Peningaprentunin hafði fyrirsjáanleg áhrif

Árið er 2020. Ríkissjóður er að sökkva sér í skuldir til að borga fyrirtækjum fyrir að hafa lokað, fólki fyrir að mæta ekki í vinnuna og lyfjafyrirtækjum fyrir að framleiða gagnslaust glundur. Ekki er innistæða fyrir þessari vegferð og ríkissjóðir þarf að taka lán. Stór og mikil lán.

Seðlabanki Íslands ákveður að hlaupa undir bagga:

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að peningaprentun af hálfu Seðlabanka Íslands muni hefjast að ráði á næsta ári. Ásgeir sagði að „það liggur fyrir að peningaprentunin hjá okkur [Seðlabanka Íslands] verður í að kaupa ríkisskuldabréf“. Þetta kom fram í ávarpi Ásgeirs á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem fór fram áðan með stafrænum hætti.

Þetta var vinsælt. Núna höfðu yfirvöld úr nægu að moða og þau eyddu eins og fullur unglingur með greiðslukort foreldra sinna. Það var hægt að borga fyrir allar skerðingarnar og halda úti stjórnarfari sem ég vil kalla nýfasisma, þar sem einstaklingurinn er til fyrir ríkið en ekki öfugt.

En hvað kemur þetta verðbólgu við? Jú, þegar magn peninga í umferð er aukið þá rýrnar kaupmáttur hverrar og einnar krónu því magn varnings og þjónustu er ekki að aukast í sama mæli. Þetta er auðvelt að skilja í smærra samhengi: Segjum að 100 manns búi á eyju og eigi samanlagt eina milljón krónur sem færist í sífellu á milli handa í viðskiptum og lántökum. Dag einn ákveður höfðinginn að auka magnið í milljarð króna. Eru þá allir orðnir ríkir? Nei, því þeir sem fái hið nýja fé fyrst í hendurnar byrja að bjóða hærra og hærra í það sem er til sölu og smátt og smátt hækkar verðlag á öllu. Ójafnt mögulega í byrjun, en að lokum á öllu.

Seðlabankastjóri skilur þetta auðvitað en hann ætlaði að fara fínt í þetta og stilla af peningaprentunina eftir þróun verðbólgunnar. Það mistókst auðvitað, bæði hjá honum og öðrum erlendum seðlabankastjórum sem gerðu það sama. Núna þarf að taka á afleiðingunum. Það er allt svo auðvelt þegar peningamagnið er að aukast, en það er um leið allt svo erfitt þegar því er neitað að halda áfram að aukast jafnhratt.

Ég veit ekki hvenær sá dagur kemur að skattgreiðendur uppgötva að þeir eru ekki bara rúnir inni að skinni með sköttum heldur líka í gegnum verðbólguna. Kannski fyrr en ég þorði að vona.


mbl.is Verðbólgan hafi verið vanmetin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Fimmta hver króna í umferð hefur orðið til á síðustu 2-3 árum og allan þann tíma skelltu stjórnvöld skollaeyrum við aðvörunum um að það myndi óhjákvæmilega hafa slæmar afleiðingar. Svo þegar verðbólgan kom þóttist enginn sem bar ábyrgð á þessu kannast við það. Núna er svo hreinlega verið að nýta þetta ástand til þess að ræna heimilin. Það er látið eins og þetta sé óhjákvæmilegt en það er bara alls ekki satt. Kjósendur voru aldrei spurðir leyfis og ekki einu sinni álits á þessu.

Guðmundur Ásgeirsson, 14.9.2023 kl. 19:57

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Takk fyrir athugasemdina og innlitið Guðmundur. Ég óttaðist að þú kæmir hingað til að skamma mig fyrir að gera lítið úr hlutverki viðskiptabankanna í peningaprentuninni. Nokkuð sem ég var tilbúinn fyrir. 

Stórkostlega athyglisvert að sjá að fimmta hver króna er frekar glæný. Það ætti að þýða 20% verðbólgu, til lengri tíma. Hvar eru nýju peningarnir að fela sig? Í hlutabréfunum? Fasteignum? Þær eru þarna einhvers staðar. 

Geir Ágústsson, 14.9.2023 kl. 20:17

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Mig grunar fasteignir en byggi það meira á vísbendingum heldur en einhverjum grjóthörðum rannsóknum (sem ég hef ekki lagst í).

P.S. Ég vildi ekkert fara út í hlutverk bankanna í peningaprentuninni að þessu sinni enda bera stjórnvöld meiri sök á því sem nú er að gerast. Þau bera auðvitað líka ábyrgð á því að láta peningaprentun bankanna viðgangast, sem við vorum aldrei spurð hvort ætti að leyfa þeim.

Guðmundur Ásgeirsson, 14.9.2023 kl. 20:44

4 Smámynd: Birgir Loftsson

Guðmundur. Hvernig fer peninga prentun bankana fram? Ertu með blogg grein sem þú getur vísað í, þar sem þú útskýrir málið? 

Birgir Loftsson, 15.9.2023 kl. 08:14

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Birgir.

Svarið er í raun einfalt og ég skal útskýra það hér:

Fyrst er rétt að útskýra að "prentun" í þessu sambandi er í raun myndlíking því viðskiptabankar prenta ekki beinlínis áþreifanlega peningaseðla heldur búa þeir nú á dögum til nýja peninga með rafrænum hætti.

Það gerist þannig að þegar banki veitir útlán til viðskiptavinar býr hann til nýja innistæðu á bankareikningi lántakandans sem nemur lánsupphæðinni. Þessi upphæð var ekki til staðar áður í kerfinu heldur varð hún til við lánveitinguna. Þar sem innistæður á bankareikningum er hægt að nota sem greiðslu í öllum viðskiptum jafngildir þetta nýjum peningum.

Þessu má einnig lýsa með dæmi: Segjum að þú eigir 1 milljón króna á bankareikningnum þínum, en ætlar að kaupa þér bíl sem kostar 2 milljónir. Þú sækir því um lán að fjárhæð 1 milljón króna hjá bankanum. Þegar bankinn hefur samþykkt að lána þér þá upphæð hækkar hann innistæðuna á bankareikningum þínum um 1 milljón og þú átt nú innstæðu upp á 2 milljónir sem þú getur notað til að kaupa bílinn. Þessi viðbótar 1 milljón sem varð til á reikningnum þínum jafngildir nýjum peningum í umferð. Bankinn bjó þessa nýju peninga einfaldlega til með því að breyta tölunni sem segir til um hversu mikil innistæða er á reikningnum þínum.

Sumir eiga erfitt með að trúa því að þetta virki svona í raun, kannski vegna þess hvað þetta virðist vera einfalt eða þá að þeim hefur verið talin trú um að þetta virki einhvernveginn öðruvísi eða sé miklu flóknara. Staðreyndin er samt sú að það er einfaldlega svona sem þetta virkar.

Hér er ein staðfesting á því að þetta virki svona í raun en hún kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn á Alþingi (svarliður 3):

873/153 svar: verðbólga og peningamagn í umferð | Þingtíðindi | Alþingi

"Þegar innlánsstofnun veitir lán verður samtímis til nýtt samsvarandi innlán og þannig eykst peningamagn. ..."

Hér er önnur staðfesting í riti frá Englandsbanka (sjá rammagrein):

Bank of England Quarterly Bulletin 2014 Q1 - money-creation-in-the-modern-economy.pdf

"In the modern economy, most money takes the form of bank deposits. But how those bank deposits are created is often misunderstood: the principal way is through commercial banks making loans. Whenever a bank makes a loan, it simultaneously creates a matching deposit in the borrower’s bank account, thereby creating new money."

Hér er ítarlegri umfjöllun um peningasköpun bankanna frá óháðum samtökum:

How Banks Create Money - Positive Money

Þetta nægir vonandi til að svara spurningunni þinni.

Guðmundur Ásgeirsson, 15.9.2023 kl. 14:21

6 Smámynd: Birgir Loftsson

Takk fyrir Guðmundur. Athyglisvert. Þannig að þú ert að segja að bankinn þurfi ekki að eiga milljónina sem hann lánar sem eigið lausafé eða fjármagn í höndum bankans? Þetta sé upp á ímyndaða krítar reikning bankans? Getur bankinn þá "endalaust" búið til lánsfé sem hann lánar út? 

Birgir Loftsson, 15.9.2023 kl. 15:28

7 identicon

Þessi aðferð kölluð QE Quantitative Easing og sumir kalla modern monetary theory MMT (eða magical money tree) hefur verið óspart notuð (til dæmis Japan, USA ....) víða með þeim áhrifum að ríkið á alltaf nóg og getur þanið út sína starfsemi, en engin veit hvernig á að vinda ofan af skuldunum (stundum gefa ríkisjóðir skuldabréf sem seðlabankar kaupa með peningum sem þeir prenta sem fer svo út í hagkerfið) - sumir segja að nýjar tæknilegar uppgötvanir muni koma okkur til bjargar en "gamaldags fólk" varar við að þessi skuldasöfnun geti leitt til alsherjarhruns á stærstu hagkerfum.

Það hljómar einhvernveginn fyrir mig að svona hegðun geti ekki gengið endalaust án þess að eithvað gefi sig.  

Bragi Sigurðsson (IP-tala skráð) 15.9.2023 kl. 17:31

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er rétt ályktað, að bankinn þarf ekki að "eiga" milljónina sem hann lánar í fórum sínum til að geta veitt lánið. Þá peninga þarf ekki að taka neinsstaðar frá til að færa þá inn á reikning lántakandans, heldur verður einfaldlega til ný innstæða fyrir lánsfjárhæðinni. Á móti þessari nýju innstæðu sem telst vera skuld bankans við reikningseiganda, bókfærir hann sem eign sína skuldarviðurkenninguna sem lántakandinn undirritaði þar sem hann lofaði að endurgreiða lánið. Þetta þarf að gera svo að bókhaldið stemmi þ.e. að eignir og skuldir bankans standist á.

Sem betur fer getur banki ekki búið til endalaust mikið af nýju lánsfé úr lausu lofti með þessum hætti en það eru nokkrir þættir sem takmarka það. Helsta takmörkunin samkvæmt núgildandi regluverki felst í svokölluðum eiginfjárkröfum. Þær segja til um hversu mikið eigið fé (þ.e. eignir umfram skuldir) bankinn þarf að hafa svo hann teljist vera gjaldfær (þ.e. ekki farinn á hausinn) og þar með rekstrarhæfur. Þegar bankinn eykur útlán sín stækkar efnahagsreikningurinn bæði á skuldahlið (nýjar innstæður) og eignahlið (nýjar skuldarviðurkenningar). Ef eigið fé bankans helst óbreytt (sama upphæð) við þessar aðstæður verður það minna hlutfall af heildareignum en það hlutfall má ekki fara niður fyrir þau mörk sem seðlabankinn setur reglur um. Það þýðir að þegar eiginfjárhlutfallið er komið niður að settum mörkum getur bankinn ekki veitt meiri útlán nema hann auki eigið fé sitt. Það getur hann gert með ýmsum hætti, svo sem með því að halda eftir fé af rekstrarhagnaði sínum í stað þess að greiða það út sem arð til hluthafa eða með því að gefa út ný hlutabréf og selja þau.

Dæmi (einfaldað):

Banki á eignir (t.d. skuldaviðurkenningar) sem nema 1 milljarða króna en skuldar (t.d. innstæðueigendum) 800 milljónir. Þá á hann 200 milljónir umfram skuldir og eiginfjárhlutfallið er þá 20% af heildareignum. Seðlabankinn hefur sett reglur sem segja að eiginfjárhlutfall megi ekki fara undir 10%. Bankinn getur þá veitt ný útlán upp á 1 milljarð og skapað nýjar innstæður upp á sömu upphæð. Eftir það hafa eignir hans (útlánastofninn) hækkað í 2 milljarða en um leið hafa orðið til ný innlán og skuldir hans því aukist um 1 milljarð eða upp í 1.800 milljónir. Núna er eiginfjárhlutfall hans komið niður í 10% sem er lágmarkið samkvæmt reglum seðlabankans og þá getur bankinn ekki veitt meiri útlán (í bili a.m.k.). En í millitíðinni hefur hann innheimt tekjur í formi þjónustugjalda og vaxta af útlánum og sá hagnaður sem eftir stendur af þeim eftir greiðslu rekstrarkostnaðar bætist við eigið féð og fyrir vikið getur hann veitt meiri útlán. Þannig má segja að sá hagnaður sem eftir stendur af tekjum mínus útgjöldum bankans virki sem takmarkandi þáttur á útlánaaukningu hans.

Rétt er að taka fram að í raunveruleikanum er miklu flóknara hvernig eiginfjárhlutfall er reiknað út en í þessu mjög svo einfaldaða dæmi hér að ofan. Þar spila inn í þættir eins og áhættumat og hversu góðar tryggingar standa að baki útlánum, svo sem veð í fasteignum o.þ.h. Þess vegna geta reglur um hluti eins og greiðslumat og hámarkshlutföll veðsetningar einnig virkað sem takmarkandi þættir á útlánagetu banka.

Guðmundur Ásgeirsson, 15.9.2023 kl. 17:37

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Bragi.

MMT er eiginlega ekki kenning (theory) heldur frekar lýsing á því hvernig peningakerfið virkar í raun. Eins og það snýr að ríkisfjármálum er lýsingin á kerfinu þannig að ríkið sem hefur vald til að prenta peninga getur alltaf átt fyrir skuldum sínum því þegar kemur að gjalddaga getur það einfaldlega prentað peninga til að greiða skuldirnar og þannig alltaf staðið í skilum með þær. Þetta er þó háð því að skuldirnar séu í eigin gjaldmiðli ríkisins en ekki erlendum gjaldmiðli. Þess vegna leggja Bandaríkin svo mikla áherslu sem raun ber vitni á að viðhalda stöðu síns gjaldmiðils (USD) sem alþjóðlegs viðskiptagjaldmiðils og ganga svo langt að fara í stríð á erlendri grundu í þágu þeirrar stefnu. Þetta er órjúfanlegur þáttur í stöðu Bandaríkjanna sem stórveldis á alþjóðavísu. Þegar önnur ríki eru háð því að afla sér dollara og jafnvel skuldsetja sig í dollurum, svo sem til að kaupa olíu, hafa Bandaríkin ósýnilegt (eða torsýnilegt) vald yfir þeim. Þetta er það sem langflest stríð síðustu 70-80 ára snerust í raun um.

Rétt eins og í dæminu sem ég tók hér á undan um þá þætti sem takmarka útlánagetu banka er ekki þar með sagt að ríki geti prentað peninga út í hið óendanlega án þess að það hafi afleiðingar. Þær afleiðingar geta svo sannarlega komið fram fyrr eða seinna í formi óðaverðbólgu og jafnvel efnahagshruns ef óvarlega er farið með peningaprentunarvaldið. Þeir sem halda því fram að MMT þýði að það sé allt í lagi að láta prentvélarnar ganga hömlulaust eru annað hvort að misskilja kenninguna/lýsinguna eða misnota hana vísvitandi til að réttlæta ósjálfbæra stefnu.

Guðmundur Ásgeirsson, 15.9.2023 kl. 17:55

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Birgir.

Hér er fróðleikskorn sem mér datt í hug að bæta við þessa umfjöllun um peningasköpun bankanna. Í svari forsætisráðherra sem var vísað til í fyrri athugasemd kemur þetta fram:

"Þegar innlánsstofnun veitir lán verður samtímis til nýtt samsvarandi innlán og þannig eykst peningamagn. Það sama á ekki við þegar lífeyrissjóður veitir lán þar sem sú fjárhæð sem er lánuð var áður hluti af innlánum lífeyrissjóðsins eða bundin í öðrum fjárfestingum. Útlán lífeyrissjóða hafa þannig ekki sömu beinu áhrif á peningamagn og þegar innlánsstofnun veitir lán."

Með öðrum orðum: lífeyrissjóðir "prenta" ekki peninga. Þegar lífeyrissjóður veitir lán t.d. til húsnæðiskaupa þarf hann að taka fé af bankareikningi sínum og færa það inn á bankareikning lántakanda (eða eftir atvikum seljanda húsnæðisins). Innstæðan á reikningi lífeyrissjóðsins lækkar þá en hækkar jafn mikið á reikningi lántakans. Heildarmagn peninga í umferð breytist því ekki við slíka millifærslu.

Af þessari ástæðu ættu kaupendur húsnæðis mun frekar að taka lán hjá lífeyrissjóðum heldur en bönkum því lífeyrissjóðslán auka ekki peningamagn í umferð og ýta því ekki undir verðbólgu með þeim hætti. Fólk sem er þegar með húsnæðislán frá banka ætti jafnframt að íhuga að taka lífeyrissjóðslán í staðinn og greiða upp bankalánin, því þá minnkar peningamagn í umferð sem myndi slá enn frekar á verðbólguna. Því miður hafa fáir skilning á þessu vegna skorts á fræðslu um hvernig peningakerfið virkar.

Guðmundur Ásgeirsson, 15.9.2023 kl. 19:44

11 identicon

Það væri einkennilegur lánþegi sem tæki lán hjá banka til þess eins að láta lánið liggja inn á bankarekning svo bankinn gæti lánað öðrum lántakenda sömu upphæð.

Kanski eru einhverjir voðlega vitlausir og taki lán til að hækka innistæðu á bankreikningnum sinum með tilheyrandi lántöku og vaxtakotnaði en nýta ekki lánið á nokkurn hátt.  Staðreyndi   er sú að flestir óvitlausir taka lán til að mæta útgjöldum fjármagna framkvæmdir eða fjárfestingar. Lánið hefur því stutta viðkomu inni á bankareikeingi lántaka og bankinn hefur ekkert svigrúm til að lána sömu krónurnar aftur og aftur.

Bjarni (IP-tala skráð) 15.9.2023 kl. 21:12

12 Smámynd: Birgir Loftsson

Kærar þakkir Guðmundur, Bjarni og Bragi. Mjög fróðlegt. Þú segir Guðmundur að það sé betur fer þak á "peningaprentun" bankanna.

Athyglisvert með lífeyrissjóðina að þeir prenta ekki peninga eins og þú segir Guðmundur. Ég hélt einmitt að bankarnir störfuðu þannig 8eins og lífeyrissjóðirnir) eða eins og þú orðar þetta: "Með öðrum orðum: lífeyrissjóðir "prenta" ekki peninga. Þegar lífeyrissjóður veitir lán t.d. til húsnæðiskaupa þarf hann að taka fé af bankareikningi sínum og færa það inn á bankareikning lántakanda (eða eftir atvikum seljanda húsnæðisins)."

Birgir Loftsson, 16.9.2023 kl. 10:41

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Bjarni. Banki lánar aldrei sömu krónurnar aftur of aftur. Hver einasta króna sem banki lánar er búin til við lánveitinguna og hefur því aldrei verið lánuð áður. Vissulega er ekki sniðugt að taka lán til þess eins að láta lánsféð liggja óhreyft á reikni enda græðist ekkert á því heldur þarf þvert á móti að greiða af því hærri vexti en af innláninu. Þegar fólk tekur lán er það venjulega til þess að millifæra upphæðina á reiknings annars aðila til að kaupa eitthvað af honum, til dæmis þegar keypt er húsnæði þá er lánsupphæðin færð strax yfir á reikning seljandans.

Birgir. Það er vel skiljanlegt að þú hafir staðið í þeirri trú að lánveitingar banka virkuðu eins og hjá lífeyrissjóðum og öðrum aðilum sem ekki eru bankar. Flestum okkar hefur nefnilega verið talin trú um að banki þurfi að taka við fé frá öðrum til að lána það svo út, þessu hefur jafnvel verið haldið fram í kennslubókum í þjóðhagfræði sem eru notaðar í háskólum. Sú kenning eða skýring er samt kolröng því eins og er vel útskýrt í riti Englandsbanka sem ég vísaði til í fyrri athugasemd virkar ferlið í raun alveg þveröfugt. Innlán verða ekki að útlánum heldur verður útlánið til fyrst og svo verður það að innláni hjá lántakandanum.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.9.2023 kl. 19:31

14 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Geir, takk fyrir frábæran pistil.

Guðmundur Ásgeirsson. Takk fyrir þessar frábæru

upplýsingar sem þú setur fram svo einfaldlega að

hver og einn skilji. Algjörlega frábært.

Sigurður Kristján Hjaltested, 16.9.2023 kl. 20:13

15 identicon

Óttalegt bull er þetta í þér Guðmundur.  Banki getur ekki og hefur ekki heimild til að lána umfram innistæður sem hann varðveitir fyrir viðskiptavini sína. Við þær takmarkanir bætist síðan byndiskylda.

Allt tal um að bankar geti lánað hömlulaust er heimskulegt þvaður.

Bjarni (IP-tala skráð) 17.9.2023 kl. 03:07

16 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Bjarni.

Því var hvergi haldið fram að bankar geti lánað hömlulaust. Lestu endilega um það í athugasemd  dags. 15.9.2023 kl. 17:37 hér að ofan þar sem ég lýsti þeim þáttum sem eru helst takmarkandi á útlánagetu banka. Bindiskylda hefur lítið sem ekkert með það að gera því hún er miklu lægri prósenta en eiginfjárhlutföllin sem eru helsti takmarkarinn.

Því var ekki heldur haldið fram að banki geti eða megi lána umfram innistæður sem hann varðveitir fyrir viðskiptavini sína, heldur var einfaldlega verið að útskýra hvernig útlán virka raunverulega. Þegar útlán er veitt verður til ný innstæða fyrir sömu fjárhæð, en alls ekki umfram þá fjárhæð því þá myndi bókhaldið ekki stemma.

Eða eins og kom réttilega fram í svari forsætisráðherra:

873/153 svar: verðbólga og peningamagn í umferð | Þingtíðindi | Alþingi

"Þegar innlánsstofnun veitir lán verður samtímis til nýtt samsvarandi innlán og þannig eykst peningamagn. ..."

Hvað verður svo um innstæðuna eftir að hún verður til breytir engu um hvernig hún var búin til í upphafi. Það getur til dæmis alveg gerst að hún verði seinna millifærð á reikning í einhverjum öðrum banka.

Þú þarft ekki að taka mín orð fyrir því hvernig útlán banka virka frekar en þú vilt, þú getur til dæmis lesið þér til um það í greinargóðri umfjöllun í peningamálariti Englandsbanka frá fyrsta ársfjórðungi 2014:

Bank of England Quarterly Bulletin 2014 Q1 - money-creation-in-the-modern-economy.pdf

"Whenever a bank makes a loan, it simultaneously creates a matching deposit in the borrower's bank account, thereby creating new money."

Guðmundur Ásgeirsson, 17.9.2023 kl. 14:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband