Sprungan í glerhjúpnum

Ég verð að viðurkenna að mér finnst gaman að sjá vitnað í skrif mín. Gildir þetta líka þegar slíkar tilvitnanir eru í mjög neikvæðum tón enda þýðir það að umræðan virkar og menn geta skipst á skoðunum í ræðu og riti án þess að grípa til gífuryrða. 

staksteinar des 27 2023 hausÉg var því ánægður að sjá Staksteina Morgunblaðsins í dag þar sem vitnað var í skrif mín á jóladag um glerhjúpinn um manngerða hlýnun Jarðar sem núna er byrjaður að springa.  

Hið opinbera finnur upp á ýmsu til að eyða peningum okkar í. Er sumt frekar saklaust og um leið hóflega dýrt á meðan annað er mjög dýrt en talið frekar nauðsynlegt. Aðgerðir gegn manngerðri hlýnun Jarðar falla í flokkana ónauðsynlegt og rándýrt sem er versta mögulega samsetning. Það á að taka bílinn af venjulegu fólki, setja takmörk á ferðalög og kjötneyslu, hækka orkureikninginn og gera orkuna óstöðugri í leiðinni og ofan á allt þetta leggja græna skatta á allt og alla. Svo liggur við að það eigi að hætta að hirða sorpið líka. Skattarnir renna svo beint í hítina sem nýtist venjulegu fólki í engu.

Þetta þarf auðvitað að stöðva sem fyrst. Það er til nóg af úrræðum til að tryggja hreint loft og ósnerta náttúru og stöðuga og hagkvæma orku án þess að taka bílinn, kjötið, rafmagnið og flugmiðana af venjulegu fólki á meðan sorpið er ósótt í fimmtán mismunandi ruslatunnum. Fyrsta skrefið er alls ekki að bíða eftir því að stjórnmálastéttin vakni. Það gerir hún seinast allra. Almenningur þarf að kvarta og mótmæla. Hann þarf að biðja um réttlætingu á því að lífskjör hans þurfi að þola eyðileggingu. Það þarf að segja rétt frá klæðaburði keisarans, sem er auðvitað nakinn.

Allt er þetta ferli sem betur fer að hefjast, hægt og rólega. Öfgafyllstu yfirlýsingar um græn orkuskipti eru byrjaðar að útvatnast aðeins. Áhuginn á baðstrandar- og kampavínsferðum einkaþotuliðsins (oft kallaðar loftslagsráðstefnur) fer þverrandi. Þolinmæðin fyrir síhækkandi orkureikningum fer minnkandi. Sprungurnar eru orðnar sjáanlegar, en þurfa að stækka áður en illa fer.

Styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu hefur undanfarna áratugi hækkað úr um núll komma núll tvö prósent í um núll komma núll fjögur prósent. Jörðin er að grænka sem afleiðing þess, en hlýnunin er ósýnileg eins og íslenskur tölfræðiprófessor benti á um daginn. Það er enginn heimsendir í nánd, engin dómsdagsklukka að hringja og hamfarirnar að mestu fólgnar í aðför yfirvalda að verðmætasköpun og aðlögunarhæfni samfélagsins í síbreytilegum heimi.

Stoppum þetta rugl strax, takk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Mannöldin" Hér flytur stjarneðlisfræðingurinn og "loftslagsruglarinn", Harald Lesch "áramótaræðu" sína. Ræðan eða fyrirlesturinn fjallar um áhrif mannsins á jörðina frá upphafi sínu til dagsins í dag. Harald Lesch hefur verið með vísindaþætti í þýskum fjölmiðlum í meira en 20 ár og rætt mikið um loftslagsmál einkum síðari árin. Hann er einn vinsælasti þáttagerðamaður Þýskalands:                          Anthropozän • Zeitalter des Menschen • Wissenschaftsjahr 2023 LMU/BMBF | Harald Lesch           

Hörður Þormar (IP-tala skráð) 27.12.2023 kl. 14:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband