Sprengisandur: Daufur þáttur sem skilur lítið eftir

Ég er að hlusta á umræðuþáttinn Sprengisand á Bylgjunni núna. Þar eru mættir í settið Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra, Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA, Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur BSRB.

Miðað við mannvalið mætti ætla að nú væri í gangi leiftrandi umræða þar sem menn skiptast á rökum og því að mæla fyrir frjálsu markaðshagkerfi vs. sósíalisma, samruna við ESB vs. frjáls heimsviðskipti og opinbera spillingu vs. spillingu í samskiptum viðskiptalífs og hins opinbera.

En nei, þetta er ósköp rólegt kaffibollaspjall. Menn vísa í skoðanakannanir 20 ár aftur í tímann, nefna þjóðarvilja hægri og vinstri og tala um að það þurfi að gera ýmsar heildarúttektir. 

Menn eru að tala um að svipta fyrirtæki atvinnutækjum sínum sem voru þó greidd fullu verði, mikilvægi þess að fyrirtæki séu smá og veik og ósamkeppnishæf við mun stærri erlend fyrirtæki og að það sé gamaldags hugsun að ríki vilji ráða yfir eigin hagsmunum.

Meira að segja þeir gestir þáttarins sem eru ósammála hinum fara sér mjög hægt í sakirnar að svara fyrir sig. 

Þetta er allt frekar dauft og ég er ekki að heyra margt sem er nýtt í mínum eyrum. 

Mætti ekki krydda svona þætti með því að spyrja gesti með beinskeyttum hætti hvert lokatakmarkið sé með hinum og þessum vangaveltum? Að gestir geti ekki bara talað í loðnu máli um úttekt á hinu og endurskoðun á þessu heldur þurfi að segja hver raunveruleg skoðun viðkomandi er?

Menn þurfa þá kannski að hafa einhver rök fyrir máli sínu á hreinu.

En nei, menn skiptast á hálfkveðnum vísum og enginn þarf að fylgja hugsun sinni á endastöð.

Því miður.

En nú lauk þættinum og við tekur væntanlega eitthvað annað léttmeti. Ég ætla að setja á tónlist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er naumast að þessi færsla er mikið "lækuð". Er verið að deila henni í lokuðum hópum einhvers staðar?

Geir Ágústsson, 30.12.2019 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband