Að sjálfsögðu

Það að ríkið eigi banka er svolítið sérstakt fyrirkomulag í Vestur-Evrópu. Þetta er áhættusamur rekstur sem getur sveiflast mjög hratt á milli þess að vera arðbær og þess að hreinlega leysast upp. Þetta má að hluta skrifa á regluverkið sem á að verja banka gegn áföllum en gerir þá um leið mjög dýra fyrir neytendur. Það sást vel árin 2008-2009 hvað þetta nútímalega fyrirkomulag bankareksturs er viðkvæmt og í raun byggt á sandi.

Það finnst fjöldi stofnana og fyrirtækja sem vasast með fé okkar, frá lífeyrissjóðum til smálánafyrirtækja. Eignarhald ríkisins er ekki talið nauðsynlegt þar.

En hvað með arðgreiðslurnar? Eru þær ekki mikilvægar fyrir ríkissjóð? Jú, en aðallega af því ríkissjóður er tómur og það er að hluta til af því að hann þarf að borga mjög mikið í vexti af lánum (minna fer fyrir afborgunum). Með því að selja eigur og grynnka á skuldum getur ríkisvaldið komist nær því að láta beina skattheimtu duga til að standa undir rekstrinum og getur þá dregið úr hinni óbeinu skattheimtu - nokkuð sem sveitarfélög stunda líka í gegnum eignarhald á veitufyrirtækjum sem eru látin vanrækja viðhald til að safna í arðgreiðslur.

Auðvitað munu bankarnir halda áfram að greiða arð - til nýrra eigenda. En þeir eigendur gætu verið ég og þú, lífeyrissjóðir okkar eða viðskiptamenn sem kunna að gera hvoru tveggja í senn: Stuðla að arðsemi og lækka álögur á neytendur.

Nú fyrir utan kannski grundvallaratriðið hér: Viljum við virkilega að stjórnmálamenn séu beint eða óbeint með puttana í fyrirtækjarekstri? Treysta allir stjórnmálamönnum til að velja viturlega í stjórn fyrirtækja? Stjórnmálamenn sem hafa kannski aldrei unnið heiðarlegt handtak á ævi sinni en eru þeim mun meira heillandi í kosningabaráttum?

Ríkið á að selja banka sína og aðrar eigur í eins miklum mæli og það mögulega getur. Ríkisbókhaldið krefst þess. 

það þarf að aðskilja ríki og hagkerfi svo stjórnmálamenn geti ekki selt fjölskyldu sinni eigur almennings (að mati þeirra sem trúa því að slíkt hafi nýlega átt sér stað, eða svo mætti ætla).

Það þarf að koma heillandi en óhæfum fulltrúum ríkisvaldsins úr stjórnum fyrirtækja.

Það þarf að draga úr vægi óbeinnar skattheimtu og láta þá beinu duga.

Því fyrr, því betra.


mbl.is Sala á Íslandsbanka geti skilað 100 milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Bjarnason

Eina leiðin til að draga úr skattheimtu er að minnka umsvif hins opinbera og ég heyri aldrei neinar tillögur þar. Mér finnst þörf hins opinbera aukast á ógnarhraða. En fyrst þú nefndir lífeyrissjóðina sem virðast hafa verið settir á laggirnar til að draga tennurnar úr almenningi þá finnst mér undarlegt að engin ræði þau mál. Getum við ekki fallist á að sameignarsjóður sem hverfur þegar þú deyrð er ekki lífeyrissjóður heldur skattur? Mér reiknast lauslega til að flestir fái aldrei meira en sem nemur vöxtum af lífeyrisgjöldum þegar kemur að greiðslum. Sem sagt lífeyrissjóðurinn ávaxtar peninga sem þú átt en þú færð aldrei að nota þá.

Ég held að enginn fari í svona viðskipti ótilneyddur. Þetta er sama ofbeldið og að þú verðir að afhenda börnin þín til fólks sem fer ekki vel með þau eins og við höfum orðið óþægilega vör við upp á síðkastið. Þú verður líka að afhenda sparifé þitt til fólks sem þú treystir ekki. 

Mér er virkilega spurn hvað þeir sem stýra þessu landi þurfi að gera til að vera ekki kostnir aftur.

Kristinn Bjarnason, 28.3.2024 kl. 19:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband