Laugardagur, 26. janúar 2008
Þessi samningur er óhagkvæmur fyrir Ísland
Um nýjan tvíhliða fríverslunarsamning EFTA og Kanada segir (feitletrun mín):
"Samningurinn er sagður vera hagstæður fyrir Ísland. Hann hafi í för með sér niðurfellingu tolla á öllum iðnaðarvörum og ýmsum öðrum vörum sem Ísland framleiðir og flytur út. Sem dæmi megi nefna sjávar- og landbúnaðarafurðir, útivistarfatnað, fiskikör og aðrar vörur úr plasti, vogir, vélar og tæki. Í staðinn veitir Ísland Kanada tollfrjálsan aðgang fyrir iðnaðarvörur og ákveðnar landbúnaðarvörur."
Ágiskun mín er sú að þessar "ákveðnu" landbúnaðarvörur séu allt nema kinda- og nautakjöt, mjólkurvörur af ýmsu tagi og grænmeti sem finnst í íslenskum gróðurhúsum. Mér þætti vænt um að fá það staðfest.
Því hefur oft verið haldið fram af unnendum ESB-báknsins að það veiti fátækum þróunarríkjum tollfrjálsan aðgang að markaði ESB með landbúnaðarvörur. Svo er ekki. Um er að ræða "ákveðnar" landbúnaðarvörur, þær sem standast "lágmarkskröfur" sem svo skemmtilega vill til að afrískir bændur uppfylla ekki nema að takmörkuðu leyti. Tæknilegar hindranir og sérklausur eru viðskiptahindranir 21. aldar nú þegar almenningur er loksins byrjaður að átta sig á skaðsemi tollamúra og beinna viðskiptahindrana (þá sérstaklega fyrir þá fátækustu).
Að Kanadabúar geti nú selt "ákveðnar landbúnaðarvörur" tollfrjálst á Íslandi þýðir á mannamáli að Kanadabúar geta ekki selt eitt né neitt tollfrjálst á Íslandi sem nú þegar er niðurgreitt og varið með öðru móti gegn erlendri samkeppni í íslenskum landbúnaði. Kanadískt kindakjöt, kanadískt smjör og kanadískt kál mun ekki veita tilsvarandi íslenskum vörum neina samkeppni með tilkomu hins nýja samnings. Vitið til!
Samningar undirritaðir í Sviss | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.