Laugardagur, 4. janúar 2020
Nefndir og aðrar leiðir til að forðast ákvarðanatöku
Greinin hér að neðan birtist í Morgunblaðinu í dag (með annarri fyrirsögn) og er aðgengileg áskrifendum blaðsins hér.
**************************************
Í lýðræðisríki er reglulega kosið um stjórnendur á hinum ýmsu stjórnsýslustigum til að tryggja að kjósendur hafi eitthvað um það að segja hvaða ákvarðanir eru teknar, a.m.k. þegar kemur að stóru málunum.
Þetta er allt gott og blessað. Vissulega eru stjórnmálamenn kosnir og þeir samþykkja lög og annað slíkt sem geta haft mikil áhrif á samfélag og hagkerfi. Í kosningabaráttu lofa frambjóðendur einu og annað og kjósendur geta stuðst við slík loforð til að mjaka stóru málunum í einhverja átt. Einhverjir boða fóstruríki og aðrir ekki. Sumir vilja gera sem flesta að þurfalingum velferðarkerfisins á meðan aðrir telja að hóflegt öryggisnet dugi til að grípa þá fáu sem geta sér litla björg veitt af ýmsum ástæðum.
Það blasir samt við að stjórnmálin ein og sér duga kjósendum ekki til að hafa áhrif á gang mála því innan opinbers reksturs starfar ógrynni allskyns nefnda og stofnana sem kjósendur koma hvergi nærri. Ókjörnir embættismenn ráða of meiru um framkvæmd laga og reglugerða en sjálfir stjórnmálamennirnir. Embættismennirnir hafa ekki endilega skoðanir kjósenda í huga. Miklu frekar er þeirra áhersla á eigið starfsöryggi. Það má tryggja með því að túlka allt eins strangt og hægt er og efla þannig eftirlitsiðnaðinn, setja eins mörg skilyrði og lögin heimila til að hámarka magn umsóknareyðublaða og tefja mál eins lengi og hægt er til að byggja upp rök fyrir frekari fjárheimildum. Stjórnmálamenn eru eins og lamaðir þegar kemur að því að eiga við embættismannaverkið og finnst kannski bara gott að hafa það til að skella skuldinni á þegar einhver vinnustaðurinn deyr drottni sínum undan þunga skrifræðisins, eða flýr erlendis.
En þetta versnar enn. Stjórnmálamenn eiga það til að hlaupa í felur frá eigin hugsjónum þegar blaðamenn ber að garði eða skoðanakannanir sýna lítinn stuðning við tiltekið mál. Þá er upplagt að stofna nefnd eða starfshóp, moka í fé í litla hít, fá til starfa fólk með stórar háskólagráður og bíða svo eftir skýrslunni. Í umræðuþáttum bera stjórnmálamennirnir svo á borð skoðanakannanir sem sýni þjóðarviljann svokallaða og hvernig hann fellur að skoðunum viðkomandi en ekki annarra við borðið, nefna þörfina á heildarendurskoðun og ítarlegri úttekt, ásaka mótherja sína um spillingu eða stuðning við slíka og enda oftar en ekki á því að krefjast nýrrar stjórnarskrár.
Hvað eiga kjósendur að gera við svona stjórnmálamenn? Af hverju þora stjórnmálamenn ekki bara að segja blákalt að þeir vilji frjálst markaðshagkerfi eða hina sósíalísku andstæðu þess? Viltu að Ísland gangi í Evrópusambandið eða ekki? Viltu að skattar og opinber útgjöld hækki eða lækki? Eða viltu kannski að skattar lækki, útgjöld hækki og skuldir aukist? Aðspurður um slíkt, af hverju þarftu þá alltaf að vísa í nefnd eða heildarendurskoðun í stað þess að hafa bara skoðun? Er spurningin of umfangsmikil til að hægt sé að svara henni í beinni útsendingu? Skrifaðu þá grein eða langan pistil og gerðu grein fyrir máli þínu.
Þessi flótti stjórnmálamanna frá eigin skoðunum í gegnum embættismannaverkið, nefndarstörfin og loðnu svörin er vandamál fyrir lýðræðið og heldur kjósendum í raun frá allri raunverulegri stefnumörkun í samfélaginu. Það eina sem má ganga að vísu er að allir stjórnmálamenn þora að hækka opinber útgjöld og skatta og hljóta þannig blessun vinstrisinnaðra blaðamanna sem ráða ferðinni í raun.
Er ekki hægt að gera betur?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.