Lögverndaðir og fúskarar

Sigurður Már Guðjónsson, formaður Landssambands bakarameistara, telur áform Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ráðherra, um að leggja niður núverandi kerfi um lögverndun starfsgreina, aðför að fagmennsku. Hann óttast að svört atvinnustarfsemi og fúsk muni taka við.

Já, skiljanleg orð úr munni manns á bak við varnarvegg gegn samkeppni sem er um það bil að verða rifinn, og ætla ég ekki að dæma manninn fyrir að láta svona frá sér. Jafnvel ekki þótt hann sé kominn ansi nálægt því að segja að fólk eigi ekki að fá baka heima hjá sér, en til vara að það sé í lagi ef sá sem bakar deilir ekki bakstrinum með öðrum.

En í raunveruleikanum gilda önnur lögmál.

Lögverndun starfsheita er aldagömul leið til að draga úr samkeppni, stuðla að fákeppni og búa til stéttir sem geta tekið því rólega á meðan aðrir án lögverndar þurfa að standa í eilífri samkeppni og aðlögun að breyttum smekk og venjum.

Það er í dag alveg hægt að finna gott brauð og vont á Íslandi þótt bakarameistarar séu með lögvernduð starfsheiti.

Það er hægt að finna góða sálfræðinga og lélega, góða verkfræðinga og lélega, góða hárgreiðslumeistara og lélega og góða smiði og svona mætti lengi telja.

Lögverndin skiptir einfaldlega engu máli. Góðir fagmenn sanna gildi sitt, öðlast gott orðspor og njóta velgengni, og lélegir ekki. Lögverndin deyfir þessi mörk góðrar og lélegrar fagmennsku með því að takmarka nýliðun og samkeppni.

Sem dæmi um einstaklega mikið rof á milli fíns titils og hæfni er fólkið sem undanfarin misseri hefur kallað sig sóttvarnarlækni Íslands. Það vita þeir sem vilja.

Lögvernd stuðlar að fúski.

Svo ég taki dæmi sem er mér nærtækt þá starfa ég sem verkfræðingur í Danmörku og tel mig nokkuð góðan. Starfsheiti mitt er ekki lögverndað. Ég hef unnið með sölufólki með viðskiptagráður sem kallar sig verkfræðinga (Tender Engineer, og álíka). Ætlar einhver að segja mér að arfleifð danskrar verkfræði sé stráð mistökum og vanhæfni? 

Á Íslandi þarf að sækja um hinn fína titil verkfræðings. Ætlar einhver að segja mér að arfleifð íslenskrar verkfræði sé ein samfelld sigurganga?

Lögverndin skiptir bara máli fyrir þá sem vilja búa í lítilli, verndaðri sápukúlu. Fyrir neytendur skiptir hún engu máli. Hana má rólega afnema. Og ég, verkfræðingur með M.Sc.-gráðu frá Háskóla Íslands, missi ekki svefn ef þú, kæri lesandi, kallar þig verkfræðing án þess að geta leyst jöfnuna 2x+3=7. Ég vona bara að enginn ráði þig sem slíkan, en það er önnur saga.


mbl.is Fyrirséð að fúsk muni aukast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband