Laugardagur, 14. mars 2015
Fulltrúalýðræðið: Take it or leave it
Á Íslandi er fulltrúalýðræði. Kosið er til Alþingis. Ríkisstjórn er mynduð. Ráðherrar fara með völd. Ráðherra getur sótt um aðild að einhverju. Sá næsti getur dregið þá umsókn til baka. Alþingi getur samþykkt þá aðild. Næsta þing getur sagt henni upp.
Þetta vefst fyrir einhverjum, en á mjög sértækan hátt. Fráfarandi ríkisstjórn ákvað að sækja um aðild að ESB (án þjóðaratkvæðagreiðslu). Sú sem nú situr ákveður að draga hana til baka, enda í samræmi við stefnu hennar. Við fyrri verknaði heyrðist lítið. Við hinum seinni - sem er í eðli sínu af nákvæmlega sama tagi (nema andhverfan) - verður allt brjálað.
Þeir eru til sem eru hlynntir því að kjósa til þings og láta það fara með mikil völd, verða grundvöllur ríkisstjórnar og fela henni önnur völd. Þetta heitir fulltrúalýðræði. Séu menn ósáttir við það í grundvallaratriðum má alveg fara út í umræðu um önnur form ríkisvalds (eða afnám þess, ef svo ber undir). En það þýðir ekkert að fara í fýlu þegar sitjandi ríkisstjórn beitir völdum sínum þannig að einhverjum sárni (og vel innan ramma stjórnskipunarréttar og formlegra ramma hins opinbera).
Þeir sem vilja að Ísland gangi í ESB mega vitaskuld halda áfram að berjast fyrir því áhugamáli sínu. Til vara legg ég samt til að menn bíti í það súra epli að núverandi stjórnvöld eru á öðru máli, hafa á bak við sig þingmeirihluta sem var niðurstaða frjálsra kosninga, og þau ráða.
Sjálfur fagna ég því að umsókn um aðild að ESB sé nú dauður pappír en harma um leið að yfirvöld hafi öll þau völd sem þau hafa, og að almenningur sjái ekki hættuna á bak við ríkisvald sem kemst upp með að ráða eins miklu og raunin er. Munið að það var löglega skipuð ríkisstjórn sem ætlaði að hengja Icesave-kröfur Breta á háls íslenskra skattgreiðenda. Íslendingar hefðu súpað seyðið af þeirri framkvæmd í næstu mörgu ár. Hætturnar við of valdamikið ríkisvald eru miklar og alvarlegar.
Óeðlilegt samráðsleysi ráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Bíddu, ertu að grínast? Það var samþykkt á Alþingi sumarið 2009 að fara í aðildarviðræður, ríkisstjórnin ákvað það ekki ein og sér. Veistu það ekki? Núvernandi ríkisstjórn tekur hins vegar einhliða ákvörðun um að hætta öllu, án þess að þora með málið fyrir þingið!
Einnig má minna á þessi orð núverandi ráðherra fyrir síðustu kosningar, um mögulegar kosningar um framhaldið: https://www.youtube.com/watch?v=014HKVcM58w&app=desktop
Skilurðu kannski núna af hverju það eru ekki allir ánægðir með þessa ákvörðun?
Skúli (IP-tala skráð) 14.3.2015 kl. 16:36
Á Íslandi er fulltrúalýðræði. Kosið er til Alþingis. Ríkisstjórn er mynduð. Ráðherrar skipaðir. Ráðherrar eru embættismenn sem ekki þurfa að vera úr hópi þingmanna. Ráðherrum eru veitt viss völd. En ráðherra getur ekki sótt um aðild að einhverju í nafni þjóðar eða Alþingis án umboðs. Sá næsti gæti dregið þá umsókn til baka fái hann til þess umboð. Alþingi getur samþykkt þá aðild. Næsta þing getur sagt henni upp. Því á Íslandi er fulltrúalýðræði og fulltrúarnir eru þingmenn en ekki ráðherrar.
Alþingi ákvað að sækja um aðild að ESB. Eðlilega án þjóðaratkvæðagreiðslu því umsókn er ekki aðild og þjóðinni var ætlað að kjósa um aðild þegar þar að kæmi. Ríkisstjórn sem nú situr ákveður að reyna að draga umsókn Alþingis til baka án aðkomu Alþingis. Við fyrri verknaði heyrðist lítið því þar voru fulltrúar þjóðar með umboð þjóðar að verki. Við hinum seinni (embættismenn að taka valdið af kjörnum fulltrúum þjóðarinnar) - verður að sjálfsögðu allt brjálað.
Umsókn Alþingis um aðild að ESB er eftir sem áður í fullu gildi og þessir einræðistilburðir embættismannanna hefur þar engin áhrif.
Hætturnar við valdamikið ríkisvald geta verið miklar og alvarlegar, kjörnir fulltrúar eru ekki óskeikulir. En valdalítið ríkisvald sem skipaðir embættismenn geta sniðgengið að vild er langt frá því að vera hættuminna.
Vagn (IP-tala skráð) 14.3.2015 kl. 17:27
Alþingi samþykkti á sínum tíma þingsályktunartillögu. Hún bindur ekki hendur núverandi ríkisstjórnar.
Geir Ágústsson, 14.3.2015 kl. 19:32
"Þingsályktanir hafa ekkert gildi umfram það umboð sem þingið, sem samþykkti þær, hefur sjálft."
http://andriki.is/post/113595893259
Geir Ágústsson, 14.3.2015 kl. 19:53
Alþingi samþykkti á sínum tíma þingsályktunartillögu. Hún bindur ekki hendur núverandi ríkisstjórnar. Sem er rétt svo langt sem það nær og á stundum við. Ríkisstjórn getur unnið eftir samþykktum Alþingis eða fengið Alþingi til að breyta þeim. En embættismenn geta ekki einhliða ákveðið að samþykktir Alþingis séu ekki í gildi. Sé núverandi ríkisstjórn ósátt við að ákvörðun Alþingis sé enn í gildi og hægt sé fyrirvaralaust að hefja viðræður þá verður hún að leita til Alþingis með að fá því breytt.
"Þingsályktanir hafa ekkert gildi umfram það umboð sem þingið, sem samþykkti þær, hefur sjálft." Þingið sem samþykkti þessa þingsályktun var Alþingi Íslendinga og þingsályktunin hefur því allt það umboð sem Alþingis Íslendinga getur gefið henni. Samþykktir Alþingis falla ekki úr gildi þó kosnir séu nýir þingmenn.
Vagn (IP-tala skráð) 14.3.2015 kl. 20:46
Núverandi ríkisstjórn er að fá meiri skatttekjur en nokkru sinni fyrr í sögu lýðveldisins. Tryggingargjaldið er nánast óbreytt og auðlindapassinn er ný útgáfa af skatti sem mun renna til ólíkra málefna ríkisins.
Um leið og lýðurinn telur tímabært að taka gjald tekur fulltrúalýðræðið það upp á sína arma, til að auka völd sín og vegsemd. Sama hvort ríkistjórnin telur það hlutverk sitt fyrir kosningar að stemma stigu við ríkisbákninu.
Fulltrúalýðræðið er ákaflega brokkgengt. Þess vegna auka Píratar fylgi sitt. Stjórnarflokkarnir mega passa sig á breyttu upplýsingastreymi og geta ekki treyst á ævarandi fylgisspekt.
Sigurður Antonsson, 14.3.2015 kl. 22:50
Vagn,
Þingsályktunartillögur eru ekki lög. Lög halda gildi sínu þar til þau eru afnumin eða þeim breytt. Það er djúpstæður eðlismunur á þessu tvennu. Og utanríkisráðherra er með umboð ríkisstjórnar sem hefur umboð Alþingis til að vinna að pólitískum stefnumálum ríkisstjórnarinnar.
Svo eins sárt og ESB-sinnum finnst þetta mál þá er ekki um að ræða nein lögbrot hér eða brot á stjórnskipun ríkisins. Aðrar leiðir til að halda málinu á lífi verða að finnast sé áhugi á því.
Geir Ágústsson, 15.3.2015 kl. 12:34
Sigurður,
Það er erfitt að eiga við ríkisvaldið og því mikilvægt að það sé sem minnst og sem valdlaust. Og það má gjarnan sýna því viðspyrnu eins og mótmælin gegn afturköllun á umsókn um samruna Íslands og ESB er dæmi um þótt málstaðurinn sé að mínu mati vondur og mótmælin byggð á misskilningi.
Vagn,
Utanríkisráðherra má alveg, með umboði ríkisstjórnar, sækja um aðild að hinu og þessu og um leið afturkalla. Össur Skarphéðinsson var kurteis þegar hann bað um þingsályktunartillögu áður en hann fór utan með umsóknina, en ég hef ekki séð neitt sem bendir til þess að hún hafi verið forsenda umsóknar. Kannski skjátlast mér. Engu að síður er sú þingsályktunartillaga ekki bindandi fyrir núverandi ríkisstjórn frekar en allar hinar hundruðirnar af slíkum ályktunum frá seinustu áratugum. Til þess eru lög. En skjátlist mér les ég gjarnan lögfræðilegar skýringar á bak við það (ekki bara reiðiskrif svekktra ESB-sinna og/eða stuðningsmanna stjórnarandstöðu).
Geir Ágústsson, 15.3.2015 kl. 18:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.