Þegar almenningur læsir sjálfan sig inni

Samkvæmt gildandi reglugerð (og þrátt fyrir 74. gr. stjórnarskrár) mega að hámarki koma saman 200 einstaklingar. Andlitsgrímur skal nota þar sem húsnæði er illa loftræst eða ekki unnt að tryggja 1 metra fjarlægð á milli manna.

Með öðrum orðum: Ekkert mál að henda í 70 manna brúðkaup í rúmgóðu húsnæði, eða hvað?

En nei, Íslendingar hlusta ekki á yfirvöld. Í staðinn setja þeir sínar eigin reglugerðir sem gera út af við 70 manna brúðkaupsveislur. Þeir setja á sig grímu við öll tækifæri, líka í vel loftræstum rýmum þar sem eru margir metrar á milli manna. Þeir blása af útiskemmtanir þótt þeir haldi vissulega áfram að hittast úti og djamma og djúsa. Bara án skemmtiatriðanna. Það er jú heimsfaraldur. Ef Skoppa og Skrítla mæta á svæðið myndast smithætta, ekki satt? En haldi þær sig fjarri þá er allt í lagi að hittast. 

Til að bæta gráu ofan á svart eru skilaboð fréttatímanna komin í heilan hring. Hvað er markmiðið? Að fletja út kúrvu? Leyfa smit meðan ungra og hraustra? Útrýma veirunni? Sprauta og sprauta? Verja heilbrigðiskerfið? Á að hleypa krökkum í skóla án sprautunnar eða taka af þeim annan vetur því sprauturnar virka ekki eins og vonir stóðu til? Styrkja heilbrigðiskerfið svo það ráði við verkefnin sín þegar byrjar að hausta og allskyns pestir fara á stjá? Eða má kannski bara fara að pakka saman og gefa almenningi smávegis frí frá hræðsluáróðrinum? Segja fólki bara að lesa danska fjölmiðla sem eru orðnir nokkuð veirufréttalausir. 

Kannski þarf engar reglugerðir nú þegar almenningur finnur sjálfur upp á eigin takmörkunum og hættir við allt sem gerir lífið þess virði að lifa og setur á sig grímur þegar enginn var að leggja slíkt til. Sóttvarnarlæknir er jú í sumarleyfi og hætt við að veiran sjái það sem tækifæri, ekki satt?


mbl.is Covid-hraðpróf björguðu brúðkaupinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband