Enn ein skýrslan ofan í skúffu

Skýrsla hinnar svokölluðu Rögnunefndar er á leið ofan í skúffu. Lengra nær það mál ekki í bili. Áfram verður rætt um flugvöllinn í Reykjavík og þá gjarnan í samhengi við aðra nýtingu á núverandi lóð hans. 

Nú liggur auðvitað beint við að ríkisvaldið dragi sig algjörlega út úr öllum rekstri flugvalla á Íslandi, hætti stuðningi við innanlandsflug og láti markaðinn um að ákveða hvort og þá hvar nýir flugvellir rísa, og hver flýgur á þá. Ókosturinn er sá að þá missa stjórnmálamenn spón úr aski sínum. Þeir geta þá ekki boðað niðurgreiðslur til einhvers flugvallar í umdæmi sínu og uppskorið atkvæði. Þeir missa embættismenn úr ráðuneytum. Þeir hafa um minna að tala á fundum. Ríkisvaldið mun því halda áfram að halda fast í sitt.

Næsti kostur er svo að hafa óbreytt ástand. Ekkert er a.m.k. að breytast til hins verra á meðan þótt sumir verði eflaust svekktir yfir að fá ekki byggð í Vatnsmýrinni. 

Síðan mætti hugsa sér að ríkisvaldið bjóði verkefnið út, t.d. í alþjóðlegri hönnunarsamkeppni. Öll hönnunargögn verða gerð aðgengileg og sjálfsstæð nefnd skipuð til að meta allar tillögur. Fjármögnun yrði einfaldlega í gegnum rekstrartekjur af flugvellinum. Ríkisvaldið hefði það eina hlutverk að einfalda regluverkið og fjarlægja þær hindranir sem það leggur á alla sem moka holu í jörðina á Íslandi í dag. 

Kannski yrði niðurstaðan svipuð þeirra í Þrándheimi í Noregi sem ég hef heimsótt ansi oft undanfarin ár. Þar er millilanda- og innanlandsflugvöllur í um 45 mínútna akstursfjarlægð frá bænum, og á milli bæjarins og flugvallarins er tvíbreiður þjóðvegur sem getur orðið erfiður á veturna en er haldið opnum nánast sama hvað gengur á. Mýgrútur af leigubílum og rútufyrirtækjum keyra á milli og keppast um farþegana (leigubílarnir með föstu gjaldi og rútufyrirtækin í verði og sveigjanleika og tíðum ferðum). 

Minnir raunar um margt á fyrirkomulagið á Reykjanesskaganum en að vísu er enginn opinber strætórekstur á flugvöllinn í Þrándheimi sem er settur til höfuðs einkafyrirtækjunum. 

Nú er ég ekki alveg hlutlaus í þessu máli. Ég á tengdafjölskyldu á Austfjörðum og hef kunnað ágætlega við að geta skottast á flugvöllinn með stuttum fyrirvara og flogið austur (fyrir margfalt það verð og kostar mig að fljúga frá Álaborg til Kaupmannahafnar með flugfélögum í blússandi samkeppnisrekstri og án allra ríkisstyrkja, en það er önnur saga). 

Ég vona að menn hugsi málið aðeins og finni leiðir til að koma þessu máli öllu úr höndum stjórnmálamanna og skýrslusmiðum þeirra. 


mbl.is Glapræði gagnvart öryggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eigi ætla ég að blanda mér beint í umræðu um Reykjavíkurflugvöll, en vil gera athugasemd við málflutning þinn varðandi „fyrirkomulagið á Reykjanesskaganum” og samanburð við Þrándheim í Noregi. Þú segir réttilega „... en að vísu er enginn opinber strætórekstur á flugvöllinn í Þrándheimi...”. Ég er aftur á móti ekki fyllilega sammála fullyrðingunni um að sá rekstur sé „... settur til höfuðs einkafyrirtækjunum”, en hver maður hefur rétt á að hafa sína skoðun. Hins vegar víkst þú fimlega undan því að nefna að það er bullandi opinber samkeppni við fólksflutninga einkafyrirtækjanna til og frá flugvellinum í Þrándheimi því NSB (norsku ríkisjárnbrautirnar) eru með reglulegar ferðir til flugvallarins og frá honum. Sjálfur aðhyllist ég holla blöndu af einkarekstri og opinberum rekstri. Hagsmunirnir eru oft gagnkvæmir og ekki í beinni andstöðu eins og oft mætti ætla af svart-hvítum málflutningi.

Líkt og þú gerir, þá nota ég flugvöllinn í Álaborg mjög mikið. Ég er sjálfstætt starfandi með starfsstöð í norðurjóska smábænum Drottningarlundi, en starfssvæði mitt er öll Norðurlöndin fimm og sjálfsstjórnarsvæðin. Ég flýg því afar oft um fyrrnefndan flugvöll og er sérlega ánægður með hann og þá hörðu samkeppni sem þar þrífst. Samkeppnin dafnar meðal annars vegna sívaxandi umferðar um flugvöllinn og er umferðin margfalt meiri en í innanlandsflugi á Íslandi. Því er ólíku þar saman að jafna. Til gamans vil ég þó geta þess að samkeppnin á flugvellinum í Álaborg er ekki jafn mikil á öllum flugleiðum. Hún er mjög fín á leiðinni Álaborg – Kaupmannahöfn, en dæmið er allt annað ef horft er til flugleiðarinnar Álaborg – Ósló svo dæmi sé tekið. Þar hef ég oft lent í því að geta bara valið flug með British Airways og miði báðar leiðir hefur kostað yfir 5.000 DKK í sumum tilvikum. Hér gildir því líkt og svo víða annars staðar lögmálið um framboð og eftirspurn. Þarna er stundum líkt og oft í innanlandsfluginu á Íslandi bara val um eitt flugfélag. Því er nærtækara að nota það sem samanburðargrundvöll. Þess vegna get ég lítið gefið fyrir „blússandi samkeppnisreksturinn” á leiðinni Álaborg – Kaupmannahöfn í samanburði við íslenskan flugrekstur og ég veit að þú, Geir, veist það nákvæmlega jafn vel og ég að það er engan veginn samanburðarhæft við innanlandsflug til Austfjarða á Íslandi.

Magnús Guðnason (IP-tala skráð) 26.6.2015 kl. 13:14

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Magnús,

Takk fyrir upplýsandi innlegg. Við höldum kannski umræðunni áfram á einhverri Íslendingaskemmtun í Álaborg?

En auðvitað er ekki hægt að bera saman epli og appelsínu nema að því leyti að bæði flokkast sem ávextir. En Álaborgarflugvöllur varð nú ekki að þessu iðandi svæði af sjálfu sér. Þeir hafa þurft að lokka til sín flugfélög og höfða til ferðaþjónustuaðila og ferðaskrifstofur og annað, og eru enn að. 

Nú veit ég af fólki sem vinnur að því dag og nótt að koma millilandaflugvelli í auknum mæli á Austfirði og um leið dreifa aðeins álagi vegna ferðamanna um landið. Það gengur hægt. Fé til framkvæmda þarf að sækja í sjóði og leyfi þarf að fá og hvaðeina. Ég hefði haldið að eitthvað hefði breyst eftir tilkomu hins risastóra vinnustaðar í Reyðarfirði með tilheyrandi þjónustu og sérfræðivinnu, en það er lítið sem bendir til að aukin umferð ferðalanga skili sér í einhvers konar vexti. 

Ísland hefur t.d. ekki haft mikið upp úr stóraukinni umferð Dana til og frá Grænlandi vegna ýmiss konar námustarfsemi þar, eða hvað?

En gott og vel, þetta er flókið mál og ekki endilega betra að vera með samanburði - sanngjarna og ósanngjarna. 

Geir Ágústsson, 26.6.2015 kl. 13:25

3 identicon

Sæll.

Bara kostnaðurinn við nýjan flugvöll gerir það að verkum að ekki er hægt að ráðast í þær framkvæmdir. Það kostar lítið að koma með einhverjar tillögur og ætlast til að aðrir borgi.

Er svo ekki líka venjan að kostnaður fari fram úr áætlun? Hvernig á að fjármagna nýjan flugvöll? Væntanlega með lánum. Er alveg öruggt að vextir af slíku láni verði lágir á komandi árum eins og verið hefur undanfarið. Svarið við þeirri spurningu er NEI!

Helgi (IP-tala skráð) 29.6.2015 kl. 07:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband