Laugardagur, 18. janúar 2020
Mikil völd draga að mikið fjármagn til að hafa mikil áhrif
Það virðist ítrekað koma blaðamönnum á óvart að mikil völd draga að mikið fjármagn aðila sem vilja hafa mikil áhrif.
Hvernig stendur á því?
Mikil völd hafa alltaf dregið að sér aðila sem vilja fá sneið af völdunum. Alltaf. Og svo mun alltaf verða.
Ef menn vilja ekki að Brussel verði að segli fyrir fjármuni stórfyrirtækja er til einföld lausn: Að minnka völd Brussel.
Þróunin er í hina áttina: Völd Brussel og annarra valdastöðva eru sífellt að aukast.
Fórnarlömbin eru almenningur, að sjálfsögðu.
Olíufyrirtæki styrkir forsæti Króata í ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Að minnka völd Brussel. Hljómar vel, margir sagt það í kosningabaráttum og á sviði. Þvingar mann ekki í djúpar hugsanir og gefur margt í skyn án þess að segja okkur nokkuð. Lætur okkur finnast við valdamikil að geta minnkað völd Brussel. Merkileg og hluti af sterkum hóp. Og málar Brussel upp sem skrímslið. Hókus pókus áróðursmeistara, hristist og endurtakist eftir þörfum.
En hvaða völd hefur Brussel? Hefur Brussel einhver völd umfram þau sem öll aðildarríkin hafa samþykkt og geta umsvifalaust tekið af Brussel? Er Brussel það öflugt verkfæri aðildarríkjanna að það hræðir önnur ríki? Er Brussel öflugustu neytendasamtök í heimi?
Það þarf að hugsa hratt og hægt þegar slagorð eru orðin leiðandi afl í pólitískum hugsanagangi. Þegar hljómfagrar setningar og sniðugir frasar loka á alla rökhugsun og segja þér hver óvinurinn er. Þegar sannfæringin ber öll merki múgæsingar. Og þegar þú horfir í kring um þig og sérð að skoðanabræður þínir gætu ekki hneppt skyrtu hjálparlaust og bíta sig í tunguna og detta ef þeir reyna að tyggja og ganga samtímis.
Vagn (IP-tala skráð) 18.1.2020 kl. 20:41
Vagn,
Það kemur mér ekki á óvart að þú haldir uppi vörnum fyrir samþjöppun valds og notir allskyns hughrif til að hafa áhrif á lesandann, svo sem að kalla valdasamþjöppun Brussel sjálfviljuga, kallir valdamiðstöðina neytendasamtök, og kallir þá sem eru gagnrýnir á samþjappað vald áróðursmeistara.
Hefðir þú verið uppi á miðöldum einveldiskonunganna væri kannski auðvelt að spá fyrir um skoðun þína á afnámi einveldisins. Það var jú frá Guði komið.
Geir Ágústsson, 19.1.2020 kl. 06:17
Í framhaldi af þessum pælingum þá má íhuga hverjir muni sækjast eftir "völdum" á Íslandi ef rafmagns sæstrengur yrði lagður til ESB?
Það má líka leiða líkur að því að hér hafi verið starfandi leigupennar (áhrifavaldar) sem hafa verið að reyna ýta ákveðnum málum í gegn
Grímur (IP-tala skráð) 19.1.2020 kl. 11:21
Það kemur mér ekki á óvart að þú málir samþjöppun valds svarta og notir allskyns órökstuddar fullyrðingar og slagorð til að hafa áhrif á lesandann. Samþjöppun valds má víða sjá. Verkalýðsfélög og alþingi eru samþjöppun valds. Félag eldri borgara, nemendafélög, foreldrafélög og söfnuðir eru samþjöppun valds. NATO, Norðurlandaráð, Evrópusambandið og Bandaríkin eru samþjöppun valds. Samþjöppun valds er ein helsta aðferð einstaklinga og ríkja til að bæta stöðu sína og verja sína hagsmuni. "Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér."
Það má oft sjá þegar menn verða rökþrota að þeir búa til aðstæður sem koma málinu ekkert við og gera andstæðingnum upp heimskulegar skoðanir við þær aðstæður. Fara að tala um einræði þegar sjálfstæð ríki stofna samtök sem hafa þann eina tilgang að bæta hag aðildarríkjanna. Til dæmis gæti ég sagt: Hefðir þú verið uppi á miðöldum einveldiskonunganna væri kannski auðvelt að spá fyrir um skoðun þína á afnámi einveldisins. Það var jú hagkvæmara en þing, stjórnir, nefndir og ráð þúsunda manna.
Einveldi miðalda var ekki samþjöppun valds þó valdið hafi allt verið á einni hendi. Ekki frekar en ef ég héldi byssu að þér og þinni fjölskyldu. Samþjöppun valds er sameinað vald fjöldans en ekki þvingað vald ofbeldis yfir fjöldanum.
Vagn (IP-tala skráð) 19.1.2020 kl. 14:07
Mér sýnist þú vera að jafna saman samtökum einstaklinga sem er auðvelt að ganga í og úr, samtökum ríkja sem er auðvelt að ganga í og úr og samtökum ríkja sem er mjög erfitt að ganga í og enn erfiðara að segja sig úr.
Eða veistu hvað varð um Suðurríki Bandaríkjanna þegar þau sögðu sig frá Washington?
Geir Ágústsson, 19.1.2020 kl. 16:17
Ég veit ekki hvað varð um Suðurríki Bandaríkjanna þegar þau sögðu sig frá Washington. En í innsetningarávarpi sínu til forsetaembættis sagði Lincoln að stjórn hans mundi ekki hefja borgarastyrjöld. Og hann sagði við Suðurríkin: "I have no purpose, directly or indirectly to interfere with the institution of slavery in the United States where it exists. I believe I have no lawful right to do so, and I have no inclination to do so.".
En ég veit hvað varð um Suðurríki Bandaríkjanna eftir að þau réðust á Fort Sumter í Suður Carolinu og lýstu þar með yfir stríði. Þau voru sigruð. Hver þróunin hefði orðið ef Suðurríkin hefðu ekki hafið borgarastyrjöld er ómögulega að segja.
Vagn (IP-tala skráð) 19.1.2020 kl. 18:10
Spurninguna mætti umorða úr því einblínir á hver skaut fyrsta skotinu (sem hafði sinn aðdraganda): Eru vísbendingar um að þau hefðu fengið að ganga út úr ríkjasambandinu án átaka?
Auðvitað er svarið nei. Og Brexit hefur staðið í ESB, og allar sjálfstæðishreyfingar minnihlutahópa sem vilja sjálfstæði mæta hressilegri andstöðu. Valdastöðvarnar verja landamæri sín alltaf.
Geir Ágústsson, 19.1.2020 kl. 18:34
Eru vísbendingar um að þau hefðu fengið að ganga út úr ríkjasambandinu án átaka? Önnur en orð forsetans og að Norðanmenn hófu ekki átökin? Nei, en hverjar ættu þær vísbendingar þá að vera? Hamingjuóskir með vel heppnaða árás á virki Norðanmanna frá Norðanmönnum?
Og Brexit hefur ekki staðið í ESB. Brexit hefur staðið í Bretum. Það er ekkert sem stöðvað hefur útgönguna annað en vandræðagangur Breta og óskir þeirra um framlengingu. Það kom jafnvel til álita við síðustu framlengingarumsókn að hafna henni og henda Bretum út.
Sumar sjálfstæðishreyfingar minnihlutahópa sem vilja sjálfstæði mæta sumstaðar hressilegri andstöðu. Danir hafa ekki enn gert árásir á Grænlendinga og Færeyjar. Bretar eru ekki þungvopnaðir í skotgröfum við landamæri Skotlands. Eistland, Lettland og Litháen fengu sitt sjálfstæði án átaka. En Spánverjar vilja ekki gefa eftir hluta af Spáni og sennilega yrðu Danir fúlir ef Slagelse heimtaði sjálfstæði. Vestmannaeyingar gætu allavega átt sig og sótt alla þjónustu eitthvað annað en á fastalandið ef þeir ákvæðu að slíta sig frá því.
Vagn (IP-tala skráð) 19.1.2020 kl. 19:23
Vagn,
Borgarastyrjöld Bandaríkjanna hófst ekki með fyrsta skotinu. Þú hlýtur að vita það. Það hófst með efnahagsstefnu alríkisins sem gerði Suðurríkjunum erfitt fyrir. Eftir úrsögn byrjuðu svo hermenn að safnast saman við landamæri Suðurríkjanna. Ef þú veist að Lincoln var alveg sama um þrælana (sem er rétt) af hverju veistu þá ekki að það var honum kappsmál að þvinga Suðurríkin til að vera í sambandinu? Ég held að þú vitir það vel, en það ögrar þinni heimssýn og aðdáun á samþjöppun ríkisvalds.
Þér hefur svo tekist vel að týna til dæmi og um leið að velja önnur frá:
- Kína: Tíbet og Taiwan
- Spánn: Baskaland og Katalónía
- Almennt svæði Kúrda í Sýrlandi, Tyrklandi, Írak og Íran (enginn vill gefa litla sneið)
Úr því þú nefnir svæði í Danmörku má nefna að Suður-Jótland, það svæði sem tilheyrir Danmörku í dag og heitir Slesvig, var sjálfsstjórnarhérað undir dönsku krúnunni í hundruðir ára þar til Prússar tóku það. Þegar taki Prússa sleppti var það vitaskuld sett beint undir alríkisvaldið. Yfirvöld tala um að það hafi "á ný" verið sameinað Danmörku en fór úr sjálfsstjórn í miðstjórn. Tungutak miðstjórnarvaldsins aðlagast þörfum þess. Og svo mun alltaf verða, og þeir sem hafa hugleitt valdið og áhrif þess á fólk og fé hafa yfirleitt lært að hræðast það.
Geir Ágústsson, 19.1.2020 kl. 20:02
Spádómar um hvað hefði skeð ef það sem skeði hefði ekki skeð er slakur málflutningur, rökleysa tapaðs málflutnings sem sannar ekkert nema rökþrot.
Ég var ekki að týna til dæmi og um leið að velja önnur frá. Ég var að benda á að alhæfing þín stæðist ekki skoðun, væri bull. Og það er oft mikið að gera á þeirri deild. En þetta er orðið gott, þú sannfærir ekki einu sinni sjálfan þig lengur.
Vagn (IP-tala skráð) 19.1.2020 kl. 22:21
Sennilega hefði Machiavelli sagt það sama við Lord Acton og haldið áfram að sleikja tær valdhafanna, en hann um það.
Geir Ágústsson, 20.1.2020 kl. 05:44
Ekki hættur spádómum sem aldrei munu rætast um fortíð sem aldrei skeði.
Vagn (IP-tala skráð) 20.1.2020 kl. 10:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.