Föstudagur, 21. júní 2019
Hinn einkavæddi spítali
Margt er sagt og ritað um heilbrigðiskerfið enda nokkuð sem flestir hafa skoðun á, af mjög persónulegum ástæðum.
Hið íslenska heilbrigðiskerfi er að mörgu leyti ólíkt heilbrigðiskerfum hinna Norðurlandanna. Á Íslandi er miðstýring ríkisins mun meiri. Í Danmörku og Svíþjóð (og sennilega Noregi líka) er heilbrigðiskerfið brotið upp í svæði eða landshluta. Sem dæmi má nefna að í Stokkhólmi er nokkur munur á heilbrigðiskerfinu miðað við sum önnur svæði Svíþjóðar. Í Stokkhólmi er til dæmis hægt að finna 100% einkavæddan spítala með bráðamóttöku, sem er rekinn af hagnaðarsjónarmiðum. Vissulega þiggur hann fé fyrir vinnu sína úr opinberum sjóðum fyrir meðhöndlanir sem hið opinbera tryggir aðgang að, en það í engu ólíkt hefðbundinni verktakavinnu sem hið opinbera kaupir í mörgu samhengi.
Í Danmörku er engin opinber umræða um aðkomu einkaaðila að meðhöndlun sjúklinga. Hún er talin sjálfsögð. Vinnuveitendur kaupa margir sjúkratryggingar fyrir starfsmenn sína til að tryggja hraða meðferð fyrir þá ef eitthvað kemur upp á. Læknar, sjúkraþjálfarar, augnlæknar, nuddarar, sálfræðingar og margir fleiri vinna verktakavinnu fyrir bæði hið opinbera og tryggingafélög og auðvitað þá sem borga beint úr eigin vasa. Það vita allir að sjúklingur sem fer á einkaspítala léttir um leið á álaginu á ríkisspítalanum.
En á Íslandi eru farlama gigtarsjúklingar sendir í sjúkraflugi til útlanda, þar sem erlendir verktakar íslenska ríkisins taka við þeim, frekar en að innlendum aðilum sé leyft að vinna verktakavinnu. Íslendingar eru hér orðnir norrænni en Norðurlöndin - kaþólskari en páfinn.
Vilja bæði éta kökuna og halda henni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:26 | Facebook
Athugasemdir
Í einhverjum tilfellum hefur gerst að fólk hafi verið sent héðan í aðgerð, sem svo hefur verið framkvæmd af ílenskum lækni - þeim sem hefði gert aðgerðina hér hvort eð er ef ríkið hefði viljað borga honum fyrir að gera hana hér.
Veit ekki hvers vegna það gerist, en svona er þetta víst.
Ásgrímur Hartmannsson, 21.6.2019 kl. 12:30
Það skapast undarlegur farsi þegar tveir flokkar með andstæðar skoðanir stjórna málum. Annar vill ekki semja við einkastofur ef Landspítali getur gert aðgerðirnar fyrir minni pening. Hinn vill semja við einkastofur um að gera aðgerðirnar þó dýrara sé. Síðan ræður annar við hverja er samið og hinn hversu mikið Landspítalinn fær til aðgerða. Mismunurinn skilar sér í fjölda sem lendir á löngum biðlistum og þurfa að nýta sér Tryggingastofnun og lagalegan rétt sinn til að sækja sér lækninga erlendis. Tryggingastofnun ber að greiða fyrir þær aðgerðir en er ekki heimilt að setja peninginn í rekstur landsspítalans.
Vandamálið er að ein ríkisstofnun er svelt og fær ekki fjármagn til að gera aðgerðirnar og önnur ríkisstofnun mað annan fjárhag þarf því að taka við sjúklingunum og borga margfalt meira fyrir að láta gera aðgerðirnar erlendis.
Vagn (IP-tala skráð) 21.6.2019 kl. 12:56
Vagn,
Miðað við aldursdreifingu er íslenska heilbrigðiskerfið eitt hið dýrasta í heimi. Um leið mjög ríkisrekið. Er bókstaflega allt Sjálfstæðisflokknum að kenna?
Geir Ágústsson, 21.6.2019 kl. 15:34
Og miðað við þjóðartekjur það ódýrasta í okkar heimshluta. Fyrir nokkrum árum síðan vildi Kári Stefánsson að framlög ríkisins hækkuðu verulega og væru svipað hlutfall þjóðartekna og á hinum norðurlöndunum. Við erum enn í um 8% meðan hinir eru í 11%.
Sjálfstæðisflokkurinn ber einhverja ábyrgð þó fylgjendur hans láti ævinlega eins og stjórnarandstaðan ákveði alla hluti.
Vagn (IP-tala skráð) 21.6.2019 kl. 17:28
Þannig að plástur á að kosta meira fyrir íslenska miðtekjumanninn en íslenska verkamanninn? Auðvitað á ekki að miða við heildar-eitt-né-neitt, heldur á að reyna ná fram bættri skilvirkni, og gera það að markmiði, en ekki bara að stíma á kostnað þeirra sem borga mest.
En auðvitað má kenna Sjálfstæðisflokknum um eitt og annað og tek ég gjarnan þátt í þeirri þjóðaríþrótt. Þó get ég ekki kennt honum um að farlama gigtarsjúklingar séu sendir í flugvél sem flýgur yfir Ármúlann og læknana þar og til íslensku læknana í Svíþjóð, sem Ásgrímur nefndi.
Geir Ágústsson, 21.6.2019 kl. 17:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.