Núna er tækifæri

Að heilbrigðiskerfið sé að springa í höndunum á ríkisvaldinu er ekki til marks um að ríkisvaldið hafi ekki dælt nógu miklu fé í það. Núna er tækifæri til að skera það úr snöru ríkisvaldsins og leyfa því að dafna á forsendum markaðslögmála.

(Um leið á auðvitað að lækka skatta sem nemur rúmlega kostnaði við ríkisrekstur heilbrigðiþjónustu í dag og rýmka töluvert um laga- og regluramma tryggingarfélaga og einkaaðila í heilbrigðisþjónustu.)

Hér að neðan eru tvær ógnvekjandi myndir sem sýna hvert stefnir bæði á Íslandi og í öðrum ríkum ríkjum. Við megum alveg byrja að vera hrædd. 

http://andriki.is/post/104577235054

Mynd úr tímaritinu The Economist (eitthvert nýlegt tölublaðið)


mbl.is Spyr hvort ríkið sé í afneitun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er sammála að það eigi að leyfa einkaaðilum að gera meirra en ég er ekki sammála því að það eigi bara að einkavæða allt dæmið. Mér finnst að það eigi að vera blandað kerfi þar sem að fólk getur keypt sér sína eiginn þjónustu frá einkaaðlium en að samt sé einhverskonar opinbert kerfi líka fyrir þá sem að þurfa. Það á væri það raunhæfara að vera með opinbert heilbrigðiskerfi.

Málefnin (IP-tala skráð) 8.12.2014 kl. 15:59

2 identicon

Íslendingar vilja ekki einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Stjórnin var ekki kosin til að innleiða hana og hefur því ekkert vald til þess. Ef hún reynir það verður hún flæmd frá völdum.

Íslendingar vilja að allir Íslendingar njóti sömu heilbrigðisþjónustu. Einkavæðing mun leiða til að opinbera kerfið versnar og aðeins fjárhagslega vel settir munu fá boðlega heilbrigðisþjónustu.

Skattar á stóreigna- og hátekjumenn á Íslandi eru lágir í samanburði við nágrannalöndin þar sem velmegun er mest í heiminum. Til að standast þennan samanburð þurfum við að bæta við 1-2 skattþrepum, td 52% skatt á mánaðartekjur frá 1.200.000 til 1.600.000 og 58% skatt á tekjur þar yfir.

Auðlegðarskattinn ætti að framlengja og bæta jafnvel við einu þrepi. Það væri vel sloppið miðað við flest samanburðarlöndin.

Þegar Bandaríkin voru talin fyrirmyndarríki og ameríski draumurinn enn raunhæfur var hæsta skattprósentan yfir 70% en hafði verið yfir 90% á stríðsárunum og árunum eftir stríð.

Í aðdraganda kreppunnar miklu 1929 og aftur 2008 var hæsta skattprósentan í lágmarki. Slík skattheimta leiðir til stöðugt meiri ójöfnuðar sem leiðir loks til hruns.

Með sölu veiðileyfa, auknum sköttum á háar tekjur og miklar eignir verður vandi heilbrigðiskerfisins og menntakerfisins leystur og skuldir ríkisins greiddar hratt niður. Þá er hægt að sjá fram á að Ísland komist aftur í hóp velmegunarþjóða allavega ef nýr gjaldmiðill verður í sjónmáli.

Það er auðvitað algjörlega galið að eigandinn fái ekkert fyrir aflaheimildir sem útgerðirnar geta selt hver annarri fyrir stórfé.

Ásmundur (IP-tala skráð) 8.12.2014 kl. 16:45

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Takk fyrir athugasemdirnar.

Málefnin: Það sem þú stingur upp á er það sem mætti kalla norrænu leiðina, þar sem einkarekin heilbrigðisþjónustufyrirtæki, einkarekin tryggingafélög og hið opinbera þrífast í sama pottinum. Þetta er mun skárra kerfi en það á Íslandi, þar sem markmiðið virðist vera að traðka einkaaðila sem lengst niður (ef undan eru skildir þeir sem leiðrétta sjón og heyrn).

Ásmundur: Meirihluti Alþingis getur gert hvað sem honum sýnist. Það sást nú ágætlega í fráfarandi ríkisstjórn en einnig þeirri sem nú situr. Það sem þú leggur til er hins vegar óbreytt ástand: Gríðarlega skattlagningu til að standa undir opinberum einokunarrekstri. Ég hefði haldið að sú leið væri þrautreynd, en þrautseigja er kannski meiri hjá öðrum en mér sem skipti óhikað um matvöruverslanir, fatabúðir og raftækjaverslanir ef sá seinasti sem ég skipti við stóð sig ekki og einhver annar býður betur.

Geir Ágústsson, 8.12.2014 kl. 18:31

4 identicon

Það væri algjör siðblinda að einkavæða heilbrigðiskerfið gegn vilja þjóðarinnar og án þess að það væri í stjórnarsáttmálanum eða stefnu ríkisstjórnarflokkanna. Það væru gróf svik. Vonandi er lýðræðið nógu sterkt til að koma í veg fyrir það ef á reynir.

Ég veit ekki hvaða hliðstæðu þú ert að ýja að í tíð fyrri ríkisstjórnar. Ef það er ESB-umsóknin þá var þjóðin hlynnt henni skv skoðanakönnunum á þeim tíma sem Alþingi samþykkti aðild.

Einnig kvað stjórnarsáttmálinn á um umsókn auk þess sem hún var hluti af stefnu Samfylkingarinnar fyrir kosningar. Umsóknin var því eðlileg. Þar að auki stóð alltaf til að þjóðin hefði síðasta orðið.

Ég veit heldur ekki hvaða slæmu reynslu af núverandi fyrirkomulagi þú ert að tala um. Almennt hefur þjónustan verið talin góð þó að í seinni tíð hafi húsnæðis- og tækjaskortur auk læknaskorts haft slæm áhrif.

Einkavæðing mun ekki bara gera upp á milli mismunandi tekjuhópa. Hún verður almennt miklu dýrari enda þurfa milliliðirnir sitt. Auk þess er hætta á verri þjónustu vegna mikils þrýstings á sparnað til að hámarka hagnað.

Ásmundur (IP-tala skráð) 8.12.2014 kl. 20:05

5 identicon

Það vilja víst margir taka einn Guðbjart á þetta og hækka laun þeirra sem hæstu launin hafa á spítölunum og skilja hina eftir og helst reka skúrningarfólkið

Guðbjartur (IP-tala skráð) 8.12.2014 kl. 20:46

6 identicon

"Íslendingar vilja ekki"

"Íslendingar vilja"

Ásmundur, mér finnst að þú ættir að tala fyrir þig sjálfan en ekki aðra.

Málefnin (IP-tala skráð) 8.12.2014 kl. 23:02

7 identicon

Málefnin, skoðanakannanir hafa sýnt að Íslendingar vilja ekki einkavæða heilbrigðiskerfið. Það hefur meira vægi í umræðunni en að ég er sama sinnis.

Ásmundur (IP-tala skráð) 8.12.2014 kl. 23:50

8 Smámynd: Starbuck

Geir talar um tvær "ógnvekjandi" myndir.  Ef þið skoðið meðaltalsbreytinguna á ríkisútgjöldum á seinni myndinni sjáið þið að aukningin frá 1980 - 2005 er einungi 0,3% og árið 2005 voru útgjöldin 0,6% lægri en 1990!! Vá hvað þetta er ógnvekjandi!  Hækkunin frá 2005 til 2009 er örugglega að langmestu leyti tilkomin vegna gríðarlegs kostnaðar við að beila út einkabanka, sennilega væri um lækkun að ræða ef það rugl hefði ekki komið til! En svo er líka stór hluti af myndinni að víða, sérstaklega í BNA, fara gríðarlegir fjármunir í óþarfa hernaðarbrölt. 

Fyrri myndin er það furðuleg að mig langar að vita á hvaða gögnum hún byggir.  Ekki varð ég t.d. var við að ég eða aðrir væru að borga miklu meira í opinber gjöld árið 2008 heldur en árið 2007.  Eða að þessi gjöld hafi síðan lækkað aftur stórlega 2009.

Starbuck, 9.12.2014 kl. 00:40

9 Smámynd: Starbuck

Væri nokkuð úr vegi að menn færu aðeins að slaka á í umræðunni um ríkisútgjöld en töluðu í staðinn meira um þetta:

https://www.youtube.com/watch?v=cibn9kSi3xo

Starbuck, 9.12.2014 kl. 01:37

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er gott að sjá að fólk hefur sterkar taugar til þess hvernig hlutirnir eigi að vera - hvað eigi að vera læst í miðstýrðum klóm miðstjórnarvaldsins og hvað megi reka á forsendum frjálsra og óþvingaðra viðskipta.

Varðandi nokkur atriði:

- Ríkisvaldið getur kostað mikið þótt opinber gjöld standi í stað á tilteknu tímabili. Það heitir yfirleitt skuldsetning ríkissjóðs.

- Það er góður punktur að tala um ríkiseinokun peningaútgáfu. Slík einokun gerir ríkisvaldi meðal annars kleift að svindla á launafólki með því að gengisfella gjaldmiðilinn og stjórna hagkerfinu með því að verðstýra kostnaði á fjármagni. Ríkisvaldið ætti að sýna sóma sinn í að koma sér úr framleiðslu peninga með öllu.

- Þeir sem verja núverndi kerfi með kjafti og klóm mega vitaskuld gera það mín vegna, en ég deili ekki sama ofurtrausti á örfáum stjórnmálamönnum sem er varla hægt að reka nema á 4 ára fresti. Kýs ég þá frekar að eiga viðskipti við þá sem má reka frá degi til dags (með því að hætta viðskiptum við viðkomandi). 

- Það getur verið varhugavert að taka meðaltöl yfir mörg löng og marga áratugi. Slík talnaleikfimi felur margt fyrir manni.

Geir Ágústsson, 9.12.2014 kl. 09:36

11 Smámynd: Starbuck

"hvað eigi að vera læst í miðstýrðum klóm miðstjórnarvaldsins og hvað megi reka á forsendum frjálsra og óþvingaðra viðskipta" Þetta er nú meira bullið - það er ekki hægt að búa til samfélag þar sem allt er rekið "á forsendum frjálsra og óþvingaðra viðskipta".  Það verður alltaf fákeppni, samráð og jafnvel einokun í algerlega "frjálsu" viðskiptaumhverfi - opnaðu bara augun og horfðu á hvernig ástandið er á Íslandi í dag - þó ekki sé samfélagið nærri eins "frjálst" og þú vilt hafa það.  Þú trúir á einhverja útópíu sem er algerlega óraunhæf og virðist vera algerlega blindur á allan skítinn sem má sjá út um allt í einkageiranum. 

Það frelsi sem þú talar um getur bara orðið fyrir fáa útvalda sem verða stöðugt ríkari á kostnað hinna sem festast stöðugt meira í klóm fátæktar.  Þetta endar með því að það verða a.m.k. tvö heilbrigðis- og menntakerfi - annað fyrir þá sem eiga peningana og hitt fyrir almúgann.  Að sjálfsögðu verður slíkt fyrirkomulag hvorki betra né ódýrara fyrir samfélagið og það verður miklu meiri óhamingja, óöryggi og spenna milli hópa og einstaklinga.  

Aðalvandamálið við kerfið og stjórnmálamennina í dag er það að hvorugt er að standa sig í að sinna sinni aðalskyldu sem er að þjóna almenningi.  Þetta snýst allt of mikið um að þjóna hagsmunum hinna ýmsu sérhagsmunaafla og borga skuldir óreiðumanna. 

Það er líka í hæsta máta óeðlilegt að sum einkafyrirtæki geti búið til peninga en ekki önnur, það gefur þeim fáránlega mikið vald.  Bankar hafa t.d. mikið um það að segja hvort fyrirtæki lifa eða deyja - það hefur aldeildis sannast hér á landi eftir hrunið.  Finnst þér það eðlilegt?  Er það ekki Markaðurinn (ósýnilega höndin) sem á að ráða því hverjir lifa og hverjir deyja?

