Sukkið er byrjað

Stjórnmálamenn eru að drukkna í fé almennings og lánsfé og eyða því eins og vindurinn. Um leið hlusta þeir ekki í viðvörunarorð, jafnvel ekki frá öðrum afkimum hins opinbera. Um leið er varla hægt að búast við því að ríkisstjórnin geti verið lengra til hægri í hinu pólitíska landslagi á Íslandi. Ef hún væri lengra til vinstri væri eyðslugleðin sennilega miklu meiri. 

Hvað er þá til ráða?

Auðvitað er hægt að vona að stjórnmálamenn taki mark á viðvörunum sem dynja á þeim úr öllum áttum. Það má samt telja ólíklegt.

Það er líka hægt að vona að ríkisstjórnin taki rækilega til í ríkisrekstrinum og dragi hann kröftuglega saman enda langt í kosningar og hægt að vona að tímabundnar þjáningar vegna róttækrar aflimunar ríkisskepnunnar verði orðnar að mikilli gleði þegar kjósendur þurfa næst að fara í kjörklefana. Það tekur oft svolítinn tíma að jafna sig eftir skurðaðgerð, líka skurðaðgerð á opinberum rekstri. En hér þarf að vera hóflega bjartsýnn á aðgerðir. 

Kannski eru hænuskrefin í rétta átt allt í lagi og það besta sem hægt er að búast við. Hlutabréf í banka eru seld, einkaaðili fær að opna nokkur sjúkrarúm eða kennslustofur. Einhver skatturinn er lækkaður um nokkrar kommur. Gallinn er bara sá að vinstrimenn þenja ríkið alltaf hraðar út en svokallaðir hægrimenn draga það saman. Alltaf! Og þegar hægrimenn greiða niður skuldir hægt og bítandi eru þeir bara að búa til svigrúm fyrir vinstrimenn til að bæta í þær aftur. 

Það er því bara eitt í stöðunni: Að nota tímabundið góðæri til að búa sig undir óumflýjanlega niðursveiflu. Spara í sem fjölbreyttustu formi. Bæta við sig verðmætaskapandi þekkingu og þjálfun. Koma sér upp nokkrum mismunandi möguleikum til tekjuöflunar. Eignast erlendan gjaldeyri af ýmsu tagi. Borga niður skuldir. Gera áætlun sem gengur út á að niðursveifla sé framundan, en ekki áætlun sem gerir ráð fyrir stöðugleika til langs tíma. 

Og vona það besta. 


mbl.is Stíga laust á bensíngjöfina í stað þess að bremsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Óhjákvæmileg niðursveifla verður ekki vegna vinstri manna heldur vegna núverandi stjórnvalda.

Af hreinni græðgi hrifsa stjórnvöld og skjólstæðingar þeirra, sérhagsmunaöflin, sífellt meira til sín og láta sífellt minna af hendi rakna í sameiginlega sjóði. Þannig rennur sífellt meira fé til aflandslanda á meðan innviðirnir nálgast óðfluga hrun.

Þetta myndar mikla spennu sem verður að losa úr læðingi ef ekki á illa að fara. Eðlilegt er að auka skuldir við slíkar aðstæður en aðeins í hófi. Stórfelld en um leið sanngjörn hækkun skatta á auðmenn, tekjuháa og fyrirtæki er lausnin sem blasir við.

Við þurfum að feta í fótspor hinna norðurlandanna til að ná sömu lífskjörum og þar tíðkast. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 23.4.2017 kl. 09:50

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Stefán Ólafsson blotnar sennilega í buxunum við að lesa svona lagað. 

Talandi um hin Norðurlöndin: Í Danmörku er verið að lækka skatta og borga niður skuldir. Í Svíþjóð hafa menn í áratugi verið að einkavæða hluta af menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu, a.m.k. á sumum svæðum. Á öllum Norðurlöndum eru starfræktir einkapítalar sem eru oft valkostur við hið opinbera kerfi. Á Íslandi stendur ríkisvaldið í bókaútgáfa, sem er nokkuð sérstakt ef miðað er við hin Norðurlöndin. Í Svíþjóð var Saab-bílaframleiðandinn seldur til Kínverja án þess að samfélagið færi á hliðina - á Íslandi má varla rukka útlendinga fyrir klósettferðir án þess að menn hrópi að verið sé að loka landinu fyrir Íslendingum. 

Svo já, Íslendingar gætu lært margt af hinum Norðurlöndunum, því Ísland er svolítið sér á báti núna - er of vinstrisinnað miðað við þau ef svo má segja. 

Geir Ágústsson, 24.4.2017 kl. 08:23

3 identicon

Það er í lagi með einkarekstur á ákveðnum sviðum ef hann grefur ekki undan opinberum rekstri og veldur ekki kostnaðarauka fyrir almenning. Það sem leyfist hér i þessum efnum myndi aldrei leyfast á hinum norðurlöndunum.

Hér er Landsspítalanum skammtað svo naumt fé að hann getur ekki sinnt eftirspurn. Einkaaðilar fá hins vegar greitt skv reikningum. Það er markvisst verið að rústa opinbera kerfinu til þess eins að skapa gróðamöguleika fyrir útvalda. Með þessum hætti hækkar kostnaður almennings og ríkis upp úr öllu valdi og þjónustan versnar.

Skv mælingum Transparency International er spillingin langmest hér á norðurlöndunum. Þó tel ég að öll kurl séu ekki komin til grafar í þeim efnum og að munurinn sé enn meiri.

Ásmundur (IP-tala skráð) 24.4.2017 kl. 11:30

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er þetta með tölfræði og alþjóðan samanburð sem getur verið svo athyglisvert (eða misvísandi):

https://www.facebook.com/notes/dav%C3%AD%C3%B0-%C3%BEorl%C3%A1ksson/70-m%C3%A6likvar%C3%B0ar-sem-segja-allir-%C3%BEa%C3%B0-sama/1343549648990842

Dettur þér engin önnur ástæða fyrir rekstrarvanda Landspítalans en að fjárframlög til hans hafi nánast aldrei verið hærri, nokkurn tímann?

Geir Ágústsson, 25.4.2017 kl. 07:22

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Annars er ég sammála því að það má herma eftir mörgu á hinum Norðurlöndunum (annað en háa skatta):

- Áfengissölufyrirkomulag Danmerkur

- Möguleikann í danska skattkerfinu að greiða allt að því milljón á mann á ári í fyrirframgreiddan arf án þess að borga af því skatt

- Möguleikann í danska skattkerfinu til að lækka skattbyrði á bifreið sína með því að fjarlægja úr henni aftursætin

- Danska fyrirkomulag atvinnuleysistrygginga (svokallaðir A-kassar)

- Sænska (víða) og danska fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu (sambland af einkaaðilum og hinu opinbera; einstaklingar hafa möguleika á að sjúkratryggja sig út úr hinu opinbera heilbrigðiskerfi)

- Danska fyrirkomulag grunnskólamenntunar (ríkið lætur peninginn fylgja nemandanum, ekki skólanum, og einkaskólar geta því keppt um þá gegn sáralítilli aukagreiðslu foreldra)

- Danska fyrirkomulag eignarhalds á alþjóðaflugvelli; ríkið er bara lítill hluthafi en einkaaðili í meirihlutaeigu sér um rekstur og fær að greiða sér arð af hagnaði

- Almennt norrænt fyrirkomulag á eignarhaldi á bönkum; ríkið er í mesta lagi hluthafi með minnihluta hlutabréfanna

Ég er sennilega að gleyma einhverju en já það má læra margt af Norðurlöndunum. 

Geir Ágústsson, 25.4.2017 kl. 08:34

6 identicon

Þeir sem eru með allt niður um sig og vilja vera það áfram hafa ekki annan kost en að grípa til blekkinga.

Stjórnarliðar, hver í kapp við annan, hamast nú við að bera saman samanlögð fjárframlög til reksturs og nýbyggingar við framlög til reksturs fyrri ára og þykir mikið til koma. Má þá búast við að ef byggingarkostnaður fer fram úr áætlun að þá lækki framlag til reksturs spítalans samsvarandi?

Verða þá framlög til nýbygginga og viðhalds hjá ríkisstofnunum dregin frá rekstraframlögum til þeirra í framtíðinni? Stjórnarliðum virðist þykja það eðlilegt.

Ásmundur (IP-tala skráð) 25.4.2017 kl. 10:17

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Fyrir skattgreiðandann þarf að segja skýrt frá því hver heildarkostnaður hans sé við ríkisreksturinn í heild sinni og sundurliðað. Það er fáheyrt að fyrirtæki þurfi að borga mönnum úti í bæ til að komast að skattbyrði sinni. 

Heilbrigðiskerfið hlýtur að kosta allt í senn:

- Byggingakostnað

- Viðhald

- Laun

- Lyf

- Almennan rekstrarkostnað

Skattgreiðendur vilja bara vita hvað þetta kostar, og sumir hafa áhuga á samanburði á milli landa. 

Kannski starfsfólk í heilbrigðisþjónustunni sé að reyna fela þá staðreynd að megnið af fjáraukningu hins opinbera til heilbrigðiskerfisins undanfarin misseri hafi runnið í þeirra eigin vasa í formi launahækkana? 

Geir Ágústsson, 25.4.2017 kl. 11:03

8 identicon

Geir, áttu við að þegar laun hækka hjá sjúkrahússtarfsfólki (en eru þó enn lág hjá flestum) þá sé eðlilegt að annar kostnaður við að reka spítalann lækki samsvarandi þannig að þjónustan skerðist?

Laun hjúkrunarfræðinga hjá LSH eru svo lág að enginn hjúkrunarfræðingur sem útskrifast í vor ætlar að ráða sig þangað til starfa. Þeir fá þó vinnu í sínu fagi annars staðar meðal annars hjá einkaaðilum sem geta auðveldlega borgað betur enda öfugt við LSH með frjálst aðgengi að ríkisfé.

Er betra að ríkið greiði hjúkrunarfræðingum hærri laun hjá einkaaðilum með tilheyrandi aukakostnaði þar með töldum arði til eigenda?

Ásmundur (IP-tala skráð) 25.4.2017 kl. 14:21

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Nærtækast væri nú bara fyrir ríkið að aðskilja meðhöndlun og fjármögnun og bjóða út meðferðir við hinum ýmsu meinum. Einkaaðilar, sem eru ekki bundnir af opinberu skrifræði eða kjarasamningum, gætu þá keppt um sjúklingana. Þetta mætti kalla sænsku leiðina.

Svo mætti kannski opna á sjúkratryggingar þar sem fé kæmi inn í formi tryggingarfjár sem gæti dreift aðeins álaginu á opinbera kerfið inn á aðrar stofnanir og fyrirtæki. Þetta mætti kalla dönsku leiðina.

Íslenska leiðin er greinilega ekki að ganga upp. Hún veldur bara stanslausum kostnaðarauka fyrir skattgreiðendur án þess samt að gæði batni, starfsfólk sé ánægðara eða aðstaðan sé í lagi. Eða hversu lengi á að dæla fé í kerfið áður en menn sjá að það er í grundvallaratriðum gallað?

Geir Ágústsson, 25.4.2017 kl. 17:27

10 identicon

Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar þurfa sjúkrahús á Íslandi að skera niður í rekstri um tæpa 5,2 milljarða á næstu fimm árum til að skapa svigrúm til nýrra verkefna.

Þetta kom fram í ræðu Maríu Heimisdóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Landspítalans, á ársfundi spítalans í gær.

Er það þetta sem þú kallar sukk, Geir? Sukkið er allt í einkarekstrinum. Í opinbera geiranum er beitt stórskaðlegri aðhaldssemi.

Ásmundur (IP-tala skráð) 25.4.2017 kl. 21:56

11 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég kalla ýmislegt sukk. Og í opinberum rekstri eru miklu sterkari hvatar til að spara aurinn en henda krónunni en hjá fyrirtækjum þar sem hver króna eydd er króna töpuð úr vasa einhvers. 

Geir Ágústsson, 26.4.2017 kl. 08:08

12 identicon

Hver króna eydd er að sjálfsögðu töpuð úr vasa einhvers ekki síður i opinberum rekstri en einkarekstri.

Rannsóknir sýna hins vegar að einkarekstur í heilbrigðiskerfinu er dýrari en opinber rekstur og veitir auk þess verri þjónustu.

Krafa eigenda um mikinn arð og allt of frjálst aðgengi að opinberu fé er að mínu mati helstu skýringarnar. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 26.4.2017 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband