Fimmtudagur, 19. maí 2016
Skattalækkanir skila ávinningi jafnvel þótt vöruverð breytist ekki
Sumir hafa efast um að tollalækkanir hafi skilað sér "að fullu" til neytenda, t.d. afnám tolla á fatnaði og skóm. Menn skoða verðmiðana og bera þá saman við verðmiðana í hinu gamla umhverfi tollanna og draga ályktanir.
Gott og vel, aðhald er gott það ber að veita í hvívetna.
(Ekki er hægt að veita ríkisvaldinu aðhald nema á fjögurra ára fresti og þá varla nema að nafninu til svo þar geta menn sparað orkuna.)
En verðlækkanir í kjölfar tollalækkana eru bara einn mögulegur ávinningur. Aðrir eru til og það mætti jafnvel hugsa sér að þótt verðlækkanir yrðu engar þá væri samt ávinningur af skattalækkunum.
Segjum að ríkið afnemi 10% toll og verðlag helst óbreytt. Hvað er að gerast? Verslanir eru að taka meira af söluandvirðinu. Þær geta e.t.v. hækkað laun og krækt í betri starfsmenn úr öðrum greinum sem um leið fá meira á milli handanna. Þjónusta batnar og jafnvel skilvirkni.
Ef hagnaður í verslun eykst þá dregur það að fjárfesta í samkeppnisrekstur, jafnvel erlendar verslunarkeðjur sem bjóða upp á betra verð eða meira úrval eða betri gæði. Hugsanlega fá innlendir framleiðendur möguleika á að standa undir sér í hinu nýja og hærra verðlagi og skapa störf og tækifæri. Er allt þetta ekki ávinningur fyrir neytendur, a.m.k. til lengri tíma?
Annar möguleiki er sá að skuldsettar verslanir haldi verðlagi óbreyttu til að greiða upp skuldir, sem er alltaf gott, eða lagfæra húsnæði sitt, sem kemur sér t.d. vel fyrir iðnaðarmenn. Skuldlausir verslunareigendur hirða hins vegar ágóðann af hinni auknu álagningu og safna í fé sem verður eytt í eitthvað annað, t.d. í fjárfestingar eða neyslu sem kemur sér vel fyrir þá sem versla við þá.
Enn einn möguleiki er sá að verslunareigendur haldi verðlagi óbreyttu til að hækka laun starfsmanna sinna og halda þeim frá því að vinna fyrir aðra. Sömu starfsmenn fá þá meira á milli handanna til að eyða sjálfir í allskyns vöru og þjónustu.
Sama hvað gerist við afnám tolla eða skatta er eitt ljóst: Ríkisvaldið er að hirða minna af sjálfsaflafé landsmanna og það í sjálfu sér er gott. Nákvæmlega hvernig ávinningurinn kemur fram kemur bara í ljós, en betra er fé í höndum þeirra sem afla þess en hinna sem krefjast þess með valdi. Alltaf.
Skilaði neytendum 4% lægra verði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já, verzlunum er það í sjálfsvald sett hvað þær gera við hagnaðinn. En neytendur geta líka ákveðið að sniðganga verzlanir sem ekki lækka vöruverð þegar skattar lækka. Enda væri þannig sniðganga eðlileg. Því að uppgreiðsla skulda eða starfsmannaval er eitthvað sem kemur viðskiptavinunum bara ekkert við, þeir vilja lægra verð. Og það er ekki eins og það sé skortur á fatabúðum, þær eru eins og gorkúlur á mykjuhaug.
Pétur D. (IP-tala skráð) 19.5.2016 kl. 15:12
Þetta er auðvitað alveg hárrétt hjá þér. Það er ólíklegt að allar verslanir haldi aftur verðlækkunum í því samkeppnisumhverfi sem ríkir. Gerist það hins vegar af einhverjum ástæðum að sumar verslanir vilja greiða niður skuldir, aðrar hækka laun og sú þriðja moka meira fé í vasa eigenda sinna, og verðlækkanir verði engar, þá er það engu að síður ávinningur. Sem sagt, það er fræðilega óhugsandi að skattalækkanir skili ekki ávinningi.
Geir Ágústsson, 20.5.2016 kl. 04:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.