"Ríkisvaldið getur kostað mikið þótt opinber gjöld standi í stað á tilteknu tímabili. Það heitir yfirleitt skuldsetning ríkissjóðs" Ef þetta er svar þitt við athugasemd minni um fyrri myndina þá er þetta algjör útúrsnúningur því á þessari mynd er alls ekki verið að sýna skuldsetningu ríkissjóðs heldur opinber gjöld.

"...ég deili ekki sama ofurtrausti á örfáum stjórnmálamönnum sem er varla hægt að reka nema á 4 ára fresti."  Ef þú tókst ekki eftir því þá er reyndar nýbúið að reka ráðherra og embættismann á hans vegum - þó það sé erfitt að reka stjórnmálamenn á Íslandi held ég að mun erfiðara sé að láta reka forstjóra stórfyrirtækja og bankastjóra. 

"Það getur verið varhugavert að taka meðaltöl yfir mörg löng og marga áratugi. Slík talnaleikfimi felur margt fyrir manni."  Ef þetta er allt sem þú hefur að segja um athugsemd mína við mynd 2 þá held ég að þú sjáir bara það sem þú vilt sjá þegar þú horfir á tölur - trúir öllu sem styður þína skoðun en véfengir allt annað.

Ég vil enda þetta á því að taka undir eitt sem ég sá að þú skrifaðir um daginn.  Næsta hrun verður mun verra en það síðasta.

Starbuck, 10.12.2014 kl. 00:00

12 Smámynd: Geir Ágústsson

Starbuck,

Mikill er ótti þinn við að ef ríkisvaldið heldur ekki utan um markað fatahreinsana og vegasjoppa þá renni þessi fyrirtæki saman í eina samsteypu sem haldi öllum keppinautum fjarri og skrúfi verð á þjónustu sinni í himinhæðir, sem fólk mun engu að síður borga því engir valkostir við þessi fyrirtæki spretta upp á hinum frjálsa markaði.

Þessum ótta deili ég ekki með þér.

Það sem ég óttast hins vegar er ríkisvald sem setur lög sem fyrirtæki og einstaklinga nota til að verja núverandi stöðu sína og berja á keppinautum sínum með. Eða hvað eru leigubílstjórar að gera núna? Og eru fyrirtæki ekki alltaf að klaga keppinauta sína til yfirvalda og sjúga úr þeim lögfræðikostnað og sektir?

Þú talar um tvö mennta- og heilbrigðiskerfi. Ég sé fyrir mér miklu fleiri kerfi en það - allt frá litlum stofnunum sem þjóna fátæklingum fyrir gjafafé og til risastórra og jafnvel aþjóðlegra fyrirtækja sem eru í fremstu röð að innleiða dýra tækni byggða á dýrum rannsóknum, rukka vel fyrir, þróa frekar, gera ódýrara og þar með aðgengilegra fyrir almenning allan. Þetta sjáum við gilda um bíla og gleraugu - af hverju að undanskilja skurðaðgerðir og krabbameinsmeðferðir frá þessu fallega ferli? Af því allir fá ekki sama aðgang að öllu strax? Eiga allir að aka um að Cadillica, eða labba?

En við virðumst vera sammála um að peningaprentunarvaldið eigi að taka af ríkisvaldinu. Það er gott. 

Geir Ágústsson, 10.12.2014 kl. 09:05

13 Smámynd: Geir Ágústsson

Vil svo benda á það, aðallega sjálfs míns vegna, að "flati" hlutinn á Íslands-myndinni (1991-1998) er fjármálaráðherratíð Friðriks Sophussonar (https://en.wikipedia.org/wiki/Fri%C3%B0rik_Klemenz_Sophusson). Honum tókst hreinlega að halda aftur af vexti hins opinbera. Eftir að nafni minn Haarde tók við fór aftur að síga á ógæfuhliðina. Það er eins og það er. 

Heyrði svo kenningu frá þekktum manni sem gekk út á að Friðrik hafi verið stjórnmálamaður á leið úr stjórnmálum, og því ekki að eltast við frekari frama og næstu kosningar, á meðan nafni minn var ungur stjórnmálamaður á framabraut, og því veikari fyrir kalli útgjaldasinna. Læt þá kenningu bara liggja hér. 

Geir Ágústsson, 10.12.2014 kl. 15:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband