heimilin kaupa inn eftir efnum og aðstæðum - þykkari og þykkari klósettpappír, betra og betra kjöt, osfrv.

En hvað kemur í veg fyrir að fyrirtæki eyði öllu í markaðssetningu á einum varning, að heimilin botni öll kreditkort á einu bretti, að einstaklingar leggi allt spariféð undir á einn lottóvinning? Svarið er: Hættan á að tapa meira af eigin fé en efni er á. Græðgin er stillt af með ótta við áhættuna að tapa öllu sínu eigin fé.

En hvað nú ef einhver segði að bankakerfið muni aldrei fara á hausinn vegna ríkisábyrgðar, að slæm lán þurfi ekki að greiða, að slæmar fjárfestingar þurfi ekki að skila tapi? Hvað ef áhættan er fjarlægð úr jöfnunni? Það gefur augaleið að græðginni eru þá engar hömlur settar. Þegar lán má borga með stærra láni, þegar gróðanum er hægt að stinga í vasann en senda tapið til skattgreiðenda, þegar eyðsluna má fjármagna með enn einu veði í húsinu á meðan ríkisvaldið finnur upp leiðir til að koma láninu yfir á skattgreiðendur, þá verður vitaskuld til umhverfi þar sem "óráðsía en ekki hagsæld" ræður ríkjum.

Hvað eru stjórnvöld svo að gera í dag til að skapa ný og traustari skilyrði til hagvaxtar? Hafa þau afnumið ríkisábyrgð á skuldbindingum banka og annarra einkafyrirtækja? Hafa þau gefið skýr skilaboð um að markaðurinn verði sjálfur að finna sitt jafnvægi áhættusækni og gróðavonar þar sem bæði hagnaður og tap er á ábyrgð spilaranna en ekki skattgreiðenda? Ónei. Þvert á móti þá sópaði ríkið undir sig öllum bönkunum og ráðherrar keppast um að sannfæra þjóðina um að taka á sig skuldbindingar einkafyrirtækja, þvert á reglur Evrópusambandsins, auk þess sem bjóða á stórskuldurunum að fá lækkun lána sinna á kostnað lánveitenda.

Betri tímar í vændum? Ónei.


mbl.is Óráðsía en ekki hagsæld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband