Argentíska vandamálið

Um daginn kusu Argentínumenn yfir sig frjálshyggjumann sem forseta. Sá forseti ætlar sér meðal annars að leggja niður seðlabanka ríkisins. Hann ætlar að skera með vélsög niður hinn opinbera geira, fækka ráðuneytum og einkavæða allt sem hann getur.

En mætir væntanlega viðspyrnu báknsins sem er meira umhugað um eigin velferð en annarra.

Ásgeir Ingvarsson, blaðamaður Morgunblaðsins, skrifar alveg frábæra grein um þetta mál hér (á bak við innskráningarvegg, en að öðru leyti gjaldfrjáls lestur). Þar bendir hann á að þótt kjörið sé gott að þá sé hægt að leggja margar gildrur fyrir hinn nýja forseta.

Þetta forsetakjör er nefnilega vandamál fyrir marga. Fjölmiðlar hafa auðvitað skynjað það með því að fjalla mjög varfærið um málið. Margir vona innst inni að valkostur við það sem hefur ekki virkað hingað til - stæk vinstristefna - virki heldur ekki. Þessi forseti þarf að eiga við þing sem er meira og minna á öndverðum meiði og tekst mögulega að moka sandi í vélina svo hún virki ekki. Ef það tekst að láta yfirlýstar umbætur mistakast er hægt að koma í veg fyrir að svipaðar hugmyndir breiðist út, sem er afskaplega mikilvægt fyrir mörg jakkafötin á spena skattgreiðenda. 

En aðeins að lærdómnum hérna:

Nýkjörinn forsetir Argentínu, Javier Milei, er gallharður frjálshyggjumaður sem las og framkvæmdi uppskrift annars, en látins, gallharðs frjálshyggjumanns, Murray N. Rothbard. Sú uppskrift felur fyrst og fremst í sér að standa á eigin hugsjónum og kalla lélegar hugmyndir lélegar. Og viti menn: Það höfðaði til kjósenda! Þeir sáu þarna mann sem var ekki að lofa öllu fyrir alla heldur að tala fyrir stefnu - hugsjón!

Þetta ætti að vera innblástur fyrir þennan gráa her af litlausu fólki sen einkennir stjórnmálastéttina víðast hvar. Fólk er sífellt að lofa öllu fyrir alla um leið og að vandamálin eigi einhvern veginn að hverfa þótt stefnubreytingin sé engin.

En svo það sé endurtekið: Margir munu leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að hinn nýi forseti náði markmiðum sínum, og vona um leið að það takist þar með að skella skuldinni á hann þegar ekkert breytist til batnaðar, vegna fyrirstaðanna.

Spennandi tímar í vændum, vægast sagt, en ég held með forsetanum og vona að hann nái að bjarga þjóð sinni úr örbirgð.


mbl.is Javier Milei nýr forseti Argentínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Geir.

Ertu virkilega svo grunnhygginn að trúa þessu sem þú vitnar í, það er það sem kemur fram í æviágripi Murrays??

Ég hef aðeins nýtt orkuna undanfarnar vikur til að lesa mér til um uppruna norrænna samfélaga, bæði hjá okkur í Skandinavíu, sem og hvernig hugmyndaheimur okkar og tungumál leitaði suður eftir Jótlandsskaga og varð að því sem varð Germönsk menning, og Germannskar þjóðir, sem hófu svo þann ófriðartíma sem kenndur er við Þjóðflutninganna miklu.

Vissulega upprifjun, og til að rifja upp, þá hef ég þurft að lesa mér til um þróun nútímamannsins frá síðsteinöld, til landbúnaðar, og síðan það sem má kalla myndun ríkja.

Grunnhyggið fólk hélt á einhverjum tímapunkti að steinaldarmenn hefðu verið friðsamir veiðimenn og safnarar, þó nútíma þekking hafi fyrir löngu afhjúpað þá blekkingu sem lesa má um í sagnfræðiritum síðmarxista uppúr 1970.

Staðreyndin er sú að þegar það var skortur, þá fóru menn að berjast, og sá náði mestu árangri sem náði að sameina hópa, það er miðstýra þeim, á kostnað einstaklingahyggjunnar sem þú og þínir kenna við frjálshyggju.

Í dag er það staðreynd að það sem þú ert að lýsa hér að ofan, þar með ítarefni þitt, að það þrífst aðeins í afskekktustu frumskógum Amasón og Nýju Gíneu, svo afskekkt að hið miðstýrða vald nennti ekki að elta þessu síðustu frjálshyggjumenn uppi, og leyfðu þeim að vera áfram á sínu frjálshyggjustigi sem kennt er við miðsteinöld.

Það er einföld staðreynd sögunnar að þegar menn hafa sameinast, þá hafa orðið til miðstýrð samfélög sem við kennum við ríki, og þau ríki hafa náð yfirráðum yfir nágrönnum sínum sem voru ekki eins viljugir að sameinast.  Í nútímasögu, sem allir eiga að kunna sem tjá sig um samfélag sitt, er þekktasta dæmið hvernig hin volduga stríðsþjóð, Pólverjar, afríkisvæddu samfélag sitt eftir kennisetningum frjálshyggjunnar, að hinir ríku og auðugu ættu að ráða sér sjálfir án afskipta hins miðstýrða ríkisvalds, og því nýttu pólskir aðalsmenn auðævi þjóðar sinnar til að kaupa silki og aðrar munaðarvörur, það er á 18. öldinni, á meðan hið fátæka bændaríki Brandenburg, miðstýrði hernaðaruppbyggingu og varð að stórveldi á kostnað nágranna sinna i austri.

Eitthvað sem Þjóðverjar endurtóku um 200 árum síðar, og hefðu sigrað alla Evrópu ef Bandaríkjamenn hefðu ekki skipt sér að stríðinu, og vopnvætt bæði Breta og Rússa, ásamt því að senda öflugan óþreyttan her á vettvang átakanna.

Hugsuðir eins og Murray voru hins vegar ekki svona heimskir Geir, þeirra persónulegi hagur var að bulla, því bullið var ávísun á það sem Friedman kallaði seinna, "ókeypis hádegisverður". Það var hagur hinna ofurauðugur á sjöunda og áttunda áratugnum að nýta kenningar þeirra til að fóðra fáfróða svo hægt væri að mynda pólitískt afl til að brjóta niður hið miðstýra vald.

Eitthvað sem hefur gerst aftur og aftur í gegnum söguna, alls staðar kennt við myrkur og miðaldir, hörmungar fyrir samfélög og fólkið sem byggir þau.

Það fyndnasta er samt að kenna auðrán elítunnar í Suður og Mið Ameríku við einhverja vinstrimennsku, að kokgleypa því krefst ekki aðeins algjörar vanþekkingu á sögu álfunnar, heldur líka mikillar áunnar heimsku, hún þarf að vera áunnin því það eru einhver árhundruð þúsund frá því að síðast mannapinn var svo heimskur að hann hefði trúað slíkri vitleysu.

Hins vegar Geir er full ástæða fyrir almenning að snúast til varnar gegn þessum auðþjófum og þjónum þeirra, við Íslendingar erum ekki einir um að hafa Samfylkinguna, Viðreisn og Pírata, þekkta þjóna auðræningjanna.

Og fyrst að borgarastéttin í Argentínu var svona samdauna ráninu og ruplinu, eins og hún hafi ekkert lært af frönsku borgarabyltingunni, þá var eðlilegt að fólk leitaði að ljóstýru, hversu rugluð og fáránleg hún er.

Í þeim vanmætti er almenningur að tjá uppreisn sína, hann hefur þegar séð í gegnum fals þjóna auðránsins, ólíkt okkur hér á Íslandi, og honum var ekki boðið uppá betri valkost.

Að baki býr einhver trú um að hlutirnir geti ekki versnað, auðstéttin hefur hvort sem er rænt öllu sem hægt er að ræna, og flutt í bankageymslur í Wall Street. Trú byggð á sandi því dollarahagkerfið auðveldar þjófnaðinn, núna þarf ekki til lán AGS að fjármagna hann, dollararnir sjá til þess að núna er hægt að ræna Argentínsku þjóðina milliliðalaust.

Þessi trú, þó hún byggist á óskhyggju, er samt meiri en þín trú Geir, eða þessa meinta frábæra pistils Ásgeirs sem þú lofsamar svo mjög, Ásgeir deilir vantrú þinni.

Og þú tekur upp hans rök, það hljóta einhverjir að standa í vegi fyrir gósenlandi byltingarinnar, báðir það ungir að þekkja ekki þessa rökleysu, Lenín og Stalín fullreyndu hana, og þrátt fyrir að þeir drápu milljónir á milljónir ofan, þá var alltaf einhver andstaða sem útskýrði fyrir rétttrúaða, sem kom í veg fyrir sæluríki alþýðunnar.

Að lokum fannst enginn innanlands sem trúði þessu, en áar Góða fólksins í dag, trúðu þessu eins og nýju neti, sumir jafnvel fram yfir hrun Sovétríkjanna, eða þeir fundu sér nýjan átrúnað, líkt og fjöldamorðingjaRauðu Khmeranna, eða fjöldamorðingjann og barnaníðinginn Maó formann.

Hins vegar veit ég Geir, eftir að hafa verið fastur lesandi pistla þinna, að þú ert hvorki grunnhygginn eða heimskur.

En það voru flestir af gömlu kommunum sem ég náði að kynnast, ekki heldur.

Svo, How come??

Því miður á enskan betri orð yfir þessa spurningu, en ég get alveg umorðað hana og spurt;

Hvað veldur??

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.11.2023 kl. 19:16

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Ómar,

Takk fyrir innlitið og athugasemdina.

Mér sýnist þú hérna vera að réttlæta tilvist ríkisvalds (aðili með einokun á beitingu ofbeldis) miklu frekar sem illa nauðsyn en einhvern heilagan kaleik. Sé það rétt túlkun á mér þá hef ég samúð fyrir henni og deildi með þér um langa hríð.

En rétt eins og ég lít á krabbamein sem eitthvað sem mætti alveg útrýma mín vegna og ofbeldi sem nokkuð sem ætti ekki að eiga sér stað þótt það muni sennilega alltaf eiga sér stað þá lít ég á ríkisvaldið sem nokkuð sem er illt og óréttlætanlegt. Það ætti að vera hægt að leggja það niður innan ríkja rétt eins og það er ekki til staðar innan fjölskyldu eða á heimsvísu.

Annars er það helst að frétta frá Argentínu að ráðuneytum hefur verið fækkað úr 18 í 8 - góð byrjun! 

Geir Ágústsson, 23.11.2023 kl. 19:46

3 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Villimenn á steinöld voru ekki kommúnistar.  Þeir trúðu ekki á neinn jöfnuð eða eitthvað svoleiðis bullshit.

Marxistar eru allir fullir af skít, og það á ekki að taka neitt mark úr því sem þeir kúka út um munninn á sér.

Ásgrímur Hartmannsson, 23.11.2023 kl. 19:59

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei Geir minn, ríkisvaldið er, þú trúir ekki á eitthvað sem er.

Eitt af því alfyndnasta við ykkur frjálshyggjumennina er þegar þið vitnið í árangur litlu ríkjanna Singapore og Taívan, er að þar er ríkisvaldið mjög öflugt, og stjórnsamt.  Sem reyndar er forsenda þess að litlar einingar á milli tveggja stórra, eða fleiri, vaxi og dafni af verslun og þjónustu.  Eða það segir sagan, skapaðu okkur umgjörð, og þá sjáum við um restina.

Sagan þekkir líka margt annað, til dæmis fögnuð sanntrúaðra þegar einhver bullukollurinn tekur drastískt á því; "Lenín afnam eignarhaldið", "Pol Pot lagði niður borgarastéttina, sendi hana út í sveit til að rækta landið",hann skar niður ráðuneytin úr 18 í 8.

Sagan kennir líka að það er hægt að skera drastískt niður reglubákn, það hafa margir sigursælir ríkisleiðtogar gert til að efla framleiðslu og auka skattheimtu, en forsenda þess hefur alltaf verið öflugt ríkisvald.

Síðan kemur það því nákvæmlega ekkert við hvort menn sátu til hægri eða vinstri á franska þjóðþinginu 1789, að það þurfi lesa sig í gegnum þykkan regludoðrant og sækja um tugi leyfa til að byggja stiga milli hæða í Bandaríkjunum eða mega veiða lúðu á nokkrum fyrirfram ákveðnum klukkutímum, með eftirlitsmanni um borð, í Oregon ríki.  Sökin liggur hjá tregðulögmálum skrifræðisins, sem varð til á undan fyrstu skriftinni, þá var Marx gamli ekki ennþá fæddur, reyndar ófæddur í einhver þúsundir ára, en sá sem hefur ekki opnað sögubók um ævina, hann er hægt að fóðra á svona vitleysu.

Trúðar hafa aldrei leyst nein vandamál, þeir eru yfirleitt skálkaskjól fyrir sterk hagsmunaöfl sem maka krókinn.  Ekki nokkur ástæða til að ætla að það verði neitt öðruvísi í Argentínu, eina spurningin er hvenær vont getur orðið svo vont, að það geti ekki versnað.

Það er það sem er svo spennandi við það sem er að gerast í Argentínu í dag, fólk hefur engu að tapa.  Ef spillingin og óstjórnin getur ekki versnað, þá kannski batnar hún.

Sjáum til.

Kveðja að austan.

PS. Ásgrímur, ef þú lest langlokur þá er lágmarkið að vera læs. Mið-steinaldarmennirnir lifðu draumaríki frjálshyggjunnar, ekkert ríkisvald. 

Ómar Geirsson, 24.11.2023 kl. 07:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband