Auðvelt er fé annarra að eyða

Margir góðir málshættir eru til á íslenskri tungu, en eitthvað vantar þó upp á, sérstaklega í samhengi stjórnmála.

Hér er lítið framlag frá mér til að bæta upp fyrir þennan skort.

Auðvelt er fé annarra að eyða.

Þessi útskýrir sig væntanlega sjálfur. Stjórnmálamenn taka fé annarra og eyða því, gjarnan í einhverja vitleysu. Ríkisreksturinn er í eðli sínu óseðjandi og í hann má alltaf henda meira fé án þess að vandamálin leysist. Þetta reynist stjórnmálamönnum auðvelt.

Stundum skal samkeppni stunda, í öðru skal einokun iðka.

Margir stjórnmálamenn tala oft um að samkeppni sé góð og nauðsynleg. Ríkið rekur meira að segja heilu báknin sem eiga að tryggja aukna samkeppni. Í öðru er ríkiseinokun samt talin besta fyrirkomulagið. Þá gufa öll rökin fyrir samkeppninni upp eða þau eru heimfærð upp á einokunina í staðinn. Menn eiga að keppa í verði á dekkjaskiptum en þegar maður verður lasinn á bara einn aðili að sjá um meðhöndlunina, og verðmiðinn skiptir þá engu máli. 

Gerðu það sem ég segi, ekki það sem ég geri.

Þetta er sennilega eftirlætismálsháttur stjórnmálamanna, enda er hann ekki frumsaminn af mér. Stjórnmálamenn tala á þingi og í ráðhúsum fyrir eyðslu, útþenslu hins opinbera og því að taka lán til að greiða niður skuldir. Þegar heim er komið tekur samt við röggsamlegt heimilisbókhald þar sem útgjöldin eru stillt af, skuldir greiddar niður og verkefnum forgangsraðað. 

Loforð sem lokkar skal fyrir vinsældum víkja.

Þetta könnumst við vel við. Stjórnmálamenn lofa öllu fögru, tala út frá hugsjón og slá sér á bringu í kosningum. Svo birtist skoðanakönnun sem sýnir dalandi vinsældir. Þá er loforðunum hent út um gluggann og stefnunni breytt.

Úr smáum skinnum má smíða stóra trommu.

Hver kannast ekki við stjórnmálamanninn sem tekur eitthvert smámálið upp á arma sína og blæs sig til riddara? Nærtækt dæmi er áfengisfrumvarpið, þar sem færa á fyrirkomulag smásölu á áfengi í átt að vestrænum fyrirmyndum. Í stað þess að leyfa því máli að komast í atkvæðagreiðslu á þingi skal því slegið upp sem einhvers konar plága sem bíður þess að herja á sálir og líkama saklausra borgaranna. Þingmaðurinn kemst í fjölmiðlana og fær mikla athygli með miklum trommuslætti fyrir að tala gegn hinu vonda máli, sem er samt frekar smávægilegt og ætti að fá hraða meðferð svo kjósendur geti séð afstöðu kjörinna fulltrúa. 

Geta lesendur stungið upp á fleiri málsháttum fyrir okkar ágætu stjórnmálamenn?


mbl.is „Api er api þótt af sé halinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband